154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:20]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvarið. Án þess að fara nú í eitthvert orðaskak um það hver sagði hvað og með hvaða hætti við umræðu um annað frumvarp, þótt sannarlega hafi það lotið að skyldu máli, þá ætla ég að beina svari mínu að þessari spurningu um 2. mgr. 36. gr., sem sum hafa kallað séríslenska málsmeðferðarreglu, önnur segja að sé hraðleið á botninn. Ég held að þetta sé kannski verkefni sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að glíma við hér saman, að við séum með einhverjum hætti að reyna að tala sama tungumálið. Nú er ég ekki að segja að við eigum ekki að hafa skiptar skoðanir á hlutunum heldur að hafa einhvern veginn sama skilning á hlutunum. Ég hef skilið það þannig, af því að ég tek þátt í þessari vinnu sem ég minntist á í fyrri ræðu og var stofnað til að beiðni formanns Viðreisnar á sínum tíma og ég veit að hv. þingmaður gerir það líka, sem mér finnst gagnleg, svo ég taki það fram, að það hafi ekki reynt á 42. gr. laganna, m.a. vegna þessarar greinar sem er öðruvísi en aðrar greinar í samanburðarlöndunum. Tökum bara Norðurlöndin, við skulum horfa á það. Ég heyrði að hv. þingmaður vísaði til Evrópu allrar í andsvari sínu áðan. Ég tók líka eftir því að hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson hnaut um þetta sama atriði og benti á í þessu samhengi samspil 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég vil gjarnan fá aðeins betri upplýsingar og svör um í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar, þ.e. með hvaða hætti 42. gr. getur gripið þá aðila sem 2. mgr. 36. gr. greip áður.