154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga er tvímælalaust eitthvað sem við þurfum að gera miklu, miklu meira af. Bara í alvörunni, með fullri virðingu fyrir öllum þeim gestum sem koma sem umsagnaraðilar fyrir nefndina þá er tíma nefndarinnar í alvörunni illa varið í þá fundi. Ég segi það af því að umsagnirnar eiga að standa fyrir sínu. Það á ekki að þurfa að koma og segja þær augliti til auglitis við þingmenn þegar hægt er að lesa þær.

En auðvitað er það þannig að það er ekki hægt að gera nákvæmar áætlanir um allt, áætlanir bregðast og aðstæður breytast og ýmislegt svoleiðis. Þetta er einmitt afsökunin sem ég hef heyrt fyrir því að það sé ekki hægt að gera áætlanir, bara ekki hægt að gera nákvæmar áætlanir. En það er enginn að biðja um svo nákvæmar áætlanir, það er vandinn. Við erum að biðja um svona u.þ.b. einhvers staðar í grennd við það hvað kostar að byggja t.d. spítala. Og þó að það muni 10–20% til eða frá, svo lengi sem það er ekki viðvarandi vanmat yfir allt, að öll verkefni séu vanmetin heldur er það í raun og veru frávik frá meðaltalinu en kostnaðaráætlanirnar og ábatagreiningar eru almennt séð réttar þó að einstaka verkefni séu annaðhvort yfir eða undir; ef meðaltalið helst rétt og heildarkostnaðurinn helst nokkurn veginn réttur þá erum við bara í góðum málum. En ef framkvæmdarvaldið neitar einfaldlega að framfylgja lögum um opinber fjármál og neitar að gera kostnaðaráætlanirnar þá verðum við alla vega aldrei betri í því. Mér finnst áhugavert að framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) geti bara komist upp með að fylgja ekki lögunum, í alvörunni. (Forseti hringir.) Það eru engin refsiákvæði við því, að sjálfsögðu ekki, en einhver hlýtur samt að bera (Forseti hringir.) alla vega pólitíska ábyrgð.