Samantekt um þingmál

Fasteignalán til neytenda

607. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að ljúka við innleiðingu fasteignalánatilskipunar ESB. Að gera neytendum kleift að taka annars vegar fasteignalán til kaupa á fasteign hér á landi og hins vegar neytendalán þó svo að tekjur þeirra séu í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu.

Helstu breytingar og nýjungar

Breytingar sem lagðar eru til á bæði fasteignalánalögum og neytendalánalögum: Lagt er til að réttur neytanda til að breyta eftirstöðvum láns, sem tengist erlendum gjaldmiðlum, í lán, sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum, eigi ekki við þegar lánsfjárhæð og veð, sem sett er til tryggingar láninu, t.d. í íbúðarhúsnæði, eru bæði í sama gjaldmiðli, s.s. íslenskum krónum. Lagt er til að lánveitanda verði heimilt í samningi að takmarka breytirétt neytanda við einn eða fleiri gjaldmiðla í þeim tilvikum sem fleiri en einn kemur til greina m.t.t. aðstæðna neytanda við lántöku. 

Breytingar sem lagðar eru til á fasteignalánalögum: Lagt er til að lánveitanda verði aðeins skylt að veita neytanda einu sinni á ári, í stað tvisvar líkt og nú er, upplýsingar um gengisbreytingar fasteignaláns, sem tengist erlendum gjaldmiðlum. Lagt er til að skerpt verði á kröfu um aðvörunarskyldu lánveitanda þegar eftirstöðvar láns eða reglulegar endurgreiðslur breytast um meira en 20% miðað við gengi á þeim tíma sem samningur um fasteignalán var gerður. Þar að auki er gert ráð fyrir að veita skuli upplýsingar um breytingu á heildarfjárhæð, sem neytandi skal greiða, og áætlaða fjárhæð næstu reglulegu endurgreiðslu í stað þess að veita upplýsingar um breytingu heildarfjárhæðar, sem neytandi skal greiða, og reglulegra endurgreiðslna, sem getur verið erfitt í framkvæmd. Lagt er til að Neytendastofu, að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið, verði heimilt að setja frekari reglur um upplýsinga- og aðvörunarskyldu lánveitanda vegna gengisbreytinga. 

Breytingar sem lagðar eru til á neytendalánalögum: Lagt er til að almennar viðmiðunarfjárhæðir greiðslumats, tvær milljónir fyrir einstaklinga og fjórar milljónir fyrir hjón og sambúðarfólk, eigi einnig við um lán, sem tengjast erlendum gjaldmiðlum, í stað þess að í öllum tilvikum verði að framkvæma greiðslumat vegna slíkra lána. Lagt er til að heimilt verði að veita lán tengt erlendum gjaldmiðlum þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats að uppfylltum þeim skilyrðum sem eiga almennt við um lánveitingar þrátt fyrir neikvætt greiðslumat, þ.e. að frekari upplýsingar frá neytanda sýni fram á að líklegt sé að neytandi geti staðið í skilum með lánið.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.
Lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017.
Lög um neytendalán, nr. 33/2013.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingum vegna orðalags og lagatæknilegra atriða.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB frá 4. febrúar 2014 um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði og um breytingu á tilskipun 2008/48/EB og 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 1093/2010.


Síðast breytt 10.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.