Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 498. máls.

Þingskjal 640  —  498. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara (breyting á hlutfalli af álagningarstofni).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „0,03%“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,0343%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram með hliðsjón af frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013. Lögð er til breyting á 1. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara þar sem breyta þarf því hlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laganna sem þar kemur fram. Með 1. mgr. 5. gr. laganna er lagt til grundvallar að allir gjaldskyldir aðilar skuli greiða sama hlutfall af álagningarstofni skv. 4. gr., sem eru öll útlán viðkomandi aðila í lok árs miðað við ársreikning, sbr. 1. og. 2. mgr. 4. gr. Með fyrirkomulagi þessu er leitast við að tryggja sanngjarna skiptingu rekstrarkostnaðar á milli gjaldskyldra aðila með hliðsjón af umfangi útlána hvers og eins aðila á því tímabili sem tilgreint er í 4. gr. laganna. Þannig ber sá gjaldskyldi aðili sem hefur hæst hlutfall útlána af heildarútlánum allra gjaldskyldra aðila á viðkomandi tímabili mestan kostnað vegna reksturs umboðsmanns skuldara. Sá gjaldskyldi aðili sem hefur lægst hlutfall útlána ber að sama skapi minnstan kostnað vegna rekstursins. Er þá miðað við fjárhæðir útlána en ekki fjölda þeirra.
    Samkvæmt 2. gr. laganna skal umboðsmaður skuldara gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta almanaksárs. Í skýrslunni skulu m.a. koma fram upplýsingar um það hlutfall sem gjaldskyldir aðilar skulu greiða af álagningarstofni skv. 5. gr. laganna. Enn fremur segir í 2. gr. laganna segir að skýrslunni skuli fylgja álit samráðsnefndar gjaldskyldra aðila skv. 3. gr. laganna ásamt afstöðu stofnunarinnar til þess álits. Þá er mælt fyrir um að gefi niðurstaða skýrslu umboðsmanns skuldara tilefni til að breyta því hlutfalli af álagningarstofni sem gjald er miðað við skuli ráðherra, telji hann þörf á slíkum breytingum í ljósi fyrirliggjandi gagna, leggja frumvarp fyrir Alþingi þar sem lögð er til breyting gjalds skv. 5. gr. laganna. Að teknu tilliti til skýrslu umboðsmanns skuldara um áætlaðan rekstrarkostnað embættisins árið 2013, álits samráðsnefndar gjaldskyldra aðila um skýrsluna og afstöðu umboðsmanns skuldara til þess álits, sem borist hafa ráðherra í samræmi við 2. gr. laganna, er lagt til að hlutfallið af álagningarstofni skv. 4. gr. laganna sem tilgreint er í 1. mgr. 5. gr. laganna hækki úr 0,03% í 0,0343%. Er þá miðað við að fjárheimildir umboðsmanns skuldara vegna rekstrarársins 2013 verði samtals 944.600.000 kr. Í samræmi við 7. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara er við ákvörðun á hlutfalli af álagningarstofni jafnframt tekið mið af áætlaðri rekstrarafkomu ársins 2012 en þar er gert ráð fyrir rekstrartapi að fjárhæð 247.370.662 kr. Er því áætlað að 0,0343% af álagningarstofni skv. 4. gr. laganna nemi samtals 1.191.970.662 kr.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara (breyting á hlutfalli af álagningarstofni).

    Í frumvarpinu er lagt til að gjald til reksturs umboðsmanns skuldara verði hækkað úr 0,03% í 0,0343% af álagningarstofni fyrir rekstrarárið 2013. Gjald fyrir komandi ár er lagt á álagningarstofn sem er öll útlán gjaldskyldra aðila í lok ársins 2011 miðað við ársreikninga þeirra, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu.
    Í lögunum er kveðið á um að fyrir 1. júlí ár hvert skuli umboðsmaður skuldara gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta almanaksárs og að skýrslunni skuli fylgja álit samráðsnefndar gjaldskyldra aðila ásamt afstöðu stofnunarinnar til þess álits. Lögin kveða jafnframt á um að verði rekstrarafgangur eða rekstrartap af starfsemi umboðsmanns skuldara skuli tekið tillit til þess við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta álagðs gjalds skal ráðherra, telji hann þörf á breytingum, leggja frumvarp þess efnis fyrir Alþingi. Fyrrgreind skýrsla barst velferðarráðuneytinu ekki fyrr en 2. nóvember en frumvarpið tekur að hluta til mið af henni og þá einkum hvað varðar gjaldtöku til að mæta rekstrartapi fyrri ára.
    Verði frumvarpið lögfest er áætlað að tekjur af gjaldi til reksturs umboðsmanns skuldara verði um 1.192 m.kr. á árinu 2013. Tekjur þessar færast á tekjuhlið ríkissjóðs og er þeim ætlað að standa straum af 944,6 m.kr. rekstrarkostnaði umboðsmanns skuldara á árinu 2013 og 247,4 m.kr. rekstrarhalla fyrri ára.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að 774,6 m.kr. fjárheimild verði veitt til reksturs stofnunarinnar á árinu. Sú fjárheimild tekur mið af 170 m.kr. áformuðum samdrætti í rekstrarútgjöldum stofnunarinnar í samræmi við áætlanir sem lágu til grundvallar fjárlögum 2012 en þar var gert ráð fyrir því að dregið yrði úr starfsemi stofnunarinnar á síðari hluta ársins 2012 og enn frekar á árinu 2013. Fjárheimildin tók einnig mið af 108,4 m.kr. hagræðingu sem gert er ráð fyrir að verði í starfsemi stofnunarinnar samkvæmt útfærslu velferðarráðuneytisins á aðhaldsmarkmiðum fjárlagafrumvarpsins, auk 3 m.kr. í launa- og verðlagsbætur. Þessar áætlanir hafa verið endurmetnar og miðað er við að fallið verði frá fyrrgreindum 170 m.kr. samdrætti í starfsemi stofnunarinnar á næsta ári þar sem fyrri áætlanir um að draga úr umfangi stofnunarinnar á síðari hluta ársins 2012 og árinu 2013 hafa ekki gengið eftir. Samsvarandi tillaga um 170 m.kr. hækkun á fjárheimild stofnunarinnar er flutt við 2. umræðu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013.
    Áætlað er að lögfesting frumvarpsins leiði til 417,4 m.kr. hækkunar á tekjum ríkissjóðs af gjaldi á lánastofnanir til reksturs umboðsmanns skuldara og að heildartekjur af gjaldinu á árinu 2013 verði um 1.192 m.kr.