Ferill 248. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 504  —  248. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerður K. Gunnarsdóttir um endurskoðun þjóðaröryggisstefnu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða ákvarðanir hefur þjóðaröryggisráð tekið til þess að endurskoða þjóðaröryggisstefnuna fyrir 2021, sbr. 11. tölul. í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland?

    Með hliðsjón af efni fyrirspurnarinnar var haft samráð við þjóðaröryggisráð við vinnslu eftirfarandi svars forsætisráðherra.
    Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, skal þjóðaröryggisráð stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Er hér átt við heildarendurskoðun stefnunnar en ráðið getur þess á milli lagt til við Alþingi breytingar á einstökum þáttum stefnunnar sem kunna að vera aðkallandi með skemmra millibili, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
    Þjóðaröryggisráð hefur haldið átta reglulega fundi á tímabilinu 2017–2019 þar sem fjallað hefur verið um þau þjóðaröryggismál sem efst eru á baugi hverju sinni, mál er varða framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og mál sem kunna að hafa áhrif á stefnuna og framkvæmd hennar.
    Þjóðaröryggisráði er ætlað að hafa eftirlit með að framkvæmd stefnunnar sé í samræmi við ályktun Alþingis. Ráðið gaf út sína fyrstu lögbundnu skýrslu um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland í október 2018. Stofnað var til víðtæks samráðs innan stjórnkerfisins við vinnslu skýrslunnar og kallað var eftir greinargerðum hlutaðeigandi ráðuneyta um hvernig staðið hefði verið að framkvæmd þeirra stjórnarmálaefna sem undir þau heyra og þjóðaröryggisstefnan tekur til.
    Skýrslan var send Alþingi til upplýsingar með bréfi, dags. 1. nóvember 2018, en sú skylda hvílir á þjóðaröryggisráði að upplýsa Alþingi árlega um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Er nú að hefjast önnur úttekt ráðsins vegna framkvæmdar þjóðaröryggisstefnu á árinu 2019.
    Það er enn fremur lögbundið hlutverk þjóðaröryggisráðs að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum. Í því sambandi er stýrihópur að störfum í umboði þjóðaröryggisráðs, sem hefur það hlutverk að undirbúa matstillögu til þjóðaröryggisráðs um ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum. Markmið verkefnisins er að leggja fram áreiðanlegt og hlutlægt mat á ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum, sem stjórnvöld geti síðan lagt til grundvallar við stefnumótun og áætlanagerð í þeim efnum. Matið á að endurspegla þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem fram kemur í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland frá árinu 2016 og áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009. Unnið er að gerð tillögunnar í víðtæku samráði við þá aðila innan stjórnkerfisins sem hafa því lagalega hlutverki að gegna að annast hættumat á tilteknum sviðum. Þá er horft til reynslu annarra ríkja í þessu sambandi. Stefnt er að því að mat þjóðaröryggisráðs um ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum liggi fyrir undir lok árs 2019.
    Þjóðaröryggisráð tekur ekki formlega ákvörðun um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar, enda er stefnan sett af Alþingi, sbr. þingsályktun nr. 26/145, um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Á hinn bóginn eru framangreindar ákvarðanir þjóðaröryggisráðs um verklag við eftirlit með framkvæmd stefnunnar og mat ráðsins á ástandi og horfum í öryggis- og varnarmálum til þess fallnar að stuðla að því að tillögur ráðsins til Alþingis um þörf á endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, byggist á áreiðanlegum og hlutlægum grunni. Stefnt er að því að hefja undirbúning tillagna þjóðaröryggisráðs um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar þegar mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í öryggis- og varnarmálum hefur verið kynnt svo að Alþingi geti að því loknu tekið upplýsta ákvörðun um endurskoðun stefnunnar, sbr. 11. tölul. þingsályktunar nr. 26/145, um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.