154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að velta fyrir mér hvaða breyting, hvort það sé kannski verið að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Ég man að á síðasta kjörtímabili þá sagði m.a. núverandi hæstv. ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, um þingmann í sama flokki: Það er gott að vera ekki í sama liði og þingmaðurinn. Það var hv. þm. Ásmundur Friðriksson. Þannig að allt þetta á síðasta kjörtímabili var ekki síst vegna andófs … (Gripið fram í.) Já, andófs Sjálfstæðisflokksins, hluta Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna þegar kemur að útlendingamálum. Oft á tíðum, eins og er í svo mörgum málum hjá ríkisstjórninni, þá kemur málþófið innan frá ríkisstjórninni, ekki utan frá. En síðan er hitt. Við skulum bara koma að kjarnanum. Hvað var það? Við vorum á móti þeirri þjónustusviptingu sem var verið að boða af því að það var alveg ótrúlega óljóst hvernig málum yrði háttað. Og viti menn, það var búið að ýta á græna og rauða takkann af hálfu þingflokka hér, ríkisstjórnin samþykkir þetta, en fimm mínútum seinna, kannski voru þær tíu, voru ráðherrar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins komnir í hár saman um hvað lögin í rauninni þýddu. Og sveitarfélögin alveg brjáluð, hvort sem það voru sveitarfélög hér í Reykjavík eða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að ég spyr bara: Er sami skilningur? Ég velti því fyrir mér: Er sami skilningur hjá ríkisstjórnarflokkunum bara á þessu litla máli? Ég vona það. En það mun koma í ljós í meðförum nefndarinnar hvort sami skilningur sé af hálfu ríkisstjórnarflokkanna á málinu. Það er í hverju málinu á fætur öðru sem þeir tala út og suður og oftar en ekki hefur Viðreisn þurft að ganga á milli og reyna að tengja fólk saman í mörgum málum. Ég vil bara minna á það. Já, við vorum á móti því hvernig þjónustusviptingin var afgreidd hér af því að það var algjörlega óljóst hvernig hún átti að vera. Og hvað gerðist? Viti menn, ríkisstjórnarflokkarnir voru komnir í hár saman tíu mínútum eftir að málið var samþykkt.