Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 464  —  372. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og lögum um fjársýsluskatt (fjármálaþjónusta o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      9. tölul. fellur brott.
     b.      10. tölul. orðast svo: Sala á og milliganga um fjármálaþjónustu, þó ekki eignaleigu lausafjár, eða ráðgjafarþjónustu, tækniþjónustu og aðra þjónustu sem ekki er veitt í beinum tengslum við sölu fjármálaþjónustu. Undir ákvæðið fellur m.a.:
                  a.      vátryggingastarfsemi og tryggingamiðlun,
                  b.      móttaka innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi,
                  c.      útlánastarfsemi,
                  d.      greiðsluþjónusta,
                  e.      verðbréfamiðlun,
                  f.      rekstur verðbréfa- og fjárfestingasjóða.

2. gr.

    Tilvísunin „9. og“ í 7. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna og í g-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 25. gr. laganna:
     a.      2. málsl. orðast svo: Endurgreiðsla má þó aðeins fara fram ef álagning virðisaukaskatts á fyrra uppgjörstímabili, einu eða fleiri, er ekki byggð á áætlun skv. 2. málsl. 2. mgr. þessarar greinar eða 1.–3. mgr. 26. gr.
     b.      3. málsl. fellur brott.

4. gr.

    Í stað „50 g“, „55 g“ og „60 g“ í 2. tölul. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum kemur: 40 g; 45 g; og: 50 g.

5. gr.

    Í stað orðanna „til og með 31. desember 2018“ í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIX í lögunum kemur: frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023.

6. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2020“ í 1.–4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIV í lögunum kemur: 31. desember 2021.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 13. gr. er á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 heimilt að falla frá eða fresta innheimtu og skilum á virðisaukaskatti vegna sölu skattskyldrar þjónustu sem innt er af hendi á grundvelli skriflegra samninga til a.m.k. tveggja ára um fasteignaleigu og til a.m.k. sex mánaða um aðstöðuleigu og leigu lausafjármuna að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:
     a.      Leigutaki eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða á tímabilinu vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru.
     b.      Fyrir liggi skriflegur samningur milli leigusala og leigutaka um tímabundna niðurfellingu leigugjalds eða um tímabundna frestun á innheimtu þess vegna rekstrarörðugleika leigutaka, sbr. a-lið. Í samningi aðila skulu meðal annars koma fram upplýsingar um viðkomandi fasteign eða leigumun, þar á meðal heimilisfang og fastanúmer fasteignar og skráningarnúmer leigumunar, ef um það er að ræða, leigutímabil, leigufjárhæðir og um upphaf og áætluð lok þess tímabils sem samningur kveður á um. Leigusali skal senda afrit samnings til Skattsins með skilum á virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga þess uppgjörstímabils þegar samningur er undirritaður.
     c.      Leigusali fasteignar hafi fengið heimild til frjálsrar skráningar á virðisaukaskattsskrá, sbr. ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga þessara og II. kafla reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.
    Kveði samningur skv. b-lið 1. mgr. á um frestun á innheimtu leigugjalds skal uppgjör virðisaukaskatts af leigugjaldinu fara fram með skilum á virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga næsta uppgjörstímabils eftir að samkomulagið fellur úr gildi en í síðasta lagi 5. febrúar 2022.

II. KAFLI
Breyting á lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.
8. gr.

    Í stað tölunnar „9“ í 1. tölul. 2. gr. laganna kemur: 10.

9. gr.

    Tilvísunin „9. og“ í 2. tölul. 5. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Gildistaka.
10. gr.

