Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 561. máls.

Þskj. 949  —  561. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Gildissvið og orðskýringar.


    Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki þar um.
    Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Almenningur: Sá hluti vatns sem liggur fyrir utan netlög landareigna.
     2.      Áveita: Mannvirki sem er notað til þess að veita vatni á land.
     3.      Bakki: Fast takmark á farvegi straumvatns, legi stöðuvatns eða strandsjávarbotns, svo sem klettar, gróið land eða eyrar sem vatn fellur ekki yfir í meðalvexti eða sjór við meðalstórstraumsflóð.
     4.      Búsþarfir: Notkun vatns við búrekstur og annan atvinnurekstur á sviði landbúnaðar með réttindum og skyldum samkvæmt ábúðarlögum.
     5.      Eignarland: Landsvæði, þ.m.t. innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi lands fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
     6.      Farvegur: Vatnsleg sem vatnsfall rennur eftir, hvort heldur af manna völdum eða náttúru.
     7.      Fasteign: Afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
     8.      Háflæði: Mesta rennsli eða hækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð.
     9.      Heimilisþarfir: Þarfir til venjulegs heimilishalds.
     10.      Iðja: Iðnaður, annar en handiðn.
     11.      Landareign: Fasteign, þ.e. afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
     12.      Lágflæði: Minnsta rennsli eða lækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð.
     13.      Mannvirki: Hvers konar framkvæmdir og manngerðir hlutir sem skeytt er við fasteign, þ.m.t. í, við eða yfir vatni, t.d. hús, brú, girðing, virkjun eða stíflugarður.
     14.      Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
     15.      Merkivatn: Vatn það sem ræður landamerkjum.
     16.      Miðlunarlón: Stöðuvatn sem er manngert að öllu leyti eða hluta og rennsli er stýrt í og/eða úr.
     17.      Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns eða vatnsfalls sem fasteign liggur að.
     18.      Orkunýting: Hvers konar hagnýting vatns samkvæmt lögum þessum til framleiðslu á orku, fyrst og fremst raforku.
     19.      Orkuver: Land eða lóð, hús og önnur mannvirki, ásamt tækjum til afnota við orkuvinnslu eða breytingar einnar tegundar orku í aðra.
     20.      Rennsli: Hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.
     21.      Straumvatn: Yfirborðsvatn sem í er greinilegur straumur þegar enginn vöxtur er í því.
     22.      Stöðuvatn: Vatn sem sýnist slétt í logni og straumlaust að sjá enda þótt flætt geti gegnum það.
     23.      Vatnsból: Mannvirki, t.d. brunnar, eða virkjaðar lindir, eða náttúruleg vatnsleg þar sem vatn er tekið eða nytjað á staðnum.
     24.      Vatnsfall: Rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að breytilegur sé eftir tíma og stað, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við.
     25.      Vatnsflæði: Rennsli vatns sem vatnsmagn á tímaeiningu, í l/sek eða m 3/sek.
     26.      Vatnsleg: Lægð í landi, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs.
     27.      Vatnsmiðlun: Geymsla á vatni til þess að breyta náttúrulegu vatnsmagni vatnsfalls eða til stýringar á rennsli vatns.
     28.      Vatnsnýting: Vatnstaka, veiting eða virkjun vatns til heimilis- eða búsþarfa, í arðsemisskyni eða til að verja fasteign spjöllum.
     29.      Vatnsveita: Mannvirki til að flytja vatn til notenda.
     30.      Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.

2. gr.

    Fyrirsögn I. kafla laganna orðast svo: Gildissvið og orðskýringar.

3. gr.

    2. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Vatnsréttindi.


    Landareign hverri, þ.m.t. þjóðlendu, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er á þann hátt sem lög þessi heimila.
    Landeigendur sem hafa aðgang að sama vatni eiga sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Númer málsgreina falla brott og skulu málsgreinar hvarvetna annars staðar í lögunum vera ónúmeraðar.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Merki landareigna í lækjum og ám.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Nú fylgja fasteign eyjar, hólmar eða sker fyrir landi annarrar fasteignar, og er sundið mjórra en 230 metrar, og ræður þá miðlína sundsins merkjum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
              Reglur um merki við stöðuvötn gilda einnig um miðlunarlón eftir því sem við getur átt.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Merki landareigna við stöðuvötn.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sama megin“ kemur „sömu megin“.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Landamerki milli fasteigna sem liggja að vatni sömu megin.

7. gr.

    6. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Réttur til vatns þegar merkivötn skilja fasteignir.


    Þar sem merkivötn skilja fasteignir er hvorri rétt að nota vatnið að jöfnu eftir þörfum sínum. Dreifist vatn þannig í farvegi að ekki skiptist til helminga um miðlínu skal hvorri fasteign þó fylgja jafn réttur til vatnsins.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      A-liður 2. mgr., sem verður 1. tölul. 2. mgr., orðast svo: að breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð.
     b.      B-liður 2. mgr. verður 2. tölul. 2. mgr.
     c.      Í stað orðanna „að veita vatni úr landi sínu í annarra land“ í c-lið 2. mgr., sem verður 3. tölul. 2. mgr., kemur: að veita vatni af einni fasteign á fasteign annarra.
     d.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Forn farvegur.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef til þess þarf afnot af annarri fasteign eru þau heimil en þá getur eigandi þeirrar fasteignar krafist bóta fyrir tjón og óþægindi sem verkið bakar honum. Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur getur ráðherra heimilað eignarnám í þessu skyni.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag.

10. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Fara skal um jarðvatn, hveri, laugar, ölkeldur, regnvatn og leysingavatn, er á landareign safnast, lindir, dý, tjarnir og slík minni háttar vötn sem ekki hafa stöðugt afrennsli ofanjarðar svo sem hér segir, enda sé ekki önnur lögmæt skipun á gerð. Um hveri, laugar og ölkeldur gilda þó þær takmarkanir að landeiganda er óheimilt að spilla slíkum náttúrufyrirbærum á landi sínu, hvort sem það er með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti nema það sé nauðsynlegt talið til varnar því landi eða landsnytjum að fengnu leyfi Orkustofnunar.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Nú verður breyting á farvegi, vatnsflæði eða vatnsmagni af völdum náttúrunnar eða þriðja manns, og verður þeim mein að sem land eiga að, og skal þeim þá rétt að færa vatnið í samt lag en gera skal það innan árs frá lokum þess árs er breytingin varð. Ef til þess þarf afnot af annarri landareign eru þau heimil að fengnu leyfi Orkustofnunar en þá getur eigandi þeirrar fasteignar krafist bóta fyrir tjón og óþægindi sem verkið bakar honum. Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur getur ráðherra heimilað eignarnám í þessu skyni.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Minni háttar vötn.

11. gr.

    10. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðgangsröð að vatni á landareign.


    Aðgangsröð að vatni er þessi eftir mikilvægi:
     1.      heimilisþörf,
     2.      búsþörf,
     3.      þörf atvinnurekstrar á landareigninni, annars en búrekstrar, svo sem iðnaðar og iðju,
     4.      áveituþörf,
     5.      orkuþörf.

12. gr.

    11. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Réttur til vatnstöku til heimilis- og búsþarfa og til sunds og baða.


    Öllum er heimilt að taka vatn til heimilisþarfa og bús þar sem landeiganda er meinlaust, svo og að nota vatn til sunds og baða, enda fari það eigi í bága við lög, samþykktir eða annað lögmætt skipulag.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Vatnstaka á eigin landareign.

14. gr.

    13. gr. laganna fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Frágangur brunna og annarra vatnsgeyma.

15. gr.

    14. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skylda til þátttöku í vatnsveitu, áveitu, vatnsmiðlun
eða vörnum gegn vatnságangi.

    Nú eiga menn fasteign í sameign og vill meiri hluti stofna til vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa á eigninni, koma þar á fót samáveitu, stofna til vatnsmiðlunar eða verjast ágangi vatns og getur þá sá eða þeir sem eiga meiri hluta fasteignarinnar ákveðið að ráðast í framkvæmdir, enda er hinum þá skylt að taka tiltölulegan þátt í kostnaði öllum af þeim ef talið verður að fasteigninni muni verða meira hagræði af framkvæmdunum en kostnaðinum nemur.

16. gr.

    15. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Leyfi til að skilja vatnsréttindi frá landareign og skipting
vatnsréttinda við sölu hluta landareignar.

    Ekki má skilja við landareign vatnsréttindi til heimilis- og búsþarfa nema með leyfi Orkustofnunar.
    Nú eru vatnsréttindi framseld án þess að eignarréttur að landareign sé jafnframt framseldur og fer þá um réttarvernd þeirra samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga er varða fasteignir.
    Nú er framseldur hluti landareignar sem liggur að vatni eða á og eru vatnsréttindi innifalin í kaupunum nema öðruvísi sé kveðið á um. Þó skal sá hluti landareignar sem eftir stendur hafa næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar þeim.
    Ef sameignarlandi er skipt skulu hverjum eignarhluta fylgja, svo sem frekast er kostur, næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar þeim.

17. gr.

    16. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Ráðstöfunarheimildir opinberra aðila.


    Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu þeirra er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti rétt til umráða og hagnýtingar á því vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 10 MW.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem er alfarið í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og er sérstaklega stofnað til að fara með eignarhald þessara réttinda.
    Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.
    Við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skal gæta jafnræðis. Þá skal gæta þess að ákvörðunin stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlindanna og fjárfestinga í mannvirkjum.
    Forsætisráðherra skal semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins skv. 3. mgr. Um ráðstöfun og endurgjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum fer samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi.

18. gr.

    17. gr. laganna fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju.

19. gr.

    18. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Ef vatn er of lítið til að fullnægja þörfum skv. 17. gr.


    Nú er vatn of lítið til að fullnægja þeim þörfum sem í 17. gr. segir og á þá hver sú landareign sem tilkall hefur til þess vatns sama tilkall til vatnsins eftir þörfum sínum. Um rétthæð einstakra vatnsnota vísast til 10. gr.
    Ef vatn sem veitt er um sömu veitutæki er notað til að fullnægja fleiri en einni af þeim þörfum sem í 1. mgr. segir skal fara um það vatn sem það væri allt haft til að fullnægja rétthæstu þörfinni.

20. gr.

    19. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    24. gr. laganna fellur brott.

22. gr.

    25. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Heimild sveitarstjórnar til vatnsveitugerðar.


    Sveitarstjórn er rétt að taka það vatn sem hún þarf til vatnsveitu úr brunnum, uppsprettum eða vötnum í landareignum annarra manna, enda séu þær ekki sviptar því vatni sem þeim er metið nauðsynlegt til þeirra þarfa sem í þessum kafla getur, nema þeim sé séð fyrir því með öðrum hætti, þeim ekki óhagfelldari.
    Rétt er eiganda eða öðrum rétthafa þeirrar landareignar sem vatn er tekið úr skv. 1. mgr. að leggja til sín og á sinn kostnað vatnsæðar úr vatnsveitu sveitarfélagsins, enda greiði hann aukakostnað af því, nema öðruvísi semji.
    Haga skal vatnsveitu svo að spjöll verði sem minnst vegna hennar. Ef spjöll verða skal bæta þau að fullu.

23. gr.

    26. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skylda landeiganda til að láta af hendi land


og landsafnot til vatnsveitugerðar.

    Skylt er manni að láta af hendi land sitt og landsafnot hvar sem er og hvenær sem er í þarfir vatnsveitu sveitarfélags, svo og mannvirki, og að þola þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem vatnsveitan kann að hafa í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir.
    Ef nauðsynlegt þykir til þess að koma í veg fyrir mengun vatns sem tekið er til vatnsveitu handa sveitarfélagi, þá er mönnum jafnskylt að láta af hendi land og láta í té landsafnot og mannvirki, svo og að þola eignarkvaðir, óhagræði og takmarkanir sem í 1. mgr. segir, gegn fullum bótum.

24. gr.

    27. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Eignarnámsheimild o.fl.


    Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur vegna þeirra þarfa sem greinir í 25. og 26. gr. getur ráðherra heimilað eignarnám.
    Um vatnsveitur sveitarfélaga fer að öðru leyti samkvæmt lögum sem um þær gilda á hverjum tíma.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Nú vilja aðrir en sveitarfélög koma sér upp vatnsveitu til að fullnægja þörfum sínum á vatni skv. 17. gr. og geta þá eigendur þeirra fasteigna sem nota ætla vatnsveituna gert með sér félag er nefnist vatnsveitufélag. Um félagið fer eftir ákvæðum XI. kafla, að því leyti sem fyrirmæli þessa kafla taka ekki til þess.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Að öðru leyti skal fara eftir ákvæðum 25.–27. gr. og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga eftir því sem við getur átt.
     d.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Vatnsveitufélag.

26. gr.

    30. gr. laganna fellur brott.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Orðin „eftir mati, nema samkomulag verði“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Eigandi fasteignar eða annar rétthafi má gera brunn eða annað vatnsból í landi annars manns ef svo er ástatt sem í 1. mgr. segir.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Réttur til þess að afla sér vatns af fasteign annars manns.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      2. mgr. fellur brott.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                 Beita má ákvæðum 2. mgr. 25. gr. ef vatn er tekið skv. 1. mgr. þessarar greinar.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Taka vatns af fasteign annars manns í vatnsveitu til þarfa eigin fasteignar skv. 17. gr.

29. gr.

    33. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Eignarnámsheimild.


    Náist ekki samningar um framkvæmdir og/eða bætur vegna þeirra þarfa sem greinir í 31. og 32. gr. getur ráðherra heimilað eignarnám.

30. gr.

    34. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Síðari þátttaka í vatnsveitu.


    Hverjum þeim sem ekki hefur í öndverðu tekið þátt í vatnsveitu samkvæmt þessum kafla er rétt að gera það síðar, enda verði það metið að vatn sé til þess nægilegt og að það valdi eiganda veitunnar ekki verulegu óhagræði að öðru leyti. En hlíta skal hann þeim ákvæðum sem sett eru eða sett verða um notkun vatnsins og meðferð veitunnar. Svo skal hann og greiða endurgjald fyrir vatnsnotin.

31. gr.

    35. gr. laganna fellur brott.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „(15. gr. a–b)“ kemur: sbr. 1.–3. tölul. 10. gr.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Hagnýting vatns í áveituskyni.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður greinarinnar fellur brott.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Ef merkivötn skilja landareignir.

34. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „(15. gr. a–b)“ í 1. málsl. kemur: sbr. 1.–3. tölul. 10. gr.
     b.      2. málsl. fellur brott.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Réttur til áveitu fylgir landareign.

35. gr.

    39. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðgangur að vatni og landi annars manns til áveituþarfa.

    Nú er ekki nógu mikið, nógu gott eða nógu auðtekið vatn fyrir hendi innan landareignar til áveitu á hana sjálfa og er þá eiganda hennar eða öðrum rétthafa rétt að krefjast áveituvatns eftir þörfum úr öðrum landareignum, með þessum takmörkunum:
     1.      að enginn sé fyrir það sviptur vatni til þarfa skv. 17. gr. né neinum bakaðir óhæfilegir erfiðleikar um útvegun slíks vatns, né því spillt fyrir neinum svo að veruleg óþægindi séu að,
     2.      að ekki þurfi að nota sama vatn til áveitu á þá landareign sjálfa sem vatnið er tekið í, nema arður af notkun þess til áveitu þar yrði mun minni en arður af notkun þess til þeirrar áveitu utan landareignarinnar sem vatnsins er krafist til.
    Ef taka vatns er heimil samkvæmt þessari grein en talið er að af henni stafi auknir erfiðleikar um útvegun vatns til þarfa skv. 17. gr. eða spjöll á því vatni eða skaði að vatnstökunni að öðru leyti þá skulu koma fullar bætur fyrir.
    Með sama hætti og greinir í 1. mgr. eru manni heimil afnot af landi annars manns til að koma upp, halda við eða starfrækja áveitu. Ef tjón það sem verkið í heild sinni bakar öðrum en áveitueiganda er metið mun minna en hagnaður sá sem áveitueigandi hefur af því, og ekki er talið hallkvæmara að framkvæma verkið með öðrum hætti en til er stofnað, skulu landsafnotin heimiluð, en meta skal fullar bætur fyrir.
    Ef ekki nást samningar um framkvæmd og/eða bætur samkvæmt þessari lagagrein getur ráðherra heimilað eignarnám.

36. gr.

    40. gr. laganna fellur brott.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Nú telur einhver sér mein að áveitu annars manns og samkomulag næst ekki og getur þá sá er telur sig verða fyrir skaða krafist bóta. Nú verður talið að skaði sé að áveitunni fyrir viðkomandi, en þó mun minni þeim hag sem hinn hefur af henni, og skal áveitan þá engu síður heimil, en fullar bætur koma fyrir.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ef ekki nást samningar um framkvæmd og/eða bætur skv. 2. mgr. getur ráðherra heimilað eignarnám.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Tillitsskylda.

38. gr.

    42. gr. laganna fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Áveitufélag.

39. gr.

     43. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Óhagræði eða takmarkanir vegna samáveitu.


    Þegar löggilt áveitusamþykkt hefur verið sett eru allir landeigendur og aðrir rétthafar á því svæði sem áveitunni er ætlað að ná til skyldir að leyfa landsafnot til mannvirkja er áveituna varða, svo sem land undir skurði og efni úr landinu, hvort sem er grjót eða önnur jarðefni, í fyrirhleðslur, garða, stíflugerðir eða umbúnað skurða o.s.frv., og yfir höfuð að þola allar þær kvaðir, óhagræði eða takmarkanir sem áveitan hefur í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir. Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur getur ráðherra heimilað eignarnám í þessu skyni.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður greinarinnar fellur brott.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Kostnaður af samáveitu.

41. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Ef einhver vill gerast þátttakandi í samáveitu eftir að henni hefur verið komið á, með þeim hætti að hann fái vatn til áveitu á land sitt, þá á hann rétt til þess verði það talið bagalaust.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Síðari þátttaka í samáveitu.

42. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      2. og 3. mgr. falla brott.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Nánar um kostnað af samáveitu.

43. gr.

    47. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Lögveð til handa áveitufélagi.

    Greiði eigandi einhverrar þeirrar landareignar sem áveita á að ná til samkvæmt samþykkt ekki hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði eignast áveitufélag lögveð í fasteign hans til tryggingar kröfunni. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta.

44. gr.

    48. gr. laganna fellur brott.

45. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fallvatn“ í 2. mgr. kemur: vatnsfall.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Orkunýtingarréttur landeiganda.

46. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
     a.      Orðin „enda séu ekki gerðar skemmdir á landi annarra manna um nauðsyn fram“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                   Ef nauðsyn þykir á vera getur ráðherra heimilað eignarnám.
     c.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Heimild til framkvæmda.

47. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 51. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „rennsli“ í 2. mgr. kemur: vatnsflæði.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Merkivötn skilja fasteignir.

48. gr.

    52. gr. laganna fellur brott.

49. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Nú eiga menn í félagi, í öðrum tilvikum en þegar merkivötn skilja fasteignir, tilkall til orku úr sama vatnsfalli og verða þeir ekki ásáttir hvernig það skuli notað til orkuvinnslu og getur þá ráðherra með eignarnámi heimilað að þeir sem eiga tilkall til meira en helmings vatnsorkunnar, talinnar eftir vatnsflæði og fallhæð, leysi til sín tilkall minni hlutans.
     b.      Í stað orðsins „fallvatnsins“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: vatnsfallsins.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „samkvæmt 1. lið“ í 2. mgr. kemur: skv. 1. mgr.
     d.      3. mgr. fellur brott.
     e.      Greinin fær nýja fyrirsögn, svohljóðandi: Ef menn eiga tilkall til orku úr sama vatnsfalli án þess merkivötn skilji að fasteignir.

50. gr.

    67. gr. laganna, sem flyst í VI. kafla laganna, orðast svo ásamt fyrirsögn:

Mannvirki varðar tvær fasteignir.

    Nú vill eigandi annars vatnsbakka merkivatns gera mannvirki í vatni til vatnsnýtingar, þ.m.t. orkunýtingar, og þarf að nota til þess land hinum megin og skal hann þá bjóða eiganda þess lands að gera mannvirki með sér og nota vatnið að réttri tiltölu.
    Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið.

51. gr.

    68. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Stíflugerð til vatnsmiðlunar.


    Leita skal leyfis Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 fermetrar eða stærra við hæstu vatnsstöðu. Framkvæmdaraðili skal láta fylgja með umsókn sinni til Orkustofnunar fullnægjandi gögn um undirlag, gerð og frágang fyrirhugaðrar stíflu. Gildir það einnig ef miðlunarlón er minna en 1.000 fermetrar og stífluframkvæmdin tilkynningarskyld skv. 144. gr. Ef framkvæmd vatnsmiðlunar er liður í virkjun fallvatns til raforkuframleiðslu skal miðlunarleyfið talið hluti af virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum og skal þá leita leyfis í samræmi við þau lög.
    Ráðherra getur heimilað eignarnám ef þörf krefur í þágu framkvæmdar samkvæmt grein þessari.
    Leyfi skv. 1. mgr. fellur úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan þriggja ára frá útgáfu þess.

52. gr.

    69.–74. gr. laganna falla brott.

53. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna orðast svo: Mannvirkjagerð, miðlun vatns, varnir lands, þurrkun o.fl.

54. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á VII. kafla laganna:
     a.      75. gr. orðast svo ásamt fyrirsögn:
        

Breyting á vatnsfarvegi.


                  Heimilt er fasteignareiganda og vatnafélögum, að fengnu leyfi Orkustofnunar og eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða     önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns. Heimilt er að binda leyfið skilyrðum sem þykja nauðsynleg vegna almannahagsmuna.
                  Heimilt er viðeigandi stjórnvaldi hverju sinni að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr., að fengnu leyfi Orkustofnunar, enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill.
                  Nú þarf sá sem ætlar að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. eða stjórnvald skv. 2. mgr. afnot af fasteignum annarra manna í þessu skyni og getur þá ráðherra veitt heimild til eignarnáms ef ekki semst með aðilum.
                  Um varnir gegn ágangi vatna fer að öðru leyti samkvæmt gildandi lögum um varnir gegn landbroti.
     b.      76. og 77. gr. falla brott.
     c.      Greinar kaflans flytjast í VI. kafla laganna.
     d.      Fyrirsögn kaflans fellur brott.

55. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á VIII. kafla laganna:
     a.      78. gr. orðast svo ásamt fyrirsögn:

Heimild manns til að veita vatni af fasteign sinni.


                  Maður má veita bagalegu vatni af landi sínu í rásir og farvegi, þó að mein verði að á landi því er við tekur, enda megi hann ekki losna við það með öðrum hentugum hætti. Með sama skilorði má maður og veita vatni í skurði í landi annarra eða grafa þar skurði í því skyni, en jafnan skal þá skurðum svo langt fram haldið að ekki verði verulegt tjón á landi annarra manna. Bæta skal tjón sem hlýst af veitunni, en taka skal þó til greina gagn þeirra sem krefjast bóta af skurðum.
                  Við framkvæmdir skv. 1. mgr. skal forðast að raska tjörnum og vötnum.
                  Ef skurðir um landareign annars manns eru honum einnig til gagns er honum skylt að taka þátt í kostnaði af skurðgreftri og viðhaldi skurðanna.
                  Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur samkvæmt þessari lagagrein getur ráðherra heimilað eignarnám.
     b.      79. gr. orðast svo ásamt fyrirsögn:

Niðurlagning mannvirkis.


                  Niðurlagning mannvirkis samkvæmt þessum kafla, þ.m.t. stöðvun á viðhaldi, er háð samþykki Orkustofnunar. Við niðurlagningu skal umhverfið fært eins og kostur er til fyrra horfs. Eigandi mannvirkis skal leggja áætlun um niðurlagningu fyrir Orkustofnun til samþykktar þar sem m.a. skulu vera upplýsingar um hvernig verkið verði framkvæmt. Orkustofnun getur sett þau skilyrði fyrir leyfi sem eru nauðsynleg til að koma í veg fyrir hættu eða tjón fyrir einstaklinga og almenning.
     c.      80. gr. orðast svo ásamt fyrirsögn:

        Aðgæsluskylda.

                  Mannvirki og framkvæmdir allar samkvæmt lögum þessum skal gera þannig úr garði að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á eign annars manns nema honum sé skylt að hlíta því samkvæmt lögum eða samningum.
     d.      81. og 82. gr. falla brott.
     e.      Greinar kaflans flytjast í VI. kafla laganna.
     f.      Fyrirsögn kaflans fellur brott.

56. gr.

    83. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Bann við óhreinkun vatna.


    Óheimilt er að menga vötn eða láta í þau eða svo nærri þeim að hætt sé við að í þau berist efni, hlutir og lífverur sem spilla mundu eðlis- eða efnaástandi vatnsins, lífríki þess og nánasta umhverfi.
    Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá banni 1. mgr. í samræmi við lög þar að lútandi.
    Undanþágu skv. 2. mgr. má taka aftur bótalaust hvenær sem er eða breyta skilyrðum, ef nauðsynlegt er með tilliti til hagsmuna almennings eða einstakra manna.
    Nýja undanþágu þarf til hverrar þeirrar breytingar sem frekari spjöll geta af hlotist, þótt áður hafi verið veitt undanþága skv. 2. mgr.

57. gr.

    84. og 85. gr. laganna falla brott.

58. gr.

    99. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Stofnun vatnafélaga.


    Heimilt er fasteignareigendum að stofna félag um vatnsveitu, áveitu, vatnsorkuvinnslu, vatnsmiðlun, varnir við ágangi vatns eða annað sem lögmætan tilgang hefur samkvæmt lögum þessum.

59. gr.

    100. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Stofnfundarboð.


    Þeir fasteignareigendur sem stofna vilja vatnafélag skv. 99. gr. skulu boða til stofnfundar eigendur, og eftir atvikum aðra rétthafa, þeirra fasteigna sem ætla má að aðild gætu átt að félaginu. Komi til löglegrar stofnunar félagsins telst kostnaður allur af fundarboði, fundarhaldi, uppdráttum að fyrirhuguðum framkvæmdum og mannvirkjum o.s.frv. til stofnkostnaðar.

60. gr.

    101. gr. laganna fellur brott.

61. gr.

    102. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Efni samþykktar.


    Þegar ákveðið hefur verið að stofna félag skal samþykkt þess sett svo fljótt sem unnt er. Í samþykkt skulu vera ákvæði um:
     1.      nafn félags, heimilisfang þess og varnarþing,
     2.      verkefni félags,
     3.      skipun félagsstjórnar, hversu fjölmenn hún skuli vera, hvernig skuli kjósa hana, hvert vald hennar skuli vera og starfssvið, ef stjórn er skipuð fleiri mönnum en einum, hve langan tíma kjör skuli gilda,
     4.      eigendur hvaða fasteigna taki þátt í félaginu, sem og aðrir rétthafar, og um atkvæðisrétt á félagsfundum,
     5.      reikninga og bókhald félagsins og endurskoðun,
     6.      hvernig boða skuli til félagsfunda, hvenær þeir teljist lögmætir, hvaða mál þeir skuli úrskurða og hvert vald þeir hafi að öðru leyti,
     7.      hvernig fara skuli um greiðslur kostnaðar þess sem félagsskapurinn hefur í för með sér,
     8.      hvaða kvaðir eða eignarhöft leggjast á fasteignir þær sem þátt taka í félagsskapnum,
     9.      félagsgjöld og hvernig þau verði ákveðin,
     10.      hvaða reglum skuli eftir farið ef breyta á samþykktum félagsins,
     11.      inntöku nýrra félaga, sbr. 110. gr.,
     12.      heimild til úrsagnar úr félagi, sbr. 111. gr.,
     13.      hvernig fara skuli um félagsslit, hvert atkvæðamagn þurfi til þeirra og hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins.
    Í samþykktum skal kveðið svo á að afl atkvæða ráði úrslitum. Ef sérstök ástæða þykir til má ákveða í samþykkt að aukinn meiri hluta þurfi til ákvörðunar um einstök félagsmálefni, önnur en þau sem sérstaklega er um mælt í lögum þessum.
    Gildi samþykkta vatnafélags er háð staðfestingu iðnaðarráðherra.

62. gr.

    103.–109. gr. laganna falla brott.

63. gr.

    110. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Nýir félagar.


    Rétt er að taka nýja menn í félag ef lögmætur félagsfundur samþykkir.
    Hverjum þeim sem ekki hefur í upphafi tekið þátt í vatnsveitufélagi eða áveitufélagi í þeim tilgangi sem tilgreindur er skv. 29. gr. og 42. gr. er heimilt að gera það síðar, enda liggi fasteign hans með þeim hætti að þátttaka hans valdi ekki verulegu óhagræði.
    Ef veruleg breyting verður á skyldum félaga vegna töku nýrra félagsmanna eða verkefni félaga breytist verulega fyrir þá sök skal fara með málið sem breytingar á samþykktum félagsins.
    Nú bætist nýr aðili í félag og skal hann þá greiða að sínum hluta og frá þeim tíma hlutdeild í stofnkostnaði þau gjöld sem á félögum hvíla og með sama hætti sem aðrir félagar nema öðruvísi semji. Kosta skal hann sjálfur þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar sérstaklega hans vegna til þess að geta notað mannvirki félagsins.

64. gr.

    111. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Úrsögn úr félagi og ábyrgð á skuldum.


    Félagi getur sagt sig úr vatnafélagi og skal hann þá fá greiddan stofnkostnað sinn að því leyti sem verðmæti hlutar hans er meira en nemur kostnaði og tjóni af brottför hans.
    Ef félagi segir sig úr félagi ábyrgist hann þau gjöld sem á hann hafa fallið samkvæmt ákvæðum félagsins til þess tíma er hann fer úr félaginu.
    Eignir félags standa fyrir skuldum þess. Enginn félagsmaður ber ábyrgð umfram löglega ákveðna hlutdeild sína í félaginu.

65. gr.

    112. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Slit félags.


    Félagi skal slíta:
     1.      ef félagar samþykkja það samkvæmt fyrirmælum samþykktar félags,
     2.      ef félagar eru aðeins tveir og annar krefst þess,
     3.      ef það kemur síðar í ljós að ekki er unnt að ná því takmarki sem félag setti sér eða það er svo miklum örðugleikum bundið að erfitt þykir að halda félagsskapnum áfram.
    Ef helmingur félaga eða meira krefst þess er skylt að kjósa skilanefnd til að standa fyrir skiptum félags og fer um vald hennar sem skilanefndar við slit hlutafélags.
    Ef eignir félags hrökkva ekki fyrir skuldum skal því sem á vantar skipt á félaga að réttri tiltölu við félagsgjöld hvers um sig, eins og þau hafa verið ákveðin samkvæmt gjaldskrá eða öðru lögmætu félagsákvæði. Hver félagi ábyrgist einungis sinn hluta.
    Um skiptin fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl.

66. gr.

    113. og 114. gr. laganna falla brott.

67. gr.

    115. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Heimild til að fara um vötn og til afnota af vatnsbökkum.


    Öllum er heimil för, þ.m.t. á farartækjum, um vötn, einnig á ísi, með þeim takmörkunum sem lög kveða á um. Umhverfisráðherra getur í reglugerð sett takmarkanir við umferð vélknúinna báta og annarra vélknúinna farartækja um vötn og vatnasvæði.
    Allir sem fara um vötn eða nota þau til sunds og baða hafa rétt til þeirra afnota af vatnsbökkum sem eru nauðsynleg vegna umferðar um vötn en gæta skulu þeir varkárni og forðast að valda skemmdum á landi, mannvirkjum eða veiðitækjum í vatni eða við það.

68. gr.

    116. gr. laganna fellur brott.

69. gr.

    117. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðgæsluskylda og bætur fyrir tjón vegna umferðar um vötn.


