154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:09]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir svarið. Já, það er vissulega rétt að það kann að fara betur á því að hv. þingmenn Vinstri grænna geri sjálfir grein fyrir sínum fyrirvara. En það er samt þannig, frú forseti, að það er búið að selja hér fólki, þingheimi og öðrum, eitthvað sem heitir heildarsýn í útlendingamálum sem virðist vera nýja galdragripið sem eigi að halda þessari ríkisstjórn saman í einhverjar vikur eða mánuði enn. Og gott og vel. Það er auðvitað á ábyrgð þeirra stjórnarflokka sem hér hafa kosið að starfa saman ef þau eru sátt við þessa nýju heildarsýn og tilbúin til þess að starfa að henni. En það breytir því ekki að hér kemur hv. þingmaður upp og er í rauninni að gera, að mér heyrðist, sömu athugasemdir og hér hafa komið fram í máli þingmanna stjórnarandstöðunnar við þetta frumvarp sem hér er til umræðu, m.a. um fjölskyldusameiningu og annað slíkt, hafi ég tekið rétt eftir. Þannig að það hefði, ég fer ekkert af þeirri skoðun minni, bara verið ærlegra allra hluta vegna að koma þessu til skila hér í upphafi umræðunnar, af því að það er þá þannig að frumvarpið eins og það liggur fyrir á þessari stundu nýtur ekki óskilyrts stuðnings allra þingmanna sem styðja þessa ríkisstjórn alla jafna. Það er þá staðan sem við erum í. Við höfum verið í þessari stöðu áður þegar kemur að ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og það er þá bara allt í lagi að hafa það á hreinu að þetta er sá grundvöllur sem við nú stöndum á í þessari umræðu og það kannski breytir svolítið dýnamíkinni, frú forseti, í umræðunni um þessi mál hér í þessum sal.