154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og við höfum sannarlega átt þetta samtal ítrekað áður. Ég er reyndar ósammála hv. þingmanni um að við séum ekki að fara að vera sammála, ég held að við séum sammála. Ég held hins vegar að það sé mikill misskilningur ríkjandi í umræðunni, þrálátur misskilningur og rangfærslur sem gera umræðuna erfiða og hægja á okkur í ferðalaginu fram á við. Hvernig ég vil hafa regluverkið, ég þarf meira en eina mínútu og þrjátíu sekúndur til þess. En ég get sagt að það er margt gott í íslensku regluverki sem hefur verið eyðilagt af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem sést bara í þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir núna, sem við stóðum ekkert frammi fyrir fyrir nokkrum árum. Það er ekkert af því að það er að koma svo mikill fjöldi hérna. Þorri þess fjölda sem er að koma hingað flaug í gegnum kerfið og þegar við fórum að taka á móti fólki frá Úkraínu sýndi sig alveg glöggt að það þarf ekki að gera neinar lagabreytingar til að tryggja skilvirkni og mannúðlega meðferð í þessu kerfi, það þarf bara að ákveða það. Það þarf bara að ákveða að við ætlum að taka á móti fólki. Meðalmálsmeðferðartími umsækjenda frá Úkraínu voru fjórir dagar. Hvað eru það margar klukkustundir? Ég spyr hv. þingmenn Miðflokksins að því sem er tíðrætt um 48 stundirnar, þetta er kannski ekkert mikið erfiðara en það. Við getum alveg afgreitt umsóknir á fjórum dögum og við höfum sýnt það og það var engum lögum breytt til að gera það. Það eina sem þurfti var viljinn.

Ég er ekki á þeirri skoðun að það sé neitt eitt ríki í Evrópu með eitthvert fyrirmyndarregluverk vegna þess að ríkin eru ólík. Landfræðilega eru þau ólík, atvinnustigið er ólíkt, tungumál eru ólík, allt þetta, og auðvitað verður að taka mið af okkar sérstöðu þegar við semjum okkar regluverk. Það er beinlínis heimskulegt að apa upp reglur sem henta ekki okkar sérstöðu. Það er mín afstaða. Ég held að við séum að gera mistök með því að ákveða að taka eitthvað upp bara til að taka það upp. Við þurfum að ákveða fyrir okkur sjálf: Er þetta regla sem við teljum góða, sem mun hafa góð áhrif á okkar samfélag? Ég held að það væri góð byrjun.