Ferill 1073. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1561  —  1073. mál.
Flutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsóknarstofnun í byggingariðnaði.


Flm.: Indriði Ingi Stefánsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Katrín Sif Árnadóttir, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að stuðla að því að komið verði á fót nýrri stofnun sem hafi það hlutverk sem Rannsóknastofa byggingariðnaðarins hafði áður.

Greinargerð.

    Síðan Rannsóknastofa byggingariðnaðarins lagði upp laupana í kjölfar þess að Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður hafa spár um alvarlegar afleiðingar þess ræst. Lagt er til að komið verði á fót nýrri stofnun sem sinni rannsóknum á byggingaraðferðum og byggingarefnum og öðru sem tengist byggingariðnaði, bæði að eigin frumkvæði og samkvæmt beiðni.
    Margir þeirra sem starfa í byggingariðnaði og koma að forvörnum á sviði myglu- og rakaskemmda hafa bent á þörf þess að endurreisa Rannsóknastofu byggingariðnaðarins. Má þar nefna Verkfræðingafélag Íslands.
    Ljóst er að ef til verður stofnun sem hefur frumkvæði að því að kanna hversu vel efni og byggingaraðferðir reynast í byggingariðnaði á Íslandi verður stuðlað að betri og öruggari byggingaraðferðum sem tryggja öryggi og góða hollustuhætti í hvívetna. Ólíklegt er að almennir verktakar ráðist í slíkt að eigin frumkvæði.