    Ákvæði laga þessara öðlast gildi eins og kveðið er á um í þessari grein.
    Ákvæði 1.–6. gr. og 8.–9. gr. öðlast gildi 1. janúar 2021.
    Ákvæði 7. gr. öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og laga um fjársýsluskatt, nr. 165/2011. Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um breytingar á afmörkun undanþágu virðisaukaskatts vegna sölu á fjármálaþjónustu og milligöngu um slíka þjónustu. Samhliða eru lagðar til afleiddar breytingar á lögum um fjársýsluskatt. Jafnframt er gerð tillaga um að endurgreiðsla virðisaukaskatts á grundvelli innsendrar virðisaukaskattsskýrslu megi aðeins fara fram ef áætlanir liggi ekki fyrir á fyrri uppgjörstímabilum virðisaukaskatts, einu eða fleirum.
    Lagt er til að heimiluð hámarkslosun tengiltvinnbifreiða sem falla undir ívilnun ákvæðis til bráðabirgða XXIV við lög um virðisaukaskatt verði lækkuð. Þá er lagt til að heimild sem lögfest var með ákvæði til bráðabirgða XXIX, til að fella niður virðisaukaskatt við innflutning á lyfjum sem gefin eru ríkinu eða stofnunum þess til nota við meðferð sjúklinga á heilbrigðisstofnunum, verði tekin upp aftur og gildistími hennar afmarkaður frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023.
    Einnig er lagt til að gildistími ákvæða til bráðabirgða XXXIII og XXXIV í lögum um virðisaukaskatt, þar sem meðal annars er kveðið á um tímabundna 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna vegna byggingar, viðhalds og endurbóta á íbúðarhúsnæði, bílaviðgerða o.fl., verði framlengdur til og með 31. desember 2021. Loks er gerð tillaga um nýtt ákvæði til bráðabirgða sem miðar að því að bregðast sérstaklega við þeim vanda sem skapast hefur á leigumarkaði vegna tekjufalls hjá mörgum leigutökum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í fyrsta lagi er talin nauðsyn á að skýra betur gildandi undanþágu frá virðisaukaskatti vegna þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sem kveður á um undanþegna starfsemi fjármála- og verðbréfafyrirtækja, hefur staðið óbreytt frá setningu laganna. Frá sama tíma hafa verulegar tæknibreytingar átt sér stað á sviði fjármálaþjónustu og tengdrar starfsemi. Sú þróun ásamt opnu orðalagi ákvæðisins hefur gefið tilefni til álitaefna um túlkun þess. Á það meðal annars við um hlutverk milligönguaðila vegna veittrar fjármálaþjónustu. Samhliða eru lagðar til afleiddar breytingar á lögum um fjársýsluskatt.
    Í öðru lagi er talið nauðsynlegt að breyta ákvæði 4. mgr. 25. gr. laga um virðisaukaskatt þannig að endurgreiðsla á grundvelli skýrslu sem skilað er á réttum tíma sé meðal annars háð því að álagning virðisaukaskatts á fyrri uppgjörstímabilum byggist ekki á áætlun. Í samtímaeftirliti hjá Skattinum geta komið upp flókin og tímafrek mál og af þeim sökum kann meðferð þeirra að dragast á langinn. Það kann að leiða til tafa á endurgreiðslu til skattaðila sem aftur getur leitt til þess að ríkissjóði kann að vera skylt að greiða dráttarvexti.
    Í þriðja lagi er lögð til lækkun á heimilaðri skráðri hámarkslosun tengiltvinnbifreiða sem falla undir ívilnun ákvæðis til bráðabirgða XXIV laga um virðisaukaskatt. Með slíkri lækkun skapast hvati hjá innflutnings- og söluaðilum tengiltvinnbifreiða til innflutnings og sölu á umhverfisvænni tengiltvinnbifreiðum sem styður jafnframt við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.
    Í fjórða lagi er talin nauðsyn á að lögfesta á ný ákvæði til bráðabirgða XXIX í lögum um virðisaukaskatt þess efnis að heimilt verði að fella niður virðisaukaskatt við innflutning á lyfjum sem gefin eru ríkinu eða stofnunum þess til nota við meðferð sjúklinga á heilbrigðisstofnunum, meðal annars vegna klínískra rannsókna hér á landi og COVID-19 sjúkdómsins.
    Í fimmta lagi er nú talið að á árinu 2021 muni áfram eiga við þau rök sem færð voru fyrir auknum endurgreiðsluheimildum samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða XXXIII og XXXIV í lögum um virðisaukaskatt. Vegna þessa er lagt til að ákvæðin verði framlengd til og með 31. desember 2021.
    Í sjötta og síðasta lagi er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem heimilað verður að víkja frá almennum uppgjörsreglum 1. mgr. 13. gr. á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 vegna sölu skattskyldrar þjónustu sem innt er af hendi á grundvelli skriflegra samninga til a.m.k. tveggja ára um fasteignaleigu og a.m.k. sex mánaða um aðstöðuleigu og leigu lausafjármuna. Í kjölfar þess mikla samdráttar sem hefur orðið í hinum ýmsu atvinnugreinum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafa stjórnvöld brugðist með ýmsum aðgerðum, sbr. meðal annars lög nr. 25/2020 og 73/2020. Tillagan er af sambærilegu tilefni og er ætlað að bregðast sérstaklega við því tekjufalli sem leigutakar, sem bundnir eru af samningum til lengri tíma, hafa orðið fyrir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
     1.      Vátryggingastarfsemi verði felld undir undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt með annarri undanþeginni fjármálaþjónustu.
     2.      Kveðið verði skýrar á um undanþágu virðisaukaskatts vegna sölu fjármálaþjónustu og milligöngu um hana. Við afmörkun undanþágunnar verði litið til sambærilegs ákvæðis í norsku virðisaukaskattslögunum (n. merverdiavgiftsloven).
     3.      Gerðar verði breytingar á ákvæðum laga um fjársýsluskatt vegna tillögu um að vátryggingastarfsemi í 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt verði felld undir hugtakið fjármálaþjónusta í 10. tölul. sömu málsgreinar.
     4.      Heimilt verði að endurgreiða skattaðila inneign í virðisaukaskatti þrátt fyrir að innsend skýrsla vegna fyrra uppgjörstímabils sé óafgreidd. Áfram verði þó óheimilt að endurgreiða inneign ef álagning á fyrri uppgjörstímabilum byggir á áætlun ríkisskattstjóra.
     5.      Kveðið verði á um lækkun á hámarki skráðrar losunar koltvísýrings vegna innflutnings eða skattskyldrar sölu tengiltvinnbifreiða sem falla undir ívilnun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV við lög um virðisaukaskatt.
     6.      Ákvæði til bráðabirgða XXIX í lögum um virðisaukaskatt um undanþáguheimild fyrir lyf verði lögfest á ný og gildistími þess verði afmarkaður frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023.
     7.      Ákvæði til bráðabirgða XXXIII og XXXIV í lögum um virðisaukaskatt um auknar endurgreiðsluheimildir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru verði framlengd til og með 31. desember 2021.
     8.      Við lög um virðisaukaskatt bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem miðar að því að bregðast við tekjufalli hjá leigutökum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

3.1. Sala á og milliganga um fjármálaþjónustu.
    Allt frá upptöku virðisaukaskatts hefur þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, verið undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Almennt er slík starfsemi einnig undanþegin virðisaukaskatti í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og í öðrum löndum þar sem virðisaukaskattur hefur verið tekinn upp. Í undanþágunni felst að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af veittri þjónustu sem undir hana fellur. Undanþágan nær hins vegar ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til starfseminnar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi að lögum um virðisaukaskatt er tekið fram að þjónustan sé undanþegin af tæknilegum ástæðum og að undir ákvæðið falli, auk verðbréfamiðlunar, einungis eiginleg banka- og lánastarfsemi. Í lögskýringargögnum er ekki að finna frekari skýringu á undanþáguákvæðinu.
    Almennt er viðurkennt að viðskiptabankar séu undanþegnir virðisaukaskatti af tæknilegum ástæðum með vísan til þess að erfiðleikum sé bundið að ákvarða skattstofninn þar sem megintekjustofn banka grundvallist á vaxtamun, þ.e. mismuni vaxta af inn- og útlánum. Skattyfirvöld hafa við nánari túlkun ákvæðisins sótt skilgreiningu á þjónustu fjármálafyrirtækja til þeirra laga sem um slík fyrirtæki gilda hverju sinni, nú lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þrátt fyrir að verulegar breytingar hafi orðið á löggjöf um fjármálastarfsemi á þeim liðlega þrjátíu árum sem liðið hafa frá gildistöku laga um virðisaukaskatt hafa ekki verið gerðar breytingar á orðalagi ákvæðisins. Þá hafa átt sér stað miklar tæknibreytingar á sviði fjármálaþjónustu og tengdrar starfsemi, svo sem fjártækni. Í þessu ljósi er talið rétt að laga orðalag undanþáguákvæðisins að þeim breytingum sem átt hafa sér stað. Markmið breytingarinnar er þannig að draga úr óvissu og auka skýrleika í skattframkvæmd.
    Í frumvarpinu eru nú lagðar til breytingar á undanþáguákvæðinu og í því sambandi höfð hliðsjón af sambærilegu ákvæði í norsku virðisaukaskattslögunum (n. lov om merverdiavgift frá 19. júní 2009), þar sem kveðið er á um að sala á og milliganga um fjármálaþjónustu sé undanþegin skattskyldusviði laganna. Talið er rétt að líta til Noregs í þessum efnum þar sem Norðmenn eru í sömu stöðu og Íslendingar gagnvart Evrópusambandinu (ESB), þ.e. standa utan sambandsins en eru innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Töluverð framkvæmd hefur jafnframt mótast í Noregi um túlkun ákvæðisins síðustu ár bæði hjá skattyfirvöldum og dómstólum.

