154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Nú ætla ég að vona að þingheimur sé ekki að misskilja mig. Ég er svo sannarlega ekki að gagnrýna VG fyrir að gera fyrirvara við það sem snýr að því sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera harðast gagnvart fólki á flótta. Það er sjálfsagt og eðlilegt að hafa allan fyrirvara á því vegna þess að sporin geta hrætt í því efni eins og við sáum þegar þjónustusviptingin var afgreidd hér fyrir ekki svo löngu síðan. Hér hefur hins vegar staðið bunan upp úr stjórnarþingmönnum í umræðunni í dag um að það væri kominn einhvers konar sátt, það væri annar tónn hér í þingsalnum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa margítrekað þá spurningu við þingmenn Viðreisnar og Samfylkingar hvort þeir styðji þetta frumvarp og þá lá ekki einu sinni fyrir að það er ekki einu sinni fullur stuðningur við það hjá þingflokki VG. Ég verð að játa það að mér kom þetta mjög á óvart. Ég ætla hins vegar ekki að gagnrýna VG fyrir að gera einhverja fyrirvara við málið því að það er svo sjálfsagt og eðlilegt hér í þinginu að það sé tekið inn til nefndar og við köllum eftir umsögnum og fáum til okkar gesti til að fara yfir efnisatriði frumvarpsins. Mögulega verðum við ekki á sama stað og hér fyrir ári þar sem allir umsagnaraðilar tættu frumvarpið í sig sem þá lá fyrir þinginu. Alla vega, það að hér sé verið að leggja fram mál og það sé kynnt sem einhvers konar ný heildarsýn í málefnum útlendinga, sem einhvers konar sátt á milli ríkisstjórnarflokkanna þegar VG er nýbúið að vera á flokksráðsfundi þar sem varaformaður flokksins talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ítrekað stillt VG upp við vegg í þessum málum — er eitthvað skrýtið að maður klóri sér pínulítið í kollinum yfir þessu?

Ég held hins vegar að það sé þannig, algerlega óháð stuðningi VG við þetta mál, að það séu tveir flokkar sem eru tilbúnir til að samþykkja málið og hleypa því í gegn nánast athugasemdalaust. Það eru Flokkur fólksins og Miðflokkurinn þannig að það ætti nú að vera þingmeirihluti fyrir þessu. (Forseti hringir.) En ég undrast það að við fáum að vita það svona seint að einn stjórnarflokkanna sé ekki einu sinni fullkomlega sáttur við málið.