Ferill 809. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1566  —  809. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er lögð til stefna um öflugan stuðning við Úkraínu vegna yfirstandandi innrásarstríðs Rússlands. Markmið stefnunnar er að styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í Úkraínu og felur hún í sér eftirfarandi fimm áhersluþætti:
     1.      Öflugt tvíhliða samstarf og samskipti við stjórnvöld, þjóðþing, stofnanir, félagasamtök og atvinnulíf.
     2.      Virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og málafylgju sem styðji við örugga, sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúa landsins, auk friðarferlis forseta Úkraínu og ábyrgðarskyldu Rússlands vegna áhrifa stríðsins.
     3.      Stuðning við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja öryggi borgara og mikilvægra innviða.
     4.      Mannúðaraðstoð við íbúa Úkraínu og vernd óbreyttra borgara í átökum.
     5.      Viðhald grunnþjónustu og efnahags Úkraínu meðan á átökum stendur og stuðning við endurreisn og uppbyggingu eftir að þeim lýkur. Í þessum efnum verði tekið mið af þingsályktun um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028, nr. 5/154.
    Í tillögunni kemur fram að heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu á tímabilinu 2024–2028 skuli taka mið af stuðningi annarra ríkja Norðurlandanna og koma til viðbótar öðrum framlögum til utanríkis-, varnar- og þróunarmála. Til samræmis verði framlög ársins 2024 aukin um 20% miðað við árið 2023. Í tengslum við fjárlög á ári hverju verði tekin ákvörðun um heildarframlög, sem verði að lágmarki þau sömu og árið 2024, og skiptingu þeirra milli málefnasviða samhliða aðgerðaáætlun fyrir komandi ár.
    Fram kemur í greinargerð með tillögunni að allt frá upphafi stríðsins hefur Ísland, líkt og flest önnur vestræn og líkt þenkjandi ríki, veitt Úkraínu dyggan stuðning, jafnt pólitískan sem á sviði mannúðaraðstoðar og efnahagsuppbyggingar og til stuðnings vörnum landsins. Einnig hefur Ísland lagt sitt af mörkum með móttöku flóttafólks frá Úkraínu en heildarfjöldi þess er nú tæplega 4.200 manns og hefur ríkisstjórnin tilkynnt að allt fái flóttafólkið viðbótarvernd til eins árs, eða til loka febrúar 2025. Þannig hafa íslensk stjórnvöld sýnt vilja sinn í verki til að vera verðugur bandamaður vina- og bandalagsríkja.
    Á Alþingi hefur ríkt þverpólitísk samstaða um öflugan stuðning við Úkraínu. Var það söguleg stund er forseti Úkraínu ávarpaði Alþingi hinn 6. maí 2022. Alþingi samþykkti síðar einróma þingsályktun, sem flutt var af formönnum allra flokka sem sæti eiga á þingi, um að færa úkraínsku þjóðinni færanlegt neyðarsjúkrahús að gjöf. Þá hefur Alþingi samþykkt þingsályktanir annars vegar þess efnis að lýsa því yfir að hungursneyðin í Úkraínu (Holodomor) sem stóð yfir frá 1932 til 1933 hafi verið hópmorð og hins vegar um að fordæma ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins í Úkraínu. Eins er mikilvægt að halda til haga að stofnað var til tjónaskrár fyrir Úkraínu á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík síðastliðið vor að frumkvæði Íslands.
    Nefndin fagnar framkominni tillögu og leggur áherslu á að á þeim sviðum sem stefnan nær til verði stuðningur Íslands við Úkraínu hlutfallslega sambærilegur að umfangi við það sem önnur ríki Norðurlanda leggja af mörkum. Nefndin undirstrikar að með öflugum stuðningi við sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétt og öryggi Úkraínu ásamt friðarviðleitni á forsendum úkraínsku þjóðarinnar sé jafnframt staðin varðstaða um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggist á.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Birgir Þórarinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 17. apríl 2024.

Diljá Mist Einarsdóttir,
form.
Bjarni Jónsson,
frsm.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Jón Gunnarsson. Katrín Sif Árnadóttir. Logi Einarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.