    Öllum sem nota vötn til umferðar er skylt að gæta þess að gera sem minnstar skemmdir á landi, mannvirkjum eða veiðitækjum í vatni eða við það.
    Eigendur landareigna eða aðrir rétthafar eiga rétt til bóta fyrir tjón sem umferð á vatni veldur beinlínis á landi við vatnið eða á löglega gerðum og vel viðhöldnum mannvirkjum í vatni eða við það, svo og á löglega settum veiðitækjum, enda þótt tjónið sé hvorki að kenna ásetningi né ógætni. Bætur greiðast ekki fyrir tjón af því, þótt mannvirki þau sem fyrir skemmdum hafa orðið verði ekki notuð, nema tjón beri að bæta samkvæmt almennum skaðabótareglum.

70. gr.

    118.–120. gr. laganna falla brott.

71. gr.

    131.–138. gr. laganna falla brott.

72. gr.

    Fyrirsögn XIV. kafla laganna fellur brott.

73. gr.

    139. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Eignarnám.


    Eignarnám sem ráðherra heimilar samkvæmt lögum þessum getur tekið til vatnsréttinda, lands, mannvirkja, aðstöðu og annarra réttinda landeiganda. Ávallt skal þess freistað að ná samkomulagi við landeiganda eða rétthafa áður en til eignarnáms kemur.
    Framkvæmd eignarnáms á grundvelli laga þessara fer eftir almennum reglum.

74. gr.

    140. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Endurgjald.


    Við ákvörðun eignarnámsbóta skal koma til frádráttar sérhagur viðkomandi fasteignar af framkvæmdum. Að öðru leyti fer um endurgjald fyrir eignarnumin réttindi eftir almennum reglum.

75. gr.

    141. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Bótaákvæði.


    Eigandi mannvirkis við vatn, eða sá sem stendur fyrir framkvæmdum við vatn, ber ábyrgð á tjóni sem af framkvæmdunum hlýst án tillits til þess hvort tjón verði rakið til saknæmrar háttsemi eða ekki:
     1.      ef ráðist er án leyfis í framkvæmdir sem eru leyfisskyldar samkvæmt lögum þessum,
     2.      ef staðið er þannig að framkvæmdum að ekki fullnægi áskilnaði 80. gr.,
     3.      ef brestur verður á viðhaldi mannvirkis.
    Leyfi til framkvæmdar sem valdið getur umtalsverðu tjóni má binda því skilyrði að framkvæmdaraðili leggi fram tryggingu vegna hugsanlegrar bótaábyrgðar.

76. gr.

    142. gr. laganna fellur brott.

77. gr.

    Fyrirsögn XV. kafla laganna orðast svo: Eignarnám og bætur.

78. gr.

    143. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Yfirstjórn.


    Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum nema öðruvísi sé fyrir mælt í þeim.
    Orkustofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem þau mæla ekki fyrir um annað. Orkustofnun er iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um vatnsnýtingu og vatnamál á verksviði stofnunarinnar.
    Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem eru teknar á grundvelli laga þessara sæta kæru til iðnaðarráðherra.
    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar samkvæmt lögum þessum. Umhverfisráðherra er heimilt að fela Umhverfisstofnun stjórnsýslu þar að lútandi. Stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar sem eru teknar á grundvelli laga þessara sæta kæru til umhverfisráðherra.

79. gr.

    144. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tímafrestir vegna leyfisveitinga og tilkynningarskylda.


    Ef um leyfisskylda framkvæmd samkvæmt lögum þessum er að ræða skal ákvörðun viðkomandi stjórnvalds um að veita leyfi eða synja leyfis liggja fyrir innan átta vikna frá því að tilkynning um fyrirhugaða framkvæmd barst stjórnvaldinu.
    Skylt er að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem er fyrirhugað að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum.
    Ekki er þó skylt að senda tilkynningu skv. 1. mgr. þegar Fiskistofu er send skrifleg umsókn um framkvæmd í eða við veiðivatn skv. V. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Fiskistofa skal þegar henni berst umsókn um leyfi fyrir framkvæmdum þegar í stað senda Orkustofnun afrit af öllum slíkum umsóknum.
    Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði fyrir starfsemi og framkvæmdum sem taldar eru nauðsynlegar af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Slík skilyrði skulu vera í samræmi við markmið laganna, reglugerðir og vatnastjórnunaráætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Heimild Orkustofnunar til þess að setja slík skilyrði nær þó ekki til starfsemi og framkvæmda á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar.
    Orkustofnun skal gera tilkynningarskyldum aðila grein fyrir því innan fjögurra vikna frá því að tilkynning barst stofnuninni hvort hún hyggst banna tilkynntar framkvæmdir, setja skilyrði fyrir þeim skv. 4. mgr. eða gera aðrar athugasemdir við framkvæmdir þær sem tilkynntar hafa verið. Berist athugasemdir Orkustofnunar ekki tilkynningarskyldum aðila innan frestsins skal líta svo á að engar athugasemdir séu gerðar við fyrirhugaðar framkvæmdir. Ákveði Orkustofnun að setja tilkynningarskyldum aðila skilyrði skv. 4. mgr. skal ákvörðun liggja fyrir innan fjögurra vikna frá lokum fjögurra vikna frests samkvæmt þessari málsgrein.
    Iðnaðarráðherra skal í reglugerð, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, setja nánari fyrirmæli um framkvæmd tilkynningarskyldu, útfærslu skilyrða sem setja má fyrir framkvæmdum og önnur atriði samkvæmt þessari grein.

80. gr.

    145. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Eftirlit og úrræði.


    Sé leyfisskyld framkvæmd samkvæmt lögum þessum hafin án leyfis getur viðkomandi stjórnvald stöðvað hana tafarlaust. Sama á við ef aðili vanrækir tilkynningarskyldu samkvæmt lögum þessum. Ef staðið er þannig að framkvæmd eða starfsemi að ekki samrýmist lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða útgefnu leyfi skal viðkomandi stjórnvald veita framkvæmdaraðila skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef þá er ekki farið að fyrirmælum er heimilt að stöðva framkvæmd eða starfsemi og beita dagsektum þar til úr hefur verið bætt. Dagsektir geta numið 10.000–500.000 kr. Við ákvörðun dagsekta skal tekið tillit til eðlis vanrækslu eða brots og þeirra hagsmuna sem eru í húfi. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt þeim sem hún beinist að á sannanlegan hátt. Dagsektir renna í ríkissjóð.
    Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða stjórnvöld við aðgerðir skv. 1. mgr.
    Heimilt er leyfisveitanda að afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt lögum þessum ef um ítrekaða vanrækslu leyfishafa er að ræða eða ljóst er að hann getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu.
    Heimilt er að mæla fyrir um að sá sem staðið hefur að óheimilum framkvæmdum skv. 1. eða 3. mgr. fjarlægi mannvirki og færi umhverfið til fyrra horfs. Ef slíkri skyldu er ekki sinnt innan þeirra tímamarka sem stjórnvöld ákveða er heimilt að láta vinna verkið á kostnað hins brotlega. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða úr ríkissjóði en innheimtur síðar hjá hlutaðeigandi.
    Áður en gripið er til úrræða skv. 3. mgr. og 4. mgr. skal veita skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
    Dagsektir skv. 1. mgr. og krafa um endurgreiðslu kostnaðar skv. 4. mgr. eru aðfararhæfar.

81. gr.

    146. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Gjaldtaka.


    Fyrir leyfi sem stjórnvöld veita á grundvelli þessara laga og fyrir eftirlit sem þeim er falið er heimilt að innheimta gjald. Gjaldið skal vera í samræmi við gjaldskrá sem staðfest skal af viðkomandi ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Gjald skv. 1. mgr. má ekki vera hærra en nemur kostnaði við undirbúning, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar þjónustu, útgáfu leyfis og eftirlit.

82. gr.

    147.–150. gr. laganna falla brott.

83. gr.

    Fyrirsögn XVI. kafla laganna orðast svo: Stjórnsýsla.


84. gr.

    151. og 152. gr. laganna falla brott.

85. gr.

    Fyrirsögn XVII. kafla laganna fellur brott.

86. gr.

    153. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Viðurlög.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta fyrir brot á lögum þessum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans.

87. gr.

    154. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Reglugerðir.


    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um starfrækslu vatnafélaga.
    Á sama hátt er umhverfisráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara að því leyti sem stjórnsýsla samkvæmt þeim er undir hann sett.

88. gr.

    Fyrirsögn XVIII. kafla laganna orðast svo: Ýmis ákvæði.

89. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2011. Vatnalög, nr. 20/2006, með síðari breytingum, taka ekki gildi og falla niður við gildistöku laga þessara. Við gildistöku laga þessara falla jafnframt úr gildi lög nr. 31/ 2007, um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti.
    Vatnafélög sem starfrækt eru við gildistöku laga þessara skv. XI. kafla laga nr. 15/1923 skulu laga starfsemi sína að lögum þessum fyrir 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan iðnaðarráðherra og á sér nokkurn aðdraganda svo sem nánar verður rakið hér á eftir. Að gerð frumvarps þessa komu Ástráður Haraldsson, hrl. og dósent við lagadeild Háskólans á Bifröst, Karl Axelsson, hrl. og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Guðjón Axel Guðjónsson, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, áður skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu, Ingvi Már Pálsson, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu, og Dýrleif Kristjánsdóttir hdl. Efnisskipan athugasemda við frumvarp þetta er með þeim hætti að í inngangi í I. kafla og í II. kafla um endurskoðun vatnalaga hér á eftir verður fjallað almennt um málaflokkinn, löggjafarþróun og réttarframkvæmd frá öndverðu til okkar daga. Í III. kafla verður nánari grein gerð fyrir efni og framsetningu gildandi vatnalaga, nr. 15/ 1923, en í IV. kafla athugasemdanna verður vikið að þeirri leið sem hér er lögð til með því að vatnalög, nr. 15/1923, haldi enn um sinn gildi sínu en að á þeim verði gerðar nauðsynlegar breytingar.

I. Inngangur.
    Deilur hér á landi um vatn, vatnsnot og vatnsréttindi eru ekki nýjar af nálinni og spanna nú a.m.k. heila öld. Í bændasamfélagi fyrri tíma stóðu menn hins vegar lengst af frammi fyrir tiltölulega fábreyttum vandamálum vegna auðlindanýtingar. Hér var stundaður landbúnaður og fiskveiðar í sjó sem höfðu ekki í för með sér deilur með tilliti til nýtingar og vatnsréttinda, nema að takmörkuðu leyti.
    Segja má að upphaf tuttugustu aldar marki vatnaskil hvað þetta varðar þegar augu manna tóku að opnast fyrir þeim verðmætum sem fólust í fallvötnum landsins. Þessi áhugi kristallaðist í þeim átökum sem urðu í aðdraganda að setningu vatnalaga árið 1923 og að nokkru leyti aftur á Alþingi í aðdraganda að setningu nýrra vatnalaga, nr. 20/2006. Umræða og átök 20. aldar vegna auðlinda og auðlindanýtingar hafa svo eins og kunnugt er snúið að fleiri auðlindum en þeim jarðrænu. Er nærtækt í því sambandi að nefna til sögunnar fiskveiðiauðlindina og þær deilur sem staðið hafa um nýtingu hennar.
    Ágreiningur hefur verið um hvað skuli leggja til grundvallar í umræðunni. Flutningsmenn þess frumvarps sem varð að lögum nr. 20/2006 héldu fram að þróun síðustu áratuga hafi í sívaxandi mæli styrkt einkaréttarleg sjónarmið. Andstæðingar frumvarpsins sögðu á hinn bóginn að afstaða til vatnsréttinda væri að breytast í þá átt að draga úr slíkum áherslum en þess í stað að styrkja almannarétt og að litið væri á vatn sem mannréttindi sem væri sameign.
    Vatn er ein af undirstöðum lífs á jörðinni. Áratugurinn 2005–2015 er alþjóðlegur áratugur aðgerða í vatnsmálum á vegum Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni „Vatn fyrir lífið“. Á alheimsvísu fer þörfin fyrir vatn vaxandi og víða er skorts farið að gæta enda er vatn ekki ótakmörkuð auðlind. Ísland er auðugt að vatni, bæði að magni og gæðum. Ábyrgð þeirra sem landið byggja er mikil að fara vel með auðlindina og umgangast hana af virðingu þannig að svo verði áfram. Sjálfbær nýting vatns með almannahagsmuni að leiðarljósi er markmið allrar lagasetningar sem tengist vatni.

II.     Endurskoðun vatnalaga.
    Unnið hefur verið að endurskoðun vatnalaga síðan 2001. Veturinn 2002–2003 lá fyrir í drögum efni í frumvarp til nýrra vatnalaga sem Eyvindur G. Gunnarsson, nú lektor við lagadeild HÍ, vann að tilhlutan iðnaðarráðherra. Í þeim frumvarpsdrögum var þess freistað að staðfæra eins og kostur væri gildandi vatnalög, nr. 15/1923, við nútímann. Ekki kom þó til þess að það frumvarp væri lagt fram.

II.1 Vatnalög, nr. 20/2006.
    Þann 20. mars 2003 skipaði iðnaðarráðherra nefnd sérfræðinga og hagsmunaaðila undir formennsku Karls Axelssonar, hrl. og dósents við lagadeild HÍ, til þess að skila nýju frumvarpi til vatnalaga til ráðherra. Afrakstur þeirrar vinnu var lagður fram í formi frumvarps til vatnalaga á 131. löggjafarþingi en það varð ekki útrætt. Það frumvarp var síðan að lokinni nokkurri endurskoðun lagt fram á 132. löggjafarþingi og samþykkt sem lög frá Alþingi nr. 20/2006. Markmiðið með setningu þeirra laga var að samræma ákvæði gildandi vatnalaga annarri auðlindalöggjöf sem sett hafði verið á þeim tíma sem liðinn var frá gildistöku þeirra, auk þess sem talið var að einstakir kaflar og ákvæði laganna væru úrelt eða betur fyrir komið annars staðar í lögum. Þá var talið nauðsynlegt að taka stjórnsýslu vatnamála til endurskoðunar. Með lögum nr. 20/2006 er mælt fyrir um neikvæða skilgreiningu eignarréttar að vatni og vatnsréttindum og það talið leiða til einföldunar að telja ekki lengur upp með jákvæðum og næsta tæmandi hætti sérhverja heimild til vatnsnota sem fyrir hendi væri heldur ganga út frá því að öll nýting vatns sé fasteignareiganda heimil svo framarlega sem ekki eru settar við henni sérstakar skorður. Undir lögin heyrir vatn í öllum sínum myndum og birtingarformum, þ.m.t. yfirborðsvatn, grunnvatn og jarðhiti. Þá er horfið frá þeirri tilhögun að safna saman á einn stað heildarsafni allra reglna sem lúta að vatni og vatnsnotum. Reglum laganna er þannig öðru fremur ætlað að endurspegla þær meginreglur sem gilda um eignarhald að vatni, með tilliti til hins sérstaka eðlis þess. Reglur um stjórn og nýtingu auðlinda yrðu eftir sem áður í sérstakri auðlindalöggjöf, og heimild til raforkuvinnslu vatnsorku lyti eftir sem áður reglum raforkulaga. Reglur um rétthæð einstakra vatnsnota eru einfaldaðar. Ákvæði um vatnsveitur og áveitur eru einfölduð til muna, ákvæði um vatnsnot til iðnaðar og iðju án orkunýtingar felld út í heild sinni og ákvæði um vatnsmiðlanir, mannvirkjagerð, ráðstafanir gegn landbroti og ágangi vatns og almenn ákvæði um vatnsvirki einfölduð verulega miðað við vatnalögin frá 1923. Þá eru ákvæði um óhreinkun vatna og holræsi felld brott í heild sinni enda um þau mál fjallað í annarri löggjöf. Reglur um vatnafélög eru einfaldaðar og ekki lengur gert ráð fyrir skylduaðild að slíkum félögum enda talið að slíkt brjóti að óbreyttu í bága við fyrirmæli í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Ákvæðum um umferðarrétt og almannarétt er ætlaður sess í náttúruverndarlögum og loks er öll stjórnsýsla samkvæmt lögunum einfölduð til muna og falin Orkustofnun og iðnaðarráðherra. Þá eru ákvæði laganna um eignarnám og eignarnámsframkvæmd færð til nútímahorfs.
    Bæði í aðdraganda og kjölfar vatnalaga, nr. 20/2006, var tekist á um grundvallaratriði laganna varðandi inntak vatnsréttinda. Skiptar skoðanir voru um hvort vatn væri að fullu í einkaeign á fasteignum eða hvort samfélagsleg sjónarmið ættu að vega þyngra í reglusetningu um aðgengi að vatni og ráðstöfun vatnsréttinda. Einnig var tekist á um verndarþáttinn og hvort skilja bæri með afgerandi hætti milli nýtingar og verndar eins og lögin gerðu ráð fyrir. Ágreiningurinn átti sér að ýmsu leyti samsvörun í þeim deilum sem risu í aðdraganda setningar gildandi vatnalaga í upphafi þriðja áratugar 20. aldar. Kallað var eftir heildstæðri endurskoðun vatnalöggjafar og í því sambandi einkum vísað til þess löggjafarstarfs sem fram yrði að fara í kjölfar upptöku vatnatilskipunar ESB í EES-samninginn. Við aðra umræðu um frumvarp það sem varð að vatnalögum, nr. 20/2006, náðu þingflokkar samkomulagi um að gildistöku hinna nýju vatnalaga yrði frestað til 1. nóvember 2007 og að iðnaðarráðherra skipaði nefnd sem kanna skyldi samræmi laganna við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða, þar á meðal fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra til vatnsverndarlaga sem byggjast mundi á vatnatilskipun ESB.

II.2 Tillögur nefndar frá 2009 til nýrra vatnalaga.
    Í janúar 2008 var framangreind nefnd skipuð og sátu í henni fulltrúar allra flokka á þingi, auk fulltrúa umhverfis- og iðnaðarráðuneyta. Var Lúðvík Bergvinsson lögfræðingur og þá alþingismaður formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði skýrslu og tillögum til iðnaðarráðherra í september 2008. Í niðurstöðum nefndarinnar kom fram að talin væri þörf á nokkurri endurbót á vatnalögunum frá 2006. Lutu tillögur nefndarinnar einkum að fimm þáttum. Í fyrsta lagi taldi nefndin nauðsynlegt að endurskoða orðalag réttindaákvæðis 4. gr. vatnalaga, nr. 20/2006, og tryggja að fullnægjandi tillit yrði tekið til hagsmuna almennings. Í öðru lagi var það mat nefndarinnar að kveða þyrfti með skýrum hætti á um þær heimildir sem rétt þætti að almenningur hefði gagnvart vatni (almannaréttur). Í þriðja lagi lagði nefndin til að markmiðsákvæði vatnalaga, nr. 20/2006, yrði endurskoðað með það í huga að það endurspeglaði betur fjölþætt hlutverk vatnalöggjafar. Í fjórða lagi áleit nefndin nauðsynlegt að mörk þeirra heimilda sem VII. kafli vatnalaga, nr. 20/2006, mælir fyrir um, þ.e. heimildir landeigenda til vatnaframkvæmda, yrðu skýrð með hliðsjón af grundvallarreglu 13. gr. laganna um forna farvegi. Í fimmta lagi lagði nefndin til að fram færi endurskoðun á stjórnsýsluákvæðum vatnalaga, nr. 20/2006, sem miðaði að því í fyrsta lagi að tryggja að við meðferð mála samkvæmt lögunum yrði litið til ólíkra hagsmuna sem við vatnsauðlindina eru tengdir; í öðru lagi að ákvæðin yrðu gerð skýrari og að betur yrði hugað að samræmi við stjórnsýsluákvæði annarra laga á þessu sviði; og í þriðja lagi að skipulag stjórnsýslu vatnamála yrði gert heildstæðara og í því sambandi yrði tekið mið af ákvæðum vatnatilskipunar ESB. Nefndin lagði til að gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, yrði frestað og að skipuð yrði nefnd til að vinna að endurskoðuninni í samræmi við framangreindar tillögur.
    Þann 28. október 2008 voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006, sbr. lög nr. 127/2008. Fólu þau í sér að gildistöku vatnalaga var frestað til 1. júlí 2010 en gildistöku þeirra hafði áður verið frestað til 1. nóvember 2008. Skv. 2. gr. laganna skyldi iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, skipa nefnd sem falið yrði að endurskoða ákvæði laganna í samræmi við fram komnar tillögur. Í ágúst 2009 skipaði iðnaðarráðherra fimm manna nefnd sem falið var að fullvinna frumvarp til nýrra vatnalaga. Var Lúðvík Bergvinsson formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði frumvarpi til nýrra vatnalaga til iðnaðarráðherra 1. desember 2009. Ákveðið var að það frumvarp þyrfti frekari umfjöllun og vinnslu, þá sér í lagi vegna ákvæða um vatnsréttindi og vatnsvernd. Á sama tíma var ákveðið að sá hluti frumvarpsins sem sneri að vatnsvernd færi inn í frumvarp sem umhverfisráðherra hafði til vinnslu um stjórn vatnamála, sbr. frumvarp þess efnis sem nú liggur fyrir Alþingi. Af þessum sökum var frumvarpið ekki lagt fram á Alþingi.
    Með lögum nr. 79/2010 var gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, enn frestað og nú til 1. október 2011. Í greinargerð með þeim lögum kemur fram að vatnalög, nr. 15/1923, séu í gildi og verði áfram með frestun á gildistöku laga nr. 20/2006. Þau lög verði síðan leyst af hólmi með nýjum vatnalögum, byggðum á fyrrgreindu frumvarpi sem skilað var ráðherra í desember 2009. Iðnaðarráðherra hafi kynnt frumvarpsdrögin, sem nú sé unnið að í ráðuneytinu, fyrir iðnaðarnefnd ásamt minnisblaði um þau skilgreindu atriði sem þarfnist frekari skoðunar og vinnslu áður en hægt sé að leggja frumvarpið fram á Alþingi. Til að ljúka þeirri vinnu hafi iðnaðarráðherra leitað til hæstaréttarlögmannanna Karls Axelssonar og Ástráðs Haraldssonar. Þeir muni í sameiningu fara yfir frumvarpsdrögin út frá minnisblaði ráðherra í samráði við lögfræðinga ráðuneytisins og hópinn sem vann drögin.

III. Vatnalög nr. 15/1923.
    Allt fram til 20. aldar var byggt á reglum Jónsbókar um vatnsréttindi. Þegar tekist hafði að vinna raforku úr vatnsafli komu til sögunnar ný og mikilvæg afnot af rennandi vatni og skilyrði til að gera það arðberandi. Leiddi það til þess að um og upp úr aldamótunum 1900 fór áhugi ýmissa manna, bæði innlendra og erlendra, að vakna á því að kaupa eða leigja vatnsaflsréttindi hér á landi. Margir óttuðust því að þessi auðlind gæti glatast ef ekki væri farið gætilega.
    Með samþykkt svokallaðra Fossalaga á Alþingi 1907, þ.e. laga nr. 55/1907, um takmörkun á eignar- og umráðarétti á fossum o.fl., átti að koma í veg fyrir að útlendingar næðu yfirráðum yfir vatnsafli hér á landi. Þau voru fyrsti þýðingarmikli lagabálkurinn sem bannaði að meginstefnu eignar- og afnotarétt útlendinga á íslenskum fossum. Konungur eða umboðsmaður hans skyldi veita undanþágu (leyfi) þar sem þess væri þörf. Þær mátti veita um ákveðinn tíma og með skilyrðum um notkun vatnsafls. Fossalögin þóttu ekki ná tilgangi sínum þegar fram í sótti og leiddi það til þess að árið 1917 skipaði ríkisstjórnin samkvæmt áskorun Alþingis fimm manna nefnd til að semja nýja löggjöf um vatnsréttindi en nefndin gekk undir nafninu Fossanefndin.
    Í lok janúar 1919 kom upp djúpstæður ágreiningur í Fossanefndinni um það hvort vatnsréttindi almennt væru, eða ættu að vera, í eigu þeirra einstaklinga sem eignarrétt ættu að landinu undir vatninu, eða hvort vatnsréttindi væru að öllu leyti í ríkiseign og einstaklingum aðeins heimil þau afnot sem lög leyfðu sérstaklega. Ágreiningur þessi varð til þess að nefndin klofnaði í meiri hluta og minni hluta. Meiri hlutinn taldi öll vatnsréttindi vera ríkiseign, en minni hlutinn taldi hins vegar vatnsréttindi vera háð eignarumráðum landeigenda. Sjónarmið bæði meiri og minni hluta Fossanefndar áttu rætur að rekja til mismunandi stjórnmálaviðhorfa og voru lagaleg rök sótt til íslenskra laga að fornu og nýju. Má því segja að deilan í Fossanefndinni hafi verið ágreiningur bæði af stjórnmálalegum og lagalegum toga.
    Í frumvarpi meiri hluta Fossanefndar til vatnalaga var lagt til grundvallar að mælt yrði fyrir um yfirráð ríkisins yfir vatni og nytjum þess. Ríkið skyldi hafa umráð yfir öllu vatni, bæði straumvatni og stöðuvatni, að undanskildu eftirfarandi: a) vatn skyldi landeigendum frjálst til heimilis, jarðræktar og smáiðnaðar, b) yfir minni háttar vatni skyldu heimiluð sérstök yfirráð landeigenda, svo sem yfir lindarvatni, tjörnum, leysinga- og dýjavatni o.s.frv., c) til landsgæða skyldu teljast laugar, hverir og ölkeldur, og d) vatn sem hefði verið virkjað eða veitt úr farvegi til notkunar samkvæmt heimild í lögum eða samkvæmt löglegu leyfi eða sérleyfi skyldi teljast í einkaumráðum, enda væri það ekki komið aftur í eðlilegan farveg.
    Frumvarp minni hluta Fossanefndar byggðist á því að landi hverju fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni sem á því væri, hvort sem það væri rennandi eða kyrrt, með þeim takmörkunum sem lög, venjur eða aðrar heimildir hefðu í för með sér.
    Þar sem Fossanefndin náði ekki samkomulagi og útséð þótti um að Alþingi gæti sjálft samið lög sem nytu stuðnings meiri hluta þingmanna var Einari Arnórssyni, prófessor, falið að semja nýtt frumvarp til vatnalaga. Frumvarp hans var lagt fram á Alþingi árið 1921 en varð ekki að lögum fyrr en tveimur árum síðar, þ.e. vatnalögum, nr. 15/1923.
    Við samningu frumvarpsins studdist Einar Arnórsson að formi til við frumvarp meiri hluta Fossanefndar frá 1919 og þá þannig að fasteignareigandi ætti eingöngu þær heimildir til vatns sem lögin tilgreindu sérstaklega. Lögin fela því í sér upptalningu á því hverjar hagnýtingarheimildir fylgja eignarrétti að landareign þegar um meiri háttar vötn er að ræða. Þar er á hinn bóginn um að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir, sem máli geta skipt, þar á meðal heimild til orkuvinnslu.
    Menn eru ekki á eitt sáttir um það hvor stefnan hafi efnislega orðið ofan á í frumvarpi Einars Arnórssonar, þ.e. stefna og skoðun minni hluta eða meiri hluta Fossanefndar. Um hitt verður hins vegar ekki deilt að um þá niðurstöðu sem kristallast í vatnalögunum, nr. 15/1923, hefur skapast rík sátt í samfélaginu og það er hvorki tilviljun hve lengi lögin hafa haldið gildi sínu né hve fá dómsmál hafa í raun verið rekin á þessu réttarsviði.
    Vatnalög, nr. 15/1923, hafa þannig um árabil verið helsta réttarheimildin um vatnsréttindi hér á landi. Í ýmsum öðrum lögum er fjallað um vatnsréttindi með einum eða öðrum hætti, þ.m.t. fyrirmæli auðlindalaga um jarðhita og grunnvatn. Tiltölulega fáar breytingar hafa verið gerðar á vatnalögunum á þeim tíma sem liðinn er frá setningu þeirra. Má segja að lögin hafi staðist vel tímans tönn enda þótt þau séu komin nokkuð til ára sinna. Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu vatnalaga hafa hins vegar orðið miklar samfélagsbreytingar, tækniframfarir hafa orðið og vægi umhverfisverndar hefur aukist til muna svo fátt eitt sé nefnt. Þá miða vatnalögin að sumu leyti að því að leysa önnur vandamál en þau sem eru efst á baugi nú á dögum. Má því segja að tímabært hafi verið að endurskoða lögin.
    Hafa verður í huga að vatnalögin voru á sínum tíma heildarlöggjöf um vatnsréttindi og falla því bæði innan sviðs allsherjarréttar og einkaréttar. Lögin taka jafnt til einkaréttarlegra hagsmuna eigenda vatnsréttinda og almannahagsmuna. Reglur allsherjarréttarins eru fyrst og fremst settar til verndar samfélagslegum hagsmunum, t.d. náttúruverndar, en reglur einkaréttarins eru settar til verndar tilteknum einstaklingshagsmunum, þótt engan veginn sé flokkun þessi einhlít. Við samningu frumvarps þessa hefur verið tekið tillit til þess að sett hefur verið ýmiss konar löggjöf á sviði allsherjarréttar sem tekur til vatns. Engu að síður er ljóst að vatnalög geta ekki einungis tekið til einkaréttarlegra hagsmuna heldur hljóta samfélagslegir hagsmunir að vega þungt. Hagsmunir samfélagsins af hagkvæmri nýtingu vatns og skynsamlegri stjórn þeirrar auðlindar sem felst í vatni eru miklir. Þrátt fyrir það ber þó í vatnalögum langmest á vatnsréttindum fasteignareiganda þar sem flest vatnsnot sem nú tíðkast eru veitt honum. Lýsing á vatnsréttindum vatnalaga verður því fyrst og fremst lýsing á vatnsréttindum fasteignareiganda.
    Þrátt fyrir það sem að framan greinir eru vatnsréttindum eiganda fasteignar settar ýmsar veigamiklar takmarkanir í lögum. Eru það takmarkanir af grenndarréttarlegum toga, reglur um verndun vatna, takmörkun á heimild fasteignareiganda til að ráðstafa vatnsréttindum til annarra, áskilnaður um leyfi til ákveðinna vatnsnota, lögheimilaðar kvaðir um hagnýtingu vatns til hagsbóta fyrir fasteign, eignarnámsheimildir vatnalaga og aðrar takmarkanir af umhverfisréttarlegum toga.
    Vatnalög, nr. 15/1923, skiptast í átján kafla og höfðu þau upphaflega að geyma 155 greinar. Þau hafa að mestu leyti staðið óbreytt frá 1923. Eins og áður segir hafa orðið miklar breytingar frá gildistöku laganna, bæði hvað varðar þau málefni sem lögin taka til sem og á almennri stjórnsýslu. Þá skarast ýmis önnur löggjöf við vatnalögin, einkum á sviði umhverfisréttar, sem gerir þetta svið réttarins óglöggt yfirlits í dag. Eftir því sem hagsmunir af notkun vatns hafa aukist hefur hættan á hagsmunaárekstrum orðið meiri. Það skal þó áréttað að meginskipan vatnalaga hefur reynst afar vel og því margt sem styður það að áfram sé skynsamlegt að byggja á þeirri samfélagslegu sátt sem ríkt hefur um skipan vatnsréttinda samkvæmt lögunum frá 1923.

