154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:53]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með nýja starfið, að vera kominn hinum megin við borðið þegar kemur að þessum fyrirspurnatíma. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra: Nú er í fjármálaáætluninni lagt til að auka fjármagn til að efla hafrannsóknir og eftirlit með sjávarútvegi. Í því sambandi langaði mig að forvitnast um það hvernig hæstv. ráðherra hyggst auka eftirlit með brottkasti sem við höfum fengið að heyra í atvinnuveganefnd að er mun hærra en reiknað var með. Við höfum einnig heyrt í atvinnuveganefnd að vigtun sjávarfangs sé á mörgum stöðum ýmsum vanköntum búin. Fiskistofa vildi meina að það væri þó nokkuð um að landað væri fram hjá vigt og jafnvel eitthvað reynt að hafa áhrif á hana. Þar að auki langaði mig að spyrja hvort inni í þessu fjármagni sé fjármagn til að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á hafið í kringum okkur.

Og að lokum: Nú er það þannig í dag að það fjármagn sem innheimt er með veiðigjöldum stendur ekki undir kostnaði við rannsóknir og eftirlit. Hyggst ráðherra hækka veiðigjald til þess að fjármagna þessar auknu rannsóknir og eftirlit?