154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:20]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fólk verður bara að meta það sjálft hvort það greini einhvers konar stefnubreytingu eða ekki stefnubreytingu. Ég man hins vegar vel eftir þessum opna fundi og ég fylgdist sjálfur með honum af mikilli athygli. Nú veit ég ekkert hvað kom fram í þessari tilteknu bókun sem hv. þingmaður nefnir en ég verð að viðurkenna að mér fannst þessi fundur og upplegg hv. þingmanns hið undarlegasta. Þar var hv. þingmaður að hengja bakara fyrir smið. Það er nú bara þannig. Kærunefnd útlendingamála var einfaldlega að byggja á þeim fordæmum sem höfðu verið gefin af hálfu Útlendingastofnunar … (BirgÞ: Þetta er rangt.) — nei, þetta er ekki rangt. (Gripið fram í.) Þetta er ekki rangt, hv. þingmaður. (BirgÞ: … alveg klárt. Þú varst að segja … hérna rétt áðan.)

(Forseti (OH): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Kærunefnd — þetta er bara klassískt dæmi um svona ábyrgðarleysisvæðingu þar sem þingmenn, jafnvel ráðherrar málaflokkanna, reyna einhvern veginn að skella skuldinni á einhverja andlitslausa embættismenn úti í bæ (Gripið fram í.) í staðinn fyrir að taka ábyrgð á því sem hefur verið gert. (Forseti hringir.) Hvernig átti kærunefnd útlendingamála (Gripið fram í.) að úrskurða með öðrum hætti heldur en hún hafði gert? (Gripið fram í: Skoðaðu lögin um kærunefnd.) — Já, já. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ég skoðaði þetta mjög rækilega. (BirgÞ: Stjórnmálamenn geta ekki haft afskipti af þeim.)

(Forseti (OH): Ekki samtal í salnum.)

Nei, sannarlega ekki, en Útlendingastofnun er undirstofnun ráðherra (Forseti hringir.) og lýtur yfirstjórn ráðherra. (Gripið fram í.) Það er ráðherra sem getur haft frumkvæði að því að leggja fram lagabreytingar (Forseti hringir.) á Alþingi eða á fyrri stigum máls, beita yfirstjórnar- og eftirlitsskyldum sínum þegar (Forseti hringir.) tekin er röng ákvörðun.