IV. Um inntak frumvarps þessa.
IV.1 Almennt.
    Hér að framan er því lýst hvernig áformað var sumarið 2010 að standa að áframhaldandi frestun á gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, og smíði nýrrar vatnalöggjafar, sbr. athugasemdir við frumvarp til laga nr. 79/2010. Við framhald vinnu við málið kom sá flötur hins vegar fljótlega til skoðunar að gera fremur nauðsynlegar úrbætur á lögum nr. 15/1923 og láta þau að öðru leyti halda gildi sínu. Varð sú leið á endanum ofan á og birtist þannig í frumvarpi þessu. Ástæður þess að lagt er til að þessi leið verði farin eru nokkrar. Svo sem nánar er rakið að framan reyndust vatnalögin, nr. 15/1923, sannkölluð sáttargjörð eftir hatrömm átök áranna þar á undan þar sem tókust á fulltrúar sameignarstefnunnar og séreignarstefnunnar. Að sönnu var tekist á um auðlindamál alla tuttugustu öldina en þær deilur náðu ekki nema að takmörkuðu leyti til vatnalaga. Þessi sátt, og að sínu leyti styrkur vatnalaganna, birtist enn fremur í þeirri staðreynd að lögin eru skýr og tæmandi í allri framsetningu og umgjörð enda hefur tiltölulega sjaldan reynt á túlkun þeirra fyrir dómstólum.
    Í aðdraganda og kjölfar vatnalaga, nr. 20/2006, risu upp deilur og ýmis álitamál í tengslum við inntak vatnsréttinda fasteignareiganda. Er nánari umfjöllun um þau atriði að finna í umfjöllun um 3. gr. frumvarps þessa í athugasemdum við einstakar greinar, og vísast til þess.
    Samhliða þessu hafa áherslur í auðlindamálum breyst á undanförnum árum og missirum. Sem dæmi þess má nefna að í skýrslu nefndar forsætisráðherra, frá því í mars 2010, um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins, var lagt til að settar yrðu heildstæðar reglur um nýtingu allra náttúruauðlinda í eigu íslenska ríkisins. Til þess að því markmiði verði náð telja margir rétt að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um eignarhald og heimildir til nýtingar á náttúruauðlindum í eigu ríkisins. Það er raunar alllangt um liðið frá því að hugmyndir um ákvæði í stjórnarskrá um náttúruauðlindir komu fyrst fram. Upphaflega lutu þær að því að tryggja að í stjórnarskrá væri ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Smám saman hefur þeirri hugmynd þó vaxið fiskur um hrygg að gera eigi slíkt ákvæði þannig úr garði að það taki til allra náttúruauðlinda. Þar yrði markaður sá rammi sem gilti um allar þær auðlindir sem ríkið á eða hefur forræði yfir og eftir atvikum mætti skilgreina sem þjóðareign eða sameign þjóðar á grundvelli tillagna auðlindanefndar frá árinu 2000. Um einstakar auðlindir og nýtingu þeirra yrðu síðan í hverju tilviki sett sérstök lög sem tækju tillit til séreðlis og breytileika hverrar auðlindar, þó ávallt innan þess ramma sem stjórnarskráin markaði almennt um auðlindir. Með þessu væri auðlindaumræðan sett í almennara og heildstæðara samhengi í stað þess að einblína svo mjög á einstakar auðlindir og sértækar lausnir við nýtingu hverrar þeirra, eins og raunin hefur verið undanfarna áratugi. Við þessa umfjöllun ber þó að gera þann fyrirvara að hún tekur öðru fremur mið af auðlindum ríkisins í víðtækasta skilningi en heimildum ríkisins til sambærilegrar reglusetningar um auðlindir í einkaeigu er að sjálfsögðu sniðinn annar og þrengri stakkur, m.a. vegna verndar slíkra réttinda skv. 72. gr. stjórnarskrár. Allt að einu er ljóst að gangi áform í þessa veru eftir þá mun það eftir atvikum hafa áhrif á alla auðlindanýtingu og stýringu hennar sem og verndaráform. Þar eru vatnalög ekki undanskilin. Það er hins vegar ljóst að endanleg útfærsla hugmynda í þessa veru á nokkuð í land. Meðan þessi grundvallarvinna stendur yfir er því talið farsælast að fara þá leið sem hér er lögð til. Að öllu framangreindu virtu er með frumvarpi þessu lagt til að búið verði við vatnalögin frá 1923 og það fyrirkomulag sem sú löggjöf grundvallar um vatnsnot, rétt fasteignareiganda til vatns o.s.frv. Um þá skipan ætti að geta orðið áframhaldandi sátt en þá raunar undir því fororði að til smíði nýrrar, heildstæðrar vatnalöggjafar komi í fyllingu tímans. Unnið er að yfirferð annarrar löggjafar á þessu sviði, svo sem lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með það fyrir augum að samræma réttarreglur á þessu sviði í þeim anda sem lagt er til með frumvarpi þessu. Endurskoðun laganna til framtíðar litið yrði þá hluti af nýsmíði við lagasetningu á vettvangi auðlindaréttar.
    Þess ber hins vegar að geta að þó svo að vandað hafi verið til vatnalaganna frá 1923 og þau enst vel er hinu ekki að neita að frá gildistöku þeirra hafa orðið gríðarlegar samfélagslegar breytingar og lögin um margt fremur sniðin að því að leysa vandamál bændasamfélags 19. aldar en þau álitaefni sem eru efst á baugi nú á dögum. Allt að einu er það svo að framangreindar deilur á þessu réttarsviði hafa fyrst og fremst tengst inntaki vatnsréttinda einkaaðila, þ.e. fasteignareigenda, og heimildum þeirra annars vegar en samfélagslegum réttindum hins vegar. Um þessa þætti, sem og nokkrar þýðingarmestu meginreglur á sviði vatnsréttar, er fyrst og fremst fjallað í fyrstu fimm af átján köflum laganna en aðrir kaflar þeirra taka til annarra atriða, svo sem mannvirkjagerðar, almannaréttar, mengunar, stjórnsýslu o.s.frv. Með hliðsjón af þessu markmiði eru því aðeins lagðar til óverulegar efnislegar breytingar á fyrstu fimm köflum laganna þar sem fjallað er um nokkrar grundvallarreglur og svo inntak vatnsréttinda fasteignareigenda. Ákvæðum laganna í köflum sex til og með átján er hins vegar safnað saman, þau einfölduð mikið og þeim að hluta til breytt í grundvallaratriðum.
    Það er sannarlega ekki venjuleg tilhögun við lagasmíð að staðfæra næstum 90 ára gamla löggjöf að nútímanum. Í þessu tilviki þykir það hins vegar farsælasta leiðin og til þess falin að viðhalda sátt um málaflokkinn.

IV.2 Fyrirkomulag stjórnsýslu vatnamála samkvæmt frumvarpinu.
    Stjórnsýsla núgildandi vatnalaga einkennist af því að við setningu laganna var stjórnsýsla málaflokksins á höndum atvinnumálaráðherra og var honum ætlað umfangsmikið hlutverk. Síðar komu til breytingar. Bæði féll málaflokkurinn að hluta undir umhverfisráðherra, auk iðnaðarráðherra, og stofnað var til sérstakra stjórnsýslustofnana sem falið var hlutverk á þessu sviði. Nægir þar að nefna Orkustofnun. Þetta leiddi smám saman til þess að ákvæði laganna um stjórnsýslu málaflokksins urðu brotakennd og að hluta ósamstæð. Þörfin fyrir gagngera endurskoðun stjórnsýsluákvæða laganna var því orðin brýn.
    Við gerð vatnalaganna frá 2006 annars vegar og þess frumvarps sem unnið var fyrir iðnaðarráðherra á árinu 2009 hins vegar eru farnar nokkuð ólíkar leiðir við útfærslu stjórnsýslu, leyfi og samspil við umhverfisþátt vatnamála. Segja má að í vatnalögunum frá 2006 sé farin nokkuð einfaldari leið hvað þetta varðar. Gert er ráð fyrir að öll meginstjórnsýsla sé á hendi Orkustofnunar en sem endranær kæruleið til ráðherra. Þá er gert ráð fyrir að tilteknar framkvæmdir séu sérstaklega leyfisskyldar en allar aðrar framkvæmdir í og við vötn séu hins vegar tilkynningarskyldar og Orkustofnun þá ætlaður lögákveðinn tími til þess að setja þeim skorður eða skilyrði sé talin þörf á slíku. Samhliða þessu gildi síðan önnur lagafyrirmæli sem eftir atvikum setja skilyrði um leyfi til framkvæmda og er þá horft til lax- og silungsveiðilaga, skipulagslaga, mannvirkjalaga, fyrirmæla af vettvangi mengunarlöggjafar o.s.frv.
    Í frumvarpinu frá 2009 er hins vegar gert ráð fyrir umfangsmeira fyrirkomulagi við veitingu leyfa með svokölluðum vatnaframkvæmdaleyfum sem sveitarfélögin fari með. Umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun var samkvæmt frumvarpinu ætlað umfangsmikið stjórnsýsluhlutverk en eftir sem áður gert ráð fyrir aðkomu Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis á öðrum sviðum. Þá er þar ráðgert að leiða í lög í sérstökum kafla fyrirmæli um vatnsvernd og ætlunin með því er að innleiða meginþætti vatnatilskipunar ESB (2000/60/EB). Tilskipun þessi tekur til vatnafars og vatnabúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfið og verndun þess. Tilskipunin tekur m.a. til notkunar og meðhöndlunar á vatni sem kann að leiða til mengunar eða rýrt getur gæði vatns og umhverfi þess. Þarf þá að kveða á um stjórn vatnsnotkunar, rannsóknir og vöktun á vatnsgæðum og vatnafari til þess að stuðla að vernd vatns og sjálfbærri nýtingu. Á yfirstandandi þingi (139. löggjafarþingi 2010–2011) hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp um stjórn vatnamála (298. mál) í því skyni að innleiða vatnatilskipun ESB. Markmið þess frumvarps er að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa, votlendis og vistkerfa sem beint eru háð vatni til að stuðla að því að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns sem byggist á langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Til að ná fram framangreindum markmiðum skal vinna vatnastjórnunar-, aðgerða- og vöktunaráætlun.
    Þessir tveir lagabálkar, þ.e. vatnalög og lög um stjórn vatnamála, munu því mynda heildstæða umgjörð um nýtingu og verndun vatns, verði frumvörpin að lögum. Við gerð frumvarps þessa um breytingu vatnalaga, nr. 15/1923, er farin einfaldari leið hvað varðar stjórnsýslu vatnamála en í frumvarpinu frá 2009. Eru stjórnsýsluákvæði frumvarpsins meira í ætt við þau sem lagt er upp með í vatnalögunum, nr. 20/2006. Eftir sem áður er þó stuðst við þá miklu vinnu sem liggur frumvarpinu frá 2009 til grundvallar og í einstökum tilvikum byggt á tillögum úr því frumvarpi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að meginstjórnsýsla sé á hendi Orkustofnunar en eftir sem áður séu framkvæmdir í og við vötn háðar leyfum og eftir atvikum eftirliti samkvæmt til dæmis skipulagslögum, mannvirkjalögum og lögum um lax- og silungsveiði og þar með aðkomu þeirra stjórnvalda sem þar er gert ráð fyrir að komi að málum. Þær framkvæmdir sem tengdar eru vatni og vatnafari, en eru ekki sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt vatnalögum eða öðrum lögum, eru tilkynningarskyldar til Orkustofnunar samkvæmt frumvarpinu. Dæmi um slíka framkvæmd er t.d. minni háttar malarnám úr á ef ekki er um veiðivatn að ræða. Ljóst er að einhverjar auknar fjárheimildir þurfa að koma til svo Orkustofnun geti sinnt þessu aukna hlutverki. Ekki er þó talið að umfang þessarar stjórnsýslu verði mikið. Í frumvarpinu er þó sérstaklega gert ráð fyrir aðkomu stjórnvalda á sviði umhverfismála annarra en Orkustofnunar en jafnframt lagt upp með að frumvarpið skarist sem minnst við framangreint frumvarp umhverfisráðherra til laga um stjórn vatnamála. Er unnið eftir þeirri meginhugsun að á meðan breytt vatnalög fjalla fyrst og fremst um atriði sem lúta að notum og nýtingu vatns og heimildum þar að lútandi gildi samhliða löggjöf af umhverfisréttarlegum toga þar sem markmiðið snýst öðru fremur um vernd vatna og vistkerfis þeirra í öllum sínum myndum. Sameiginlegt takmark laga af þessum vettvangi verður þá það að tryggja rétt almennings til vatns, skýra heimildir fasteignareigenda og ríkis til vatnsnota af ýmsum toga en stuðla jafnframt að því að sú nýting eigi sér öll stað með sjálfbærum hætti til skemmri og lengri tíma litið þar sem vernd vatns sé ávallt í öndvegi. Um tilhögun stjórnsýslu Orkustofnunar og samspil hennar og annarra stjórnvalda er nánar fjallað í almennum athugasemdum með breytingum á XVI. kafla laganna.

IV.3 Önnur efnisatriði frumvarpsins.
    Um einstakar breytingar og efnisþætti frumvarpsins er þess svo auk þess að geta að í fjölmörgum ákvæðum vatnalaga er að finna vísun til hlutverks matsmanna sem gjarnan er þá ætlað að skera úr ágreiningi sem rísa kann, t.d. vegna framkvæmda sem heimilar eru samkvæmt lögunum. Orðalagið er þá gjarnan „ef ágreiningur verður, þá skulu matsmenn skera úr“ eða „enda sé tjón það, er af verkinu hlýst, bætt eftir mati, nema samkomulag verði“ eða jafnvel „nema það sé nauðsynlegt talið samkvæmt matsgerð“. Þessi framsetning samrýmist illa hugmyndum manna um hlutverk dómkvaddra matsmanna samkvæmt núgildandi réttarfari. Þannig er litið svo á að heimildir aðila til að óska eftir dómkvaðningu matsmanna fari eftir almennum reglum. Niðurstaða slíkra matsmanna, sem eftir atvikum kann að sæta endurskoðun samkvæmt yfirmati, hefur sönnunargildi við úrlausn dómstóla eftir þeim reglum sem almennar réttarfarsreglur geyma. Það að taka fram í hverju tilviki í lögum að um niðurstöðu fari eftir mati eins og gert er í vatnalögum er þannig í besta falli þýðingarlaust en getur jafnvel verið villandi. Því er lagt til að vísan til hlutverks matsmanna í einstökum efnisgreinum vatnalaga verði felld brott og látið nægja að byggja á því sem sjálfsagt er, að almennar reglur gildi hér eins og endranær. Samhliða þessari grundvallarbreytingu eru reglur um eignarnám efldar og skýrðar og almennt gert ráð fyrir því að náist ekki samkomulag um inngrip í eignarréttarlegar heimildir manna þurfi að jafnaði að koma til eignarnáms. Styrkir þetta skýrleika í allri framkvæmd sem og réttaröryggi.
    Sem fyrr segir er með frumvarpinu lagt til að reglur gildandi vatnalaga um vatnafélög verði einfaldaðar til muna og ekki verði lengur gert ráð fyrir skylduaðild að slíkum félögum enda verður að telja að slíkt brjóti að óbreyttu í bága við fyrirmæli í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lagagildi hefur hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, nema í þeim undantekningartilvikum sem ráðgerð eru í 2. mgr. 74. gr. i.f. og telja verður t.a.m. að nái óhjákvæmilega til veiðifélaga samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Að óbreyttu fæst ekki séð, þar á meðal í ljósi reynslunnar, að slík knýjandi nauðsyn útheimti heimild til skylduaðildar að öðrum þeim félögum sem stofnuð eru um einstök vatnsnot, enda önnur úrræði þá tiltæk til verndar einstaklings- og almannahagsmunum.
    Í heild er tilhögun frumvarpsins því með þeim hætti að lagt er til að gerðar verði nokkrar breytingar á I. kafla laganna sem í dag geymir orðskýringar. Bætt er við skilgreiningum á hugtökum, sem og gildissviðsákvæði. Þá eru einstakar greinar skýrðar nánar með fyrirsögnum og er sú sama tilhögun viðhöfð í öllum greinum frumvarpsins. Þá eru lagðar til nokkrar lagfæringar og einfaldanir á II. kafla laganna um vatnsréttindi en ákvæði kaflans haldast hins vegar óbreytt í öllum aðalatriðum. Sama má segja um III. kafla um vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju án orkunýtingar, IV. kafla um áveitur og V. kafla um vatnsorku. Lagt er til að felld verði brott nokkur ákvæði sem þykja sannarlega úrelt og nokkur önnur sameinuð og einfölduð. Framangreindir kaflar laganna mynda meginumgjörðina um inntak vatnsréttinda sem og helstu meginreglur réttarsviðsins. VI. kafli um vatnsmiðlun, VII. kafli um varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna, VIII. kafli um þurrkun lands og XIV. kafli um almenn ákvæði um vatnsvirki eru sameinaðir í einn kafla og einfaldaðir og styttir. Ákvæði IX. kafla um óhreinkun vatna og XI. kafla um vatnafélög eru einnig einfölduð og stytt, sem og ákvæði XII. kafla um umferðarrétt. Loks er lagt til að ákvæði laganna um stjórnsýslu, bótaákvarðanir, málsmeðferð og refsingar, sem nú eru í XV.–XVIII. kafla, verði einfölduð og breytt í grundvallaratriðum, sbr. framangreint. Þá hafa öll ákvæði laganna um eignarnám og eignarnámsframkvæmd verið færð til nútímahorfs.
    Sumar þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu fela ekki í sér neina efnislega breytingu heldur er t.d. orðalagi breytt á einstaka stað til nútímahorfs. Þá er í frumvarpinu lagt til að númer málsgreina, sem eru í flestum greinum vatnalaga, en þó ekki öllum, verði felld brott. Ekki er samræmi hvað þessa tilhögun varðar í vatnalögum. Slík númer fremst í málsgreinum tíðkast auk þess ekki við nútímalagasetningu.
    Þar sem um nokkuð umfangsmiklar breytingar er að ræða á 90 ára gömlum lögum fylgir frumvarpinu, til glöggvunar, skjal þar sem tekin hafa verið saman ákvæði vatnalaga, nr. 15/1923, eins og þau munu líta út verði frumvarp þetta að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um breytingartillögur við I. kafla.

    I. kafli gildandi vatnalaga, nr. 15/1923, hefur aðeins að geyma eina grein þar sem eru orðskýringar. Lagt er til að við kaflann verði bætt ákvæði sem kveður á um gildissvið laganna og að það ákvæði verði í fyrri málsgrein 1. gr. en orðskýringar í seinni málsgreininni. Lagt er til að úr 1. gr. laganna hverfi skýringar nokkurra hugtaka þar sem gert er ráð fyrir að þau verði ekki lengur notuð í lögunum en við bætast skýringar hugtaka sem ýmist eru nú þegar í lögunum eða bætast við með frumvarpi þessu. Í heild mun orðskýringum fjölga verði frumvarp þetta að lögum.


Um 1. gr.


    Með greininni eru lagðar til breytingar á 1. gr. vatnalaga. Lagt er til að heiti greinarinnar verði „Gildissvið og orðskýringar“. Eins er lagt til að í 1. mgr. 1. gr. komi ákvæði um gildissvið vatnalaga í þá veru að lögin taki til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki þar um. Í gildandi vatnalögum er ekki að finna ákvæði um gildissvið þeirra laga.
    Í frumvarpsgreininni er að finna þær skilgreiningar hugtaka sem lagt er til að verði í 2. mgr. 1. gr. Sumar þeirra eru efnislega samhljóða þeim skilgreiningum sem fram koma í 1. gr. gildandi vatnalaga. Nokkrum skilgreiningum hefur verið bætt við, bæði skilgreiningum á hugtökum sem notuð eru í gildandi vatnalögum en einnig nýjum skilgreiningum. Felldar eru út skilgreiningar hugtaka sem eru í gildandi vatnalögum en munu ekki lengur vera þar verði frumvarpið að lögum og þannig ekki lengur hafa þýðingu.
    Hugtakið almenningur vatns er skilgreint með hefðbundnum hætti, þ.e. sem sá hluti vatns sem liggur fyrir utan netlög fasteignar. Orðalagi skilgreiningarinnar er því breytt frá gildandi lögum en efnisleg merking er hin sama. Netlög eru svo aftur skilgreind sem vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem fasteign liggur að.
     Áveita er skilgreind í samræmi við almenna málvenju, þ.e. sem mannvirki sem notað er til þess að veita vatni á land.
     Bakki er skilgreindur sem fast takmark á farvegi straumvatns eða legi stöðuvatns, svo sem klettar, gróið land eða eyrar sem vatn fellur eigi yfir í meðalvexti. Rétt þótti að bæta þessari skilgreiningu við enda kemur orðið bakki fyrir í lögunum og miðast t.d. netlög við bakka.
    Hugtakið búsþarfir er ekki skilgreint í vatnalögum. Í 15. gr. laganna er þó sem dæmi um búsþarfir nefnt að vatna skepnum, ullarþvottur og fiskþvottur. Afmörkun hugtaksins í þessu frumvarpi hefur enn þýðingu vegna til að mynda reglna um forgangsröð að vatni, sbr. 11. gr. frumvarpsins, vegna takmörkunar á heimild til að skilja vatnsréttindi frá landareign, sbr. 16. gr. frumvarpsins, og vegna heimildar til að sækja vatn til heimilis- og búsþarfa á aðra landareign, sbr. 31. gr. vatnalaga og 27. gr. frumvarps þessa. Í frumvarpi þessu er hugtakið skilgreint sem notkun vatns við búrekstur og annan atvinnurekstur á sviði landbúnaðar með réttindum og skyldum samkvæmt ábúðarlögum. Má hafa hliðsjón af þeirri starfsemi sem fellur undir hugtakið ábúð eins og það er skilgreint í ábúðarlögum, nr. 80/2004, þ.e. afnotaréttur af jörð eða jarðahluta til búrekstrar eða annars atvinnurekstrar á sviði landbúnaðar með réttindum og skyldum samkvæmt þeim lögum.
    Með eignarlandi er átt við landsvæði, þ.m.t. innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Þetta er sama skilgreining og fram kemur í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.
     Farvegur er skilgreindur sem vatnsleg sem vatnsfall rennur eftir, hvort heldur af manna völdum eða náttúru. Merki liggja í farvegi þar sem vötn deila löndum, en farvegum er einnig breytt við vatnabreytingar eins og vatnaveitur þegar vatni er veitt af mannavöldum úr fornum farvegi og til annars staðar en það áður féll. Farvegir eru ekki alltaf glöggir og geta verið breytilegir, einkum að auravötnum, en með aurum er átt við farvegasvæði þar sem vatnsföll liggja ekki í stöðugum farvegi árum saman heldur rása um aurana. Þar er merkingarlítið að miða landamerki við farvegi heldur þarf þar að fylgja öðrum reglum. Er þá oft miðað við merki þar sem farvegur hefur verið að fornu á einhverjum tilteknum tíma.
    Hugtakið fasteign kemur víða fyrir í frumvarpinu og hefur þá merkingu sem almennt er lögð til grundvallar í íslensku lagamáli, þ.e. afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt. Fasteign er í frumvarpinu notað jöfnum höndum orðinu landareign en skilgreiningu þess hugtaks er breytt frá gildandi lögum.
    Með háflæði er átt við mesta rennsli eða hækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð. Ekki er átt við aftakaflóð, sem koma óreglulega og eru ekki árviss en geta flætt langt upp yfir bakka, sbr. orðalag 1. mgr. 3. gr. laganna, „og sé ekki vöxtur í vatni“. Ekki er að finna skilgreiningu á orðinu í gildandi vatnalögum. Háflæði er hér skilgreint í tengslum við skilgreininguna á vatnslegi, en kemur að öðru leyti ekki fyrir í frumvarpinu. Skilgreint háflæði afmarkar þannig farvegi vatnsfalla að öðru jöfnu vel, nema auravatna.
     Heimilisþarfir eru skilgreindar sem þarfir til venjulegs heimilishalds. Heimilisþarfir eru ekki skilgreindar í gildandi vatnalögum en sem dæmi um heimilisþarfir er í 15. gr. gildandi laga nefnt þegar vatn er notað til drykkjar, suðu, þvotta, böðunar, til að vökva garða og til varnar eldsvoða. Þessi dæmaupptalning fellur brott verði frumvarp þetta að lögum en mundi engu síður falla undir það sem átt væri við með venjulegu heimilishaldi þó að fleira falli þar undir.
    Hugtakið iðja er skilgreint með sama hætti og í gildandi vatnalögum sem iðnaður annar en handiðn. Ekki er talin þörf frekari útskýringa á hugtakinu.
     Landareign er hér skilgreind sem fasteign, þ.e. afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt. Hugtakið landareign er notað í vatnalögum en í yngri lögum hefur fasteignarhugtakið yfirleitt leyst það af hólmi. Þar sem hér er aðeins um breytingalög að ræða þótti ekki ástæða til þess að fella hugtakið úr lögunum en þess í stað er því nú léð inntak til samræmis við hugtakið fasteign.
    Hugtakið lágflæði er hér skilgreint sem minnsta rennsli eða lækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð. Hér er átt við einkennandi rennsli (vatnsflæði) og vatnsborðsstöðu fyrir vatnsföll og stöðuvötn. Flest vatnsföll, sem hafa fastan farveg, hafa einkennandi hámarks- og lágmarksrennsli sem á sér stað árvisst og reglulega. Að vísu eru áraskipti að því hversu mikið eða lítið slíkt rennsli verður, en þó fer oft nærri milli ára hversu lágt eða hátt vatn stendur árvisst og reglulega. Vatnsstaða og lega stöðuvatna við lágflæði er viðmiðun fyrir netlög og landamerki í vötnunum. Hér er um nákvæmari skilgreiningu að ræða en þá sem er að finna í gildandi vatnalögum.
     Mannvirki er hér skilgreint sem hvers konar framkvæmdir og manngerðir hlutir sem skeytt er við fasteign, þ.m.t. í, við eða yfir vatni, t.d. hús, brú, girðing, virkjun eða stíflugarður. Hér er lögð til grundvallar sama afmörkun og inntak og í nýsamþykktum mannvirkjalögum, nr. 160/2010, en þar er mannvirki skilgreint sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja samkvæmt þeim lögum teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögunum. Heppilegt samræmi felst í því að leggja sama skilning til grundvallar þótt orðalag sé ekki jafn yfirgripsmikið.
    Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Jafnframt tekur hugtakið einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Þetta er alþjóðleg skilgreining mengunar og er hana einnig að finna í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Hugtakið merkivatn er hér skilgreint til samræmis við hefðbundna málvenju, þ.e. vatn það sem landamerkjum ræður. Orðið kemur fyrir í gildandi vatnalögum, en er ekki skilgreint sérstaklega.
     Miðlunarlón er skilgreint sem stöðuvatn sem er manngert að öllu leyti eða hluta og rennsli er stýrt í og/eða úr. Reglur um stöðuvötn gilda einnig um miðlunarlón að svo miklu leyti sem unnt er, sbr. b-lið 5. gr. frumvarpsins.
     Netlög eru skilgreind sem vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns eða vatnsfalls sem fasteign liggur að. Efnislega sömu skilgreiningu er einnig að finna í öðrum lögum.
     Orkunýting er hér skilgreind sem hvers konar hagnýting vatns samkvæmt lögum þessum til framleiðslu á orku, fyrst og fremst raforku. Í þessu felst breyting á þeirri orku, fallorku eða staðarorku, sem í vatni er, í aðra tegund orku. Orðið kemur fyrir í gildandi vatnalögum en er ekki skilgreint sérstaklega.
     Orkuver er hér skilgreint með sama hætti og í gildandi vatnalögum.
     Rennsli er ekki skilgreint í gildandi vatnalögum. Hér er það skilgreint sem hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.
     Straumvatn er skilgreint sem yfirborðsvatn sem í er greinilegur straumur þá er enginn vöxtur er í því. Orðið kemur fyrir í gildandi vatnalögum en er ekki skilgreint sérstaklega.
     Stöðuvatn er ný skilgreining í frumvarpinu. Það er skilgreint sem vatn sem er slétt í logni og straumlaust að sjá, enda þótt flætt geti gegnum það. Rétt þykir hins vegar að byggja á hugtakinu vatn sem heildarhugtaki í lögunum.
     Vatnsból voru við setningu vatnalaga annaðhvort brunnar eða opin vatnsból og voru fyrst og fremst nýtt til heimilis- og búsþarfa, þ.e. til neyslu- og nytjavatnstöku og til brynningar. Þetta hefur breyst. Yfirleitt eru mannvirki tengd vatnsbólum, þar á meðal borholur, þó að enn séu opin vatnsból nýtt til brynningar. Vatnsból eru ekki skilgreind í gildandi vatnalögum en ástæða þykir til þess nú og er miðað við að vatnsból séu mannvirki, t.d. brunnar, eða virkjaðar lindir, eða náttúruleg vatnsleg þar sem vatn er tekið eða nytjað á staðnum. Miðað er við náttúrulega uppkomu vatns, ekki borun eða meiri háttar mannvirkjagerð sem ætlað er að koma vatni upp á yfirborðið enda fellur slík nýting vatns undir lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Einhverja hagræðingu kann að þurfa, eins og í kringum brunna, en engar meiri háttar tilfæringar.
     Vatnsfall er ný skilgreining í frumvarpinu. Það er skilgreint sem rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að tíma- og staðbreytilegur sé, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við. Straumur er yfirleitt sýnilegur í vatnsfalli og þar með stefna rennslis þess (straumvatn). Í gildandi vatnalögum er orðið „fallvatn“ skilgreint fyrir þann hluta vatnsfalls sem hagkvæmt getur verið að virkja í einu lagi. Lagt er til að þessi skilgreining verði felld niður þar sem vatnsfall og fallvatn eru nánast sömu merkingar samkvæmt almennri málvenju, enda er hún óþörf því að virkjað er fall vatns (það er staðarorka þess) og er því eðlisfræðilega miklu nær að tala um fall vatns í stað fallvatns. Vatnsfallið, tiltekið og nafngreint, er eftir sem áður virkjað sem slíkt. Vatnsföll geta verið tímabundin og myndast þá oftast í farvegum sínum í vorleysingum (leysingavötn) eða stórrigningum. Jökulkvíslar margar eru einungis til að sumarlagi, en má þó kalla árvissar.
    Orðið vatnsleg er notað í gildandi vatnalögum en er ekki skilgreint þar. Hér er orðið skilgreint sem lægð í landi sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt á vatnsborðsstöðu við háflæði. Hér er vatnið sjálft ekki aðalatriði heldur landslagsfyrirbærið sem vatnið stendur í. Þá er sérstaklega tekið fram í 2. málsl. að lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljist ekki til vatnslegs.
    Hugtakið vatnsflæði er skilgreint sem rennsli vatns sem vatnsmagn á tímaeiningu, í l/s eða m 3/s.
     Vatnsmiðlun er skilgreind sem geymsla á vatni til þess að breyta eðlilegu vatnsmagni straumvatns (vatnsfalls) eða til stýringar á rennsli vatns. Samkvæmt gildandi lögum tekur vatnsmiðlun aðeins til geymslu á vatni í því skyni að breyta eðlilegu vatnsmagni straumvatns. Sú viðbót sem lögð er til þykir eðlileg og í samræmi við það sem tíðkast í raun.
    Hugtökin vatnsnot og vatnsnýting koma bæði fyrir í frumvarpinu og eru sömu merkingar, þ.e. vatnstaka, veiting eða virkjun vatns til heimilis- og búsþarfa, í arðsemisskyni eða til að verja fasteign spjöllum.
    Orðið vatnsveita er skilgreint sem mannvirki til að flytja vatn til notenda. Er þetta í samræmi við almenna notkun orðsins, en gagnlegt er að skilgreina það fyrir þessi not til aðgreiningar frá öðrum veitumannvirkjum og veituframkvæmdum sem eru til annarra nota, svo sem áveitum, vatnaveitum til virkjunar eða til varnar landspjöllum og öðru slíku.
     Þjóðlenda er skilgreind með sama hætti og í lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.
    Verði frumvarpið að lögum falla brott skilgreiningar eftirfarandi orða: fallvatn, frumdrættir, fullnaðardrættir, hérað, iðjuver, iðjuhöldur, orkuveita, sérleyfi, vatnsvirki og vatnsvirkjari. Þessi orð munu ekki vera í vatnalögunum verði frumvarp þetta að lögum.

