Ferill 1004. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2198  —  1004. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Ástrós Rut Sigurðardóttur um stöðu ungra langveikra einstaklinga.


     1.      Hversu mörg langveik börn hafa orðið 18 ára á hverju ári sl. 5 ár?
    Tryggingastofnun tók saman fjölda barna sem hafa verið með umönnunargreiðslur og orðið 18 ára á sl. 5 árum. Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda barna, sundurliðað eftir því hvort umönnunargreiðslurnar eru vegna fötlunar, sjúkdóma eða þroska- og hegðunarraskana og einnig samanlagðan fjölda þessara barna/einstaklinga eftir árum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hvaða breytingar verða á réttindum langveikra einstaklinga þegar þeir ná 18 ára aldri? Hvaða breytingar verða á réttindum foreldra þeirra við sömu tímamót?

    Langveikir einstaklingar geta hugsanlega átt rétt á örorkulífeyri, örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun. Stofnunin tók saman hve mörg þessara barna sem voru með umönnunargreiðslur og urðu 18 ára á sl. 5 árum hafa fengið slíkar greiðslur frá Tryggingastofnun. Aftur eru tölurnar sundurliðaðar eftir því hvort umönnunargreiðslurnar eru vegna fötlunar, sjúkdóma eða þroska- og hegðunarraskana en einnig kemur fram samanlagður fjöldi þessara barna/einstaklinga eftir árum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ýmsar breytingar verða á réttindum foreldra þessara barna. Umönnunargreiðslur falla niður ásamt meðlagi og barnalífeyri ef um þær greiðslur hefur verið að ræða. Ef um einstæða foreldra, sem eru lífeyrisþegar, er að ræða þá fellur einnig niður heimilisuppbót nema gögn berist um að ungmennið sé í skóla. Þá lækka mæðra- og feðralaun eða falla niður þegar fatlaða eða langveika barnið verður 18 ára, en það fer eftir fjölda annarra barna undir 18 ára aldri á heimilinu.

     3.      Hefur verið gerð samantekt og greining á fjárhagslegum áhrifum þess á langveika einstaklinga og aðstandendur þeirra þegar þeir verða lögráða?
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er ekki kunnugt um að slík greining hafi verið gerð.

     4.      Hvað hefur ráðherra gert til að bæta þjónustu við langveika einstaklinga og tryggja betri tengingu milli þjónustukerfa þegar þeir verða lögráða?
    Unnið hefur verið að frumvarpi um breytingar á greiðslum vegna umönnunar langveikra og fatlaðra barna og er stefnt að því að frumvarpið verði endurflutt á 154. þingi. Enn fremur er unnið að heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins og verður það frumvarp lagt fram á Alþingi í haust. Tímabil endurhæfingarlífeyris hefur verið lengt úr þremur árum í fimm auk þess sem frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur nær tvöfaldast á kjörtímabilinu. Síðast en ekki síst hefur stuðningur við ungt fólk í viðkvæmri stöðu verið stórefldur til að fyrirbyggja brotthvarf á vinnumarkaði. Um er að ræða samstarf Vinnumálastofnunar, VIRK og Samtaka atvinnulífsins og er grunnhugmyndin sú að finna störf fyrir öll þau sem vilja vinna óháð hindrunum.