3.2. Endurgreiðsla virðisaukaskatts.
    Í 4. mgr. 25. gr. laga um virðisaukaskatt er kveðið á um að hafi virðisaukaskattsskýrslu verið skilað á tilskildum tíma skuli endurgreiðsla á grundvelli hennar fara fram innan tuttugu og eins dags frá lokum skilafrests. Þrátt fyrir þessa reglu má endurgreiðsla þó aðeins fara fram ef skattákvörðun liggur fyrir vegna fyrri tímabila. Tekið er sérstaklega fram í málsgreininni að með skattákvörðun í þessu sambandi sé ekki átt við áætlanir, þ.e. þegar ríkisskattstjóri áætlar skatt af viðskiptum skráðra aðila, í þeim tilvikum þegar þeir senda ekki skýrslur innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu og fylgigögnum er ábótavant, sbr. 2. mgr. 25. gr. og 1.–3. mgr. 26. gr. laganna.
    Endurgreiðsla er því ekki heimil samkvæmt framangreindum ákvæðum ef álagning fyrri tímabila, eins eða fleiri, byggist á áætlun. Endurgreiðsla er jafnframt ekki heimil ef skattákvörðun fyrri tímabila, eins eða fleiri, liggur ekki fyrir þrátt fyrir að skattaðili hafi skilað skýrslu en álagning á grundvelli hennar hefur dregist, sem getur gerst ef flókin og tímafrek mál koma upp við samtímaeftirlit. Dragist endurgreiðsla á grundvelli innsendrar skýrslu fram yfir lögbundinn frest ríkisskattstjóra getur skattaðili átt rétt á greiðslu dráttarvaxta skv. 4. mgr. 28. gr. laganna.
    Í frumvarpinu er nú lagt til að heimilt verði að endurgreiða skattaðila inneign virðisaukaskatts þó að innsend skýrsla vegna fyrra uppgjörstímabils sé óafgreidd. Slík endurgreiðsla verði þó áfram óheimil ef álagning á fyrri uppgjörstímabilum byggist á áætlun ríkisskattstjóra. Breytingin er því ívilnandi fyrir skattaðila en dregur jafnframt úr líkum á því að greiða þurfi dráttarvexti úr ríkissjóði vegna síðbúinnar endurgreiðslu.

3.3. Lækkun á leyfðri losun vegna innflutnings eða skattskyldrar sölu tengiltvinnbifreiða.
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV við lög um virðisaukaskatt er við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki. Á árinu 2020 er tollyfirvöldum samkvæmt ákvæðinu heimilt að fella niður virðisaukaskatt af innflutningi tengiltvinnbifreiðar að hámarki 960.000 kr. en fjárhæðin lækkar í 600.000 kr. á árinu 2021. Þá er skattaðila jafnframt heimilt á árinu 2020 að undanþiggja frá skattskyldri veltu fjárhæð að hámarki 4.000.000 kr. vegna skattskyldrar sölu tengiltvinnbifreiðar en fjárhæðin lækkar í 2.500.000 kr. á árinu 2021.
    Í 2. tölul. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV við lög um virðisaukaskatt kemur fram að skráð losun tengiltvinnbifreiðar skuli vera 50 –60 g eða minna á hvern ekinn kílómetra eftir því hvort koltvísýringslosun hafi verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni, bæði evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni, eða eingöngu samræmdu prófunaraðferðinni. Skráð losun tengiltvinnbifreiðar hefur í meginatriðum staðið óbreytt allt frá setningu ákvæðisins með lögum nr. 69/2012. Í kjölfar breyttra losunargilda var þó gerð breyting á ákvæðinu með lögum nr. 117/2018 þar sem viðmiði heimilaðrar losunar var breytt til samræmis við upptöku nýrra skráningargilda á koltvísýringslosun. Frá upphafi árs 2020 hefur framleiðendum verið skylt að veita einungis upplýsingar um koltvísýringslosun samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Samkvæmt gildandi ákvæði til bráðabirgða XXIV er það skilyrði fyrir veitingu ívilnunar frá virðisaukaskatti að skráð losun tengiltvinnbifreiðar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni sé að hámarki 60 g á hvern ekinn kílómetra.
    Í ljósi markmiða stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 er nú lagt til að heimiluð skráð losun tengiltvinnbifreiða sem falla undir ívilnun ákvæðisins verði lækkuð um 10 g. Af breytingunni leiðir meðal annars að hámark losunar tengiltvinnbifreiða samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni verður 50 g.
Með slíkri lækkun skapast aukinn hvati hjá innflutnings- og söluaðilum til að flytja inn eða selja umhverfisvænni tengiltvinnbifreiðar. Breytingin hefur þannig jákvæð áhrif á þær aðgerðir sem finna má í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Fyrir liggur að mikil þróun hefur átt sér stað síðustu ár í tækni tengiltvinnbifreiða. Í því sambandi má nefna að drægni tengiltvinnbifreiða á hreinu rafmagni hefur aukist til muna síðustu misseri sem leitt hefur til minni losunar á koltvísýringi. Í ljósi þessa er nú talið rétt að gerðar verði breytingar á heimilaðri hámarkslosun koltvísýrings tengiltvinnbifreiða. Ekki er gert ráð fyrir því að breytingin leiði til teljandi fækkunar tengiltvinnbifreiða sem falla undir ívilnun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV við lög um virðisaukaskatt en þó gætu síður umhverfisvænar tengiltvinnbifreiðar í einhverjum tilvikum fallið utan ívilnunar vegna breytingarinnar.

3.4. Innflutningur á lyfjum.
    Með 34. gr. laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, nr. 124/2015, var ákvæði til bráðabirgða XXIX bætt við lög um virðisaukaskatt þar sem lögfest var tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt við innflutning á lyfjum sem gefin voru ríkinu eða stofnunum þess til nota við meðferð sjúklinga á heilbrigðisstofnunum. Ákvæðið gilti til og með 31. desember 2018 en tilefnið var átak ríkisstjórnar, heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi.
    Nú liggja fyrir áform um að Landspítalinn taki þátt í klínískri meðferðarrannsókn á bráðaeitilfrumuhvítblæði í börnum. Með lögfestingu ákvæðisins nú mun þannig meðal annars verða heimilt að fella niður virðisaukaskatt við innflutning á lyfjum sem gefin eru ríkinu eða stofnunum þess til nota við slíkar klínískar rannsóknir hér á landi frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023. Þá liggur fyrir að með breytingunni verður heimilt að fella niður virðisaukaskatt með sama hætti vegna innflutnings á öðrum lyfjum, til að mynda vegna COVID-19 faraldursins.