Um 2. gr.


    Með greininni er lagt til að við fyrirsögn I. kafla verði bætt orðinu „gildissvið“ og fyrirsögn kaflans verði „Gildissvið og orðskýringar“. Samkvæmt frumvarpinu verður nýrri málsgrein um gildissvið laganna bætt við 1. gr. þeirra og er eðlilegt að það komi fram í fyrirsögn kaflans.

Um breytingartillögur við II. kafla.


    Í samræmi við markmið frumvarps þessa eru ekki lagðar til neinar grundvallarbreytingar á II. kafla vatnalaga. Þannig skiptir lykilmáli að framsetning 2. gr. laganna um inntak vatnsréttinda fasteignareiganda helst óbreytt frá gildandi lögum. Nokkur ákvæði II. kafla laganna eru felld brott þar sem þau eru ekki talin hafa þýðingu lengur og önnur sameinuð til hægðarauka. Þá er gert ráð fyrir þremur nýjum greinum í kaflann sem ekki fela þó í sér nein efnisleg nýmæli en þykja til þess fallin að treysta frekar þann grundvöll sem vatnalögin eru reist á.

Um 3. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna.
    Í 1. mgr. gildandi vatnalaga kemur fram sú meginregla laganna að rétturinn til umráða og hagnýtingar á vatni sem er á fasteign tilheyrir þeirri fasteign á þann hátt sem lög þessi heimila. Í þessari grein frumvarpsins er kveðið á um þá breytingu eina að þessi meginregla eigi einnig við í þjóðlendum.
    Framangreind meginregla nær til allra helstu hagnýtingarheimilda sem máli skipta, þar á meðal réttarins til orkuvinnslu skv. 49. gr. laganna. Sú afmörkun á inntaki eignarráða vatnsréttinda fasteignareiganda, sem birtist í meginreglu þessari, hefur þó sérstöðu í samanburði við almenna skilgreiningu eignarréttarhugtaksins. Ástæðan er sú að hér er á jákvæðan og ítarlegan hátt kveðið á um það hvað felist í tilteknum heimildum fasteignareiganda að vatni. Þessi tilhögun á sér sögulegar forsendur, svo sem rakið er hér að framan, og felur í sér þá leið sem Einar Arnórsson mótaði til þess að brúa bil meirihluta- og minnihlutamanna í Fossanefndinni í aðdraganda setningar vatnalaga árið 1923. Um þessa útfærslu hefur verið góð sátt í íslensku samfélagi allt frá gildistöku vatnalaga. Með lögtöku 4. gr. vatnalaga, nr. 20/2006, var hins vegar tekin upp svokölluð neikvæð skilgreining á inntaki vatnsréttinda með því að mælt er fyrir um að fasteign hverri, þ.m.t. þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur og þá eðli málsins samkvæmt aðeins með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum eða réttindum þriðja manns. Var raunar sérstaklega áréttað í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/2006 að með þessu væri aðeins um formbreytingu að ræða en ekki efnislega breytingu á inntaki eignarráða fasteignareiganda yfir vatni miðað við það sem gilti samkvæmt lögunum frá 1923. Svo sem alkunna er og nánar er rakið hér að framan hefur hins vegar ekki náðst sátt um þessa leið laganna frá 2006. Í frumvarpi því sem unnið var fyrir iðnaðarráðherra og er frá því í desember 2009 var inntak þessa sama réttar skýrt á þá leið að landareign hverri, þ.m.t. þjóðlendu, fylgi umráða- og hagnýtingarréttur að því vatni sem á henni fyndist með þeim takmörkunum sem leiddi af lögum eða réttindum annarra. Um þessa nálgun hefur ekki heldur náðst sátt. Í samræmi við tilætlan og markmið frumvarps þessa er því lagt til að engar breytingar verði gerðar á tilhögun og framsetningu vatnalaga hvað þetta varðar og að 2. gr. laganna standi óbreytt með þeirri eðlilegu breytingu sem leiðir af því að auk hefðbundinna fasteigna/landareigna nái regla laganna jafnframt til þjóðlendna. Engin breyting verður því á inntaki og stöðu vatnsréttinda frá þeim grundvelli sem lagður var með vatnalögunum 1923 og mótast hefur frekar í réttarframkvæmd á þeim hartnær 90 árum sem liðin eru.
    Í 2. mgr., sem er ný að efni, er fjallað um sameign á vatni. Ákvæðið kveður á um það að fasteignareigendur sem aðgang hafa að sama vatni hafi sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra. Hafa verður í huga við skýringu þessa ákvæðis að mönnum er skylt að nýta vatn svo til annarra þarfa en heimilis- og búsþarfa að öðrum verði sem minnstur bagi að eða skerðing á nýtingu vatns sem þeir hafa rétt til. Sams konar reglu er ekki að finna í gildandi vatnalögum, en þau sjónarmið sem hún byggist á koma engu síður fram í ákvæðum laganna.
    Lagt er til að 2.–6. mgr. gildandi greinar falli brott. Vísað er til 17. gr. frumvarpsins en þar kemur fram að þessi ákvæði verða í sérstakri grein sem verður 16. gr. Betur þykir fara á því að hafa takmarkanir þær á ráðstöfunarheimildum opinberra aðila sem er að finna í ákvæðum þessum í sérstakri grein í lok kafla um almenn ákvæði um vatnsréttindi frekar en í þeirri grein sem fjallar um hver vatnsréttindi fylgja fasteign. Á reglan jafnframt meiri samstöðu með 16. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á15. gr. laganna. Hin nýja 15. gr. felur efnislega í sér að sameinaðar eru reglur 15. og 16. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um aðrar takmarkanir á framsali vatnsréttinda og takmörkunum þar að lútandi.

Um 4. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að fyrirsögn 3. gr. vatnalaga verði „Merki landareigna í lækjum og ám.“ Það þykir til hægðarauka fyrir lesendur að lýsandi fyrirsögn sé á öllum greinum laganna.
    Þá er lagt til að númer málsgreina verði felld brott. Svo sem fyrr segir er í frumvarpi þessu lagt til að númer sem standa fremst í flestum málsgreinum vatnalaga, en þó ekki öllum, verði felld brott. Ekki er samræmi alls staðar hvað þessa tilhögun varðar í vatnalögum. Slík númer fremst í málsgreinum tíðkast auk þess ekki við nútímalagasetningu. Grein þessi þarfnast ekki að öðru leyti skýringa.

Um 5. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 4. gr. laganna.
    Í a-lið eru lagðar til breytingar á orðalagi 2. málsl. 4. mgr. 4. gr. laganna til nútímahorfs. Efnislegt inntak málsgreinarinnar verður óbreytt.
    Með b-lið er bætt við ákvæði um að reglur um merki við stöðuvötn gildi einnig um miðlunarlón eftir því sem við getur átt. Rétt þykir að kveða skýrlega á um þetta í lögum þó leiða megi slíka reglu af eðli máls og gengið sé út frá því að aðrar reglur um stöðuvötn gildi um miðlunarlón eftir því sem við getur átt.

Um 6. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 5. gr. laganna. Með a-lið er lögð til breyting á orðalagi til nútímahorfs án þess að í því felist efnisleg breyting á inntaki greinarinnar. B-liður greinarinnar þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Lagt er til í greininni að 6. gr. vatnalaga verði felld brott í heild sinni en þar er nú gert ráð fyrir sérstakri aðkomu matsmanna sem ekki er í samræmi við þá breyttu tilhögun stjórnsýslu og réttarfars sem miðað er við í frumvarpi þessu og fjallað er um hér að framan. Í staðinn komi ný 6. gr. um rétt til vatns þegar merkivötn skilja fasteignir. Ákvæðið felur í sér eðlilega reglu um réttarstöðu þeirra sem eiga land að merkivatni. Að hluta til er sambærileg regla í 51. gr. vatnalaga en ástæða þykir til að ljá henni almennari þýðingu en hún hefur þar í tengslum við orkunýtingu.

Um 8. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna. Í a-lið er lagt til að orðinu „vatnsflæði“ verði bætt við upptalningu 1. tölul. 2. mgr. þannig að ekki fari á milli mála að bannregla ákvæðisins eigi einnig við um breytingar á vatnsflæði en um skýringar á hugtakinu vísast til 1. gr. frumvarps þessa. Orðalagsbreyting sú sem lögð er til með c-lið greinarinnar felur ekki í sér efnislegar breytingar.

Um 9. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 8. gr. vatnalaga. Þar er fjallað um heimild til að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag.
    Í a-lið er í fyrsta lagi felldur brott lokamálsliður 1. mgr. 8. gr. vatnalaga þar sem segir að ef ágreiningur verði skuli matsmenn skera úr. Það er í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu um að öll slík sérákvæði um matsmenn verði felld brott enda gilda almennar reglur á sviði réttarfars um mat á nauðsyn og þar fram eftir götunum. Nánar er um þessa almennu breytingu fjallað í almennum athugasemdum við frumvarpið. Í öðru lagi er lagt til að í stað þess málsliðar sem felldur verður brott komi ákvæði þess efnis að náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur geti ráðherra heimilað eignarnám í þessu skyni.
    Í b-lið er lagt til að 2. mgr. 8. gr. gildandi vatnalaga verði felld brott. Hún þykir í ljósi fenginnar reynslu óþörf og í raun til þess fallin að rýra þann ríka rétt sem menn eiga til þess að fella vatnsfall á ný í fornan farveg. Ljóst er af lokamálsgrein 8. gr. gildandi vatnalaga að sá sem rétt hefur skv. 1. mgr. hefur þann rétt í 20 ár. Eftir það skal litið svo á að það ástand sem á komst við breytingu farvegar hafi frá fornu verið svo. Eðlilegt er að beðið sé þann tíma á enda áður en nokkuð er aðhafst miðað við hið nýja ástand.

Um 10. gr.


    Með greininni er lögð til ný 9. gr. en hún felur í sér sameiningu 9. og 10. gr. gildandi vatnalaga, sem fjalla um minni háttar vötn og hvernig með þau megi fara.
    A-liður greinarinnar felur í fyrsta lagi í sér að hverum, laugum og uppsprettum, sem nú eru í 10. gr., er bætt við upptalninguna á minni háttar vötnum, sbr. 1. mgr. 9. gr. Þannig tekur fyrirvarinn um að unnt sé að gera aðra lögmæta skipun á en fram kemur í greininni um það hvernig með minni háttar vötn skuli fara einnig til þeirra. Takmarkanir varðandi meðferð á hverum, laugum og ölkeldum eru færðar úr a-lið 10. gr. og í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. Þar verður tiltekið, eins og nú er í 10. gr., að landeiganda sé óheimilt að spilla slíkum náttúrufyrirbærum með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti nema það sé talið nauðsynlegt til varnar landi eða landsnytjum. Mat á nauðsyn þessa á samkvæmt frumvarpinu undir Orkustofnun og leyfi stofnunarinnar er nauðsynlegt til þess að hefjast megi handa. Í gildandi lögum er kveðið á um að mat á nauðsyn skuli fara fram með matsgerð. Eðlilegra þykir að slíkt mat eigi undir hið sérfróða stjórnvald, Orkustofnun. Það er enn fremur í samræmi við þá almennu stefnu sem fram kemur í frumvarpinu að almennar réttarfarsreglur og eftir atvikum leyfisveiting stjórnvalda taki við af sértækum ákvæðum um matsmenn, ýmist dómkvadda eða ekki. Nánar er fjallað um þetta í almennum athugasemdum við frumvarpið. Tekið skal fram að þessi heimild til að spilla framangreindum náttúrufyrirbærum yrði aldrei nýtt nema að gættri hinni almennu heimild náttúruverndarlaga.
    Ekki eru lagðar til breytingar á 2. og 3. mgr. 9. gr. vatnalaga
    Í b-lið þessarar greinar frumvarpsins er að finna reglu sem er nú í 4. mgr. (merkt 3. mgr.) 9. gr. vatnalaga og fjallar um heimild til þess að fella minni háttar vötn á ný í fornan farveg eða vatnsleg. Lokaorð málsgreinarinnar, „enda sé tjón það, er af verkinu hlýst, bætt eftir mati, nema samkomulag verði“, eru felld brott. Þau þykja óþörf enda gilda um mat á tjóni og bótum vegna þess almennar reglur og jafnframt óþarft að taka fram að unnt sé að komast að samkomulagi um slíkt. Hins vegar er gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt að beita eignarnámi í því skyni að unnt sé að grípa til aðgerða í samræmi við heimild greinarinnar náist ekki um það samkomulag milli aðila. Fjallað er um eignarnáms- og bótaákvæði í XV. kafla laganna og vísast þangað um skýringar, sbr. 79.–82. gr. frumvarpsins og athugasemdir við þær. Þá er bætt við orðinu „vatnsflæði“ í upptalningu 4. mgr. til samræmis við hugtakanotkun annars staðar í frumvarpi þessu.
    Þá fela þessar breytingar jafnframt í sér að b-liður 10. gr. gildandi vatnalaga fellur brott. Við byggingu sundlauga nú á dögum er án undantekninga notast við heitt vatn úr iðrum jarðar en það fellur undir gildissvið laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. B-liður 10. gr. á þannig ekki við lengur og rétt að fella hann úr gildi.

Um 11. gr.


    Með greininni er lagt til að nýrri 10. gr. verði bætt við lögin. Greinin kveður á um aðgangsröð að vatni á landareign þegar vatn er ekki nægilegt til allra þeirra nota sem þörf er á eða hugur stendur til. Í hinni nýju grein er gert ráð fyrir meginreglu um aðgangsröð eftir mikilvægi þannig að vatnstaka til heimilisþarfa gangi framar búsþörfum, vatnstaka til búsþarfa gangi framar þörf atvinnurekstrar á landareign, annars en búrekstrar, svo sem iðnaðar og iðju, þörf atvinnurekstrar á landareign gangi framar áveituþörf og áveituþörf gangi framar orkuþörf. Lögfesting þessarar sérstöku reglu felur ekki í sér efnislega breytingu frá gildandi lögum.

Um 12. gr.


    Þessi grein frumvarpsins varðar breytingar á 11. gr. laganna. Efnislegar breytingar á gildandi 11. gr. laga eru að í stað þess að tiltekin sé heimild til sunds og umferðar um vötn, einnig á ísi, er nú tiltekin heimild til sunds og baða. Blæbrigðamunur er á sundi og böðum og þótti ástæða til að bæta þessari heimild við lögin. Hins vegar er felld brott úr 11. gr. heimild til umferðar um vötn. Hana er hins vegar að finna í 115. gr. laganna og vísast þangað um frekari skýringar þar að lútandi.

Um 13. gr.


    Grein þessi varðar breytingar á 12. gr. laganna. Þær breytingar skýra sig sjálfar að öðru leyti en því að felld er brott 3. mgr. gildandi laga um að ágreiningur um það hvort fyrirtæki fari í bága við fyrirmæli 1. og 2. mgr. þessarar greinar skuli til lykta leiddur með matsgerð og vísast um skýringar á því til athugasemda hér að framan, sbr. og kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 14. gr.


    Með þessari grein frumvarpsins er aðeins kveðið á um hver fyrirsögn 13. gr. vatnalaga skuli vera og þarfnast hún ekki frekari skýringa.

Um 15. gr.


    Með greininni er lagt til að 14. gr. gildandi vatnalaga verði felld brott í heild sinni. Grein þessi varðar ístöku af vatni og þykir nú óþörf enda miðuð við aðrar aðstæður en nú, en áður tíðkaðist að nota ís af vatni til kælingar matvæla. Færi svo ólíklega að það kæmi til slíks leiðir af sjálfu sér að réttur til töku íss fylgir öðrum eignarráðum fasteignarinnar sem hluti af heimildum vegna heimilis- og búsþarfa.
    Í nýrri 14. gr. er hins vegar gert ráð fyrir ákvæði sem varðar skyldu sameigenda til að taka þátt í gerð vatnsveitu, áveitu eða landþurrkunarframkvæmdum. Með greininni eru fyrirmæli 30., 48. og 82. gr. vatnalaga sameinuð í einni grein. Greinin varðar réttarstöðu sameigenda að sömu fasteigninni og heimildir meiri hlutans til að taka ákvarðanir um gerð vatnsveitu, áveitu eða til landþurrkunar á henni. Er minni hlutanum skylt að taka tiltölulega þátt í kostnaði en það er þó skilyrði að fasteigninni verði meira hagræði af framkvæmdum en sem kostnaðinum nemur. Hér er um ræða aðlögun á reglum vatnalaga að reglum sem þróast hafa í íslenskum rétti um óskipta sameign.

Um 16. gr.


    Með greininni er lögð til ný 15. gr. en hún felur í sér sameiningu 15. og 16. gr. gildandi vatnalaga.
    Í 1. mgr. hinnar nýju 15. gr. er mikilvæg regla um rétt landareignar til vatns. Þar segir að ekki megi skilja við fasteign vatnsréttindi til heimilis- og búsþarfa nema með leyfi Orkustofnunar. Um er að ræða töluverðar breytingar á innihaldi reglunnar í samanburði við 15. gr. gildandi vatnalaga, en þar segir að rétt landareignar til vatns, sem á henni er til: a. heimilisþarfa, svo sem til drykkjar, suðu, þvotta, böðunar, til að vökva garða og til varnar við eldsvoða, b. búsþarfa, svo sem til að vatna skepnum, ullar- og fiskþvottar, og c. jarðræktar, svo sem til vökvunar túna og áveitu, megi eigi skilja við eignina, nema sérstök lagaheimild komi til. Ekki þykir ástæða til að halda í upptalningu 15. gr. gildandi vatnalaga, enda eru orðin heimilis- og búsþarfir skilgreind í 1. gr. frumvarpsins og ber að leggja þær skilgreiningar til grundvallar.
    2. mgr. hinnar nýju 15. gr. svarar efnislega til 16. gr. gildandi vatnalaga, en þar segir í 1. mgr. að séu vatnsréttindi af hendi látin án þess að eignarréttur að landi sé jafnframt látinn fari eftir „reglum um landkaup“. Með tilvitnuðu orðalagi er m.a. vísað til reglna um þýðingu þinglýsingar þegar um sölu eða veðsetningu vatnsréttinda er að ræða. Hefur orðalagi greinarinnar verið breytt til samræmis við þetta og er hún nú orðuð svo að þegar vatnsréttindi eru framseld án þess að eignarréttur að fasteign sé jafnframt framseldur þá fari um réttarvernd þeirra samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga er varða fasteignir. Um skilning og skýringu á reglu þessari má svo sérstaklega vísa til dóms Hæstaréttar frá 14. maí 2009 í málinu nr. 562/2008 sem varðaði mat á stöðu vatnsréttinda sem seld höfðu verið frá jörð við neðri Þjórsá.
    Í 3. mgr. kemur fram að láti maður af hendi hluta landareignar sem liggi að vatni eða á séu vatnsréttindi falin í kaupinu nema öðruvísi sé um samið, en þó skuli sá hluti fasteignar sem eftir stendur hafa næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar á þeim. Er þetta í samræmi við það sjónarmið að heimilis- og búsþarfir séu grunnþarfir sem tryggja þarf að fylgi fasteignum eftir því sem kostur er.
    Í 4. mgr. segir að sé sameignarlandi skipt skuli hverjum eignarhluta fylgja, svo sem frekast er kostur, næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar á þeim. Hér er orðalag með nokkuð öðrum hætti en í 3. mgr. 16. gr. gildandi vatnalaga. Ekki er þó ætlunin að gera neina efnisbreytingu að þessu leyti.

Um 17. gr.


    Með greininni er lögð til ný 16. gr. um ráðstöfunarheimildir opinberra aðila. Um skýringar á ákvæði þessu vísast til athugasemda við 3. gr. frumvarps þessa og til frumvarps þess sem varð að lögum nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Er ákvæðið samhljóða 2. gr. núgildandi vatnalaga, eins og þeirri grein var breytt með 11. gr. laga nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, að því frátöldu að ekki er kveðið á um til hversu langs tíma opinberum aðilum er heimilt að veita tímabundinn afnotarétt til umráða og hagnýtingar á vatni. Í núgildandi lögum er kveðið á um að það skuli vera til allt að 65 ára í senn. Ástæða þess að enginn árafjöldi er tiltekinn í ákvæðinu er sú að fyrirhugað er að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga þar sem lagt verður til að hámarkslengd leyfilegs leigutíma á nýtingarrétti auðlinda verði stytt frá því sem nú er, ásamt endurskoðun á möguleika til framlengingar eða endurnýjunar slíkra samninga sem mundi tengjast frammistöðu leigutaka og umgengni hans um auðlindina. Gert er ráð fyrir að í þinglegri meðferð þess frumvarps sem hér er lagt fram verði gerðar breytingar á þessu ákvæði frumvarpsins, að því er varðar hámarkstíma afnotaréttar til umráða og hagnýtingar á vatni, til samræmis við framangreint frumvarp þegar það kemur fram.

Um breytingartillögur við III. kafla.


    Í III. kafla vatnalaga er fjallað um vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju án orkunýtingar. Engar grundvallarbreytingar eru lagðar til á efni og ákvæðum kaflans en þess þó freistað að skýra og einfalda einstök ákvæði hans. Í þessum kafla laganna er að finna ýmsar grundvallarreglur sem fjalla um réttarstöðuna við vatnsnot til manneldis og búrekstrar, þ.m.t. nokkur grundvallarákvæði varðandi vatnsveitur, stofnun þeirra og réttarstöðu. Þá eru í þessum kafla ákvæði um vatnsnot til annars atvinnurekstrar en búrekstrar, þ.e. iðnaðar og iðju án orkunýtingar í skilningi V. kafla. Það er þó áhorfsmál hversu raunhæfa þýðingu þau ákvæði hafi.

Um 18. gr.


    Með greininni er lögð til fyrirsögn 17. gr. vatnalaga og þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 19. gr.


    Með greininni er lögð til ný 18. gr. og að fyrirsögn hennar verði „Ef vatn er of lítið til að fullnægja þörfum skv. 17. gr.“. Hin nýja 18. gr. felur í sér sameiningu 18. og 19. gr. gildandi laga í eina grein.
    Í 1. mgr. hinnar nýju 18. gr. er sett fram regla um forgangsröð í þeim tilvikum þar sem ekki er nægt vatn til að fullnægja þörfum skv. 17. gr., þ.e. til heimilis- og búsþarfa og til iðnaðar og iðju. Reglan er af nábýlisréttarlegum toga og varðar réttarstöðu nágrannaeigna þegar vatn er af skornum skammti. Gert er ráð fyrir að allar þær landareignir sem tilkall hafa til sama vatns eigi jafnan rétt til vatnsins eftir þörfum sínum. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 1. mgr. 18. gr. gildandi laga. Um rétthæð einstakra vatnsnota er vísað til greinar sem verður 10. gr. laganna, sbr. 11. gr. frumvarpsins, verði frumvarp þetta að lögum.
    Ákvæði 2. mgr. hinnar nýju 18. gr. er efnislega og nær orðrétt samhljóða ákvæði því sem nú er í 1. mgr. 19. gr. laganna.
    Í 19. gr. frumvarpsins felst einnig að 2. og 3. mgr. 18. gildandi vatnalaga falla brott ásamt 2. mgr. 19. gr. Lagt er til með frumvarpi þessu að sérákvæði vatnalaga um mat og matsmenn séu felld brott, sbr. kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarp þetta. Slíkt ákvæði er að finna í 2. mgr. 18. gr. gildandi vatnalaga. Í 3. mgr. 18. gr. gildandi laganna er að finna heimild til handa ráðherra til þess að mæla fyrir um að vatnsveituvirkjum verði breytt, þau lögð niður eða afnot þeirra takmörkuð, þó að undangengnu mati. Slík heimild þykir óþörf. Þar sem 2. mgr. 19. gr. laganna vísar til 2. og 3. mgr. 18. gr. þeirra er óhjákvæmilegt að hún verði einnig felld brott.

Um 20. gr.


    Með greininni er gildandi 19. gr. felld brott, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum við 19. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.


    Í greininni er kveðið á um að 24. gr. vatnalaga falli brott en þar eru ákvæði um reglugerðarheimildir, um sumt sértæk og úrelt. Almennar reglugerðarheimildir til handa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra verða samkvæmt frumvarpi þessu í 154. gr. laganna verði frumvarpið að lögum.

Um 22. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 25. gr. vatnalaga.
    Lagðar eru til smávægilegar orðalagsbreytingar á 1. mgr. 25. gr. en ákvæðið er efnislega sömu merkingar og 1. mgr. 25. gr. gildandi laga.
    Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar á 2. mgr. 25. en efnislega er ákvæðið sömu merkingar og 2. mgr. 25. gr. Í stað orðsins „notanda“ landareignar er lagt til orðið „rétthafi“. Nokkuð ljóst ætti að liggja fyrir hver er rétthafi að landi annar en eigandi. Notandi þykir óljóst hugtak og ekki með öllu víst að allir sem „nota“ land eigi að hafa slíkan rétt sem hér um ræðir. Seinni málsliður 2. mgr. fellur brott en óþarft þykir að kveða sérstaklega á um það að hlíta skuli löglegum fyrirmælum um vatnsveitu.
    Í fyrri málslið 3. mgr. felst að í stað þess að kveðið sé á um það sérstaklega að haga skuli vatnsveitu svo að spjöll verði sem minnst á atvinnu manna og eða veiðitækjum, ef veiði er í vatninu, verði kveðið á um að henni skuli haga þannig að spjöll verði sem minnst vegna hennar. Þannig kann fleira að falla undir ákvæðið en atvinna manna og veiðitæki.
    Lagt er til að 4. mgr. 25. gr. gildandi laga, um að skorið skuli úr ágreiningi með mati, verði felld brott. Vísað er til kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarp þetta um ástæður þess að lagt er til að þetta og önnur sértæk ákvæði um að skorið skuli úr ágreiningi með mati séu felld brott.

Um 23. gr.


    Með greininni er lögð til ný 26. gr. en hún felur í sér sameiningu 26. og 27. gr. gildandi laga, um skyldu til að láta af hendi land og landsafnot til vatnsveitugerðar kaupstaðar, með þeim hætti að ákvæði 26. gr. verður áfram í 1. mgr. 26. gr. en ákvæði 27. gr. verður 2. mgr. 26. gr. Auk orðalagsbreytinga sem ekki hafa áhrif á efnislegt inntak ákvæðanna eru felld brott ákvæði um mat sem þykja óþörf, sbr. umfjöllun í kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarpið.
    Auk þess sem óhjákvæmilegt er að orðinu „kaupstað“ verði breytt í „sveitarfélag“ er lagt til að orðið „mengun“ komi í stað orðsins „óhreinkun“ í 2. mgr. 26. gr. eins og hún verður verði frumvarpið að lögum. Mengun er alþjóðlegt hugtak og er skilgreint í 1. gr. frumvarps þessa.

Um 24. gr.


    Í greininni er lagt til að komi ný grein, 27. gr., um eignarnámsheimild til handa ráðherra vegna þarfa vatnsveitu sveitarfélags, sbr. 22. gr. frumvarpsins. Skv. 73. gr. frumvarpsins, en þar eru lagðar til breytingar á 139. gr. vatnalaga, getur eignarnám tekið til vatnsréttinda, lands, mannvirkja, aðstöðu og annarra réttinda landeiganda. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við þá grein frumvarpsins.
    Lagt er til að í 2. mgr. 27. gr. verði hnykkt á því, til áréttingar og leiðbeiningar, að um vatnsveitur sveitarfélaga fari að öðru leyti samkvæmt lögum sem um þær gilda á hverjum tíma.

Um 25. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 29. gr. vatnalaga.
    Í 1. mgr. þeirrar greinar er kveðið á um rétt annarra en sveitarfélaga, eigenda þeirra fasteigna er ætla sér að nota vatnsveitu til að fullnægja þörfum sínum skv. 17. gr. laganna, til að gera með sér sérstakt félag er nefnist vatnsveitufélag. Fram kemur að um félagið skuli fara samkvæmt ákvæðum XI. kafla laganna að því leyti sem fyrirmæli III. kafla taka ekki til þess. XI. kafli vatnalaga fjallar um vatnafélög.
    Fellt er brott ákvæði gildandi 2. mgr. 29. gr. Ekki þykir sérstök þörf á að taka fram að stjórn vatnsveitufélags semji samþykktir þess, þar á meðal gjaldskrá.
    Þá er lagt til að orðalagi 3. mgr. verði breytt, í fyrsta lagi að tilvísun til ákvæða 20.–27. gr. vatnalaga verði felld brott en í staðinn komi tilvísun til ákvæða 25.–27. gr. en sú breyting leiðir af þeim breytingum sem lagðar eru til á fyrrnefndu ákvæðunum. Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við málsgreinina að einnig skuli farið eftir lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, eftir því sem við getur átt.

Um 26. gr.


    Með greininni er lagt til að 30. gr. laganna falli brott. Þá tilhögun leiðir af 15. gr. frumvarpsins um nýja 14. gr. þar sem gert er ráð fyrir ákvæði sem varðar skyldu sameigenda til að taka þátt í gerð vatnsveitu, áveitu eða landþurrkunarframkvæmdum. Með greininni eru fyrirmæli 30., 48. og 82. gr. vatnalaga sameinuð í einni grein. Vísast til athugasemda við 15. gr. frumvarpsins.

Um 27. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 31. gr. laganna sem fjallar um rétt til þess að afla sér vatns af fasteign annars manns.
    Með a-lið er lagt til að lokaorð 1. málsl. 1. mgr. 31. gr. verði felld brott, þ.e. „eftir mati, nema samkomulag verði“. Það er í samræmi við það sem lagt er til almennt í frumvarpi þessu, að sérákvæði um mat nema samkomulag náist verði felld brott. Um skýringar vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.
    Með b-lið eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 31. gr. laganna. Þær fela í sér að felldur er brott seinni málsliður málsgreinarinnar er varðar bætur fyrir þær framkvæmdir sem ákvæðið heimilar. Hann er óþarfur, sbr. 1. mgr. greinarinnar.

Um 28. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 32. gr. laganna.
    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 32. gr. verði fellt brott. Þar er heimild til lögnáms, þ.e. eignarnáms, vegna framkvæmda á grundvelli 25.–27. gr. vatnalaga. Samsvarandi heimild til eignarnáms verður að finna í 33. gr. laganna, sbr. 29. gr. frumvarpsins, verði frumvarp þetta að lögum.

Um 29. gr.


    Í greininni er lagt til að 33. gr. gildandi laga verði felld brott. Þar er sérstök heimild til vatnstöku vegna námuvinnslu, verksmiðjuiðnaðar eða annarrar iðju og jafnframt til lands og landsafnota sem henni tengjast. Grein þessi verður að teljast úrelt. Eðlilegt er að um vatnsnot vegna slíkrar starfsemi sé samið, annaðhvort við sveitarfélag eða beint við landeiganda.
    Í stað þess er lagt til að í nýrri 33. gr. verði eignarnámsheimild til handa ráðherra ef samningar um þær framkvæmdir sem 31. og 32. gr. fjalla um nást ekki. Almenn ákvæði um eignarnám er að finna í XV. kafla laganna, sbr. 73. og 74. gr. frumvarps þessa, og er vísað til þeirra greina og athugasemda við þær um nánari skýringar.

Um 30. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 34. gr. vatnalaga. Um skýringar vísast til kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarpið. Smávægilegar orðalagsbreytingar eru jafnframt lagðar til en þær hafa engin áhrif á efnislegt inntak ákvæðisins.

Um 31. gr.


