154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Fyrst vil ég nú segja að ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, málið er komið hér inn í þingsal og það nýtur stuðnings þó að fólk kunni að vera með athugasemdir við einstaka liði og bara eðlilegt auðvitað að við förum yfir þá alla í meðförum hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Mig langar að spyrja hv. þingmann því að hún fór yfir tölur. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki með það fyrir framan mig sjálf en ég veit að hv. þingmaður er vandaður þingmaður og hún hefur örugglega farið vel yfir þessar tölur sem hún fór hér með. En lítur hv. þingmaður þannig á þá að á síðustu árum höfum við verið að taka á móti, eigum við að segja hæfilegu magni fólks á flótta? Eða telur hv. þingmaður að við höfum burði til að taka á móti mun fleiri eða færri? Hún var aðeins fara yfir það og mér fannst hún vera að gera lítið úr því þegar fólk hefur talað um það að hér hefðu margir verið að sækja eftir vernd og þá séum við oft að horfa á Norðurlöndin því til samanburðar.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, því að ég skynjaði orð hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar, sem talaði hér fyrstur Samfylkingarmanna í dag, eitthvað á þá leið að það væri mikill skilningur á því að það væri óeðlilegt að Ísland væri með einhverjar séríslenskar reglur, eitthvað sem mörg okkar höfðu jafnframt skynjað af viðtölum við formann Samfylkingarinnar. En ég gat ekki betur heyrt en hv. þingmaður væri nú bara eiginlega ósammála því. Þannig að ég spyr hv. þingmann um sérstaklega það sem við ræðum mest þegar við erum að tala um að útrýma þessum séríslenskum reglum: Er hv. þingmaður alfarið á móti því eða finnst henni ástæða til þess að regluverkið okkar á Íslandi sé sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndum þegar kemur að þessum málaflokki?