154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:20]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég sagði hér áðan að ég væri sammála hv. þingmanni um að mikilvægt væri að fá upplýsingar. Það er mikilvægt að kerfið sé opið og gagnsætt og fyrir því hyggst ég beita mér. Eins og ég sagði áðan þá hef ég hug á því að reyna að setja upp mælaborð sjávarútvegsins sem dragi inn upplýsingar sem hægt sé að rekja, jafnvel niður á einstaka smábáta en líka til útgerða þar sem við reynum að draga þessar upplýsingar fram. Ég sé eiginlega ekki af hverju útgerðin ætti ekki að vilja vera með okkur í því samtali. Mér finnst það skipta máli, þ.e. gagnsæi í þessum atvinnuvegi sem er risastór. Ég er sammála því að hann er á höndum fárra aðila og þess heldur tel ég að það sé sameiginlegt verkefni okkar hér inni að reyna að draga fram í dagsljósið þær upplýsingar sem við þurfum að hafa, ekki síst þegar kemur að verðlagningu.