    Í greininni er lagt til að 35. gr. laganna verði felld brott. Þar er mælt fyrir um að vatnsveitur sem gerðar hafa verið með heimild í eldri lögum skulu sæta þeim reglum sem þar segir en að fyrirmæli 34. gr. skuli einnig taka til þeirra. Þess er ekki að vænta að slíkar vatnsveitur séu til og því rétt að fella greinina brott.

Um breytingartillögur við IV. kafla.


    Í IV. kafla vatnalaga er fjallað um áveitur. Að sönnu eru áveitur og áveitugerð ekki raunhæfasta álitaefnið varðandi vatnsnot nú á tímum. Ekki þykir þó ástæða til þess að hrófla við þeim grundvelli sem lagður var með vatnalögunum frá 1923 þar sem áveitur og áveituþörf eru meðal þeirra vatnsnota sem sérstaka umfjöllun fá. Ekki eru lagðar til veigamiklar breytingar á fyrirmælum IV. kafla laganna en þess þó freistað að stytta hann, einfalda og skýra.

Um 32. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 36. gr. vatnalaga. Breytingarnar þarfnast ekki skýringa en greinin er efnislega óbreytt.

Um 33. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 37. gr. laganna. Með a-lið er lagt til að lokamálsliður greinarinnar falli brott. Í þessum lið segir að ef vatn er svo lítið að ekki nægi báðum eða öllum skuli ákveða skipti og notkun þess með mati. Það er í samræmi við það sem lagt er til almennt í frumvarpi þessu, að slík sérákvæði um mat verði felld brott en um ágreining fari samkvæmt almennum reglum. Um skýringar vísast til kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 34. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 38. gr. vatnalaga. Með a-lið er lagt til að þar sem vísað er til þess að vatn sé tekið til neyslu með tilvísun í a- og b-lið 15. gr. laganna sé í þess stað vísað til 1., 2. og 3. tölul. nýrrar 10. gr. sem fjallar sérstaklega um aðgangsröð að vatni á landareign. Þótt efnislega sé ekki um breytingu að ræða er nauðsynlegt að breyta tilvísuninni þar sem í frumvarpi þessu er lagt til að 15. gr. verði breytt.

Um 35. gr.


    Með greininni er lögð til ný 39. gr. en hún felur í sér sameiningu 39. og 40. gr. gildandi vatnalaga. Eðlilegt er að ákvæði sem varða það ástand þegar vatn til áveituþarfa er takmarkað sé komið fyrir í einni grein. Gildandi 1. mgr. 39. gr. laganna verður óbreytt að því frátöldu að í stað orðsins „notandi“ landareignar verður orðasambandið „annar rétthafi“ viðhaft. Nokkuð ljóst ætti að liggja fyrir hver er rétthafi að landi annar en eigandi. Notandi þykir óljóst hugtak og ekki með öllu víst að allir sem „nota“ land eigi að hafa slíkan rétt sem hér um ræðir.
    Frumvarpsgreinin felur síðan í sér að fyrri málsliður 2. mgr. 39. gr. fellur brott. Ákvæði þess málsliðar fjallar um hvernig með skuli fara ef ágreiningur rís um hvort taka vatns fari í bága við takmarkanir þær sem taldar eru í 1. mgr. Í samræmi við breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, að um ágreining skuli fara samkvæmt almennum reglum, er lagt til að þetta sérákvæði verði fellt brott. Sjá nánar kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarp þetta. Seinni málsliður málsgreinarinnar er efnislega óbreyttur.
    Ákvæði 40. gr. um afnot af landi annars manns til þess að koma upp, halda við eða starfrækja áveitu eru færð í 3. mgr. 39. gr. Efnislega er ákvæðinu breytt með því að ekki er gert ráð fyrir því að matsgerð fari fram ef samkomulag næst eigi eins og nú er kveðið á um í fyrri málslið 40. gr. laganna.
    Með 4. mgr. er bætt við eignarnámsheimild til handa ráðherra ef samningar nást ekki um framkvæmdir samkvæmt greininni eða bætur vegna þeirra.

Um 36. gr.


    Í greininni er lagt til að 40. gr. laganna verði felld brott. Þar sem lagt er til hér að framan í 35. gr. frumvarpsins að efni 39. og 40. gr. verði sameinað í nýja 39. gr. er óhjákvæmilegt að fella brott 40. gr.

Um 37. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 41. gr. laganna.
    Í a-lið eru lagðar til breytingar á orðalagi 2. mgr. með þeim hætti að ekki verði í málsgreininni vísað til matsgerðar eða matsnefndar. Að öðru leyti er efni hennar óbreytt. Þetta er í samræmi við breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, að um ágreining skuli fara samkvæmt almennum reglum og sérákvæði er gera ráð fyrir mati verði felld brott. Sjá nánar kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarp þetta um rök fyrir þessum breytingum.
    Með b-lið greinarinnar er lagt til að nýrri 3. mgr. verði bætt við 41. gr. laganna. Þar er kveðið á um eignarnámsheimild ráðherra ef ekki nást samningar um framkvæmd og/eða bætur samkvæmt lagagreininni.

Um 38. gr.


    Með greininni er lögð til fyrirsögn 42. gr. laganna og þarfnast það ekki skýringa.

Um 39. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 43. gr. laganna. Í fyrsta lagi eru lagðar til nokkrar orðalagsbreytingar á greininni. Í stað orðsins „leiguliðar“ er lagt til að orðasambandið „aðrir rétthafar“ komi í staðinn og í stað orðsins „áveituverk“ verði orðið „áveita“ notað. Í því felst fyrst og fremst breyting málsfars til nútímahorfs. Þó er ljóst að merking orðasambandsins „aðrir rétthafar“ er rýmra en orðsins „leiguliðar“. Þá er lagt til að felld sé brott sú takmörkun sem felst í orðunum „á afnotarétti“ þar sem í greininni er kveðið á um að þeir aðilar sem um ræðir skuli þola allar þær kvaðir, óhagræði eða takmarkanir sem áveitan hefur í för með sér. Slík takmörkun sem felst í orðunum „á afnotarétti“ hefur enga efnislega þýðingu og ákvæði því skýrara ef hún er felld brott. Að lokum er lagt til að felldur verði brott lokamálsliður greinarinnar þess efnis að náist ekki samkomulag um bætur skuli ákveða þær með mati. Í þess stað komi ákvæði um eignarnámsheimild til handa ráðherra náist ekki samkomulag um framkvæmd og/eða bætur vegna hennar. Þessi breyting er í samræmi við breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, að um ágreining skuli fara samkvæmt almennum reglum og sérákvæði er gera ráð fyrir mati verði felld brott. Sjá nánar kafla IV.3 almennra athugasemda við frumvarp þetta um rök fyrir þessum breytingum.

Um 40. gr.


    Í greininni eru lagðar til smávægilegar breytingar á 44. gr. laganna.

Um 41. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 45. gr. vatnalaga. Í a-lið er lagt til að lokaorðum fyrri málsliðar verði breytt þannig að í stað orðanna „ef það er að dómi matsmanna bagalaust“ komi „verði það talið bagalaust“. Þetta er í samræmi við aðrar breytingar sem gerðar eru í frumvarpinu þess efnis að sérákvæði um mat og matsmenn verði felld brott úr vatnalögum. Ef ágreiningur verður um einstök atriði og hann fæst ekki jafnaður með samningum verður úr honum leyst í samræmi við almennar reglur.

Um 42. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 46. gr. vatnalaga.
    Í a-lið er lagt til að 2. og 3. mgr. 46. gr. verði felldar brott. Í 2. mgr. er heimild til handa sveitarstjórn að ábyrgjast lán sem stjórn áveitufélags eða landþurrkunar- og áveitufélags telur nauðsynlegt vegna stofnkostnaðar. Slík heimild er ekki í samræmi við það sem nú þykir æskilegt varðandi fjárstjórn sveitarfélaga. Að sama skapi þykir ákvæði 3. mgr. óþarft. Um úrræði vegna vanefnda ábúanda er nú mælt fyrir í 37. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004.

Um 43. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 47. gr. vatnalaga. Í gildandi ákvæði er heimild til þess að landareign sé tekin „lögnámi“, þ.e. eignarnámi, neiti eigandi hennar að greiða kostnað vegna samáveitu. Eignarnámsheimild þessi stenst trauðla ákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Lagt er til að áveitufélag eignist lögveð í fasteign þess eiganda sem ekki greiðir kostnað af samáveitu og að lögveðið nái til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta. Slík heimild er sambærileg þeirri sem er að finna í lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, ef eigandi greiðir ekki hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði.

Um 44. gr.


    Í greininni er lagt til að 48. gr. laganna verði felld brott. Í 15. gr. frumvarpsins er lögð til ný 14. gr. sem tekur til þess er menn eiga landareign í félagi og vilji meiri hlutans stendur til þess að ráðast í tilteknar framkvæmdir, m.a. veita á hana vatni. Vísast til 15. gr. frumvarpsins um frekari skýringar en vegna hinnar nýju 14. gr. verður 48. gr. óþörf.

Um breytingartillögur við V. kafla.


    Í V. kafla vatnalaga er fjallað um notkun vatnsorku. Ekkert í umhverfi vatnamála hefur breyst viðlíka frá gildistöku vatnalaga, nr. 15/1923, og þáttur orkunýtingar vatnsafls. Allt að einu standa flest grundvallarákvæði V. kafla vatnalaga enn fyrir sínu sem meginreglur hvað orkunýtingu yfirborðsvatns varðar. Þeim til viðbótar koma nú hins vegar ákvæði annarra laga og ber þar hæst raforkulög, nr. 65/2003. Sem fyrr er þess þó freistað með frumvarpi þessu að skýra og skerpa reglur kaflans.

Um 45. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 49. gr. vatnalaga.
    Í a-lið er lagt til að í stað orðsins „fallvatn“ í 2. mgr. 49. gr. vatnalaga komi orðið „vatnsfall“. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins til skýringar á því, nánar tiltekið þær athugasemdir sem fram koma við hugtakið vatnsfall.

Um 46. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 50. gr. vatnalaga.
    Í a-lið er lagt til að lokaorð fyrri málsliðar 1. mgr. falli brott, þ.e. „enda séu ekki gerðar skemmdir á landi annarra manna um nauðsyn fram. Slíkar „skemmdir“ á landi annars manns yrðu ekki gerðar án samþykkis viðkomandi. Fáist ekki slíkt samþykki reynir á hvort framkvæmdin sé þess eðlis að ástæða sé til að beita eignarnámi enda er í 3. mgr. greinarinnar gert ráð fyrir að ráðherra hafi þá heimild. Í b-lið er lagt til að orðinu „lögnámi“ verði breytt í „eignarnám“ enda það orð sem almennt er notað.

Um 47. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 51. gr. vatnalaga.
    Í a-lið er lagt til að í stað orðsins „rennsli“ í 2. mgr. greinarinnar komi orðið „vatnsflæði“. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins til skýringar á því, nánar tiltekið þær athugasemdir sem fram koma við bæði þessi hugtök, rennsli og vatnsflæði.

Um 48. gr.


    Í greininni er lagt til að 52. gr. laganna falli brott en hún á við um þá aðstöðu þegar mannvirkjagerð vegna orkunýtingar varðar tvær fasteignir sem eru hvor sínum megin við vatnsfall og í eigu mismunandi aðila. Eðlilegt þykir að ákvæði þessa efnis séu í kafla um mannvirki og er því lagt til í 50. gr. frumvarpsins að ákvæði þessa efnis verði í nýrri 67. gr. í VI. kafla laganna.

Um 49. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 53. gr. vatnalaga.
    Í a-lið eru lagðar til minni háttar breytingar á fyrri málslið 1. mgr. 53. gr. en greinin fjallar um það þegar menn eiga í félagi, í öðrum tilvikum en þegar merkivötn skilja fasteignir, tilkall til orku úr sama vatnsfalli og verða ekki ásáttir hvernig það skuli notað til orkuvinnslu. Vert er að árétta að með orðunum „í félagi“ er vísað til þess að „menn eiga land í sameign, þar er vatnsrjettindi fylgja, eða tilkall í fjelagi til vatnsorku með eða án lands, auk farvegarins“ eins og þetta er nánar skýrt í athugasemdum við 53. gr. frumvarps þess er varð að vatnalögum, nr. 15/1923. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir því að ráðherra geti með leyfi heimilað að þeir sem tilkall eiga til meira en helmings vatnsorkunnar, talinnar eftir vatnsmagni og fallhæð, leysi til sín tilkall minni hlutans. Með frumvarpi þessu er lagt til að slíkt geti gerst með því að ráðherra heimili eignarnám í þessu skyni. Er sú tilhögun í betra samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til stjórnsýslunnar nú og um réttaröryggi. Þá er jafnframt til samræmis við hugtakanotkun í frumvarpi þessu lagt til að í stað orðsins „vatnsmagn“ í 1. mgr. komi „vatnsflæði“. Um skýringu hugtaksins vísast til 1. gr. frumvarpsins.
    Í b- og e-lið greinarinnar er svo lagt til að í stað orðsins „fallvatn“ komi orðið „vatnsfall“. Um skýringar hér að lútandi vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins, nánar tiltekið þær athugasemdir sem fram koma við hugtakið vatnsfall. C-liður þarfnast ekki skýringa. Í d-lið er lagt til að 3. mgr. 53. gr. verði felld brott, þ.e. að ágreiningi um atriði sem greinin fjallar um skuli ráða til lykta með mati. Þetta er í samræmi við aðrar breytingar sem gerðar eru í frumvarpinu þess efnis að sérákvæði um mat og matsmenn verði felld brott úr vatnalögum. Ef ágreiningur verður um einstök atriði og hann fæst ekki jafnaður með samningum verður úr honum leyst í samræmi við almennar reglur réttarfars.

Um breytingartillögur við VI. kafla.


    Verði frumvarp þetta að lögum verður í VI. kafla að finna ákvæði úr V. kafla um stíflugerð, VI. kafla um vatnsmiðlun, VII. kafla um varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna, VIII. kafla um þurrkun lands og XIII. kafla um almenn ákvæði um vatnsvirki. Lagt er til að fyrirsögn VI. kafla verði „Mannvirkjagerð, miðlun vatns, varnir lands, þurrkun o.fl.“. Inntak margra ákvæða þessara kafla er hið sama, að breyttu breytanda, og það leiðir til einföldunar að safna þeim saman í einn kafla. Eftir standa þá VII., VIII. og XIII. kaflar tómir. Slíkt er þó ekki einsdæmi en nefna má að X. kafli vatnalaga er tómur, þ.e. þar eru engin ákvæði.
    Ástæða er til þess að taka fram að víða er í breytingartillögum frumvarps þessa gert ráð fyrir að leyfi Orkustofnunar þurfi til að koma. Ef viðkomandi framkvæmd er leyfisskyld samkvæmt öðrum lögum, t.d. mannvirkjalögum, kemur leyfi Orkustofnunar til viðbótar en ekki í stað leyfis samkvæmt viðkomandi lögum hverju sinni. Nægilegt þykir að taka það fram hér og því er slíka athugasemd ekki að finna við hverja grein þar sem slíkt kemur til álita.

Um 50. gr.


    Í greininni er lagt til að 67. gr. laganna, sem nú stendur tóm í V. kafla þeirra, falli undir VI. kafla þeirra og að efni hinnar nýju 67. gr., en fyrirsögn hennar er „Mannvirki varðar tvær fasteignir“, svari til efnis núverandi 52. gr. vatnalaga. Sjá einnig athugasemdir við 48. gr. frumvarps þessa. Greinin varðar þá aðstöðu þegar mannvirki varðar tvær fasteignir sem eru hvor sínum megin við vatnsfall og í eigu mismunandi aðila. Eðlilegt þykir að ákvæði þessa efnis séu í kafla um mannvirki.
    Sú grein sem hér er lögð til, 67. gr., er nokkuð einfölduð miðað við 52. gr. gildandi laga. Í 1. málsl. 1. mgr. eru gerðar nokkrar orðalagsbreytingar til nútímahorfs en með þeim er einnig ætlunin að ákvæðið sé skýrara. Tiltekið er í ákvæðinu að átt sé við annan vatnsbakka merkivatns, þá er orðinu „stíflu“ breytt í „mannvirki“ og í stað þess að aðeins sé tiltekið að framkvæmdin sé til orkunýtingar segir „til vatnsnýtingar, þ.m.t. orkunýtingar“. Ljóst er að fleiri tilvik kunna að falla undir þessa reglu en undir reglu 52. gr. gildandi laga.
    Þá er lagt til að 2. málsl. málsgreinarinnar falli brott. Þar er fjallað um mat ef ágreiningur verður. Tillaga um að fella brott þennan málslið er í samræmi við aðrar breytingar sem gerðar eru í frumvarpinu þess efnis að sérákvæði um mat og matsmenn verði felld brott úr vatnalögum. Ef ágreiningur verður um einstök atriði og hann fæst ekki jafnaður með samningum verður úr honum leyst í samræmi við almennar reglur réttarfars.
    Þá er einnig lagt til að 2. mgr. verði breytt. Þar er um það fjallað þegar eigandi annars vatnsbakkans vill ekki taka þátt í mannvirkjagerð. Núverandi 52. gr. gerir þá ráð fyrir að með leyfi ráðherra megi framkvæma verkið og tiltölulega umfangsmiklum reglum um hvernig með hugsanleg síðari not og kostnaðarþátttöku skuli farið. Greinin gerir þannig ráð fyrir að leyfi ráðherra nægi til þess að framkvæmdir megi fara fram á landi þess manns sem ekki vill taka þátt í stíflugerð. Það stenst vart grundvallarreglur eignarréttar og því er í nýrri 2. mgr. 67. gr. gert ráð fyrir að vilji eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð þar sem nauðsynleg eru afnot af landi hans geti ráðherra heimilað eignarnám séu skilyrði þess fyrir hendi.

Um 51. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 68. gr. vatnalaga, sem varðar stíflugerð til vatnsmiðlunar. Gert er ráð fyrir að grein þessi leysi af hólmi allar þær greinar sem nú eru í VI. kafla vatnalaga og fjalla um vatnsmiðlun en greinin á sér að nokkru hliðstæðu í 70. gr. gildandi vatnalaga.
    Samkvæmt greininni þarf skilyrðislaust leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 fermetrar eða stærra við hæstu vatnsstöðu. Þó skal miðlunarleyfið talið hluti af virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum ef framkvæmd vatnsmiðlunar er liður í virkjun fallvatns til raforkuframleiðslu. Sú viðmiðun sem hér er lögð til grundvallar tekur mið af b-lið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, sem kveður á um að stöðuvötn og tjarnir, 1.000 fermetrar að stærð eða stærri, njóti sérstakrar verndar og að forðast skuli röskun þeirra eins og kostur er.
    Hér er ástæða til að benda á að þótt ekki þurfi leyfi fyrir stíflugerð til vatnsmiðlunar er slík framkvæmd tilkynningarskyld til Orkustofnunar samkvæmt þeim tillögum að stjórnsýslu sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, sbr. 79. gr. frumvarps þessa þar sem er tillaga um orðalag 144. gr. laganna. Hvort sem gerð stíflu er leyfisskyld eða aðeins tilkynningarskyld skal framkvæmdaraðili láta fylgja umsókn/tilkynningu fullnægjandi gögn um undirlag, gerð og frágang fyrirhugaðrar stíflu. Ákvæði um leyfi eða tilkynningu til Orkustofnunar, áður en að stíflugerð kemur til veitu vatns eða vatnsmiðlunar, er fyrst og fremst ætlað að fyrirbyggja flóðahættu vegna mögulegs stíflurofs og auka þannig öryggi almennings og forða tjóni. Með því að farið sé yfir gögn um undirlag, gerð og frágang fyrirhugaðrar stíflu er tryggt eins og kostur er af opinberri hálfu að slík hætta skapist ekki. Þá getur stofnunin sett skilyrði fyrir framkvæmd, sbr. fyrrnefnda 79. gr. frumvarpsins. Rétt er að taka fram að þessi tilkynningarskylda eða eftir atvikum umsókn til Orkustofnunar kemur til viðbótar en ekki í stað nauðsynlegra leyfa sem kann að vera þörf fyrir á grundvelli mannvirkjalaga.
    Tekið er fram að leyfi til stíflugerðar sé hluti af virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum ef um er að ræða virkjun vatnsfalls til raforkuframleiðslu og skuli þá leita leyfis í samræmi við þau lög. Sérstakt leyfi til stíflugerðar kæmi þá aðeins til álita í því tilfelli að ekki sé þörf á virkjunarleyfi vegna viðkomandi framkvæmdar, en yrði ella hluti af því.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra geti heimilað eignarnám ef þörf krefur í þágu framkvæmdar samkvæmt þessari grein.
    Að lokum er framkvæmdaraðila settur þriggja ára frestur til að hefja framkvæmdir áður en leyfi fellur úr gildi, og er þar miðað við meðalhóf í ljósi nýrra aðstæðna og aukinnar þekkingar sem kann að skapast með tímanum.

Um 52. gr.


    Í greininni er lagt til að 69., 70., 71., 72., 73. og 74. gr. laganna verði felldar brott. Eins og fram kemur í athugasemdum við 51. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að 68. gr. komi í stað þessara greina. Þó skal tekið fram að ákvæði um niðurlagningu mannvirkis, sem nú eru í 74. gr. vatnalaga, verða í 79. gr. laganna, sem einnig verður að finna í VI. kafla, Mannvirkjagerð, miðlun vatns, varnir lands, þurrkun o.fl., verði frumvarp þetta að lögum.

Um 53. gr.


    Í greininni er lagt til að fyrirsögn VI. kafla vatnalaga verði breytt.

Um 54. gr.


    Í greininni er lagt til að fyrirsögn VII. kafla laganna, Um varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna, falli brott. Kaflinn stendur þá eftir tómur, áfram sem VII. kafli. Þetta er eðlilegt þar sem ákvæði sem að þessu lúta verða samkvæmt frumvarpi þessu í VI. kafla laganna sem fær heitið „Mannvirkjagerð, miðlun vatns, varnir lands, þurrkun o.fl.“
     Um a-lið.
    Lagðar eru til breytingar á 75. gr. laganna auk þess sem lagt er til að hún falli undir VI. kafla.
    Með breytingum þeim sem lagðar eru til í frumvarpinu er greinin rýmkuð. Með 1. mgr. er verið að verja hagsmuni fyrir ágangi vatna. Auk fasteignareiganda er vatnafélögum heimiluð sú framkvæmd sem mælt er fyrir um í ákvæðinu, að veittu leyfi Orkustofnunar. Við mat á því hvort leyfi skuli veitt skal Orkustofnun m.a. horfa til þess hvort tjón eða hætta sé búin eign annars manns eða réttindum vegna framkvæmda í samræmi við 1. mgr. eða af þeim mundu stafa óhæfilegar tálmanir á umferð eða tjón eða hætta hagsmunum almennings. Jafnframt er skilyrði að aflað hafi verið leyfi Fiskistofu í samræmi við 33. gr. lax- og silungsveiðilaga, þegar það á við, þ.e. þegar um mannvirkjagerð í veiðivötnum er að ræða. Þá er mælt svo fyrir um að Orkustofnun sé heimilt að binda slíkt leyfi skilyrðum sem nauðsynleg þykja vegna almannahagsmuna.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir almennri heimild til að grípa undir þessum kringumstæðum inn í vatnafar þegar hætta er á spjöllum sem varða almannahagsmuni. Gert er ráð fyrir að slíkar framkvæmdir séu á hendi stjórnvalda, en það getur verið misjafnt hvaða stjórnvald um er að ræða eftir því hver atvik máls eru, en leyfi Orkustofnunar þarf engu síður til að koma.
    Ákvæði 3. mgr. kveður á um heimild ráðherra til að heimila eignarnám í þágu framkvæmda skv. 1. og 2. mgr.
    Í 4. mgr. er loks kveðið á um það að um varnir gegn ágangi vatna fer að öðru leyti samkvæmt gildandi lögum um varnir gegn landbroti.
    Vert er að árétta að ákvæði þessarar greinar gildir þó að sjálfsögðu með þeim takmörkunum sem leiða kann af öðrum lögum, þar á meðal vegna friðlýsingar.
     Um b-lið.
    Lagt er til að 76. og 77. gr. laganna falli brott. Eins og fram er komið er lagt til að 75. gr. verði rýmkuð að efni til þannig að með þeirri breytingu sem lögð er til mun greinin verja þá hagsmuni sem nú er fjallað um í VII. kafla vatnalaga. Þá þykja ákvæði 76. og 77. gr. óþörf og úrelt.
    Til að gæta samræmis við útgáfu laganna með breytingum þurfa ákvæðin þó að halda sér og falla undir VI. kafla þannig að töluröð ákvæða laganna riðlist ekki. Við sameiningu ákvæða úr V. kafla um stíflugerð, VI. kafla um vatnsmiðlun, VII. kafla um varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna, VIII. kafla um þurrkun lands og XIII. kafla um almenn ákvæði um vatnsvirki í einn kafla, VI. kafla, var reynt að gæta að því að hinar nýju greinar um vatnsmiðlun, varnir lands o.s.frv. hefðu númer sem væru sem næst þeim númerum sem ákvæðin hafa í núgildandi lögum. Talið var að slíkt auðveldaði samanburð og yfirsýn yfir breytingar.

Um 55. gr.


    Með greininni er lagt til að heiti VIII. kafla laganna, Um þurrkun lands, verði fellt brott. Um þurrkun lands er samkvæmt frumvarpinu fjallað í VI. kafla, 78. gr., og brottfelling þessi því eðlileg. Þessi kafli mun því verða tómur og aðeins kaflanúmerið standa eftir. Þannig hefur verið staðið að breytingum á vatnalögum fram að þessu, sbr. m.a. X. kafla. Þannig þykir við hæfi að halda þessum sið. Það leiðir einnig til þess að samanburður við gildandi vatnalög verður auðveldari.
     Um a-lið.
    Lagðar eru til breytingar á 78. gr. laganna auk þess sem lagt er til að hún falli undir VI. kafla.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði 1. mgr. 78. gr. vatnalaga verði óbreytt efnislega frá gildandi lögum. Reglan varðar fyrst og fremst innbyrðis samskipti eigenda nágrannaeigna. Hún tryggir mönnum réttinn til þess að losna við óæskilegt vatn af fasteignum sínum. Reglan tengist mjög umhverfismálum, en hér er um að ræða framkvæmdir sem í vissum tilvikum geta fallið undir lög nr. 44/1999, um náttúruvernd, og lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Til viðbótar komi síðan ný 2. og 3. mgr. og leysi 78. gr. síðan, þannig úr garði gerð, í heild af hólmi ákvæði VIII. kafla um þurrkun lands og á brott falla þá ákvæði 79. gr. til og með 82. gr. í núverandi mynd enda óþörf og úrelt að því marki sem þeirra sést ekki staður í 78. gr. í breyttri mynd.
    Lagt er til að gildandi 2. mgr. verði felld brott en í stað hennar komi ný 2. mgr. þar sem er mælt fyrir um að við framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli forðast að raska tjörnum og vötnum. Gildandi 2. mgr. varðar fráveitur og um aðgang að þeim gilda nú lög nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og því rétt að fella brott gildandi 2. mgr. Vart þarf að skýra efni hinnar nýju greinar en minnt er á að tjarnir og stöðuvötn, 1.000 m 2 að stærð eða stærri, njóta sérstakrar verndar skv. b-lið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Með ákvæði því sem hér er lagt til eru tjarnir og vötn vernduð frekar vegna framkvæmda sem fjallað er um í 1. mgr.
    Þá er lagt til að við bætist ný 3. mgr. þar sem kveðið er á um að ef skurðir um landareign annars manns eru honum einnig til gagns sé honum skylt að taka þátt í kostnaði af skurðgreftri og viðhaldi skurðanna. Þetta er eðlileg regla sem nú er í 1. mgr. 79 gr. vatnalaga og ekki þarfnast skýringa.
    Loks er lagt til að ný 4. mgr. bætist við greinina þar sem mælt er fyrir um að náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur samkvæmt lagagreininni geti ráðherra heimilað eignarnám. Lögnámsheimild er nú í 81. gr. vatnalaga. Þó að ekki sé það tekið fram berum orðum í greininni er eðlilegt að við mat eignarnámsbóta sé tekið tillit til þess hvort viðkomandi fasteignir hafa hag af framkvæmdinni.
     Um b-lið.
    Hér eru lagðar til breytingar er varða 74. gr. gildandi vatnalaga. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæðið falli undir VI. kafla laganna og verði þar 79. gr. laganna. Greinin kveður á um það að niðurlagning mannvirkis, þ.m.t. stöðvun á viðhaldi, sé háð samþykki Orkustofnunar. Við niðurlagningu skal umhverfið fært eins og kostur er til fyrra horfs. Þá segir að eigandi mannvirkis skuli leggja áætlun um niðurlagningu fyrir Orkustofnun til samþykktar þar sem m.a. skulu vera upplýsingar um hvernig verkið verði framkvæmt. Eðlilegt þykir að hafa ákvæði af þessu tagi, en nefna má að skv. 74. gr. gildandi vatnalaga þarf leyfi ráðherra til niðurlagningar vatnsmiðlunar. Orkustofnun getur jafnframt sett þau skilyrði fyrir leyfi til niðurlagningar sem nauðsynleg eru til að koma í veg fyrir hættu eða tjón fyrir einstaklinga og almenning.
     Um c-lið.
    Í greininni er lagt til að 80. gr. gildandi laga verði felld undir VI. kafla þeirra. Efni hennar verður allt annað en í gildandi lögum. Fyrirsögn hennar verður „Aðgæsluskylda“ og kveðið verður á um það að mannvirki og framkvæmdir allar samkvæmt þessum lögum skuli þannig úr garði gera að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á fasteignum annarra manna, nema þeim sé skylt að hlíta því samkvæmt lögum eða samningum. Hér er um að ræða almenna aðgæsluskyldu, en reglan á sér m.a. fyrirmynd í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu
     Um d-lið.
    Lagt er til að 81. og 82. gr. gildandi laga verði felldar á brott. Efni þessara ákvæði verður að finna í öðrum greinum laganna verði frumvarpið að lögum, sbr. m.a. 54. gr. frumvarpsins um eignarnámsheimild og 58. gr. frumvarpsins og áfram um vatnafélög. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.

Um breytingartillögur við IX. kafla.


    IX. kafli fjallar um óhreinkun vatna. Verði frumvarp þetta að lögum stendur aðeins eftir ein grein í þeim kafla, 83. gr. laganna. Ekki er ætlunin að breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu leiði til efnislegra breytinga á reglum um óhreinkun vatna. Sérstök ástæða er þó til að taka fram að í samræmi við nútímahugtakanotkun er notað hugtakið mengun, en það er alþjóðlegt hugtak sérstakrar merkingar, sbr. skilgreiningu þess í 1. gr. frumvarpsins. Mengun tekur ekki til þess er menn losa sig við hluti í vötn, gömul dekk eða annað rusl, eða þess að lífverum er sleppt í vötn. Því er lagt til að fyrirsögn kaflans haldi sér og að skilja beri óhreinkun vatna víðari skilningi en mengun vatna. Það að menga vötn er þannig hluti af því að óhreinka vötn.

Um 56. gr.


