Ferill 883. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1320  —  883. mál.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um gæði, hagkvæmni
og skilvirkni opinberra fjárfestinga.


Frá Jóni Steindóri Valdimarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Rafni Helgasyni, Guðbrandi Einarssyni, Sigmari Guðmundssyni, Ágústi Bjarna Garðarssyni, Þórarni Inga Péturssyni, Loga Einarssyni og Birni Leví Gunnarssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      Hvernig stefnumörkun um gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga hafi verið útfærð af ráðuneytinu.
     2.      Ítarleg greining á þeim fjárfestingarverkefnum sem ríkissjóður hefur tekið þátt í undanfarin tíu ár. Gerð skuli grein fyrir áætluðum kostnaði og framkvæmdatíma við upphaf hvers verkefnis. Að því er snertir þau verkefni sem lokið er skuli gerð grein fyrir endanlegum kostnaði og framkvæmdatíma. Að því er snertir þau verkefni sem ekki er lokið skuli gerð grein fyrir stöðu kostnaðar og framkvæmdatíma þegar skýrslan er rituð.
     3.      Gerð skuli grein fyrir því hvernig ráðherra hafi framkvæmt þingsályktun um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga, nr. 11/148.
    

    Greinargerð.

    Á hverju ári renna miklir fjármunir til opinberra fjárfestingarverkefna á borð við uppbyggingu vegakerfis, heilbrigðiskerfis, raforkuflutningskerfis og annarra innviða. Alkunna er að slík verkefni eiga til að standast ekki þær kröfur og væntingar sem gerðar voru í upphafi, til að mynda þegar kostnaður eða framkvæmdatími fer fram úr áætlun eða ábati verður ekki hinn sami og reiknað hafði verið með.
    Ástæður geta verið margvíslegar og samverkandi. Ófullnægjandi undirbúningur, ónóg þarfagreining eða gallaðar forsendur geta leitt til þess að útkoma verkefnis verður ekki í samræmi við áætlun. Hið sama má segja um það þegar framkvæmdaþáttum eða eftirliti er ábótavant, sérhæfða þekkingu skortir eða regluverk er óþarflega íþyngjandi. Í ljósi hagsmuna sem liggja að baki þegar almannafé er ráðstafað í dýrar framkvæmdir er afar brýnt að vandað sé til verka eins og kostur er við undirbúning og lærdómur dreginn af því sem vel hefur verið gert og af fyrri mistökum.
    Hinn 25. apríl 2018 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga, nr. 11/148. Á grundvelli hennar bar ráðherra að skipa starfshóp til að stofna til formlegs samstarfsvettvangs milli stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags til að skapa þekkingu og færni á sviði gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga með formlegum hætti. Var það von flutningsmanna tillögunnar að þannig mætti vandvirkni og virðing fyrir almannafé ávallt verða leiðarljós í umfangsmiklum og kostnaðarsömum opinberum fjárfestingarverkefnum, allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og allan áætlaðan líftíma þeirra.
    Í skýrslubeiðni þessari er óskað þrenns konar upplýsinga. Í fyrsta lagi um það hvernig stefnumörkun hafi verið útfærð af fjármála- og efnahagsráðuneyti varðandi gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Í öðru lagi er farið fram á samantekt og greiningu á fjárfestingarverkefnum sem ríkissjóður hefur átt þátt í undanfarin tíu ár og á því hvernig þau hafi staðist áætlanir með tilliti til kostnaðar og framkvæmdatíma. Í þriðja lagi er beðið um upplýsingar um það hvernig ráðherra hafi stuðlað að framkvæmd þingsályktunar nr. 11/148.
    Skýrslan mun veita mikilvæga vitneskju um afdrif fjárfestingarverkefna undanfarinn áratug og stuðla að betri árangri og hagkvæmari framkvæmdum í framtíðinni.