3.5. Framlenging á gildistíma ákvæða til bráðabirgða XXXIII og XXXIV í lögum um virðisaukaskatt.
    Samkvæmt a- og b-lið 7. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, voru lögfest ákvæði til bráðabirgða XXXIII og XXXIV við lög um virðisaukaskatt þar sem kveðið var á um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði o.fl. Bráðabirgðaákvæðunum var í kjölfarið breytt með 3. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 37/2020 (frekari aðgerðir) og lögum nr. 73/2020, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (endurgreiðsla vegna vinnu á byggingarstað). Heimildir tilvitnaðra ákvæða til bráðabirgða renna að öllu óbreyttu út í árslok 2020. Í kjölfar hinna alvarlegu en þó tímabundnu áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á samfélagið er lagt til að gildistími þeirra verði framlengdur til og með 31. desember 2021.

3.6. Ívilnun vegna leigusamninga.

    Lagt er til að heimilt verði að tilteknum skilyrðum uppfylltum að víkja tímabundið frá ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt. Í ákvæðinu kemur fram sú meginregla að tímamark skattskyldu sé tengt afhendingu, þ.e. að skattskyldum aðilum beri að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti af heildarandvirði afhentrar vöru og þjónustu á gjalddaga þess uppgjörstímabils skv. 24. gr. þegar varan er afhent eða þjónustan innt af hendi, óháð því hvort viðkomandi vara eða þjónusta hefur verið greidd.
    Ábendingar eru um að margir leigutakar, til að mynda aðilar í ferðaþjónustu, sem gert hafa leigusamninga til lengri tíma, hafi ekki getað greitt umsamið leigugjald sökum tekjufalls af völdum efnahagsástands sem skapast hefur af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Á þetta einkum við um leigu atvinnuhúsnæðis þar sem leigusali er skráður svonefndri frjálsri skráningu á virðisaukaskattsskrá skv. 6. gr. laganna, sbr. II. kafla reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu, vegna leigu eða sölu á fasteign. Slík skráning felur í sér að virðisaukaskattur er lagður á leigugjald þrátt fyrir að fasteignaleiga sé almennt undanþegin virðisaukaskatti skv. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Framangreint á einnig við um aðila sem gert hafa samninga til lengri tíma um aðstöðuleigu, t.d. í atvinnuhúsnæði, eða um lausafé, t.d. eignaleigu.
    Við þessar aðstæður hafa aðilar í mörgum tilvikum gert samkomulag um að leigugjald verði fellt niður tímabundið eða greiðslu þess frestað en í öðrum tilvikum samið um að leigan verði lækkuð tímabundið. Þrátt fyrir að leigugjald fáist ekki greitt eða greiðslu þess sé frestað ber leigusölum engu að síður að standa skil á virðisaukaskatti af umsömdu leigugjaldi á gjalddaga hvers tímabils þar sem þeir teljast afhenda þjónustu í formi útleigu frá mánuði til mánaðar samkvæmt afhendingarreglu 1. mgr. 13. gr. laganna. Þá má nefna að yfirskattanefnd hefur staðfest þennan skilning, meðal annars í úrskurði sínum nr. 353/1997. Leigusalar verða því sjálfir að fjármagna greiðslu virðisaukaskattsins við þessar aðstæður. Þessi staða getur leitt til skuldsetningar eða þess að leigusamningi verði rift, með þeim afleiðingum að gengið verði að tryggingum, sem hvort tveggja getur aukið enn frekar á erfiðleika leigusala og leigutaka. Í alvarlegustu tilvikunum getur staðan leitt til þess að rekstrargrundvöllur verði ekki til staðar.
    Vegna eðlis þjónustunnar, sem byggist á leigusamningum til langs tíma, er af framangreindum ástæðum lagt til að þeir aðilar sem afhenda skattskylda þjónustu á grundvelli skriflegra samninga um fasteignaleigu sem ber virðisaukaskatt, skattskylda aðstöðuleigu eða leigu lausafjármuna, verði á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 heimilt að falla frá eða fresta innheimtu og skilum á virðisaukaskatti af þeirri þjónustu. Meginskilyrði fyrir slíkri heimild eru þau að fyrir liggi skriflegur samningur á milli leigusala og leigutaka um að leigugjald verði tímabundið fellt niður eða innheimtu þess frestað á grundvelli þess að leigutaki glími við rekstrarörðugleika vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu.
    Gert er ráð fyrir að eftir lok þessa tímabils skv. 1. mgr., þ.e. frá 1. janúar 2022, taki fyrri samningar gildi að nýju. Verði hins vegar samið um nýtt leigugjald um atvinnuhúsnæði í frjálsri skráningu ber að tilkynna um það til Skattsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmist 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir einkum aðila sem hafa með höndum fjármálastarfsemi eða inna af hendi þjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Þá hefur frumvarpið áhrif á byggingaraðila, einstaklinga, mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir o.fl. sem rétt eiga á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna vegna íbúðarhúsnæðis, mannvirkja o.fl. Frumvarpið hefur áhrif á innflytjendur og söluaðila tengiltvinnbifreiða. Frumvarpið hefur einnig áhrif á innflytjendur lyfja sem gefin eru ríkinu eða stofnunum þess. Loks hefur frumvarpið áhrif á aðila sem gert hafa samninga til lengri tíma um útleigu fasteigna, aðstöðuleigu og leigu lausafjármuna.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við heilbrigðisráðuneytið, Skattinn og Samtök fjármálafyrirtækja. Þá voru áformin jafnframt birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 14. 28. september 2020 (mál nr. S-203/2020). Alls bárust þrjár umsagnir. Niðurstöðuskjal var birt í kjölfarið í samráðsgáttinni. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 23. október til 9. nóvember (mál nr. S-227/2020). Þrjár umsagnir bárust.