    Með greininni er lögð til ný 83. gr. en hún felur í sér að 83. og 84. gr. gildandi laga verði sameinaðar í eina grein. Í 1. mgr. 83. gr. núgildandi laga er lagt bann við að láta í vötn frá iðjuverum eða sleppt um vötn í skurði eða aðrar veitur nokkra þá hluti fasta, fljótandi eða loftkennda sem spilla mundu botni vatns eða bakka eða vatninu sjálfu svo hættulegt sé mönnum eða búpeningi eða spilli veiði í vatninu. Einnig er bannað að láta slík efni á ís eða svo nærri vatni að hætt sé við að þau berist í vatnið. Ákvæðið er að hluta atviksbundið og tekur sérstaklega til losunar frá iðjuverum. Í 84. gr. laganna er hins vegar að finna ákvæði sem bannar aðra losun efnanna en þá sem kveðið er á um í 83. gr. Í gildandi löggjöf, sbr. m.a. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er ekki vísað til iðjuvera heldur atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun. Bann við óhreinkun vatna samkvæmt núgildandi lögum er allt að einu ekki bundið við óhreinkun sem stafar frá atvinnurekstri sem getur haft í för með sér mengun. Ekki er ætlunin að breyta þessu réttarástandi og því þykir rétt að halda hinu almenna banni við óhreinkun vatna sem er að finna í núgildandi 1. mgr. 83. gr., sbr. 84. gr., en ekki er að finna annars staðar almennt bann við óhreinkun vatna í íslenskum rétti.
    Hugtakanotkun er að hluta breytt til nútímahorfs og því lagt bann við mengun vatna í 1. mgr. 83. gr. Mengun er skilgreind í orðskýringum í 1. gr. frumvarps þessa, sbr. 1. gr. laganna. Er þar um að ræða alþjóðlega skilgreiningu og er sömu skilgreiningu að finna í lögum nr. 7/1998 og fleiri bálkum á umhverfissviði. Skilgreiningin vísar ekki sérstaklega til lífvera eða hluta sem fljóta, t.d. plastbrúsa, eða sökkva vegna meiri eðlisþyngdar en vatn, t.d. járnaskrans af ýmsu tagi, og því er nauðsynlegt að taka sérstaklega fram að bannað sé að láta slíka hluti í vatn eða svo nærri því að það geti valdið umræddu áhrifum á vatn eða nánasta umhverfi þess. Með nánasta umhverfi vatns er m.a. átt við botn og bakka og allt það umhverfi vatnsins sem borið getur mengun í vatnið, t.d. ís sem er það nálægt að þegar hann bráðnar mengar hann vatnið. Í frumvarpinu er lagt til að hugtakið óhreinkun taki auk mengunar til fyrrnefnds, þ.e. lífvera og hluta, og sé þannig víðtækara en mengun.
    Í 2. mgr. núgildandi laga er heimild til handa ráðherra til þess að veita undanþágu frá banni við losun frá iðjuverum, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Um slíkar undanþágur vísast m.a. til ákvæða laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerða og starfsleyfa á grundvelli tilvitnaðra laga. Að öðru leyti geymir 2. mgr. 83. gr. núgildandi laga almenna skaðabótareglu.
    Í 2. mgr. hinnar nýju 83. gr. er kveðið á um að umhverfisráðherra geti veitt undanþágu frá banni því sem mælt er fyrir um í 1. mgr. í samræmi við lög þar að lútandi Ljóst er að ýmis starfsemi getur haft í för með sér losun mengandi efna í einhverjum mæli. Slíkar heimildir eru sem fyrr segir alla jafna veittar þegar gefið er út starfsleyfi fyrir starfsleyfisskyldri starfsemi á grundvelli reglugerða sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 7/1998. Enga bótareglu er að finna í tillögum að breyttri 83. gr. Verði frumvarpið að lögum fer um bótaskyldu eftir almennum reglum og sérreglu 141. gr., sbr. 75. gr. frumvarps þessa.
    Í 3. mgr. greinarinnar er, eins og í núgildandi 4. mgr. 83. gr., kveðið á um að unnt sé að taka aftur bótalaust þær undanþágur sem veittar eru á grundvelli 2. mgr. hvenær sem er eða breyta skilyrðum ef nauðsyn þykir til vera vegna hagsmuna almennings eða einstakra manna. Þessi heimild styður m.a. við heimild 2. mgr. 5. gr. a í lögum nr. 7/1998. Þar segir að endurskoða megi efni starfsleyfis fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna. Þær forsendur sem taldar eru upp í 2. mgr. 5. gr. a eru breytingar á rekstrinum, tækniþróun eða breytingar á reglum um mengunarvarnir. Ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, leggja ekki sérstakt bann við umhverfismengun en slíkar reglur er m.a. að finna í einstökum reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli laganna en þær eiga fyrst og fremst við um bann við losun tiltekinna mengandi efna í ákveðna viðtaka. Vegna þessa er mælt með því að þegar farið verður í smíði nýrrar, heildstæðrar vatnalöggjafar eins og lagt er upp með í almennum athugasemdum við frumvarp þetta verði lög nr. 7/1998 jafnframt tekin til endurskoðunar.
    Í 4. mgr. segir, eins og í núgildandi 5. mgr. 83. gr., að nýja undanþágu þurfi til hverrar þeirrar breytingar sem frekari spjöll geta af hlotist, þótt áður hafi verið veitt leyfi skv. 2. mgr. Þetta ákvæði undirstrikar enn frekar hversu rík vatnsverndin er samkvæmt lögunum.

Um 57. gr.


    Í greininni er lagt til að 84. og 85. gr. gildandi laga verði felldar brott. Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um breytingartillögur við XI. kafla.


    Í XI. kafla vatnalaga er fjallað um vatnafélög og starfsemi þeirra. Gilda þessar almennu reglur um öll slík félög nema sérákvæði séu um einstök þeirra. Hér er um að ræða allítarlegar reglur um þessa tegund félagsskapar en þar sem reglum þessum sleppir gilda almennar reglur félagaréttar um vatnafélög. Vatnafélög geta haft raunhæfa þýðingu nú á tímum þrátt fyrir að miklar samfélagsbreytingar hafi átt sér stað. Eins og greinir í almennum athugasemdum við frumvarp þetta er gert ráð fyrir þeim breytingum með frumvarpi þessu að afbrigðum vatnafélaga fækki frá ákvæðum gildandi vatnalaga. Þá hefur nokkrum ákvæðum verið sleppt sem ekki virðist ástæða til að hafa í lögum. Þá skal áréttað að sú grundvallarbreyting hefur nú orðið á að skylduaðild að vatnafélögum er afnumin. Að öðru leyti vísast hér um til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 58. gr.


    Greinin felur í sér breytingu á orðalagi 99. gr. gildandi laga. Við setningu gildandi vatnalaga voru í 99. gr. talin upp þau félög sem þá töldust hafa raunhæft gildi hér á landi en öðrum félögum sleppt, t.d. fleytifélögum og félögum í því skyni að halda uppi umferð á vötnum. Í frumvarpsgreininni er gert ráð fyrir félögum um vatnsveitur, áveitur, vatnsorkuvinnslu, vatnsmiðlun, varnir gegn ágangi vatns eða annað sem lögmætan tilgang hefur samkvæmt lögum þessum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir félögum um orkuver og orkuveitu, sbr. c-lið 1. mgr. 99. gr., og holræsi, sbr. g-lið 1. mgr. 99. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.

Um 59. gr.


    Greinin felur í sér breytingu á orðalagi 100. gr. gildandi vatnalaga. Í frumvarpsgreininni er fjallað um fundarboð til stofnunar vatnafélags. Er þeim fasteignareigendum sem stofna vilja vatnafélag skylt að boða til stofnfundar eigendur og eftir atvikum aðra rétthafa þeirra fasteigna sem ætla má að aðild gætu átt að félaginu.

Um 60. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 61. gr.


    Regla 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar er samhljóða ákvæði 1. mgr. 102. gr. gildandi vatnalaga. Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. er sett til þess að ekki vanti nauðsynleg ákvæði í samþykktir vatnafélaga. Upp eru talin öll helstu atriði sem fram eiga að koma í samþykktum í því skyni að auðveldara sé að semja þær. Sú breyting er frá gildandi lögum að í samþykktum félagsins skuli vera ákvæði um inntöku nýrra félaga skv. 110. gr. og heimild til úrsagnar úr félagi, sbr. 111. gr.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er mælt fyrir um að einfaldan meiri hluta þurfi til að ráða málum til lykta nema öðruvísi sé fyrir mælt. Í 2. málsl. 2. mgr. er heimild til að kveða svo á í samþykkt að aukinn meiri hluta þurfi til að ráða tilteknum málum til lykta.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að gildi samþykkta félagsins sé háð staðfestingu iðnaðarráðherra.

Um 62. gr.


    Með greininni er ráðgert að fella á brott ýmis ákvæði um vatnafélög sem nú teljast óþörf eða reglur þær sem fram koma í 103., 104., 105., 106., 107., 108. og 109. gr. laganna. Þess skal þó getið að ráðgert er að regla 4. mgr. 106. gr. flytjist í 3. mgr. 111. gr., sbr. 64. gr. frumvarpsins. Greinin þarfnast ekki að öðru leyti skýringa.

Um 63. gr.


    Greinin svarar að mestu til 110. gr. gildandi vatnalaga. Þessi grein er til tryggingar því að ekki verði teknir nýir menn í félagsskapinn ef það veldur verulegum breytingum á verkefni hans eða skyldum félagsmanna.
    Ákvæði 1. mgr. varðar heimild til að taka nýja menn í vatnafélag.
    Regla 2. mgr. varðar síðari þátttöku í vatnsveitu eða samáveitu, nánar tiltekið ákvæði um innbyrðis samskipti nágrannaeigna. Þar kemur fram að hverjum þeim sem ekki hefur tekið í upphafi þátt í framkvæmdum sé rétt að gera það síðar, enda valdi það ekki verulegu óhagræði. Telja verður eðlilegt að hafa ákvæði sem þetta þar sem vatnsveitur eða samáveitur eru í einkaeign, en augljós hagræðissjónarmið búa að baki reglunni.
    Í 3. mgr. kemur fram að verði veruleg breyting á skyldum félaga vegna töku nýrra félagsmanna eða verkefni félaga breytist verulega af þeim sökum skuli fara með málið sem breytingar á samþykktum félagsins. Rétt er að taka fram að ekki þykir ástæða til að halda þeirri reglu að ráðherra skeri úr ágreiningi um efni 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar eins og 2. mgr. 110. gr. gildandi vatnalaga gerir ráð fyrir. Eðlilegt er að slíkur ágreiningur verði leystur fyrir almennum dómstólum.
    Í 4. mgr. segir að bætist nýr maður í félag skuli hann þá greiða að sínum hluta og frá þeim tíma hlutdeild í stofnkostnaði þau gjöld sem á félögum hvíla og með sama hætti sem aðrir félagar nema öðruvísi semji. Kosta skuli hann sjálfur þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru sérstaklega hans vegna til þess að geta notað mannvirki félagsins.

Um 64. gr.


    Greinin felur í sér breytingar á ákvæði 111. gr. gildandi vatnalaga auk þess sem í niðurlagi greinarinnar hefur ábyrgðarreglu 4. mgr. 106. gr. gildandi laga verið komið fyrir. Í 1. mgr. kemur fram að maður megi segja sig úr félagi en þá skuli hann fá greiddan stofnkostnað sinn að því leyti sem verðmæti hlutar hans er meira en nemur kostnaði og tjóni af brottför hans. Hér er um að ræða verulegar breytingar frá reglu 111. gr. gildandi vatnalaga, en þar segir að maður megi segja sig úr félagi, ef a) 2/ 3hlutar félagsmanna samþykkja á lögmætum félagsfundi og b) svo reynist að landareign hans verður að mun meiri kostnaður af félagsskapnum en öðrum landareignum samanborið við hagnaðinn eða hagræðið. Hér er aftur á móti byggt á því að maður geti hvenær sem er sagt sig úr félagi og er það í samræmi við ríkjandi viðhorf um félagafrelsi. Þess verður þó að gæta að tryggja eðlilega hagsmuni þess sem segir sig úr félagi sem og þeirra aðila sem áfram eru í félagsskapnum og er við það miðað í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar.
    Í 2. mgr. er regla sem mælir svo fyrir að segi maður sig úr félagi ábyrgist hann þau gjöld sem á hann hafa fallið samkvæmt ákvæðum félagsins til þess tíma er hann fer úr félaginu. Í 111. gr. gildandi vatnalaga kemur fram að verði ágreiningur megi skjóta honum til ráðherra. Engin slík heimild er í þessari grein til slíks málskots enda er ekki gert ráð fyrir neinu eftirlitshlutverki ráðherra í tengslum við vatnafélög. Af þessu leiðir að leysa verður úr einkaréttarlegum ágreiningi aðila að vatnafélagi fyrir almennum dómstólum.
    3. mgr. svarar sem fyrr segir til 4. mgr. 106. gr. gildandi vatnalaga. Í greininni kemur fram að eignir félags standi fyrir skuldum þess og enginn félagsmaður beri ábyrgð umfram löglega ákveðna hlutdeild sína í félaginu.

Um 65. gr.


    Í greininni hefur með breytingum á 112. gr. verið safnað saman nokkrum reglum úr niðurlagsákvæðum XI. kafla sem fjalla um slit vatnafélags.
    Ákvæði 1. mgr. svarar að mestu til 1. mgr. 112. gr. gildandi vatnalaga. Í 1. mgr. koma fram skilyrði þess að slíta félagi. Þar segir að slíta megi félagi í þremur tilvikum, þ.e. a) ef félagar samþykkja það samkvæmt fyrirmælum samþykktar sinnar, b) ef félagar eru aðeins tveir og annar krefst þess og c) ef það kemur síðar í ljós að ekki er unnt að ná því takmarki sem félagið setti sér eða það er svo miklum örðugleikum bundið að erfitt þykir að halda félagsskapnum áfram.
    Felld er brott 2. mgr. 112. gr. um að ágreiningi um það hvort skilyrði félagsslita skv. c-lið 1. mgr. séu fyrir hendi sé ráðið til lykta með matsgerð. Þá er heldur engin málskotsheimild eins og í gildandi vatnalögum sem kveður á um það að skjóta megi mati úttektarmanna undir ráðherra til fullnaðarúrskurðar. Er það í samræmi við þá staðreynd að ráðherra er ekki ætlað hlutverk í tengslum við vatnafélög. Fer núna um úrlausn ágreinings vegna skilyrða félagsslita vatnafélags eftir almennum reglum, þ.m.t. réttarfarsreglum.
    Ákvæði 2.–4. mgr. svara að mestu til 113. gr. gildandi vatnalaga. Skv. 2. mgr. sér skilanefnd um skipti vatnafélags ef tilskilinn meiri hluti félagsmanna krefst þess og um vald hennar vísast til hlutafélagalaga um skilanefnd við slit hlutafélags. Í 3. mgr. er mælt fyrir um það hvernig með skuli fara þegar eignir félagsins hrökkva ekki fyrir skuldum. Í 4. mgr. er vísað til laga um skipti á dánarbúum o.fl. að því leyti sem ákvæði frumvarpsins mæla ekki á annan veg.

Um 66. gr.


    Í greininni er lagt til að 113. og 114. gr. laganna falli brott. Það er í samræmi við að í 65. gr. frumvarpsins er lagt til að nokkrum niðurlagsgreinum XI. kafla verði safnað saman í 112. gr. laganna. 113. og 114. gr. laganna verða þannig óþarfar.

Um breytingartillögur við XII. kafla.


    Í XII. kafla vatnalaga er fjallað um umferðarrétt um vötn. Svo sem fyrr greinir er í 11. gr. gildandi vatnalaga almennt ákvæði um vatnsréttindi almennings. Þar segir m.a. að öllum sé heimilt að nota vatn til sunds og umferðar, einnig á ísi, enda fari það eigi í bága við lög, samþykktir eða annað lögmætt skipulag. Með 12. gr. frumvarps þessa eru lagðar til smávægilegar breytingar á þeirri grein, sbr. athugasemdir við þá grein frumvarpsins. Réttur almennings til umferðar um vötn er svo útfærður frekar í XII. kafla.

Um 67. gr.


    Með greininni eru lagðar til breytingar á 115. gr. vatnalaga.
    Greinin er byggð á 119. gr. gildandi vatnalaga. Í fyrsta lagi er lagt til að fyrirsögn hennar verði „Heimild til að fara um vötn og til afnota af vatnsbökkum“. Þá er lagt til að hún skuli orðast svo að öllum sé heimil för, þ.m.t. á farartækjum, um vötn, einnig á ísi, með þeim takmörkunum sem lög kveða á um. Einnig er kveðið á um heimild fyrir umhverfisráðherra til að setja í reglugerð almennar takmarkanir við umferð vélknúinna báta og annarra vélknúinna farartækja um vötn og vatnasvæði. Slík heimild er nýmæli í vatnalögum. Fátt var um vélknúin farartæki á vötnum við setningu laganna árið 1923 en á því sviði hafa miklar breytingar orðið. Eins og fram kemur í skilgreiningu hugtaksins „mengun“ í 1. gr. frumvarpsins nær það til bæði efnafræðilegra og eðlisfræðilegra þátta og má í þessu sambandi sérstaklega benda á að hávaði fellur undir mengunarhugtakið.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um rétt til afnota af vatnsbökkum í þeim mæli sem nauðsynlegt er vegna þeirrar nýtingar vatna sem 1. mgr. 115. gr. heimilar en einnig vegna heimildar skv. 11. gr. til sunds og baða. Áréttað er að umferð um vatnsbakka fylgir aðgæsluskylda svo komið sé í veg fyrir skemmdir á landi, mannvirkjum eða veiðitækjum í vatni eða við það.

Um 68. gr.


    Með greininni er lagt til að 116. gr. gildandi laga falli brott. Um samgöngumál er fjallað í öðrum lögum. Greinin þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 69. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 117. gr. vatnalaga. Fyrirsögn greinarinnar verði „Aðgæsluskylda og bætur fyrir tjón vegna umferðar um vötn.“ Þá er lagt til að í 1. mgr. verði bætt við þeirri almennu aðgæsluskyldu sem nú er í 1. mgr. 119. gr. laganna. Þá er lagt til að smávægilegar breytingar verði gerðar á reglu 117. gr., sem verður þá 2. mgr. 117. gr., á þá leið að í stað „notenda“ landareigna verði stuðst við orðalagið „aðra rétthafa“ að landareign. Jafnframt er fellt brott að réttur til bóta sé samkvæmt mati nema um semji. Það er í samræmi við aðrar breytingar sem gerðar eru í frumvarpinu þess efnis að sérákvæði um mat og matsmenn verði felld brott úr vatnalögum. Ef ágreiningur verður um einstök atriði og hann fæst ekki jafnaður með samningum verður úr honum leyst í samræmi við almennar reglur réttarfars.

Um 70. gr.


    Í greininni er lagt til að 118., 119. og 120. gr. laganna verði felldar brott. Ákvæði þessi þykja ekki eiga við lengur. Greinin þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 71. gr.


    Um þessa grein vísast til athugasemda við 72. gr. frumvarpsins.

Um 72. gr.


    Í greininni er lagt til að felld verði brott fyrirsögn XIV. kafla, „Almenn ákvæði um vatnsvirki.“ Ákvæði hér að lútandi munu, ef frumvarpið verður að lögum, flytjast í aðra kafla, sbr. VI. og XV. kafla laganna. Greinin þarfnast ekki frekari skýringar.

Um breytingartillögur við XV. kafla.


    Gildandi ákvæði XV. kafla taka fyrst og fremst til ákvörðunar bóta vegna eignarnáms og tilhögun greiðslna þar að lútandi. Efnislega er þess freistað með frumvarpinu að skýra og einfalda reglur laganna og færa þær nær gildandi réttarframkvæmd. Er ákvæðum kaflans nú ætlað að taka almennt til framkvæmdar og tilhögunar eignarnáms samkvæmt lögunum í heild sinni en samhliða er lagt til að einstök sérákvæði verði felld brott. Er með þessu stuðst við þá tilhögun sem byggt er á í vatnalögum, nr. 20/2006, sem og í frumvarpi iðnaðarráðherra frá haustinu 2009. Helstu breytingarnar felast í því að ákvörðunarvald um eignarnám og hversu víðtækt það skuli vera er í höndum viðkomandi ráðherra og með því er aflögð sú verkaskipting milli ráðherra og dómkvaddra matsmanna sem vatnalög, nr. 15/1923, gera ráð fyrir. Þá er gert ráð fyrir að um framkvæmd eignarnáms fari eftir almennum reglum, þ.e. lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Jafnframt eru ýmsar sérreglur vatnalaga, nr. 15/1923, um þetta afnumdar, þar á meðal um matsmenn eignarnámsbóta, tilhögun greiðslna, efnislegar forsendur bótaákvarðana, kostnað eignarnámsþola af matsmáli, umráðatöku eignarnema o.fl. Þá er lagt til að í 141. gr. verði tekið upp sérstakt bótaákvæði sem svarar að sínu leyti til 136. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.

Um 73. gr.


    Með greininni er lagt til að í 139. gr. vatnalaga verði tekin upp ný og breytt regla. Þannig hagar til að í ýmsum ákvæðum vatnalaga, sem og frumvarps þessa, er kveðið á um að ráðherra geti heimilað eignarnám vegna framkvæmda og vatnsnýtingar. Í þessari grein er kveðið á um það til hvaða eigna og réttinda slíkt eignarnám getur náð. Þar segir einnig að ávallt skuli freistað að ná samkomulagi við landeiganda eða rétthafa áður en til eignarnáms kemur en það verður að telja eðlilega reglu, sérstaklega í ljósi Hrd. 1998, bls. 985.
    Í 2. mgr. er áréttað að um framkvæmd eignarnáms sem heimilað er á grundvelli laganna fari eftir almennum reglum. Um þetta efni gilda nú lög nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.

Um 74. gr.


    Með þessari grein er lögð til nokkur breyting og einföldun á frádráttarreglu 140. gr. gildandi vatnalaga, vegna ákvörðunar eignarnámsbóta. Byggist reglan á því sjónarmiði sem lagt hefur verið til grundvallar í íslenskum rétti að við ákvörðun eignarnámsbóta beri ekki að taka til greina sérstaka verðhækkun þeirrar eignar sem tekin er eignarnámi. Áréttað er að öðru leyti fari um endurgjald fyrir eignarnumin verðmæti eftir almennum reglum þar um.

Um 75. gr.


    Með greininni er lagt til að í 141. gr. vatnalaga verði tekin upp almenn bótaregla. Í vatnalögum er að finna margvíslegar bótareglur en í mörgum þeirra er kveðið á um bætur sem hafa fremur einkenni eignarnámsbóta en hefðbundinna skaðabóta. Í 136. gr. vatnalaga, sem stendur í þeim kafla laganna sem fjallar um vatnaframkvæmdir (XIV. kafla), er að finna samsafn skaðabótareglna sem fela í sér frávik frá almennum reglum á því sviði. Er þar í 1. mgr. fjallað um ábyrgð vegna tjóns sem hlýst af verki sem framkvæmt er án leyfis þar sem leyfis er krafist samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. 136. gr. er kveðið á um ábyrgð vegna tjóns sem hlýst af því að vatnsvirki eða vatnaframkvæmd fullnægir ekki sanngjörnum kröfum um öryggi eða skilyrðum í leyfi eða brestur verður á viðhaldi vatnsvirkis. Í báðum ákvæðunum er kveðið á um ábyrgð án tillits til sakar. Í 4. mgr. 136. gr. er fjallað um ábyrgð vegna tjóns sem skapast af niðurlagningu vatnsvirkis en sérreglu um bótaábyrgð vegna niðurlagningar vatnsmiðlunarvirkja er að finna í 3. mgr. 74. gr. laganna.
    Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar er byggt á sama grundvelli og framangreind ákvæði gildandi vatnalaga. Er kveðið skýrt á um bótaábyrgð vegna tjóns sem skapast við tilteknar aðstæður og mælt fyrir um að ábyrgðin sé óháð sök. Þykir ástæða til að hnykkja á ábyrgð við þessar aðstæður og mæla fyrir um hlutlæga ábyrgð, einkum vegna vandkvæða við sönnun saknæmis sem gjarnan fylgja slíkum málum. Bótaskylda samkvæmt ákvæðinu er bundin við þrenns konar tilvik. Í fyrsta lagi ef ráðist er án leyfis í framkvæmdir sem skylt er að afla leyfis fyrir samkvæmt frumvarpinu. Í öðru lagi ef staðið er þannig að framkvæmdum að ekki fullnægi þeim öryggiskröfum sem 80. gr. mælir fyrir um, en þar er kveðið á um að mannvirki og framkvæmdir allar samkvæmt lögunum skuli þannig úr garði gera að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á eign annars manns nema honum sé skylt að hlíta því samkvæmt lögum eða samningum. Í þriðja lagi stofnast bótaábyrgð á tjóni sem hlýst af því að brestur verður á viðhaldi mannvirkis. Ábyrgð skv. 1. mgr. hvílir á eiganda mannvirkis eða þeim sem annars stendur fyrir framkvæmdum við vatn.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild til að setja það sem skilyrði fyrir leyfi til framkvæmdar samkvæmt frumvarpinu að framkvæmdaraðili leggi fram tryggingu vegna hugsanlegrar bótaábyrgðar. Þetta er þó bundið við stærri framkvæmdir sem haft geta í för með sér umtalsvert tjón. Sambærilegt ákvæði er að finna í 18. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu (8. tölul.), og í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis (6. tölul.).
    Þar sem reglum greinarinnar sleppir gilda almennar reglur skaðabótaréttarins.
    Rétt er að benda á að á yfirstandandi þingi (139. löggjafarþingi 2010–2011) hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp til laga um umhverfisábyrgð (299. mál) sem felur í sér innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um umhverfisábyrgð í því skyni að koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ráða bót á þeim (2004/35/EB). Markmið tilskipunarinnar er að setja ramma um ábyrgð vegna umhverfistjóns, þar á meðal tjóns á vatnsgæðum og vistgerðum.

Um 76. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 77. gr.


    Með greininni er mælt fyrir um breytt heiti á XV. kafla gildandi vatnalaga.

Um breytingartillögur við XVI. kafla.


    Gert er ráð fyrir því að nýr XVI. kafli frumvarpsins leysi af hólmi ákvæði XVI. og XVII. kafla gildandi vatnalaga. Kaflinn hefur að geyma ákvæði um málsmeðferð og yfirstjórn vatnamála, sem gert er ráð fyrir að breytist frá gildandi lögum. Hér er lagt til að yfirstjórn málaflokksins skiptist með tilteknum hætti á milli tveggja ráðherra, iðnaðar- og umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar og annist framkvæmd tiltekinna greina frumvarpsins en að öðru leyti lúti lögin yfirstjórn iðnaðarráðherra. Breytingin felur í sér frávik frá þeirri hefð sem verið hefur við lýði í íslenskri lagasetningu að framkvæmd einstakra laga sé á forræði eins ráðherra. Með þessu móti er þess freistað að samræma sem best stjórnsýslu vatnamála þó að lagaákvæði þar að lútandi verði eftir sem áður í a.m.k. tvennum lögum, sbr. frumvarp umhverfisráðherra um stjórn vatnamála, auk ákvæða úr mengunarlöggjöf og víðar.
    Hvað hlutverk Orkustofnunar áhrærir í stjórn vatnamála byggist það á því að hún er stofnun sem heyrir undir iðnaðarráðherra og starfar í hans umboði með jarðrænar auðlindir og náttúrulegar forsendur þeirra, í þessu tilviki vatnsauðlindina. Þetta hlutverk lýtur því að stýringu á nýtingu vatnsauðlindarinnar og aðgerðum nýtingunni tengdum, í samræmi við markmið laganna og annarra löglegra fyrirmæla. Þessu fylgir annars vegar upplýsingaskylda nýtenda um nýtingu og fyrirhugaðar framkvæmdir og hins vegar eftirlit með aðgerðum gagnvart vatni sem breytt geta vatnafari og nýtingu vatnsauðlindarinnar, fyrst og fremst gerð mannvirkja og vatnaveitingar. Gert er ráð fyrir að Orkustofnun geti sett skilyrði um framkvæmd eða starfsemi í vötnum af tæknilegum ástæðum eða til að tryggja nýtingu í samræmi við markmið laganna, eða til að þau samræmist skilyrðum laganna, reglugerðum eða öðrum heimildum. Hér er m.a. sérstaklega minnt á þær áætlanir sem gera á samkvæmt frumvarpi um stjórn vatnamála sem lagt hefur verið fram á Alþingi svo sem rakið hefur verið.
    Afskipti Orkustofnunar í samræmi við framangreint felast m.a. í því að eftirlit Orkustofnunar með vatnaaðgerðum snýr í fyrsta lagi að leyfisskyldum aðgerðum, í öðru lagi að þeim sem skilyrði hafa verið sett fyrir og í þriðja lagi er eftirlit heimilt með öllum aðgerðum ef tilefni gefast. Tilkynningarskylda hvílir svo á þeim sem nýta vatn og ráðast í framkvæmdir í vatni, skv. 79. gr. frumvarpsins. Allar fyrirhugaðar framkvæmdir skal tilkynna. Orkustofnun getur sett skilyrði um nýtingu eða mannvirki ef þess er talin þörf, en hefur annars ekki bein afskipti af þessum gerðum, t.d. með leyfisveitingu eða umsögn, nema um leyfisskyldar aðgerðir sé að ræða samkvæmt vatnalögum eða öðrum lögum eða reglum. Er við það miðað að stofnunin hafi stuttan frest til að gera athugasemdir við fyrirhugaða nýtingu eða framkvæmdir. Orkustofnun hefur þannig það hlutverk að fylgjast með öllum framkvæmdum tengdum vötnum. Tilkynningarskyldan þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að gera stofnuninni kleift að hafa viðunandi yfirlit um nýtingu vatnsauðlindarinnar svo að hún geti lagt mat á fyrirhugaða nýtingu, þar á meðal leyfisskylda nýtingu.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til á XVI. kafla er auk þess gert ráð fyrir ákvæði með nánari fyrirmælum um eftirlitshlutverk og úrræði þeirra stjórnvalda sem um er að tefla sem og heimild til gjaldtöku vegna veittra leyfa.

Um 78. gr.


    Með greininni er lagt til að í 143. gr. vatnalaga verði fjallað um forræði stjórnsýslu samkvæmt vatnalögum. Skv. 3. og 4. tölul. 7. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 177/ 2007, fer iðnaðarráðuneytið með mál er varða orku, þar á meðal grunnrannsóknir á orkulindum, nýtingu orku og orkufyrirtæki og jarðrænar auðlindir á landi og á hafsbotni. Þetta þýðir að vatnsnýting fellur undir verkefnasvið iðnaðarráðuneytis og hefur verið litið svo á að framkvæmd gildandi vatnalaga, nr. 15/1923, sé í meginatriðum í verkahring þess ráðuneytis. Það á þó ekki við um alla þætti þeirra og er framkvæmd sumra kafla laganna nú í höndum umhverfisráðuneytis, svo sem IX. kafla um óhreinkun vatna.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að iðnaðarráðherra fari með yfirstjórn vatnamála að því leyti sem þau mál koma til framkvæmda á grundvelli laganna nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögunum.
    Samkvæmt 2. mgr. fer Orkustofnun með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögunum. Þetta gildir að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögunum. Orkustofnun fer því með veigamikið hlutverk í stjórnsýslu vatnamála og gegnir jafnframt mikilvægu ráðgjafarhlutverki, svo sem rakið er hér að framan.
    Í 3. mgr. er að finna kæruheimild til ráðherra vegna stjórnvaldsákvarðana Orkustofnunar. Um meðferð máls fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Rétt er að taka fram að framkvæmdir tengdar vötnum geta verið háðar leyfi eða skilyrðum fleiri stjórnvalda en Orkustofnunar. Það breytir þó í engu heimild aðila til að bera stjórnvaldsákvörðun Orkustofnunar undir iðnaðarráðherra.
    Í 4. mgr. segir að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar samkvæmt lögunum. Í 11. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands er fjallað um hlutverk umhverfisráðuneytis. Þar kemur fram að ráðuneytið fer með ýmis mál er varða vatn og vatnsvernd. Meðal verkefna umhverfisráðuneytisins er náttúruvernd, þar á meðal vernd vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni, umhverfisvöktun, mengunarvarnir, skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum og gerð landnýtingaráætlana, rannsóknir á vatnafari landsins og fyrirhleðslur til varnar ágangi vatns. Vegna þessa er mikilvægt að samræmi sé í framkvæmd á grundvelli annars vegar vatnalaga og hins vegar þeirrar löggjafar sem vatnamál varða í víðtækum skilningi en eru á forræði umhverfisráðherra. Loks er lagt til að umhverfisráðherra verði heimilt að fela Umhverfisstofnun stjórnsýslu. Í lokamálslið er að finna kæruheimild til ráðherra vegna stjórnvaldsákvarðana Umhverfisstofnunar.

