Ferill 1173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2195  —  1173. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur um þjónustu við eldra fólk.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Eru aðgerðir og þróunarverkefni samkvæmt aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028, einnig þekkt undir nafninu Gott að eldast, fjármögnuð í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028? Ef svo er, er óskað sundurliðunar á fjármögnun eftir aðgerðum og þróunarverkefnum.

    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið standa saman að aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2027, Gott að eldast.
    Hér verður gerð grein fyrir áætluðum framlögum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna „Gott að eldast“ fyrir árin 2022–2027, sem eru samtals 850 m.kr. og sundurliðast með eftirfarandi hætti eftir árum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í fylgiskjali með tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk (860. mál 153. löggjafarþings) er að finna yfirlit um kostnaðarskiptingu heilbrigðis- og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna verkefna sem ráðgert er að framkvæma á framkvæmdatíma aðgerðaáætlunarinnar.
    Kostnaðarmat þingsályktunartillögu aðgerðaáætlunar:

Flokkar aðgerða Kostnaður HRN Kostnaður FRN Kostnaður samtals
A. Samþætting 700 millj. kr. 210 millj. kr. 910 millj. kr.
B. Virkni 250 millj. kr. 250 millj. kr.
C. Upplýsing 120 millj. kr. 520 millj. kr. 640 millj. kr.
D. Þróun 140 millj. kr. 140 millj. kr.
E. Heimili
Samtals 960 millj. kr. 980 millj. kr. 1.940 millj. kr.

    Eftir að fjármálaáætlun 2024–2028 var samþykkt á vorþingi var hafist handa við að útfæra nánar kostnaðarskiptingu aðgerða í áætluninni með tilliti til þeirra fjármuna sem eru til ráðstöfunar. Þeirri vinnu er ekki lokið. Ljóst er að þær fjárheimildir sem fjárlög 2022–2024 og fjármálaáætlun 2024–2028 gera ráð fyrir og snúa að félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu komast nálægt því að uppfylla áætlaða fjárþörf ráðuneytisins. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið mun nýta útgjaldasvigrúm til að mæta þeim kostnaði sem upp á vantar í þeim hluta er snýr að ráðuneytinu.