    Umsögn barst frá Sambandi íslenskra Sveitarfélaga (SÍS). Í umsögninni er því fagnað að til standi að framlengja endurgreiðsluheimild virðisaukaskatts til sveitarfélaga út árið 2021. Verkefnið hafi haft jákvæð áhrif á framkvæmdir sveitarfélaga sem hafi stutt við atvinnusköpun víða um land. Athugasemdir SÍS beinast að því að ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIII við lög um virðisaukaskatt nái eingöngu til annars húsnæðis en ekki til mannvirkja. Þá vekur SÍS athygli á að jarðvegsvinna teljist ekki hluti af uppbyggingu húsnæðis. Það er mat ráðuneytisins að ekki sé rétt að fella mannvirki undir endurgreiðsluheimild virðisaukaskatts. Í fyrsta lagi liggur fyrir að núverandi ákvæði er samhljóða þeirri heimild sem veitt var sveitarfélögum með lögum nr. 10/2009 og var hluti þeirra ráðstafana sem gripið var til í kjölfar fjármálakreppunnar haustið 2008. Í öðru lagi liggur fyrir að breytingin mundi leiða til ófyrirsjáanlegra útgjalda fyrir ríkissjóð vegna sérstöðu þeirra verkefna sem sveitarfélög hafa með höndum. Sem dæmi um mannvirki, samkvæmt lögum um mannvirki, nr. 160/2010, sem gætu fallið undir ákvæðið eftir þá breytingu sem SÍS leggur til má nefna framkvæmdir við gatnagerð, göngu- og hjólreiðastíga, göngubrýr og fleiri umferðarmannvirki. Slíkar breytingar gengju því mun lengra en núverandi heimildir kveða á um. Í þriðja lagi er bent á að sveitarfélög fá nú þegar endurgreiddan virðisaukaskatt af sérfræðiþjónustu vegna hönnunar mannvirkja samkvæmt almennum reglum þar um, sbr. 3. mgr. 42. gr. laganna. Í fjórða lagi liggur fyrir að virðisaukaskattskerfið er eitt helsta tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Kerfið er almennt ekki hugsað sem tæki eða aðferð til endurgreiðslu virðisaukaskatts umfram það sem leiðir af innra samræmi framkvæmdar í virðisaukaskatti. Breytingin myndi því auka verulega á flækjustig við framkvæmd virðisaukaskatts, leiða til hækkunar á fjárhæðum endurgreiðslna og til fjölgunar á endurgreiðslubeiðnum. Ekki er fallist á það sjónarmið SÍS að rétt sé að útvíkka heimildina og fella jarðvegsvinnu undir endurgreiðsluheimildina. Vísað er til svara við athugasemdum Félags vinnuvélaeigenda vegna þessa.
    Í umsögn frá Félagi vinnuvélaeigenda er þess farið á leit að jarðvinna, þ.e. vinna stjórnenda skráningarskyldra ökutækja, stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla, sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá, á byggingarstað verði felld undir ákvæðið. Í því sambandi er bent á að vinna stjórnenda vinnuvéla á byggingarstað sé sannarlega vinna manna á byggingarstað. Ekki er tekið undir framangreind sjónarmið félagsins um að fella jarðvinnu undir endurgreiðsluheimild virðisaukaskatts. Það er mat ráðuneytisins að slík breyting yrði enda ekki í samræmi við upphaflegan tilgang löggjafans um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði skv. 2. mgr. 42. gr. laganna. Samkvæmt upphaflegu frumvarpi að lögum um virðisaukaskatt var tilgangur löggjafans við setningu ákvæðisins að koma til móts við húsbyggjendur vegna hærri byggingarkostnaðar þar sem vinna iðnaðarmanna á byggingarstað varð virðisaukaskattsskyld þegar lögin komu til framkvæmda hinn 1. janúar 1990 en hafði áður verið undanþegin söluskatti. Sú meðvitaða ákvörðun var því tekin af löggjafanum við setningu laga um virðisaukaskatt að endurgreiðslan næði eingöngu til virðisaukaskatts af beinu vinnuframlagi manna á byggingarstað en ekki til virðisaukaskatts af jarðvegsframkvæmdum vegna vinnu stjórnenda vinnuvéla o.fl. á byggingarstað. Það er mat ráðuneytisins að slík heimild leiddi að öllu óbreyttu til endurgreiðslu virðisaukaskatts umfram það sem leiðir af innra samræmi framkvæmdar virðisaukaskatts.
    Jafnframt barst sameiginleg umsögn frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Samtökin hafa talað fyrir mikilvægi þess að framlengja átakið „Allir vinna“ út árið 2021 og fagna mjög þeim áformum að framlengja ákvæði til bráðabirgða XXXIII og XXXIV í lögum um virðisaukaskatt. Samtökin fara þó fram á að endurgreiðsluheimildin nái einnig til virðisaukaskatts af jarðvinnu, þ.e. vinnu stjórnenda skráningarskyldra ökutækja, stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá, á byggingarstað. Auk þess ítreka samtökin afstöðu sína til útvíkkunar átaksins þannig að það nái til vinnu manna á verkstæði sem tengist byggingu íbúðarhúsnæðis o.fl. Ráðuneytið ítrekar afstöðu sína til þess að ekki sé rétt að útvíkka heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í því sambandi ber líkt og áður segir að hafa það grundvallarsjónarmið í huga að virðisaukaskattskerfið er eitt mikilvægasta tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Of mikil útvíkkun á kerfinu í formi endurgreiðslna eða sérstakra undanþága grefur undan tekjuöflunareiginleikum þess ásamt því að leiða til aukins flækjustigs. Að öðru leyti vísast til svara við athugasemdum Félags vinnuvélaeigenda.