Um 79. gr.


    Í greininni, sem breytir 144. gr. vatnalaga, er grein gerð fyrir fresti sem Orkustofnun hefur til að taka ákvörðun um hvort veita skuli leyfi fyrir leyfisskyldri framkvæmd eða synja um slíkt leyfi. Þá er einnig í öðrum tilvikum gert ráð fyrir þeirri skyldu að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari. Þörfin á tilkynningarskyldunni byggist á því að framkvæmdir geta haft veruleg og óafturkræf áhrif á vötn og vatnsréttindi annarra og skert nýtingarhagsmuni og almannahag fyrir utan önnur spjöll sem þeim geta fylgt. Auk þess er talin þörf á tilkynningarskyldu vegna hlutverks Orkustofnunar samkvæmt lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun. Tilkynningarskylda getur tæplega talist mjög íþyngjandi fyrir hinn tilkynningarskylda aðila, en lausung og losarabragur við framkvæmdir geta komið illa niður á mörgum stöðum og hjá mörgum aðilum. Orkustofnun eru því ætlaðar heimildir til að setja skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi í vötnum, m.a. ef þess er talin þörf af tæknilegum ástæðum eða vegna varðveislu nýtingarmöguleika vatnsins. Hér er um heimild að ræða en ekki skyldu og tekið mið af því að heimild verði ekki beitt nema að gefnu tilefni eins og nánar er kveðið á um hér síðar. Framkvæmdir þessar geta verið leyfis- eða eftirlitsskyldar samkvæmt öðrum lögum og af hálfu annarra aðila, sbr. t.d. lög um mannvirki, nr. 160/2010, náttúruverndarlög, nr. 44/1999, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lög um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002, lög um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, o.fl. Almannahagsmunir og nauðsyn góðrar og skipulegrar umgengni við vötn í tengslum við nýtingu þeirra kalla á stjórnsýslu og eftirlit Orkustofnunar á þann afmarkaða hátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í 1. mgr. er kveðið á um almennan frest Orkustofnunar til meðferðar leyfisumsóknar í tilviki leyfisskyldrar framkvæmdar. Frestur stofnunarinnar er þá átta vikur til þess að gera annað tveggja, gefa út leyfið eða synja um útgáfu þess. Eiga hér við almenn sjónarmið með sambærilegum hætti og þegar um leyfisveitingar stjórnvalda er að ræða. Fari Orkustofnun fram yfir þann frest gilda þar um reglur stjórnsýsluréttarins, þ.m.t. um málskot til ráðherra.
    Í 2. mgr. er svo grein gerð fyrir þeirri sérstöku reglu að allar framkvæmdir tengdar vötnum séu tilkynningarskyldar þó að þær séu ekki leyfisskyldar samkvæmt ákvæðum vatnalaga eða öðrum lögum, t.d. mannvirkjalögum. Enginn eðlismunur er á þeim framkvæmdum sem leyfisskyldar kunna að vera samkvæmt öðrum lögum. Sama nauðsyn er því á tilkynningarskyldu í þeim tilvikum. Rökin fyrir reglu 2. mgr. eru einkum þau að Orkustofnun eru falin viðamikil verkefni í lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun. Má þar að nefna að skv. 2. gr. laganna er hlutverk Orkustofnunar m.a. 1) að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál, 2) að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins og á öðrum jarðrænum auðlindum þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra, 3) að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings, o.fl. Þykir tilkynningarskylda 2. mgr. nauðsynleg í ljósi þessa hlutverks Orkustofnunar. Til greina hefði komið að hafa allar framkvæmdir tengdar vötnum, stórar og smáar, leyfisskyldar. Aðferðafræði þessarar greinar gengur hins vegar skemur og ætti að ná öllum sömu markmiðum og næðust með skilyrðislausu ákvæði um leyfi.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ekki þurfi að tilkynna Orkustofnun sérstaklega um framkvæmdir er snerta veiðivötn í skilningi lax- og silungsveiðilaga, nr. 61/2006. Slíkar framkvæmdir eru háðar leyfi Fiskistofu og er í málsgreininni kveðið á um að þegar sótt er um leyfi til framkvæmda til Fiskistofu skuli Fiskistofa senda Orkustofnun afrit af slíkum umsóknum. Orkustofnun getur þá ef hún telur ástæðu til sett skilyrði fyrir framkvæmdinni í samræmi við 4. mgr.
    Ákvæði 1. málsl. 4. mgr. felur í sér heimild til handa Orkustofnun að setja skilyrði fyrir framkvæmdum sem talin eru nauðsynleg af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að framkvæmdir geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í vatni eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Þess er áður getið að sú leið var ekki talin heppileg í frumvarpinu að binda allar framkvæmdir tengdar vötnum, stórar sem smáar, við leyfi Orkustofnunar. Þetta ákvæði styðst aftur á móti við þau rök að þó að framkvæmd sé lögum samkvæmt ekki leyfisskyld geti þær aðstæður verið fyrir hendi að sama þörf sé á að Orkustofnun setji skilyrði fyrir framkvæmdum og væru þær leyfisskyldar. Má hér sérstaklega nefna að Orkustofnun ber skv. 3. mgr. 28. gr. frumvarps til laga um stjórn vatnamála að tryggja að leyfi sé í samræmi við þá stefnumörkun sem fram kemur í vatnastjórnunaráætlun. Þótt framkvæmd sé ekki leyfisskyld, aðeins tilkynningarskyld, kann Orkustofnun að setja henni skilyrði samkvæmt þessari málsgrein og er vatnastjórnunaráætlun eitt af því sem þá er tekið mið af. Hér er því um að ræða stjórnsýsluákvörðun Orkustofnunar sem tekin verður á grundvelli þeirra aðstæðna sem lýst er í ákvæðinu.
    Í 3. málsl. 4. mgr. kemur fram að ákvæði 1. málsl. 4. mgr. gildi ekki um framkvæmdir á friðlýstum svæðum þar sem Umhverfisstofnun hefur forræði. Umhverfisstofnun skal þó leita álits Orkustofnunar um framkvæmdir skv. 1. mgr. en verði ágreiningur milli Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar um skilyrði fyrir framkvæmdum sker umhverfisráðherra úr.
    Í 5. mgr. er ákvæði sem setur Orkustofnun þrönga fresti til þess að taka ákvörðun um hvort hún ætli sér að nýta heimild 4. mgr. til þess að setja skilyrði fyrir framkvæmdum í vatni þegar ekki er lögákveðið að um leyfisskylda framkvæmd sé að ræða. Í fyrsta lagi skal stofnunin greina tilkynningarskyldum aðila frá því innan fjögurra vikna frá því að tilkynning barst henni hvort sett verða skilyrði fyrir framkvæmdum eða gerðar aðrar athugasemdir við framkvæmdir þær sem tilkynntar hafa verið. Í öðru lagi er það svo að tilkynni Orkustofnun tilkynningarskyldum aðila innan frestsins að hún hyggist setja einhver skilyrði fyrir framkvæmdum byrjar nýr fjögurra vikna frestur að líða að loknum fjögurra vikna frestinum.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um skyldu til setningar reglugerðar enda nauðsynlegt að þau efnislegu og formlegu skilyrði sem mælt er fyrir um í greininni séu nánar útfærð í reglugerð.

Um 80. gr.


    Með greininni er lagt til að í 145. gr. vatnalaga verði lögfest úrræði viðkomandi stjórnvalds ef ekki er farið að lögum og reglum við vatnaframkvæmdir og starfsemi í eða við vötn eða brotið gegn skilyrðum sem sett eru fyrir leyfisskyldum framkvæmdum. Ákvæðið felur m.a. í sér breytta og nánari útfærslu á ákvæði 135. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, þar sem kveðið er á um heimild ráðherra, ef nauðsyn þykir, til að stöðva ólögmætar framkvæmdir, fyrirskipa endurbætur eða láta vinna þær, eða rífa mannvirki, allt á kostnað eiganda.
    Í 1. mgr. er kveðið á um heimild fyrir viðkomandi stjórnvald til að stöðva framkvæmd sem leyfis er krafist til samkvæmt frumvarpinu ef leyfi hefur ekki verið fengið fyrir henni. Sama heimild á við í þeim tilvikum sem framkvæmd er ekki tilkynnt í samræmi við reglur laganna. Síðan er kveðið á um það að ef staðið er þannig að framkvæmd eða starfsemi að ekki samrýmist ákvæðum vatnalaga, reglugerðum eða útgefnu leyfi skal stjórnvald veita framkvæmdaraðila skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Gert er ráð fyrir að þetta séu ávallt fyrstu viðbrögð stjórnvalds við brotum eða vanrækslu framkvæmdaraðila. Sinni framkvæmdaraðili ekki slíkum tilmælum hefur stjórnvald tvenns konar úrræði. Annars vegar getur það stöðvað framkvæmdina eða starfsemina þar til úr hefur verið bætt og hins vegar beitt dagsektum til að knýja á um úrbætur. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Eftirlitsaðili getur jafnvel beitt báðum úrræðum samtímis.
    Samkvæmt 2. mgr. er lögreglu skylt að aðstoða stjórnvöld við aðgerðir skv. 1. mgr. Sambærilegt ákvæði er í 4. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, nr. 160/2010.
    Í 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um að heimilt sé að fella niður leyfi samkvæmt lögunum og banna framkvæmdir eða starfsemi ef leyfishafi brýtur ítrekað eða stórfellt gegn skilmálum leyfis. Þegar vísað er til þess að leyfishafi geti ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu er t.d. átt við ef bú leyfishafa er tekið til gjaldþrotaskipta.
    4. mgr. fjallar um úrræði til að færa umhverfi til fyrra horfs ef því hefur verið raskað með óheimilum framkvæmdum. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld geti mælt fyrir um að óheimil mannvirki verði fjarlægð og umhverfið fært til fyrra horfs. Sambærilega heimild er að finna í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, nr. 160/2010. Jafnframt er kveðið á um heimild stjórnvalda til að láta vinna verk á kostnað hins brotlega ef slíkum fyrirmælum er ekki sinnt innan tímamarka.
    Það ber að árétta að ávallt skal veita skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta áður en þvingunarúrræðum skv. 3. og 4. mgr. er beitt. Er þetta áréttað í 5. mgr. greinarinnar.
    Í 6. mgr. er loks mælt fyrir um að kröfur um dagsektir og kostnað samkvæmt greininni séu aðfararhæfar.

Um 81. gr.


    Með greininni sem felur í sér efni nýrrar 146. gr. vatnalaga er kveðið á um gjaldtökuheimild stjórnvalda vegna útgáfu leyfa samkvæmt lögunum og fyrir eftirlit sem stjórnvaldi er falið. Gjaldið er í eðli sínu þjónustugjald og má því ekki vera hærra en nemur kostnaði við undirbúning, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, útgáfu leyfis og eftirlitið.

Um 82. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa umfram það að í núgildandi ákvæðum 147.–150. gr. vatnalaga eru ákvæði um framkvæmd mats á grundvelli laganna sem ekki hafa þýðingu lengur með breyttri stjórnsýslu og einfaldaðri eignarnámsframkvæmd.

Um 83. gr.


    Með greininni er mælt fyrir um breytt heiti á XVI. kafla gildandi vatnalaga, sbr. skýringar hér að framan.

Um 84. gr.


    Felld eru brott ákvæði 151. og 152. gr. vatnalaga sem fjalla um eldri stjórnsýsluhætti.

Um 85. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um breytingartillögur við XVIII. kafla


    Heiti XVIII. kafla laganna er breytt en þar er safnað saman ákvæðum um refsingar, heimild til setningar reglugerðar og ákvæði um gildistöku.

Um 86. gr.


    Með greininni eru gerðar verulegar breytingar á refsiheimild 153. gr. vatnalaga. Samkvæmt því er heimilt að ákvarða lögaðila sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Erfitt getur reynst að sanna að skilyrði refsiábyrgðar séu fyrir hendi ef um refsiábyrgð lögaðila væri vísað til II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Rétt er að taka fram að viðurlagaákvæði þetta ber að túlka til samræmis við ákvæði II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Í fyrsta lagi verður fésekt ákveðin með hliðsjón af almennum hegningarlögum, m.a. 51. gr. sem mælir svo fyrir að þegar fjárhæð sektar er ákveðin skuli eftir því sem við á höfð hliðsjón af tekjum og eignum sakbornings, afkomu, framfærsluskyldu, öðrum atriðum er orka á greiðslugetu hans og þeim fjárhagslega ávinningi eða sparnaði sem leiddi af brotinu eða stefnt var að með því.
    Í öðru lagi verður hugtakið lögaðili í viðurlagaákvæði frumvarpsins túlkað með hliðsjón af 19. gr. b almennra hegningarlaga, enda engin sérregla lögð til í frumvarpinu, en í athugasemdum við 19. gr. b segir að gildandi sérrefsilagaheimildir um refsiábyrgð lögaðila verði skýrðar til samræmis við ákvæðið þannig að refsiábyrgðin taki til þeirra lögaðila sem ákvæðið afmarkar nema annað sé sérstaklega tekið fram í sérrefsilögunum.
    Í þriðja lagi skal tekið fram að öfugt við 19. gr. a og 19. gr. b verður 19. gr. c ekki beitt um tilvik sem falla undir viðurlagaákvæði frumvarpsins. Um það vísast til þess sem áður segir, að viðurlagaákvæði frumvarpsins miðar við hlutræna refsiábyrgð lögaðila. Heimilt er að víkja frá að refsiábyrgð lögaðila sé bundin því skilyrði að staðreynt hafi verið að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður lögaðilans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Um þetta segir í athugasemdum við 19. gr. c í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 140/1998, um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, að ákvæði um slík frávik verði þó að vera skýr. Þannig sé t.d. ekki gert ráð fyrir því að ákvæðið felli úr gildi sérrefsilagaákvæði um að gera megi lögaðila fésekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Af þessum ummælum er ljóst að viðurlagaákvæði frumvarpsins stenst fyllilega kröfur almennra hegningarlaga.

Um 87. gr.


    Með greininni er gert ráð fyrir að í 154. gr. vatnalaga verði almenn heimild til setningar reglugerða til handa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Greinin þarfnast ekki að öðru leyti sérstakra skýringa.

Um 88. gr.


    Greinin felur í sér breytingu á kaflaheiti og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 89. gr.


    Mælt er fyrir um að verði frumvarpið samþykkt taki breytt vatnalög gildi 1. júlí 2011. Frá sama tíma falli vatnalög, nr. 20/2006, niður og öðlist því ekki gildi. Þá falli jafnframt úr gildi lög nr. 31/2007, um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir að starfandi vatnafélög lagi starfsemi sína að lögunum breyttum fyrir 1. janúar 2012.




Fylgiskjal I.


Vatnalög, nr. 15/1923, eftir breytingar samkvæmt frumvarpi.



I. kafli. Gildissvið og orðaskýringar.
1. gr. Gildissvið og orðskýringar.
    Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki þar um.
    Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Almenningur: Sá hluti vatns sem liggur fyrir utan netlög landareigna.
     2.      Áveita: Mannvirki sem er notað til þess að veita vatni á land.
     3.      Bakki: Fast takmark á farvegi straumvatns, legi stöðuvatns eða strandsjávarbotns, svo sem klettar, gróið land eða eyrar sem vatn fellur ekki yfir í meðalvexti eða sjór við meðalstórstraumsflóð.
     4.      Búsþarfir: Notkun vatns við búrekstur og annan atvinnurekstur á sviði landbúnaðar með réttindum og skyldum samkvæmt ábúðarlögum.
     5.      Eignarland: Landsvæði, þ.m.t. innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi lands fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
     6.      Farvegur: Vatnsleg sem vatnsfall rennur eftir, hvort heldur af manna völdum eða náttúru.
     7.      Fasteign: Afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
     8.      Háflæði: Mesta rennsli eða hækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð.
     9.      Heimilisþarfir: Þarfir til venjulegs heimilishalds.
     10.      Iðja: Iðnaður, annar en handiðn.
     11.      Landareign: Fasteign, þ.e. afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
     12.      Lágflæði: Minnsta rennsli eða lækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og auðri jörð.
     13.      Mannvirki: Hvers konar framkvæmdir og manngerðir hlutir sem skeytt er við fasteign, þ.m.t. í, við eða yfir vatni, t.d. hús, brú, girðing, virkjun eða stíflugarður.
     14.      Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
     15.      Merkivatn: Vatn það sem ræður landamerkjum.
     16.      Miðlunarlón: Stöðuvatn sem er manngert að öllu leyti eða hluta og rennsli er stýrt í og/eða úr.
     17.      Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns eða vatnsfalls sem fasteign liggur að.
     18.      Orkunýting: Hvers konar hagnýting vatns samkvæmt lögum þessum til framleiðslu á orku, fyrst og fremst raforku.
     19.      Orkuver: Land eða lóð, hús og önnur mannvirki, ásamt tækjum til afnota við orkuvinnslu eða breytingar einnar tegundar orku í aðra.
     20.      Rennsli: Hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.
     21.      Straumvatn: Yfirborðsvatn sem í er greinilegur straumur þegar enginn vöxtur er í því.
     22.      Stöðuvatn: Vatn sem sýnist slétt í logni og straumlaust að sjá enda þótt flætt geti gegnum það.
     23.      Vatnsból: Mannvirki, t.d. brunnar, eða virkjaðar lindir, eða náttúruleg vatnsleg þar sem vatn er tekið eða nytjað á staðnum.
     24.      Vatnsfall: Rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að breytilegur sé eftir tíma og stað, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við.
     25.      Vatnsflæði: Rennsli vatns sem vatnsmagn á tímaeiningu, í l/sek eða m 3/sek.
     26.      Vatnsleg: Lægð í landi, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs.
     27.      Vatnsmiðlun: Geymsla á vatni til þess að breyta náttúrulegu vatnsmagni vatnsfalls eða til stýringar á rennsli vatns.
     28.      Vatnsnýting: Vatnstaka, veiting eða virkjun vatns til heimilis- eða búsþarfa, í arðsemisskyni eða til að verja fasteign spjöllum.
     29.      Vatnsveita: Mannvirki til að flytja vatn til notenda.
     30.      Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.

II. kafli. Almenn ákvæði um vatnsréttindi.
2. gr. Vatnsréttindi.
    Landareign hverri, þ.m.t. þjóðlendu, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er á þann hátt sem lög þessi heimila.
    Landeigendur sem hafa aðgang að sama vatni eiga sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra.

3. gr. Merki landareigna í lækjum og ám.
    Nú skilur á eða lækur landareignir, og á þá hvort land í miðjan farveg, og sé ekki vöxtur í vatni, nema önnur lögmæt skipun sé þar á gerð.
    Eigi breytast merki, þótt farvegur breytist.

4. gr. Merki landareigna við stöðuvötn.
    Nú liggur landareign að stöðuvatni, og fylgir vatnsbotn þá þeim bakka, er hann verður talinn áframhald af, 115 metra út í vatn (netlög).
    Ef stöðuvatn er merkivatn og er eigi 230 metrar á breidd, þá skal miðlína þess ráða merkjum, nema önnur lögmæt skipun hafi verið á gerð.
    Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði, þá fylgir vatnsbotn landi sem þurrt land væri.
    Ef eyjar, hólmar eða sker eru í stöðuvatni, þá fylgja þeim netlög sem áður segir. Nú fylgja fasteign eyjar, hólmar eða sker fyrir landi annarrar fasteignar, og er sundið mjórra en 230 metrar, og ræður þá miðlína sundsins merkjum.
    Jafnan skal miða við lágflæði í vatni.
    Ef breyting verður á vatnsbotni, þá skulu netlög vera sem áður voru þau.
    Reglur um merki við stöðuvötn gilda einnig um miðlunarlón eftir því sem við getur átt.

5. gr. Landamerki milli fasteigna sem liggja að vatni sömu megin.
    Nú liggja tvær fasteignir eða fleiri að vatni sömu megin, og skulu þá netlög hverrar um sig ákveðin svo, ef eigi hefir áður verið skipun á gerð, að hver botndepill fylgi þeim bakka, sem hann er næstur.

6. gr. Réttur til vatns þegar merkivötn skilja fasteignir.
    Þar sem merkivötn skilja fasteignir er hvorri rétt að nota vatnið að jöfnu eftir þörfum sínum. Dreifist vatn þannig í farvegi að ekki skiptist til helminga um miðlínu skal hvorri fasteign þó fylgja jafn réttur til vatnsins.

7. gr. Forn farvegur.
    Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.
    Óheimilt er manni, nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess:
     1.      að breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni, eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð,
     2.      að gerstífla straumvatn eða gera mannvirki í vatni eða yfir því,
     3.      að veita vatni af einni fasteign á fasteign annarra, ef tjón eða hætta er af því búin eign annars manns eða réttindum, óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta að nokkru ráði fyrir hagsmuni ríkis eða almennings.

8. gr. Heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag.
    Nú breytist farvegur án þess af mannavöldum sé, og er þá landeiganda hverjum, sem mein verður að breytingunni, rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Ef til þess þarf afnot af annarri fasteign eru þau heimil en þá getur eigandi þeirrar fasteignar krafist bóta fyrir tjón og óþægindi, sem verkið bakar honum. Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur getur ráðherra heimilað eignarnám í þessu skyni.
    …
    Nú hefir sama ástand haldist í 20 ár eða lengur, og skal þá um það fara svo sem það hefði að fornu fari verið svo.

9. gr. Minni háttar vötn.
    Fara skal um jarðvatn, hveri, laugar, ölkeldur, regnvatn og leysingavatn, er á landareign safnast, lindir, dý, tjarnir og slík minni háttar vötn, sem ekki hafa stöðugt afrennsli ofanjarðar, svo sem hér segir, enda sé ekki önnur lögmæt skipun á gerð. Um hveri, laugar og ölkeldur gilda þó þær takmarkanir að landeiganda er óheimilt að spilla slíkum náttúrufyrirbærum á landi sínu, hvort sem það er með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti, nema það sé nauðsynlegt talið til varnar því landi eða landsnytjum og að fengnu leyfi Orkustofnunar.
    Landeiganda er rétt að hagnýta sér slíkt vatn eða ráðstafa því með öðrum hætti, enda fari það eigi í bága við ákvæði 15. gr., stífla frárennsli úr því, hlaða upp bakka þess eða gera garð um það, ræsa það fram ofanjarðar eða neðan og bera ofan í það, án þess að hætta stafi af eða veruleg óþægindi fyrir umferð, eða spjöll á eign annars manns, sem eigi er skylt að hlíta samkvæmt sérstakri heimild.
    Landareign, sem lægra liggur, fylgir skylda til að hlíta því, að vatnið renni um hana í þeim farvegi og með þeim hætti, er náttúran hefir markað því.
    Nú verður breyting á farvegi, vatnsflæði eða vatnsmagni af völdum náttúrunnar eða þriðja manns, og verður þeim mein að sem land eiga að, og skal þeim þá rétt að færa vatnið í samt lag, en gera skal það innan árs frá lokum þess árs, er breytingin varð. Ef til þess þarf afnot af annarri landareign eru þau heimil að fengnu leyfi Orkustofnunar en þá getur eigandi þeirrar fasteignar krafist bóta fyrir tjón og óþægindi sem verkið bakar honum. Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur getur ráðherra heimilað eignarnám í þessu skyni.
    Ef vatn liggur á tveim landareignum eða fleiri, þá má enginn landeigandi fara svo með það, að hinum verði mein að.

10. gr. Aðgangsröð að vatni á landareign.
    Aðgangsröð að vatni er þessi eftir mikilvægi:
     1.      heimilisþörf,
     2.      búsþörf,
     3.      þörf atvinnurekstrar á landareigninni, annars en búrekstrar, svo sem iðnaðar og iðju,
     4.      áveituþörf,
     5.      orkuþörf.
11. gr. Réttur til vatnstöku til heimilis- og búsþarfa og til sunds og baða.
    Öllum er heimilt að taka vatn til heimilisþarfa og bús þar sem landeiganda er meinlaust, svo og að nota vatn til sunds og baða enda fari það eigi í bága við lög, samþykktir eða annað lögmætt skipulag.

12. gr. Vatnstaka á eigin landareign.
    Gera má maður brunna og vatnsból á landareign sinni, en gæta skal hann þess, að eigi sé minnkuð eða heft aðsókn vatns að brunnum annarra manna eða vatnsbólum, nema eigi sé annars kostur eða vatnsból yrði ella mun dýrara eða vatnsaðdrættir erfiðari.
    Eigi má heldur gera önnur mannvirki, ef ætla má, að þau hafi slíkar verkanir sem mælt var.
    …

13. gr. Frágangur brunna og annarra vatnsgeyma.
    Skylt er mönnum að ganga svo frá brunnum og öðrum vatnsgeymum, að mönnum, skepnum og landi annarra manna stafi eigi hætta af.

14. gr. Skylda til þátttöku í vatnsveitu, áveitu, vatnsmiðlun eða vörnum gegn vatnságangi.
    Nú eiga menn fasteign í sameign og vill meiri hluti stofna til vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa á eigninni, koma þar á fót samáveitu, stofna til vatnsmiðlunar eða verjast ágangi vatns og getur þá sá eða þeir sem eiga meiri hluta fasteignarinnar ákveðið að ráðast í framkvæmdir enda er hinum þá skylt að taka tiltölulegan þátt í kostnaði öllum af þeim, ef talið verður að fasteigninni muni verða meira hagræði af framkvæmdunum en kostnaðinum nemur.
    …

15. gr. Leyfi til að skilja vatnsréttindi frá landareign og skipting vatnsréttinda við sölu hluta landareignar.
    Ekki má skilja við landareign vatnsréttindi til heimilis- og búsþarfa nema með leyfi Orkustofnunar.
    Nú eru vatnsréttindi framseld án þess að eignarréttur að landareign sé jafnframt framseldur og fer þá um réttarvernd þeirra samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga er varða fasteignir.
    Nú er framseldur hluti landareignar sem liggur að vatni eða á og eru vatnsréttindi innifalin í kaupunum nema öðruvísi sé kveðið á um. Þó skal sá hluti landareignar sem eftir stendur hafa næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar þeim.
    Ef sameignarlandi er skipt skulu hverjum eignarhluta fylgja, svo sem frekast er kostur, næg vatnsréttindi til að fullnægja heimilis- og búsþörfum og næg og endurgjaldslaus landsafnot til hagnýtingar þeim.

16. gr. Ráðstöfunarheimildir opinberra aðila.
    Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem alfarið eru í eigu þeirra, er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti rétt til umráða og hagnýtingar á því vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 10 MW.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem er alfarið í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og er sérstaklega stofnað til að fara með eignarhald þessara réttinda.
    Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.
    Við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skal gæta jafnræðis. Þá skal gæta þess að ákvörðunin stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlindanna og fjárfestinga í mannvirkjum.
    Forsætisráðherra skal semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins skv. 3. mgr. Um ráðstöfun og endurgjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum fer samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi.

III. kafli. Um vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju án orkunýtingar.
17. gr. Vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju.
    Eiganda landareignar, er vatnsréttindi fylgja, er rétt að veita til sín vatni, sem um hana rennur eða á henni er, um föst veitutæki til heimilis- og búsþarfa á eigninni eða til iðnaðar og iðju, sem á henni er rekin, enda sé ekki meira vatni veitt en þörf er á, eða vatni því, sem afgangs verður, veitt í vatnslegið svo nærri upptökum veitunnar, að öðrum, sem tilkall eiga til vatnsins, verði sem minnst tjón eða bagi að.

18. gr. Ef vatn er of lítið til að fullnægja þörfum skv. 17. gr.
    Nú er vatn of lítið til að fullnægja þeim þörfum sem í 17. gr. segir og á þá hver sú landareign sem tilkall hefur til þess vatns, sama tilkall til vatnsins eftir þörfum sínum. Um rétthæð einstakra vatnsnota vísast til 10. gr.
    Ef vatn sem veitt er um sömu veitutæki er notað til að fullnægja fleiri en einni af þeim þörfum sem í 1. mgr. segir skal fara um það vatn sem það væri allt haft til að fullnægja rétthæstu þörfinni.
    …

19. gr.

20.–21. gr.

22. gr.

23. gr.

24. gr.

25. gr. Heimild sveitarstjórnar til vatnsveitugerðar.
    Sveitarstjórn er rétt að taka það vatn sem hún þarf til vatnsveitu úr brunnum, uppsprettum eða vötnum í landareignum annarra manna, enda séu þær ekki sviptar því vatni sem þeim er metið nauðsynlegt til þeirra þarfa sem í þessum kafla getur, nema þeim sé séð fyrir því með öðrum hætti, þeim ekki óhagfelldari.
    Rétt er eiganda eða öðrum rétthafa þeirrar landareignar sem vatn er tekið úr skv. 1. mgr. að leggja til sín og á sinn kostnað vatnsæðar úr vatnsveitu sveitarfélagsins, enda greiði hann aukakostnað af því, nema öðruvísi semji.
    Haga skal vatnsveitu svo að spjöll verði sem minnst vegna hennar. Ef spjöll verða skal bæta þau að fullu.
    …

26. gr. Skylda landeiganda til að láta af hendi land og landsafnot til vatnsveitugerðar.
    Skylt er manni að láta af hendi land sitt og landsafnot hvar sem er og hvenær sem er í þarfir vatnsveitu sveitarfélags, svo og mannvirki, og að þola þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti, sem vatnsveitan kann að hafa í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir.
    Ef nauðsynlegt þykir til þess að koma í veg fyrir mengun vatns sem tekið er til vatnsveitu handa sveitarfélagi, þá er mönnum jafnskylt að láta af hendi land og láta í té landsafnot og mannvirki, svo og að þola eignarkvaðir, óhagræði og takmarkanir, sem í 1. mgr. segir, gegn fullum bótum.

27. gr. Eignarnámsheimild o.fl.
    Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur vegna þeirra þarfa sem greinir í 25. og 26. gr getur ráðherra heimilað eignarnám.
    Um vatnsveitur sveitarfélaga fer að öðru leyti samkvæmt lögum sem um þær gilda á hverjum tíma.

28. gr.

29. gr. Vatnsveitufélag.
    Nú vilja aðrir en sveitarfélög koma sér upp vatnsveitu til að fullnægja þörfum sínum á vatni skv. 17. gr. og geta þá eigendur þeirra fasteigna sem nota ætla vatnsveituna gert með sér félag er nefnist vatnsveitufélag. Um félagið fer eftir ákvæðum XI. kafla, að því leyti sem fyrirmæli þessa kafla taka ekki til þess.
    …
    Að öðru leyti skal fara eftir ákvæðum 25.–27. gr. og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga eftir því sem við getur átt.

30. gr.

31. gr.
Réttur til þess að afla sér vatns af fasteign annars manns.
    Ef maður getur ekki aflað sér vatns í landareign sinni til heimilis- og búsþarfa, eða þar er að mun kostnaðarsamara eða bagameira að afla þess en af landareign annars manns, þá er honum rétt að afla þess þaðan, enda sé þar vatn afgangs frá heimilis- og búsþörfum. Er honum rétt að fara yfir land annars manns í því skyni, en gera skal hann svo lítinn usla sem unnt er og bæta tjón á landi eða vatnsbóli og kosta gerð þess og viðhald að sínum hluta.
    Eigandi fasteignar eða annar rétthafi má gera brunn eða annað vatnsból í landi annars manns, ef svo er ástatt sem í 1. mgr. segir.

