Ferill 1111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2217  —  1111. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um viðurkenningu á háskólagráðum erlendra einstaklinga.


     1.      Hvernig er staðið að viðurkenningu á akademísku námi erlendra ríkisborgara sem hafa lokið því erlendis?
    Fyrirspurnin var send til umsagnar ENIC/NARIC-upplýsingaskrifstofu Íslands og eru svörin byggð á umsögn hennar.
    Erlendir jafnt sem íslenskir ríkisborgarar sem lokið hafa akademísku námi erlendis geta sótt um viðurkenningu á því hjá ENIC/NARIC-upplýsingaskrifstofu Íslands. Skrifstofan er staðsett í Háskóla Íslands samkvæmt samningi ráðuneytisins við háskólann. Boðið er upp á þrjár mismunandi tegundir af viðurkenningarskjölum. Í sjálfkrafa viðurkenningu felst að unnt er að sækja og prenta forprentuð viðurkenningarbréf á vef skrifstofunnar. Í bréfunum eru upplýsingar um tiltekin próf og til hvaða prófa þau samsvara hér á landi. Sjálfkrafa viðurkenning er í boði fyrir algengustu prófgráður frá Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Noregi, Póllandi, Spáni, Svíþjóð og Úkraínu. Upplýsingaskrifstofan stefnir að því að fjölga þeim löndum sem boðið er upp á sjálfkrafa viðurkenningu fyrir. Í sjálfkrafa viðurkenningu er viðurkenning skóla í heimalandi ekki skoðuð. Upplýsingar um sjálfkrafa viðurkenningu má finna hér: www.enicnaric.is/sjalfvirk_vidurkenning.html.
    Þá er hægt að sækja um rafrænt á vef skrifstofunnar um óformlegt eða formlegt viðurkenningarskjal. Í báðum tilvikum er viðurkenning skóla athuguð og staðfest í viðurkenningarskjalinu. Þegar umsóknin er send inn rafrænt þarf afrit af prófskírteinum að fylgja með. Ef sótt er um formlegt mat þarf að vera hægt að staðfesta prófskírteinið rafrænt, að öðrum kosti þarf umsækjandi að koma frumritum eða staðfestum afritum til skrifstofunnar. Formlegt viðurkenningarskjal er undirritað og stimplað en það óformlega er óundirritað. Þá er í óformlega skjalinu fyrirvari um að starfsfólk skrifstofunnar hafi ekki gengið úr skugga um sanngildi gagnanna. Að lokum býður skrifstofan upp á bakgrunnsskýrslu fyrir flóttamenn sem ekki hafa aðgang að prófskírteinum sínum. Þeir fylla út umsókn með ítarlegum upplýsingum um það nám sem þeir hafa lokið og fara síðan í viðtal við starfsmann skrifstofunnar. Reynt er að hjálpa þeim að finna eitthvað sem styrkir frásögn þeirra, t.d. ef þeir eiga myndir frá útskrift eða eitthvað álíka. Í bakgrunnsskýrslunni er sagt frá því hvaða menntun viðkomandi segist hafa lokið og hverju hún samsvarar hér á landi. Upplýsingar um bakgrunnsskýrsluna má nálgast hér: www.enicnaric.is/flottamenn.html.

     2.      Er algengt að háskólagráður séu ekki viðurkenndar vegna skorts á upplýsingum eða vandræða við að sannreyna upplýsingar?
    Slík dæmi eru fátíð en koma þó fyrir í einstaka tilvikum. Í flestum tilvikum er unnt að leysa úr málum með óformlegu matsskjali þegar erfitt er að sannreyna gögn. Þá getur það einnig reynst erfitt í einstaka tilvikum að afla upplýsinga erlendis frá vegna gamalla og mjög sjaldgæfra prófa. Í einhverjum tilvikum er litlar eða engar upplýsingar að finna á vottorðum, eða jafnvel misvísandi upplýsingar. Ef ekki er unnt að afla þessara upplýsinga frá upprunalandinu reynir ENIC/NARIC-upplýsingaskrifstofan að nýta sér samstarf sitt við sambærilegar ENIC/NARIC-skrifstofur erlendis og leita upplýsinga hjá þeim. Yfirleitt hafa þær getað veitt umbeðnar upplýsingar, en í örfáum tilvikum hafa þær ekki búið yfir þeim upplýsingum sem leitað hefur verið eftir.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að raunfærnimat verði notað til að sannreyna akademíska þekkingu þeirra sem ekki fá nám sitt metið eða eftir atvikum að þeim bjóðist að sækja viðbótarnám til að uppfylla skilyrði viðurkenndra námsgreina?
    Á þingmálaskrá ráðherra fyrir 154. löggjafarþing er ráðgert að boðuð verði framlagning frumvarps um endurskoðun ákveðinna þátta í lögum um háskóla, nr. 63/2006, sem og Viðmiða um æðri menntun og prófgráður, sbr. auglýsingu nr. 530/2011, sem breyta á samhliða. Meðal þess sem verður lagt til í frumvarpinu er að háskólum verði heimilt að meta til eininga svonefnt örnám (e. micro credentials) sem eru námslok á styttri námsleiðum í viðurkenndum háskólum. Viðurkenning á örnámi með aðferðafræði raunfærnimats getur gefið nemendum tækifæri á styttingu námsleiða á háskólastigi. Unnið er að því að efla fjölbreytt námsframboð í háskólum sem er í takt við kröfur um aukinn sveigjanleika í námi og opnara aðgengi fyrir fólk sem ekki hefur aflað sér menntunar eftir hefðbundnum leiðum og er örnám viðurkennd leið til þess innan evrópska menntasvæðisins (EEA: European Education Area).
    Innleiðing raunfærnimats í íslenskum háskólum er enn skammt á veg komin og mikilvægt er að tryggja gæði, sameiginlegan skilning og samræmda nálgun þegar háskólar þróa ferla sína. Raunfærnimat er leið til að gefa einstaklingum tækifæri til að fá þekkingu sína og færni, sem þeir hafa öðlast utan hefðbundins menntakerfis, metna inn í tiltekið formlegt nám, annaðhvort til inngöngu í háskóla, til styttingar náms eða jafnvel til fullrar prófgráðu. Með þessu má meðal annars laða fólk til náms með því að meta að verðleikum færni sem einstaklingur hefur þegar áunnið sér og takmarka endurtekningu, sem er efnahagslega hagkvæmt bæði fyrir einstaklinga og samfélag.
    Innan Menntavísindasviðs HÍ hefur aðferðafræði raunfærnimats nýlega verið nýtt til að stytta nám á háskólastigi í leikskólakennslufræðum og er ráðgert að nýta þessa aðferðafræði á fleiri námsbrautum.
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið tekur ásamt Rannsóknamiðstöð Íslands og ENIC/NARIC þátt í evrópska verkefninu INterconnection/INnovation/INclusion: Austrian contributions to the EHEA 2030 (3-IN-AT-PLUS), sem styrkt er af Erasmus+-áætluninni, og er ætlað til að styðja yfirvöld við að ná markmiðum Bologna-ferlisins. Þátttaka Íslands í 3-IN-AT-PLUS færir fólki sem starfar við raunfærnimat á háskólastigi hér á landi aukin tækifæri til að tengjast evrópsku samstarfsfólki og deila reynslu, góðum aðferðum og áskorunum með því.