6. Mat á áhrifum.
    Meginefni frumvarpsins er í sex liðum. Fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð eru áætluð alls 9 ma.kr. tekjulækkun.
    Gert er ráð fyrir því að áformaðar breytingar er varða undanþágu fjármálaþjónustu frá virðisaukaskatti leiði til aukins skýrleika í skattframkvæmd að því er varðar fjármálastofnanir og aðila sem selja þeim þjónustu. Ekki er gert ráð fyrir því að breytingin hafi í för með sér fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.
    Sú tillaga sem lýtur að því að heimilt verði að endurgreiða skattaðila inneign á grundvelli virðisaukaskattsskýrslu þrátt fyrir að innsend skýrsla vegna fyrra uppgjörstímabils sé óafgreidd er ívilnandi fyrir skattaðila. Jafnframt er gert ráð fyrir að breytingin dragi verulega úr líkum á að greiða þurfi dráttarvexti úr ríkissjóði dragist endurgreiðsla á grundvelli slíkrar skýrslu fram yfir lögbundinn afgreiðslufrest. Fyrirhuguð breyting hefur að því leyti jákvæð fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.
    Tillaga um að lækka um 10 g heimilað hámark skráðrar losunar tengiltvinnbifreiða sem falla undir ívilnun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV við lög um virðisaukaskatt mun hafa óverulega tekjuhækkun í för með sér fyrir ríkissjóð. Tillagan er til þess fallin að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum og stuðla þannig að framgangi markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.
    Sú tillaga að lögfesta á ný ákvæði til bráðabirgða XXIX þess efnis að heimilt verði að fella niður virðisaukaskatt við innflutning á lyfjum sem gefin eru ríkinu eða stofnunum þess til nota við meðferð sjúklinga á heilbrigðisstofnunum á tímabilinu 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023 er talin hafa óveruleg og tímabundin áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs.
    Tillaga um framlengingu á gildistíma ákvæða til bráðabirgða XXXIII og XXXIV í lögum um virðisaukaskatt til og með 31. desember 2021 er talin hafa neikvæð fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð sem gætu numið 9 ma.kr. Einungis er um að ræða framkvæmdir á árinu 2021 en vegna sex ára frests til að sækja um endurgreiðslu dreifist tekjutap ríkisins á lengri tíma. Áhrifin eru tímabundin. Um er að ræða stuðning við tilteknar tegundir atvinnustarfsemi þar sem byggingarstarfsemi vegur þyngst, en auk þess störf við heimilisaðstoð og reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis og loks viðgerðir, réttingar og sprautun bifreiða. Fleiri karlar en konur stunda þau störf sem hér falla undir. Í byggingarstarfsemi voru 93% starfandi einstaklinga karlar samkvæmt staðgreiðsluskrá á árinu 2019. Í bílgreinum eru karlar einnig í meiri hluta en ekki liggur fyrir kynjaskipting starfa við heimilisaðstoð og reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis. Auk fyrirtækja í viðkomandi greinum og starfsmanna þeirra fellur ávinningur af hinum auknu endurgreiðslum virðisaukaskatts til kaupenda þjónustunnar, þ.e. heimila og sveitarfélaga. Ætla má að konur og karlar njóti þess með sambærilegum hætti.
    Ekki er gert ráð fyrir því að tillaga frumvarpsins er varðar tímabundna niðurfellingu eða frestun á innheimtu og skilum á virðisaukaskatti vegna sölu skattskyldrar þjónustu í formi fasteignaleigu, aðstöðuleigu og leigu lausafjármuna hafi teljandi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð í ljósi þess að í flestum tilvikum er um að ræða virðisaukaskattsskylda aðila sem heimild hafa til þess að færa virðisaukaskatt af leigugjaldi til innskatts.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í a-lið er gerð tillaga um að 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. falli brott. Í töluliðnum kemur fram að „vátryggingastarfsemi“ skuli vera undanþegin virðisaukaskatti. Breytingin er lögð til í ljósi þess að í b-lið 1. gr. er lagt til að vátryggingastarfsemi skuli falla undir hugtakið fjármálaþjónusta. Meginástæða fyrir undanþágu vátryggingastarfsemi frá virðisaukaskatti er sú að slík starfsemi er í eðli sínu alþjóðleg og undanþegin víðast hvar erlendis. Í skattframkvæmd hefur undanþágan verið skýrð á þá leið að hún nái ekki einungis til seldrar þjónustu vátryggingafélaga heldur taki hún einnig til þess þegar vátryggingafélög kaupa þjónustu sem telja verður eðlilegan og nauðsynlegan þátt í vátryggingastarfsemi þeirra og almennt er innt af hendi til eigin nota innan vátryggingafélaganna sjálfra. Sala á tryggingum í umboðssölu hefur meðal annars verið felld undir undanþáguna. Undanþágan er nauðsynleg af samkeppnisástæðum vegna þess að það er vandkvæðum bundið að skattleggja einstakar tryggingar sem innlendir aðilar kunna að kaupa af erlendum vátryggingafélögum. Hið sama gildir um útreikning virðisaukaskatts vegna sölu slíkrar þjónustu líkt og almennt á við um fjármálaþjónustu. Ekki er gerð tillaga um breytingu á efnislegri túlkun hugtaksins vátryggingastarfsemi við yfirfærslu þess í 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar á 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna þar sem kveðið er á um að þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, sé undanþegin virðisaukaskatti. Lagt er til að kveðið verði á um að sala á og milliganga um fjármálaþjónustu verði undanþegin skattskyldu, meðal annars vátryggingastarfsemi og tryggingamiðlun, móttaka innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi, útlánastarfsemi, greiðsluþjónusta, sbr. lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, verðbréfamiðlun og rekstur verðbréfa- og fjárfestingasjóða. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða og geta því aðrir þjónustuþættir sem fela í sér fjármálaþjónustu einnig fallið undir töluliðinn, svo sem veiting ábyrgða og trygginga o.fl. Undir ákvæðið fellur hins vegar ekki sala á og milliganga um eignaleigu lausafjár, þ.e. fjármögnunarleigu, kaupleigu eða rekstrarleigu né heldur til að mynda leigu á greiðsluposum til nota í greiðslukortaviðskiptum og leigu bankahólfa. Sama gildir um ráðagjafarþjónustu, tækniþjónustu og aðra þjónustu sem ekki er veitt í beinum tengslum við sölu fjármálaþjónustu.
