Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1083  —  626. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.

    

    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd þriggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 6. nóvember 2020, um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlandanna (nr. 1/2020), aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða (nr. 2/2020) og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (nr. 3/2020).

Greinargerð.

    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2020, sem haldinn var 6. nóvember með fjarfundarbúnaði, voru samþykktar þrjár ályktanir.
    Sú fyrsta fjallar um aukið samstarf milli samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Árið 2002 var gerður samstarfssamningur milli Vestnorræna ráðsins annars vegar og ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands hins vegar. Sá samningur kveður á um árlegan samráðsfund vestnorrænna samstarfsráðherra með forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins og árlega skýrslu ráðherranna til ráðsins um framfylgd ályktana þess. Þó hefur þótt skorta á innbyrðis samráð samstarfsráðherranna um ályktanir Vestnorræna ráðsins og framfylgd þeirra. Í ályktun nr. 1/2020 kallar Vestnorræna ráðið eftir því að samstarfsráðherrar Norðurlanda á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum geri með sér samstarfssamning sem kveði á um árlegan samráðsfund. Á þeim fundi verði rædd framfylgd ályktana ráðsins og unnið að auknu samstarfi Íslands, Færeyja og Grænlands. Þannig verði stuðlað að aukinni samhæfingu milli ráðherra og ríkisstjórna þegar kemur að vestnorrænum hagsmunamálum.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2020 er kallað eftir formlegu vestnorrænu samstarfi um norðurslóðamál. Loftslagsbreytingar hafa haft gríðarleg áhrif á norðurslóðum og hefur bráðnun íss við norðurheimskautið áhrif á auðlindanýtingu og siglingaleiðir. Þessar breytingar valda spennu milli landa á norðurslóðum og nauðsynlegt er að styrkja alþjóðlega samvinnu til að tryggja stöðugleika á svæðinu og stuðla að sjálfbærum lausnum á þeim áskorunum sem við blasa. Með það í huga er hvatt til þess að ráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja sem sinna norðurslóðamálum fundi árlega um framgang vestnorrænna hagsmuna á norðurslóðum. Einnig er mælst til þess að ráðherrarnir gefi Vestnorræna ráðinu sameiginlega skýrslu um stefnu vestnorrænu ríkisstjórnanna í norðurslóðamálum og gagnvart Norðurskautsráði.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 3/2020 eru ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands hvattar til að styðja við mögulega aukaaðild Grænlendinga og Færeyinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að meginmarkmiði að stuðla heilbrigði. Stofnunin veitir aðildarríkjunum stuðning og tæknilega aðstoð byggða á vísindum og rannsóknum, setur staðla og aðstoðar við innleiðingu þeirra. Stofnunin hefur yfir að ráða miklu fjármagni til rannsókna á heilbrigði og víðtæku neti rannsakenda sem miðla nýrri þekkingu og aðferðum til að takast á við ýmsar áskoranir. Sem stendur starfa landsstjórnir Grænlands og Færeyja með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni gegnum danska heilbrigðisráðuneytið og er þeim boðið að taka þátt í aðalfundum stofnunarinnar. Sjálfstjórnarlöndin Grænland og Færeyjar standa þó frammi fyrir öðrum áskorunum þegar kemur að heilbrigðismálum en Danmörk og geta haft aðra rannsóknarhagsmuni. Lönd sem ekki hafa fullt sjálfstæði og stjórn á utanríkismálum geta fengið aukaaðild að stofnuninni. Umsókn um aukaaðild þarf að berast frá ríkinu sem löndin tilheyra. Síðustu ár hafa Færeyingar lýst yfir vilja sínum til þess að fá aukaaðild að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og hafa dönsk stjórnvöld brugðist jákvætt við því.