154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:42]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann svaraði reyndar annarri spurningu sem ég ætlaði að spyrja sem var akkúrat hvort hv. þingmaður teldi að það frumvarp sem hér er lagt fram myndi hafa einhver áhrif á það hversu margir einstaklingar kæmu hingað og sæktu um vernd. Ég er sammála hv. þingmanni um að svo sé ekki.

Mig langar hins vegar að beina tveimur spurningum í viðbót til hv. þingmanns. Annars vegar varðandi þetta innra eftirlit, að koma á innra eftirliti á landamærum milli Schengen-ríkjanna. Það mun ekki hafa áhrif á það hversu margir sækja um vernd vegna þess að um leið og fólk er komið að landamærunum á það rétt á að sækja um vernd. Ég velti aðeins fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að það muni fækka þeim sem hingað leita, hvort það verði bara með þessum skilaboðum sem hv. þingmaður er að tala um eða annað slíkt.

Svo langar mig aðeins að fara í aðra átt og spyrja hv. þingmann hvort hann telji að úrskurður kærunefndar útlendingamála — þegar nefndin sneri við fyrra mati sínu sem var í samræmi við leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem hefur það hlutverk á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að túlka flóttamannasamninginn og leiðbeina ríkjum um beitingu flóttamannasamningsins, um það hverjir eru flóttamenn og hverjir ekki. Leiðbeiningar flóttamannastofnunarinnar voru og eru þær að ríkisborgarar Venesúela séu í ríkri þörf fyrir vernd upp til hópa á grundvelli flóttamannasamningsins vegna hættuástands og ofsókna í Venesúela, ekki vegna efnahagsástands. — Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann er hvort hann telji að mat kærunefndar útlendingamála þegar hún sneri við þessu mati sínu og komst að þeirri breyttu niðurstöðu að ríkisborgarar Venesúela ættu ekki almennt tilkall til verndar, hvort hv. þingmaður telji þann úrskurð hafa verið kveðinn upp undir pólitískum áhrifum.