154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. ráðherra velferðar í nýju embætti, og til hamingju með að hafa tekið við þessu mikilvæga embætti. Það er rétt að koma inn á hagkvæmni í búrekstrinum. Í fjármálaáætlun er komið inn á mikilvægi þess að efla notkun hrúta með verndandi arfgerð gegn riðu, kynbætur í því. Það er stórt og mikilvægt mál sem snýr að sauðfjárbændum í landinu. Ég hvet ráðherra til allra góðra verka varðandi það. Við vorum að fara í gegnum vanda kúabænda í haust og fram eftir vetri og það að efla og skoða kyngreiningu á nautasæði til að bæta afkomu og auka hagkvæmni í mjólkur- og kjötframleiðslu. Það er verkefni sem ég tel mikilvægt að nýr matvælaráðherra skoði. Ég held að það sé mjög mikilvægt, það er hægt að gera mikið í þessu verkefni. Talan hefur lækkað mikið síðan menn fóru að ræða þessi mál en 300 milljónir er kannski talan í dag, sem verið er að líta til og það er hægt að gera mikið fyrir það. Að mörgu leyti eru peningarnir til í kerfinu í sjóðum og annað, m.a. hjá kúabændum, og það þarf að skoða möguleikana á því að ríkisvaldið gæti komið eitthvað að því. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt mál fyrir kúabændur í landinu að fara í það verkefni. Afkoma bænda var stórt og mikið mál hérna í haust og tekist á við það í fjárlögum ársins. Vonandi er ástandið eitthvað að skána, kjarnfóðurshækkanir aðeins að skána, lækkanir að koma til. Vonandi er áburður aðeins að fara niður og þessir þættir sem hafa kannski vegið mjög þungt í rekstri bænda. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til allra góðra verka sem snýr að þessu. Þetta er gríðarlega stórt og mikið verkefni og það er mikilvægt að halda uppi innlendri, öflugri matvælaframleiðslu sem er hluti af sjálfstæði þessarar þjóðar.