    Þar sem undanþágur samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 2. gr. laganna eru frávik frá meginreglu 2. gr. um skattskyldu ber að skýra þær þröngt og ekki rýmri lögskýringu en orðalag þeirra gefur tilefni til. Við nánari afmörkun á hugtakinu fjármálaþjónusta í 10. tölul. samkvæmt þeim breytingum sem hér eru lagðar til og öðrum hugtökum sem þar koma fram ber þó jafnframt að líta til gildandi löggjafar hverju sinni um fjármálaþjónustu, einkum lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005, lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, lög um verðbréfasjóði, nr. 128/2011, lög um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, lög um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, og lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.
    Sala fjármálaþjónustu í skilningi töluliðarins getur verið víðtækari en svo að einstök starfsemi hennar þarfnist starfsleyfis samkvæmt íslenskum rétti. Slík sala getur þó bent til þess að um fjármálaþjónustu sé að ræða sé hún veitt af fjármálafyrirtæki, vátryggingafélagi eða greiðsluþjónustufyrirtæki með starfsleyfi. Með vísan til þessa verður t.d. almennt séð að telja að starfsemi sem fellur undir verðbréfaviðskipti, sbr. 1. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, þ.m.t. ráðgjöf á því sviði, sem veitt er í nánum tengslum við aðalstarfsemi þjónustuveitanda sem hefur fjármálaþjónustu með höndum, geti talist fjármálaþjónusta í skilningi töluliðarins, þótt ekki þurfi starfsleyfi til að stunda hana eina sér samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Við mat á því hvort um sé að ræða fjármálaþjónustu samkvæmt töluliðnum ber því jafnframt að líta til þess hvort fjármálaþjónusta sé aðalstarfsemi þjónustuveitanda eða hvort til að mynda útvistuð þjónusta teljist innt af hendi í beinum tengslum við aðalstarfsemina. Sem dæmi má nefna að ef ráðgjafarstarfsemi aðila er minni hluti veittrar þjónustu hins undanþegna aðila og hún er veitt í beinum tengslum við undanþegna aðalþjónustu fellur slík þjónusta undir undanþáguákvæðið.
    Undanþegin fjármálaþjónusta getur einnig innihaldið hluta af aukaþjónustu sem ein og sér væri álitin virðisaukaskattsskyld. Í slíkum tilvikum verður að skoða sérstaklega hvort um sé að ræða tvo sjálfstæða þjónustuþætti eða hvort aukaþjónustan sé þess eðlis að hún sé í raun órjúfanlegur hluti af veittri aðalþjónustu og þar með undanþegin skattskyldu. Í þessu sambandi ber að hafa hliðsjón af því að það er ekki tilgangur ákvæðisins að undanþiggja starfsemi innan fjármálafyrirtækja sem er skattskyld hjá öðrum aðilum. Það er því skattaðila að sýna fram á að bein tengsl séu á milli veittrar aukaþjónustu og undanþeginnar aðalþjónustu í formi fjármálaþjónustu þannig að telja megi hvort tveggja undanþegið virðisaukaskatti. Þjónustu sem veitt er sem liður í fjármálaþjónustu skal meðhöndla skattalega á sama hátt og fjármálaþjónustu en skilyrði er að aukaþjónustan sé veitt í beinum tengslum við hina undanþegnu aðalþjónustu, þ.e. fjármálaþjónustuna og sé minni hluti hennar. Almennt verður að telja að fjármálaleg ráðgjafarþjónusta, sem viðskiptabankar og aðrar lánastofnanir veita í nánum tengslum við venjulega innláns- og útlánaþjónustu, viðskipti með fjármálagerninga eða aðra hliðstæða fjármálaþjónustu, þ.e. sem viðbótar- eða aukaþjónustu gagnvart slíkri þjónustu, falli undir undanþáguna.
    Undanþága töluliðarins kann einnig að ná til milligöngu um fjármálaþjónustu. Þjónusta milligönguaðila, svo sem aðila sem sinnir greiðsluþjónustu á alþjóðlegum mörkuðum, er undanþegin virðisaukaskattsskyldu þegar hún er órjúfanlegur þáttur í veitingu fjármálaþjónustunnar. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort milligönguaðili komi fram í eigin nafni eða í nafni þess sem hefur með höndum hina undanþegnu fjármálastarfsemi.
    Undir milligöngu fellur hins vegar ekki ráðgjöf, eða önnur skattskyld þjónusta, sem veitt er með sjálfstæðum hætti og án beinna tengsla við hina undanþegnu fjármálaþjónustu. Hins vegar getur milliganga einnig falið í sér blandaða starfsemi, þ.e. þjónustu sem telst vera bæði virðisaukaskattsskyld og undanþegin. Við mat á því hvort þjónusta milligöngumanns sé undanþegin eða ekki í þessu sambandi ber að líta til undirliggjandi hagsmuna og markmiðs með veitingu þjónustunnar hverju sinni. Sem dæmi má nefna að ef þjónustan er veitt í beinum og nánum tengslum við aðalstarfsemi þjónustuveitanda sem hefur með höndum fjármálastarfsemi og milligönguaðili hefur ekki sjálfstæðra hagsmuna að gæta um ákvæði undirliggjandi samnings, milli þjónustuveitanda og kaupanda þjónustu, þ.e. viðskiptavinar, er um undanþegna þjónustu í formi milligöngu að ræða. Ef aftur á móti þjónusta milligönguaðila felur í sér sjálfstæða veitingu þjónustu, svo sem ráðgjafarþjónustu eða aðra sérfræðiþjónustu, án beinna tengsla við aðalstarfsemi þjónustuveitanda, eða milligönguaðili hefur sjálfstæðra hagsmuna að gæta um ákvæði undirliggjandi samnings milli þjónustuveitanda og kaupanda, er um skattskylda milligöngu að ræða. Milliganga er þannig form miðlunar sem getur meðal annars falið í sér aðstoð við þjónustuveitanda um að koma á samningi milli hans og kaupanda, þ.e. viðskiptavinar, án þess að milligönguaðili eigi nokkurra sjálfstæðra hagsmuna að gæta af undirliggjandi skilmálum samningsins milli þjónustuveitanda og kaupanda.