32. gr. Taka vatns af fasteign annars manns í vatnsveitu til þarfa eigin fasteignar skv. 17. gr.
    Nú þarf maður að taka vatn af landi annars manns í vatnsveitu til þarfa eignar sinnar, skv. 17. gr., og er honum það rétt, enda sé vatn nægt, er eigi sé notað til samkynja þarfa þeirrar eignar.
    …
    Beita má ákvæðum 2. mgr. 25. gr. ef vatn er tekið skv. 1. mgr. þessarar greinar.

33. gr. Eignarnámsheimild.
    Náist ekki samningar um framkvæmdir og/eða bætur vegna þeirra þarfa sem greinir í 31. og 32. gr. getur ráðherra heimilað eignarnám.

34. gr. Síðari þátttaka í vatnsveitu.
    Hverjum þeim sem ekki hefur í öndverðu tekið þátt í vatnsveitu samkvæmt þessum kafla er rétt að gera það síðar, enda verði það metið að vatn sé til þess nægilegt og að það valdi eiganda veitunnar ekki verulegu óhagræði að öðru leyti. En hlíta skal hann þeim ákvæðum sem sett eru eða sett verða um notkun vatnsins og meðferð veitunnar. Svo skal hann og greiða endurgjald fyrir vatnsnotin.

35. gr.

IV. kafli. Um áveitur.
36. gr. Hagnýting vatns í áveituskyni.
    Landeiganda er heimilt að hagnýta sér vatn, sem er á landareign hans eða um hana rennur, til áveitu í ræktunarskyni á hana sjálfa eftir þörfum, enda sé enginn sviptur með því neysluvatni, sbr. 1.–3. tölul. 10. gr. né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um útvegun neysluvatns né því spillt fyrir neinum, svo að veruleg óþægindi séu að.

37. gr. Ef merkivötn skilja landareignir.
    Þar sem merkivötn skilja landareignir, er hvorri rétt að nota vatnið eftir þörfum sínum. Þarfir skv. 17. gr. ganga fyrir áveituþörf.

38. gr. Réttur til áveitu fylgir landareign.
    Réttur til hagnýtingar á vatni til áveitu verður ekki frá landareign skilinn, sbr. þó 37. gr., nema vatnið sé tekið til neyslu, sbr. 1.–3. tölul. 10. gr. eða til áveitu á aðrar landareignir skv. 39. gr.

39. gr. Aðgangur að vatni og landi annars manns til áveituþarfa.
    Nú er ekki nógu mikið, nógu gott eða nógu auðtekið vatn fyrir hendi innan landareignar til áveitu á hana sjálfa, og er þá eiganda hennar eða öðrum rétthafa rétt að krefjast áveituvatns eftir þörfum úr öðrum landareignum, með þessum takmörkunum:
     1.      að enginn sé fyrir það sviptur vatni til þarfa skv. 17. gr. né neinum bakaðir óhæfilegir erfiðleikar um útvegun slíks vatns, né því spillt fyrir neinum, svo að veruleg óþægindi séu að,
     2.      að ekki þurfi að nota sama vatn til áveitu á þá landareign sjálfa sem vatnið er tekið í, nema arður af notkun þess til áveitu þar yrði mun minni en arður af notkun þess til þeirrar áveitu utan landareignarinnar, sem vatnsins er krafist til.
    Ef taka vatns er heimil samkvæmt þessari grein en talið er að af henni stafi auknir erfiðleikar um útvegun vatns til þarfa skv. 17. gr. eða spjöll á því vatni eða skaði að vatnstökunni að öðru leyti þá skulu koma fullar bætur fyrir.
    Með sama hætti og greinir í 1. mgr. eru manni heimil afnot af landi annars manns til að koma upp, halda við eða starfrækja áveitu. Ef tjón það sem verkið í heild sinni bakar öðrum en áveitueiganda er metið mun minna en hagnaður sá, sem áveitueigandi hefur af því, og ekki er talið hallkvæmara að framkvæma verkið með öðrum hætti en til er stofnað, skulu landsafnotin heimiluð, en meta skal fullar bætur fyrir.
    Ef ekki nást samningar um framkvæmd og/eða bætur samkvæmt þessari lagagrein getur ráðherra heimilað eignarnám.

40. gr.

41. gr. Tillitsskylda.
    Áveitum skal haga svo, að ekki sé neinum til baga veitt meira vatni úr fornum farvegi en nota þarf. Svo skal veita á land og af landi, að öðrum sé sem minnst mein að, og fella vatn aftur í fornan farveg, ef unnt er, og svo nærri upptöku sem gerlegt þykir.
    Nú telur einhver sér mein að áveitu annars manns og samkomulag næst ekki og getur þá sá er telur sig verða fyrir skaða krafist bóta. Nú verður talið að skaði sé að áveitunni fyrir viðkomandi en þó mun minni þeim hag sem hinn hefur af henni, og skal áveitan þá engu síður heimil, en fullar bætur koma fyrir.
    Ef ekki nást samningar um framkvæmd og/eða bætur skv. 2. mgr. getur ráðherra heimilað eignarnám.

42. gr. Áveitufélag.
    Nú þykir hentugt að stofna og starfrækja áveitu í ræktunarskyni á fleiri landareignir í einu lagi, og geta þá eigendur landareigna þeirra, sem áveitunni er ætlað að ná yfir, gert með sér áveitufélag. Um félagsstofnunina fer eftir ákvæðum XI. kafla. Lög félagsins nefnast áveitusamþykkt, en áveitan nefnist samáveita.

43. gr. Óhagræði eða takmarkanir vegna samáveitu.
    Þegar löggilt áveitusamþykkt hefur verið sett eru allir landeigendur og aðrir rétthafar á því svæði sem áveitunni er ætlað að ná til skyldir að leyfa landsafnot til mannvirkja er áveituna varða, svo sem land undir skurði og efni úr landinu, hvort sem er grjót eða önnur jarðefni, í fyrirhleðslur, garða, stíflugerðir eða umbúnað skurða o.s.frv., og yfir höfuð að þola allar þær kvaðir, óhagræði eða takmarkanir sem áveitan hefur í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir. Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur getur ráðherra heimilað eignarnám í þessu skyni.

44. gr. Kostnaður af samáveitu.
    Kostnaði öllum af samáveitu skal stjórn hennar jafna niður á landareignir þær, sem áveitan nær yfir, aðallega eftir stærð þess lands, er vatn næst yfir. Þó skal taka tillit til þess, hvernig land liggur við áveitunni og hver not geta orðið af henni fyrir það, í samanburði við aðrar landareignir.

45. gr. Síðari þátttaka í samáveitu.
    Ef einhver vill gerast þátttakandi í samáveitu eftir að henni hefur verið komið á, með þeim hætti að hann fái vatn til áveitu á land sitt, þá á hann rétt til þess verði það talið bagalaust. En skylt er honum þá að taka þátt í kostnaði öllum af áveitunni, bæði stofnkostnaði og árskostnaði, að réttri tiltölu við aðra aðilja.

46. gr. Nánar um kostnað af samáveitu.
    Nú er samþykkt gerð um samáveitu, og skal þá hver landeigandi greiða stofnkostnað og árlegan kostnað af samáveitunni eða þeim hluta, sem eftir niðurjöfnun samkvæmt 44. gr. kemur á landareign hans.
    …
    …

47. gr. Lögveð til handa áveitufélagi.
    Greiði eigandi einhverrar þeirrar landareignar sem áveita á að ná til samkvæmt samþykkt ekki hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði eignast áveitufélag lögveð í fasteign hans til tryggingar kröfunni. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta.

48. gr.

V. kafli. Um notkun vatnsorku.
49. gr. Orkunýtingarréttur landeiganda.
    Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku, enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni, sem hann þarf að nota samkvæmt III. og IV. kafla, né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni, er nota þarf með þeim hætti, spillt fyrir neinum, svo að til verulegra óþæginda horfi.
    Um leyfi til að virkja vatnsfall fer samkvæmt raforkulögum.

50. gr. Heimild til framkvæmda.
    Rétt er eiganda landareignar að gera stíflu í vatnsfarvegi og veita vatni úr eðlilegum farvegi, hvort sem er um opinn skurð, pípu eða jarðgöng, ef nauðsynlegt er vegna vatnsorkunota samkvæmt 49. gr. Eigi má veita meira vatni úr eðlilegum farvegi í þessu skyni en þörf er á, en öllu skal því veitt í fornan farveg áður en landareigninni sleppir, nema samlög séu milli fleiri landareigna um orkuvinnslu.
    …
    Ef nauðsyn þykir á vera getur ráðherra heimilað eignarnám.

51. gr. Merkivötn skilja fasteignir.
    Þar sem merkivötn skilja landareignir, hafa eigendur beggja jafnan rétt til að nota vatn úr þeim samkvæmt 49. og 50. gr.
    Nú nægir merkivatn ekki báðum landareignum, og hefir þá eigandi hvorrar fyrir sig rétt til svo mikils af vatnsorkunni, sem svarar hálfu vatnsflæði merkivatnsins og fallhæð þeirri, sem er fyrir landi hans, enda hafi ekki önnur lögmæt skipun verið á gerð.

52. gr.

53. gr. Ef menn eiga tilkall til orku úr sama vatnsfalli án þess merkivötn skilji að fasteignir.
    Nú eiga menn í félagi, í öðrum tilvikum en þegar merkivötn skilja fasteignir, tilkall til orku úr sama vatnsfalli og verða þeir ekki ásáttir hvernig það skuli notað til orkuvinnslu og getur þá ráðherra með eignarnámi heimilað að þeir sem eiga tilkall til meira en helmings vatnsorkunnar, talinnar eftir vatnsflæði og fallhæð, leysi til sín tilkall minni hlutans. Þetta er þó því skilyrði bundið, að hagnýting vatnsfallsins í heild sinni sé að mun hallkvæmari en hagnýting hluta innleysenda út af fyrir sig, og að ekki sé skertur réttur þriðja manns, er hann kann að hafa fengið yfir vatnsréttindunum áður en lausnar var krafist.
    Sá hluti vatnsorkuréttar, er maður leysir til sín skv. 1. mgr, skal metinn sem hluti alls réttarins. Þó skal taka til greina, hvort sá hluti virkjunarkostnaðar, sem sérstaklega varðar innleysta vatnsorkuréttinn, er tiltölulega mikill eða lítill.
    …

54.–66. gr.

VI. kafli. Mannvirkjagerð, miðlun vatns, varnir lands, þurrkun o.fl.
67. gr. Mannvirki varðar tvær fasteignir.
    Nú vill eigandi annars vatnsbakka merkivatns gera mannvirki í vatni til vatnsnýtingar, þ.m.t. orkunýtingar, og þarf að nota til þess land hinum megin og skal hann þá bjóða eiganda þess lands að gera mannvirki með sér og nota vatnið að réttri tiltölu.
    Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið.

68. gr. Stíflugerð til vatnsmiðlunar.
    Leita skal leyfis Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 fermetrar eða stærra við hæstu vatnsstöðu. Framkvæmdaraðili skal láta fylgja með umsókn sinni til Orkustofnunar fullnægjandi gögn um undirlag, gerð og frágang fyrirhugaðrar stíflu. Gildir það einnig ef miðlunarlón er minna en 1.000 fermetrar og stífluframkvæmdin tilkynningarskyld skv. 144. gr. Ef framkvæmd vatnsmiðlunar er liður í virkjun fallvatns til raforkuframleiðslu skal miðlunarleyfið talið hluti af virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum og skal þá leita leyfis í samræmi við þau lög.
    Ráðherra getur heimilað eignarnám ef þörf krefur í þágu framkvæmdar samkvæmt grein þessari.
    Leyfi skv. 1. mgr. fellur úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan þriggja ára frá útgáfu þess.
    …

69.–74. gr.

75. gr. Breyting á vatnsfarvegi.
    Heimilt er fasteignareiganda og vatnafélögum, að fengnu leyfi Orkustofnunar og eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns. Heimilt er að binda leyfið skilyrðum sem þykja nauðsynleg vegna almannahagsmuna.
    Heimilt er viðeigandi stjórnvaldi hverju sinni að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr., að fengnu leyfi Orkustofnunar, enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill.
    Nú þarf sá sem ætlar að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. eða stjórnvald skv. 2. mgr. afnot af fasteignum annarra manna í þessu skyni og getur þá ráðherra veitt heimild til eignarnáms ef ekki semst með aðilum.
    Um varnir gegn ágangi vatna fer að öðru leyti samkvæmt gildandi lögum um varnir gegn landbroti.

76.–77. gr.

78. gr. Heimild manns til að veita vatni af fasteign sinni.
    Maður má veita bagalegu vatni af landi sínu í rásir og farvegi, þó að mein verði að á landi því er við tekur, enda megi hann ekki losna við það með öðrum hentugum hætti. Með sama skilorði má maður og veita vatni í skurði í landi annarra eða grafa þar skurði í því skyni, en jafnan skal þá skurðum svo langt fram haldið að ekki verði verulegt tjón á landi annarra manna. Bæta skal tjón sem hlýst af veitunni, en taka skal þó til greina gagn þeirra sem krefjast bóta af skurðum.
    Við framkvæmdir skv. 1. mgr. skal forðast að raska tjörnum og vötnum.
    Ef skurðir um landareign annars manns eru honum einnig til gagns er honum skylt að taka þátt í kostnaði af skurðgreftri og viðhaldi skurðanna.
    Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur samkvæmt þessari lagagrein getur ráðherra heimilað eignarnám.

79. gr. Niðurlagning mannvirkis.
    Niðurlagning mannvirkis samkvæmt þessum kafla, þ.m.t. stöðvun á viðhaldi, er háð samþykki Orkustofnunar. Við niðurlagningu skal umhverfið fært eins og kostur er til fyrra horfs. Eigandi mannvirkis skal leggja áætlun um niðurlagningu fyrir Orkustofnun til samþykktar þar sem m.a. skulu vera upplýsingar um hvernig verkið verði framkvæmt. Orkustofnun getur sett þau skilyrði fyrir leyfi sem nauðsynleg eru til að koma í veg fyrir hættu eða tjón fyrir einstaklinga og almenning.

80. gr. Aðgæsluskylda.
    Mannvirki og framkvæmdir allar samkvæmt þessum lögum skal gera þannig úr garði að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á eign annars manns nema honum sé skylt að hlíta því samkvæmt lögum eða samningum.

VII. kafli

VIII. kafli

IX. kafli. Um óhreinkun vatna.
83. gr. Bann við óhreinkun vatna.
    Óheimilt er að menga vötn eða láta í þau eða svo nærri þeim að hætt sé við að í þau berist efni, hlutir og lífverur sem spilla mundu eðlis- eða efnaástandi vatnsins, lífríki þess og nánasta umhverfi.
    Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá banni 1. mgr. í samræmi við lög þar að lútandi.
    Undanþágu skv. 2. mgr. má taka aftur bótalaust hvenær sem er eða breyta skilyrðum, ef nauðsynlegt er með tilliti til hagsmuna almennings eða einstakra manna.
    Nýja undanþágu þarf til hverrar þeirrar breytingar, sem frekari spjöll geta af hlotist, þótt áður hafi verið veitt undanþága skv. 2. mgr.

84.–85. gr.

X. kafli.

XI. kafli. Um vatnafélög.
99. gr. Stofnun vatnafélaga.
    Heimilt er fasteignareigendum að stofna félag um vatnsveitu, áveitu, vatnsorkuvinnslu, vatnsmiðlun, varnir við ágangi vatns eða annað sem lögmætan tilgang hefur samkvæmt lögum þessum.

100. gr. Stofnfundarboð.
    Þeir fasteignareigendur sem stofna vilja vatnafélag skv. 99. gr. skulu boða til stofnfundar eigendur, og eftir atvikum aðra rétthafa, þeirra fasteigna sem ætla má að aðild gætu átt að félaginu. Komi til löglegrar stofnunar félagsins telst kostnaður allur af fundarboði, fundarhaldi, uppdráttum að fyrirhuguðum framkvæmdum og mannvirkjum o.s.frv. til stofnkostnaðar.

101. gr.

102. gr. Efni samþykktar.
    Þegar ákveðið hefur verið að stofna félag skal samþykkt þess sett svo fljótt sem unnt er.
Í samþykkt skulu vera ákvæði um:
     1.      nafn félags, heimilisfang þess og varnarþing,
     2.      verkefni félags,
     3.      skipun félagsstjórnar, hversu fjölmenn hún skuli vera, hvernig skuli kjósa hana, hvert vald hennar skuli vera og starfssvið, ef stjórn er skipuð fleiri mönnum en einum, hve langan tíma kjör skuli gilda,
     4.      eigendur hvaða fasteigna taki þátt í félaginu, sem og aðrir rétthafar og um atkvæðisrétt á félagsfundum,
     5.      reikninga og bókhald félagsins og endurskoðun,
     6.      hvernig boða skuli til félagsfunda, hvenær þeir teljist lögmætir, hvaða mál þeir skuli úrskurða og hvert vald þeir hafi að öðru leyti,
     7.      hvernig fara skuli um greiðslur kostnaðar þess sem félagsskapurinn hefur í för með sér,
     8.      hvaða kvaðir eða eignarhöft leggjast á fasteignir þær sem þátt taka í félagsskapnum,
     9.      félagsgjöld og hvernig þau verði ákveðinn,
     10.      hvaða reglum skuli eftir farið ef breyta á samþykktum félagsins,
     11.      inntöku nýrra félaga, sbr. 110. gr.,
     12.      heimild til úrsagnar úr félagi, sbr. 111. gr.,
     13.      hvernig fara skuli um félagsslit, hvert atkvæðamagn þurfi til þeirra og hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins.
    Í samþykktum skal kveðið svo á að afl atkvæða ráði úrslitum. Ef sérstök ástæða þykir til má ákveða í samþykkt að aukinn meiri hluta þurfi til ákvörðunar um einstök félagsmálefni, önnur en þau sem sérstaklega er um mælt í lögum þessum.
    Gildi samþykkta vatnafélags er háð staðfestingu iðnaðarráðherra.

103. gr.–109. gr.

110. gr. Nýir félagar.
    Rétt er að taka nýja menn í félag ef lögmætur félagsfundur samþykkir.
    Hverjum þeim sem ekki hefur í upphafi tekið þátt í vatnsveitufélagi eða áveitufélagi í þeim tilgangi sem tilgreindur er skv. 29. gr. og 42. gr. er heimilt að gera það síðar, enda liggi fasteign hans með þeim hætti að þátttaka hans valdi ekki verulegu óhagræði.
    Ef veruleg breyting verður á skyldum félaga vegna töku nýrra félagsmanna eða verkefni félaga breytist verulega fyrir þá sök skal fara með málið sem breytingar á samþykktum félagsins.
    Nú bætist nýr aðili í félag og skal hann þá greiða að sínum hluta og frá þeim tíma hlutdeild í stofnkostnaði þau gjöld sem á félögum hvíla og með sama hætti sem aðrir félagar nema öðruvísi semji. Kosta skal hann sjálfur þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar sérstaklega hans vegna til þess að geta notað mannvirki félagsins.

111. gr. Úrsögn úr félagi og ábyrgð á skuldum.
    Félagi getur sagt sig úr vatnafélagi og skal hann þá fá greiddan stofnkostnað sinn að því leyti sem verðmæti hlutar hans er meira en nemur kostnaði og tjóni af brottför hans.
    Ef félagi segir sig úr félagi ábyrgist hann þau gjöld sem á hann hafa fallið samkvæmt ákvæðum félagsins til þess tíma er hann fer úr félaginu.
    Eignir félags standa fyrir skuldum þess. Enginn félagsmaður ber ábyrgð umfram löglega ákveðna hlutdeild sína í félaginu.

112. gr. Slit félags.
    Félagi skal slíta:
     1.      ef félagar samþykkja það samkvæmt fyrirmælum samþykktar félags,
     2.      ef félagar eru aðeins tveir og annar krefst þess,
     3.      ef það kemur síðar í ljós að ekki er unnt að ná því takmarki sem félag setti sér, eða það er svo miklum örðugleikum bundið að erfitt þykir að halda félagsskapnum áfram.
    Ef helmingur félaga eða meira krefst þess er skylt að kjósa skilanefnd til að standa fyrir skiptum félags og fer um vald hennar sem skilanefndar við slit hlutafélags.
    Ef eignir félags hrökkva ekki fyrir skuldum skal því sem á vantar skipt á félaga að réttri tiltölu við félagsgjöld hvers um sig, eins og þau hafa verið ákveðin samkvæmt gjaldskrá eða öðru lögmætu félagsákvæði. Hver félagi ábyrgist einungis sinn hluta.
    Um skiptin fer annars samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl.

113.–114. gr.

XII. kafli. Um almenna umferð um vötn.
115. gr. Heimild til að fara um vötn og til afnota af vatnsbökkum.
    Öllum er heimil för, þ.m.t. á farartækjum, um vötn, einnig á ísi, með þeim takmörkunum sem lög kveða á um. Umhverfisráðherra getur í reglugerð sett takmarkanir við umferð vélknúinna báta og annarra vélknúinna farartækja um vötn og vatnasvæði.
    Allir sem fara um vötn eða nota þau til sunds og baða hafa rétt til þeirra afnota af vatnsbökkum sem eru nauðsynleg vegna umferðar um vötn en gæta skulu þeir varkárni og forðast að valda skemmdum á landi, mannvirkjum eða veiðitækjum í vatni eða við það.

116. gr.

117. gr. Aðgæsluskylda og bætur fyrir tjón vegna umferðar um vötn.
    Öllum sem nota vötn til umferðar er skylt að gæta þess að gera sem minnstar skemmdir á landi, mannvirkjum eða veiðitækjum í vatni eða við það.
    Eigendur landareigna eða aðrir rétthafar eiga rétt til bóta fyrir tjón sem umferð á vatni veldur beinlínis á landi við vatnið eða á löglega gerðum og vel viðhöldnum mannvirkjum í vatni eða við það, svo og á löglega settum veiðitækjum, enda þótt tjónið sé hvorki að kenna ásetningi né ógætni. Bætur greiðast ekki fyrir tjón af því, þótt mannvirki þau sem fyrir skemmdum hafa orðið verði ekki notuð, nema tjón beri að bæta samkvæmt almennum skaðabótareglum.

118. gr.–120. gr.

XIII. kafli.

XIV. kafli.

XV. kafli. Eignarnám og bætur.
139. gr. Eignarnám.
    Eignarnám sem ráðherra heimilar samkvæmt lögum þessum getur tekið til vatnsréttinda, lands, mannvirkja, aðstöðu og annarra réttinda landeiganda. Ávallt skal þess freistað að ná samkomulagi við landeiganda eða rétthafa áður en til eignarnáms kemur.
    Framkvæmd eignarnáms á grundvelli þessara laga fer eftir almennum reglum.
    …

140. gr. Endurgjald.
    Við ákvörðun eignarnámsbóta skal koma til frádráttar sérhagur viðkomandi fasteignar af framkvæmdum. Að öðru leyti fer um endurgjald fyrir eignarnumin réttindi eftir almennum reglum.

141. gr. Bótaákvæði.
    Eigandi mannvirkis við vatn, eða sá sem stendur fyrir framkvæmdum við vatn, ber ábyrgð á tjóni sem af framkvæmdunum hlýst án tillits til þess hvort tjón verði rakið til saknæmrar háttsemi eða ekki:
     1.      ef ráðist er án leyfis í framkvæmdir sem eru leyfisskyldar samkvæmt lögum þessum,
     2.      ef staðið er þannig að framkvæmdum að ekki fullnægi áskilnaði 80. gr.,
     3.      ef brestur verður á viðhaldi mannvirkis.
    Leyfi til framkvæmdar sem valdið getur umtalsverðu tjóni má binda því skilyrði að framkvæmdaraðili leggi fram tryggingu vegna hugsanlegrar bótaábyrgðar.
    …

142. gr.

XVI. kafli. Stjórnsýsla.
143. gr. Yfirstjórn.
    Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum nema öðruvísi sé fyrir mælt í þeim.
    Orkustofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem þau mæla ekki fyrir um annað. Orkustofnun er iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um vatnsnýtingu og vatnamál á verksviði stofnunarinnar.
    Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem eru teknar á grundvelli laga þessara sæta kæru til iðnaðarráðherra.
    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar samkvæmt lögum þessum. Umhverfisráðherra er heimilt að fela Umhverfisstofnun stjórnsýslu þar að lútandi. Stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar sem eru teknar á grundvelli laga þessara sæta kæru til umhverfisráðherra.

144. gr. Tímafrestir vegna leyfisveitinga og tilkynningarskylda.
    Ef um leyfisskylda framkvæmd samkvæmt lögum þessum er að ræða skal ákvörðun viðkomandi stjórnvalds um að veita leyfi eða synja leyfis liggja fyrir innan átta vikna frá því að tilkynning um fyrirhugaða framkvæmd barst stjórnvaldinu.
    Skylt er að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem er fyrirhugað að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum.
    Ekki er þó skylt að senda tilkynningu skv. 1. mgr. þegar Fiskistofu er send skrifleg umsókn um framkvæmd í eða við veiðivatn skv. V. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Fiskistofa skal þegar henni berst umsókn um leyfi fyrir framkvæmdum þegar í stað senda Orkustofnun afrit af öllum slíkum umsóknum.
    Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði fyrir starfsemi og framkvæmdum sem taldar eru nauðsynlegar af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Slík skilyrði skulu vera í samræmi við markmið laganna, reglugerðir og vatnastjórnunaráætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Heimild Orkustofnunar til þess að setja slík skilyrði nær þó ekki til starfsemi og framkvæmda á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar.
    Orkustofnun skal gera tilkynningarskyldum aðila grein fyrir því innan fjögurra vikna frá því að tilkynning barst stofnuninni hvort hún hyggst banna tilkynntar framkvæmdir, setja skilyrði fyrir þeim skv. 4. mgr. eða gera aðrar athugasemdir við framkvæmdir þær sem tilkynntar hafa verið. Berist athugasemdir Orkustofnunar ekki tilkynningarskyldum aðila innan frestsins skal líta svo á að engar athugasemdir séu gerðar við fyrirhugaðar framkvæmdir. Ákveði Orkustofnun að setja tilkynningarskyldum aðila skilyrði skv. 4. mgr. skal ákvörðun liggja fyrir innan fjögurra vikna frá lokum fjögurra vikna frests samkvæmt þessari málsgrein.
    Iðnaðarráðherra skal í reglugerð, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, setja nánari fyrirmæli um framkvæmd tilkynningarskyldu, útfærslu skilyrða sem setja má fyrir framkvæmdum og önnur atriði samkvæmt þessari grein.

145. gr. Eftirlit og úrræði.
    Sé leyfisskyld framkvæmd samkvæmt lögum þessum hafin án leyfis getur viðkomandi stjórnvald stöðvað hana tafarlaust. Sama á við ef aðili vanrækir tilkynningarskyldu samkvæmt lögum þessum. Ef staðið er þannig að framkvæmd eða starfsemi að ekki samrýmist lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða útgefnu leyfi skal viðkomandi stjórnvald veita framkvæmdaraðila skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef þá er ekki farið að fyrirmælum er heimilt að stöðva framkvæmd eða starfsemi og beita dagsektum þar til úr hefur verið bætt. Dagsektir geta numið 10.000–500.000 kr. Við ákvörðun dagsekta skal tekið tillit til eðlis vanrækslu eða brots og þeirra hagsmuna sem eru í húfi. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt þeim sem hún beinist að á sannanlegan hátt. Dagsektir renna í ríkissjóð.
    Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða stjórnvöld við aðgerðir skv. 1. mgr.
    Heimilt er leyfisveitanda að afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt lögum þessum ef um ítrekaða vanrækslu leyfishafa er að ræða eða ljóst er að hann getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu.
    Heimilt er að mæla fyrir um að sá sem staðið hefur að óheimilum framkvæmdum skv. 1. eða 3. mgr. fjarlægi mannvirki og færi umhverfið til fyrra horfs. Ef slíkri skyldu er ekki sinnt innan þeirra tímamarka sem stjórnvöld ákveða er heimilt að láta vinna verkið á kostnað hins brotlega. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða úr ríkissjóði en innheimtur síðar hjá hlutaðeigandi.
    Áður en gripið er til úrræða skv. 3. mgr. og 4. mgr. skal veita skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
    Dagsektir skv. 1. mgr. og krafa um endurgreiðslu kostnaðar skv. 4. mgr. eru aðfararhæfar.

146. gr. Gjaldtaka.
    Fyrir leyfi sem stjórnvöld veita á grundvelli þessara laga og fyrir eftirlit sem þeim er falið er heimilt að innheimta gjald. Gjaldið skal vera í samræmi við gjaldskrá sem staðfest skal af viðkomandi ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Gjald skv. 1. mgr. má ekki vera hærra en nemur kostnaði við undirbúning, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar þjónustu, útgáfu leyfis og eftirlit.

147. gr.–150. gr.

XVII. kafli.
XVIII. kafli. Ýmis ákvæði.
153. gr. Viðurlög.
    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta fyrir brot á lögum þessum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans.
    …

154. gr. Reglugerðir.
    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um starfrækslu vatnafélaga.
    Á sama hátt er umhverfisráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara að því leyti sem stjórnsýsla samkvæmt þeim er undir hann sett.


Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum,
nr. 15/1923, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á vatnalögum, nr. 15 frá 1923, og að jafnframt verði felld úr gildi lög nr. 31/2007, um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti. Þá er lagt til að vatnalög, nr. 20/2006, með síðari breytingum, taki ekki gildi og falli niður frá og með 1. júlí 2011. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerðar verði breytingar á fyrsta kafla laganna sem í dag geymir orðskýringar. Bætt er við skilgreiningum á hugtökum, sem og gildissviðsákvæði. Þá eru einstakar greinar skýrðar nánar með fyrirsögnum og á það við um allar greinar frumvarpsins. Þá eru lagðar til nokkrar lagfæringar og einfaldanir á öðrum kafla laganna um vatnsréttindi en ákvæði kaflans haldast hins vegar óbreytt í öllum aðalatriðum. Sama má segja um þriðja kafla um vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju án orkunýtingar, fjórða kafla um áveitur og fimmta kafla um vatnsorku. Þá er lagt til að felld verði brott nokkur ákvæði sem þykja algerlega úrelt og nokkur önnur sameinuð og einfölduð. Framangreindir kaflar laganna mynda meginumgjörðina um inntak vatnsréttinda sem og helstu meginreglur réttarsviðsins. Sjötti kafli um vatnsmiðlun; sjöundi kafli um varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna; áttundi kafli um þurrkun lands og fjórtándi kafli um almenn ákvæði um vatnsvirki eru sameinaðir í einn kafla, mjög einfaldaðir og styttir. Ákvæði níunda kafla um óhreinkun vatna og ellefta kafla um vatnafélög eru einfölduð og stytt, sem og ákvæði tólfta kafla um umferðarrétt. Loks er lagt til að ákvæði laganna um stjórnsýslu, bótaákvarðanir, málsmeðferð og refsingar sem nú eru í fimmtánda til átjánda kafla verði einfölduð og þeim breytt í grundvallaratriðum.
    Verkefni Orkustofnunar munu að einhverju leyti aukast þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að tilkynna beri stofnuninni um allar framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari. Umfang þessara verkefna hefur þó ekki verið metið sérstaklega og hefur verið gert ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessa verði ekki verulegur og rúmist innan fjárlagaramma ráðuneytisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.