Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 825  —  468. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið á milli 2. og 3. umræðu og fékk til sín gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Heimild björgunarsveita til endurgreiðslu á vörugjaldi vegna kaupa á bensíni.
    Á landinu eru starfræktar yfir 90 björgunarsveitir, sem mannaðar eru sjálfboðaliðum, er sinna margvíslegu björgunar- og slysavarnastarfi. Starfsemi björgunarsveita er óumdeilanlega þýðingarmikil í íslensku samfélagi. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með það að leiðarljósi að styrkja og efla rekstrarlegt umhverfi björgunarsveita og viðurkenndra heildarsamtaka þeirra til eins árs. Samhliða því skal skipa starfshóp sem móta skal tillögur að fjármögnun björgunarsveitanna til framtíðar. Horfa mætti til tillögu 7 í skýrslu frá starfshópi þriggja ráðherra um mengun af völdum skotelda og tillögur um aðgerðir frá því í janúar 2020. Þar kemur fram að 60–70% af fjármögnun björgunarsveita á Íslandi kemur frá sölu skotelda. Þá telur meiri hlutinn nauðsynlegt að finna leiðir til fjármögnunar björgunarsveita með sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfið. Tryggja þarf að fjármögnun björgunarsveitanna til langframa sé í takt við loftslagsmarkmið og alþjóðlegar skuldbindingar. Breytingin er lögð til að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti og Skattinn.
    Í umsögn sem nefndinni barst frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kom fram að áður fyrr hefðu björgunarsveitirnar nær einvörðungu keypt gasolíudrifin ökutæki til notkunar í starfsemi sinni. Nú væri hins vegar raunin sú að meiri hluti ökutækja sem björgunarsveitir hefðu fest kaup á síðustu ár væru bensíndrifin.
    Löggjafinn hefur áður séð ástæðu til að styðja við starfsemi björgunarsveita með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi segir í 12. tölul. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, að tolla skuli lækka, fella niður eða endurgreiða vegna tímabundins innflutnings af björgunarbúnaði og björgunartækjum, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur í starfsemi björgunarsveita. Í 42. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, nr. 630/2008, segir enn fremur að björgunarbúnaður og björgunartæki, önnur en ökutæki, sem björgunarsveitir eða viðurkennd heildarsamtök þeirra flytja inn, séu undanþegin aðflutningsgjöldum, enda verði þau eingöngu nýtt í starfsemi björgunarsveitar. Þá segir í n-lið 1. mgr. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, að ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita skuli undanþegin vörugjaldi, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita, sbr. einnig 17. gr. reglugerðar um vörugjald af ökutækjum, nr. 331/2000. Jafnframt er heimilt skv. 9. tölul. 4. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, að selja eða afhenda olíu til nota á bifreiðar í eigu björgunarsveita án innheimtu olíugjalds. Loks má benda á að í 1. tölul. 4. gr. frumvarps til laga um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða (þskj. 574) er lagt til að bifreiðar í eigu björgunarsveita verði undanþegnar kílómetragjaldi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að til standi að leggja fram frumvarp á komandi vorþingi um kílómetragjald vegna notkunar allra annarra ökutækja á vegakerfinu, þ.m.t. bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, með gildistöku á árinu 2025. Í ljósi boðaðra breytinga og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, umhverfis- og loftslagsmarkmiða og markmiða um útfösun jarðefnaeldsneytis þarf að taka undanþágur að þessu leyti fyrir farartæki björgunarsveita til endurskoðunar.

Tímabundin niðurfelling á virðisaukaskatti til ökutækjaleigna vegna endursölu rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða.
    Meiri hlutinn leggur til að skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. um að skattaðili hafi eignast bifreiðina 1. janúar 2021 eða síðar falli brott í ljósi ábendingar sem barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Nánar tiltekið er ekki að finna umrætt tímamark í núgildandi 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Heimildin þar er aðeins bundin þeim skilyrðum að virðisaukaskattur hafi verið felldur niður við innflutning eða fyrstu sölu bifreiðarinnar og að skattaðili geti lagt fram reikninga eða önnur gögn til Skattsins til að staðfesta að niðurfelling virðisaukaskattsins hafi átt sér stað.

Frestun gildistöku.
    Meiri hlutinn leggur til að fresta gildistöku a-liðar 11. gr. Meiri hlutinn telur að kanna þurfi áhrif ákvæðisins betur. Þá þurfi að afla frekari upplýsinga um þá sem kunna að verða fyrir áhrifum þegar ákvæðið tekur gildi.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. tölul. 2. mgr. b-liðar 20. gr. falli brott.
     2.      Við VII. kafla bætist ný grein, svohljóðandi:
                  Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Heimilt er að endurgreiða viðurkenndum heildarsamtökum björgunarsveita og björgunarsveitum sem starfa innan þeirra almennt og sérstakt vörugjald vegna kaupa á bensíni á farartæki í þeirra eigu. Skilyrði endurgreiðslu er að fyrir liggi staðfesting heildarsamtaka björgunarsveita á að farartækið sé einvörðungu nýtt í starfsemi björgunarsveita.
                  Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd ákvæðisins, svo sem um form og afgreiðslu endurgreiðslubeiðnar.
                  Heimild til endurgreiðslu skv. 1. mgr. tekur til kaupa á bensíni á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 31. desember 2024.
                  Dómsmálaráðherra skal skipa starfshóp sem vinnur heildstæðar tillögur að fjármögnun björgunarsveita til framtíðar. Hópurinn skal eiga náið samráð við björgunarsveitir landsins við tillögugerðina. Starfshópurinn horfi meðal annars til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og umhverfis- og loftslagsmarkmiða stjórnvalda. Hópurinn skal skila tillögum sínum fyrir 1. september 2024.
     3.      Á undan orðunum „22. gr.“ í 1. mgr. 35. gr. komi: a-liður 11. gr. og.


Alþingi, 15. desember 2023.

Teitur Björn Einarsson,
form., frsm.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Vilhjálmur Árnason. Guðbrandur Einarsson.