Um 2. gr.

    Með vísan til þess að í b-lið 1. gr. er lagt til að ákvæði 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. flytjist í 10. tölul. sömu málsgreinar er umrædd breyting lögð til.

Um 3. gr.

    Í gildandi ákvæðum 2. og 3. málsl. 4. mgr. 25. gr. er kveðið svo á að endurgreiðsla virðisaukaskatts á grundvelli innsendrar virðisaukaskattsskýrslu, þar sem innskattur er talinn hærri en útskattur, megi því aðeins fara fram að skattákvörðun liggi fyrir vegna fyrri tímabila og að með skattákvörðun í því sambandi sé ekki átt við áætlanir á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. sömu greinar eða 1.–3. mgr. 26. gr. laganna. Samkvæmt beinu orðalagi þessara ákvæða er því óheimilt að inna endurgreiðslu af hendi ef álagning virðisaukaskatts á fyrra uppgjörstímabili eða tímabilum liggur ekki fyrir vegna þess annars vegar, að aðili hefur sætt áætlun, eða hins vegar, ef ekki hefur tekist að ljúka álagningu á grundvelli innsendrar skýrslu á fyrra uppgjörstímabili, svo sem ef um flókið og tímafrekt mál er að ræða sem upp hefur komið við samtímaeftirlit. Í þeirri breytingu sem lögð er til í greininni felst að síðara tilvikið er fellt brott þannig að endurgreiðsla megi fara fram nema í þeim tilvikum að álagning á fyrri uppgjörstímabilum byggist á áætlun. Breytingin er fyrst og fremst ívilnandi fyrir skattaðila.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á heimilaðri skráðri losun tengiltvinnbifreiða, sbr. 2. tölul. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV við lögin. Í fyrsta lagi er lagt til að við innflutning og skattskylda sölu tengiltvinnbifreiðar skuli skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 40 g eða minna á hvern ekinn kílómetra í stað 50 g ef bifreið hafi verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Í öðru lagi er lögð til sú breyting að hafi koltvísýringslosun verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skuli skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 45 g eða minna á hvern ekinn kílómetra í stað 55 g. Hafi koltvísýringslosunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni skuli skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 50 g eða minna á hvern ekinn kílómetra í stað 60 g. Markmið breytingarinnar að lækka losunargildi tengiltvinnbifreiða er að stuðla að innflutningi á umhverfisvænni tengiltvinnbifreiðum í ljósi markmiða og aðgerða íslenskra stjórnvalda sem ætlað er að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er gerð tillaga um að heimilt verði á ný að fella niður virðisaukaskatt við innflutning á lyfjum sem gefin eru ríkinu eða stofnunum þess til nota við meðferð sjúklinga á heilbrigðisstofnunum. Við skilgreiningu á hugtakinu heilbrigðisstofnun ber að líta til laga heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Skilyrði undanþágu samkvæmt ákvæðinu eru að fyrir liggi skrifleg yfirlýsing gefanda, og eftir atvikum innflytjanda, um gjöfina og að af henni megi ráða að lyfin verði afhent án endurgjalds. Á sama hátt skal liggja fyrir skrifleg staðfesting gjafþega á því að um gjöf sé að ræða sem afhent verði án endurgjalds og að lyfin verði notuð við meðferð sjúklinga á heilbrigðisstofnunum. Lagt er til að ákvæðið gildir tímabundið, þ.e. frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að framlengja skuli gildistíma ákvæða til bráðabirgða XXXIII og XXXIV til og með 31. desember 2021. Í fyrrnefnda ákvæðinu er meðal annars kveðið á um að byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis öðlist á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 rétt til endurgreiðslu 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað vegna byggingar, endurbóta eða viðhalds húsnæðisins. Heimildin nær jafnframt til annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þá er einnig kveðið á um samsvarandi hlutfall endurgreiðslu vegna hönnunar og eftirlits með framkvæmdum við íbúðarhúsnæði, heimilisaðstoðar, reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis og bílaviðgerða o.fl. Í ákvæði til bráðabirgða XXXIV er kveðið á um rétt mannúðar- og líknarfélaga, íþróttafélaga, björgunarsveita, æskulýðsfélaga og trú- og lífsskoðunarfélaga til 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts á sama tímabili af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Líklegt er að rökin sem færð voru fyrir hinum auknu endurgreiðsluheimildum muni áfram eiga við á árinu 2021. Út frá því er talið æskilegt að hvetja sérstaklega til framkvæmda, viðhalds og umhirðu við eignir heimila, þ.e. íbúðar- og frístundahúsnæði og bifreiðir, sem og húsnæði sveitarfélaga og aðila sem starfa að almannaheillum. Í ljósi þessa er lagt til að gildistími ákvæðanna verði framlengdur til og með 31. desember 2021.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að vikið verði tímabundið frá afhendingarreglu 1. mgr. 13. gr. þannig að á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 verði heimilt að falla frá eða fresta innheimtu og skilum á virðisaukaskatti vegna sölu skattskyldrar þjónustu sem innt er af hendi á grundvelli skriflegra samninga til a.m.k. tveggja ára um fasteignaleigu sem ber virðisaukaskatt og til a.m.k. sex mánaða um aðstöðuleigu og leigu lausafjármuna.
    Þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að framangreind heimild fáist eru talin upp í þremur stafliðum. Meginskilyrði fyrir slíkri heimild, sbr. a-lið, er að leigutaki glími við rekstrarörðugleika vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru. Þetta skilyrði er í samræmi við tilefni og tilurð annarra laga sem sett hafa verið vegna áhrifa heimsfaraldurs af völdum kórónuveirunnar, t.d. lög nr. 25/2020 og lög nr. 73/2020.
    Í b-lið er kveðið á um það skilyrði að fyrir þurfi að liggja skriflegur samningur milli leigusala og leigutaka um tímabundna niðurfellingu leigugjalds eða um tímabundna frestun á innheimtu þess vegna rekstrarörðugleika leigutaka, sbr. a-lið. Í ákvæðinu er svo að finna lágmarkskröfur til efnisatriða samnings og í þeim efnum vísast til þess sem þar kemur fram. Samkvæmt lokamálslið b-liðar skal leigusali senda afrit samnings til Skattsins með skilum á virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga þess tímabils þegar samningur er undirritaður. Skil á virðisaukaskattsskýrslum eru rafræn og er unnt að senda samning sem viðhengi með þeim.
    Í c-lið er að finna ákvæði sem afmarkað er við leigusamninga um fasteignir. Eins og fram hefur komið er fasteignaleiga almennt undanþegin virðisaukaskatti en fáist heimild til frjálsrar skráningar skal virðisaukaskattur lagður á leigugjald. Slík skráning er því grundvöllur fyrir því að fasteignaleiga beri virðisaukaskatt. Skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign, er kveðið á um að frjáls skráning geti aldrei verið til skemmri tíma en tveggja ára.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði um valkvæð tímamörk uppgjörs þegar innheimtu leigugjalds hefur verið frestað á grundvelli samnings skv. b-lið 1. mgr. Fram kemur að uppgjör virðisaukaskatts af leigugjaldinu skuli fara fram með skilum á virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga næsta uppgjörstímabils eftir að samkomulagið fellur úr gildi en í síðasta lagi 5. febrúar 2022.

Um 8. og 9. gr.

    Lagðar eru til afleiddar breytingar á lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, vegna þeirra breytinga sem gerðar eru tillögur um í a-lið 1. gr. þess efnis að vátryggingastarfsemi skuli falla undir hugtakið fjármálaþjónusta. Með breytingunum er vísun til 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt því felld brott og þess í stað vísað til 10. tölul ákvæðisins. Að öðru leyti er ekki um efnislega breytingu að ræða.

Um 10. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku. Lagt er til að 7. gr. sem lýtur að ívilnun vegna skriflegra leigusamninga öðlist strax gildi. Lagt er til að önnur ákvæði frumvarpsins öðlast gildi þann 1. janúar 2021.