Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.

Þskj. 243  —  196. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, sem orðast svo:
    Flugmálastjórn Íslands er heimilt að fela viðurkenndum aðila skrásetningu loftfara af tiltekinni tegund eða flokki í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Um skilyrði skráningar, réttaráhrif skráningar og afskráningu gilda að öðru leyti ákvæði þessara laga.

2. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 28. gr. a – 28. gr. f, sem orðast svo:

    a.     (28. gr. a.)
    Nú vill aðili hljóta viðurkenningu til eftirlits með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund eða flokki og skal hann þá sækja um viðurkenningu til Flugmálastjórnar Íslands.
    Veita skal viðurkenningu sé þeim skilyrðum fullnægt sem kveðið er á um í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Viðurkenningu má taka aftur ef aðili fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett eða brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglugerða. Nú verða verulegar breytingar á samþykktum félagsins, umfangi starfsemi og eðli og skal þá á ný sækja um viðurkenningu.
    Flugmálastjórn Íslands er heimilt að afturkalla viðurkenningu tímabundið eða takmarka viðurkenningu félagsins að hluta telji stofnunin vafa leika á að félagið geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru um starfrækslu þess með þeim hætti að telja má að flugöryggi kunni að vera stefnt í hættu.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
     a.      heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með viðurkenndum aðilum og skilyrði til framsals eftirlits;
     b.      kröfur um viðurkenningu, framkvæmd og starfrækslu, þ.m.t. um félagaform, fjármögnun, fjárhagsstöðu, reikningsskil og vátryggingar, auk krafna um kennslu, þjálfun, prófanir og eftirlit;
     c.      menntun og hæfni kennara og þeirra er annast prófanir og eftirlit;
     d.      trúnaðarmenn og samþykki þeirra;
     e.      upplýsingamiðlun og skýrslugjöf til Flugmálastjórnar Íslands.

    b.     (28. gr. b.)
    Nú vill aðili hljóta vottun eða viðurkenningu til verklegrar og/eða bóklegrar kennslu, þjálfunar og prófunar:
     a.      flugliða loftfara;
     b.      öryggis- og þjónustuliða loftfara;
     c.      flugvéltækna;
     d.      viðhaldsvotta;
     e.      flugumsjónarmanna;
     f.      á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar, þ.m.t. til stjórnunar flugumferðar; og
     g.      þeirra er starfa að flugvernd, eftirliti með flugvernd og framkvæmd flugverndar;
og skal aðili þá sækja um vottun eða viðurkenningu til Flugmálastjórnar Íslands.
    Veita skal vottun eða viðurkenningu sé þeim skilyrðum fullnægt sem kveðið er á um í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Vottun eða viðurkenningu má taka aftur ef aðili fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett eða ef aðili brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglugerða.
    Flugmálastjórn Íslands er heimilt að afturkalla vottun eða viðurkenningu tímabundið eða takmarka hana að hluta telji stofnunin vafa leika á að aðili geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru um starfrækslu þess með þeim hætti að telja má að flugöryggi kunni að vera stefnt í hættu.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
     a.      heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með vottuðum eða viðurkenndum aðilum, þar á meðal heimildir til framsals eftirlits til óháðra viðurkenndra eða vottaðra aðila;
     b.      eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd eftirlits;
     c.      kröfur um vottun eða viðurkenningu, þ.m.t. um fjármögnun, fjárhagsstöðu, reikningsskil og vátryggingar, auk krafna um framkvæmd kennslu, þjálfunar og prófana, afköst og þjónustustig, umráð loftfara og búnaðar;
     d.      trúnaðarmenn og samþykki þeirra;
     e.      búnað sem nýttur er til þjálfunar og prófunar og vottun hans;
     f.      menntun og hæfni kennara og þeirra er annast prófanir; og
     g.      upplýsingamiðlun og skýrslugjöf til Flugmálastjórnar Íslands.

    c.     (28. gr. c.)
    Nú vill aðili hljóta tilnefningu og samþykki sem fluglæknir eða til reksturs fluglæknaseturs og skal hann þá sækja um slíka tilnefningu og samþykki til Flugmálastjórnar Íslands.
    Veita skal tilnefningu og samþykki sé þeim skilyrðum fullnægt sem kveðið er á um í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Tilnefningu og samþykki má taka aftur ef aðili fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett eða ef aðili brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglugerða.
    Flugmálastjórn Íslands er heimilt að afturkalla tilnefningu og samþykki sitt tímabundið eða takmarka það að hluta telji stofnunin vafa leika á að aðili geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru um starfrækslu þess með þeim hætti að telja má að flugöryggi kunni að vera stefnt í hættu.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um tilhögun og fjölda tilnefndra fluglækna og fluglæknasetra, framkvæmd heilbrigðisskoðana, starfrækslu fluglæknasetra, heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með fluglæknum og fluglæknasetrum, upplýsingagjöf, menntun á sviði fluglæknisfræði og útgáfu heilbrigðisvottorða.

    d.     (28. gr. d.)
    Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með því að vottaður eða viðurkenndur aðili skv. 28. gr. a, 28. gr. b og 28. gr. c uppfylli þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar og sinni þeim skyldum sem hann tekur að sér. Stofnunin getur m.a. í því skyni beitt úrræðum 84. gr.

    e.     (28. gr. e.)
    Eigendur og umráðendur loftfara sem starfrækt eru í almannaflugi skulu uppfylla þær kröfur sem settar eru í reglugerð sem ráðherra setur um skilyrði til öruggrar starfrækslu. Í reglugerðinni má m.a. kveða nánar á um lofthæfi, undirbúning flugs og verklags í flugi, afkastagetu og starfrækslulágmörk og lágmarksbúnað, þ.m.t. flugleiðsögu.

    f.     (28. gr. f.)
    Eigendur og umráðendur loftfara sem starfrækt eru til verkflugs, hvort heldur í einkaflugi eða í verkflugi í atvinnuskyni, skulu uppfylla þær kröfur sem settar eru í reglugerð sem ráðherra setur um örugga starfrækslu. Í reglugerðinni má m.a. kveða nánar á um lofthæfi, heimildir til tegundar verkflugs, undirbúning flugs og verklags í flugi, afkastagetu og starfrækslulágmörk og lágmarksbúnað, þ.m.t. flugleiðsögu.
    Um skilyrði til verkflugs í atvinnuskyni gilda ákvæði IX. kafla laga þessara að öðru leyti.

3. gr.

    4. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um réttindi og skyldur flugrekenda, flugverja og viðurkenndra aðila sem sinna flugkennslu og þjálfun hvað varðar:
     a.      hámarksvinnutíma, hámarksflugvakt og lágmarkshvíldartíma og
     b.      skráningu flugvaktar, vinnu- og hvíldartíma.

4. gr.

    2. og 3. mgr. 47. gr. a laganna orðast svo:
    Óheimilt er að veita þriðja aðila aðgang að upplýsingum eða tilkynningum sem berast skv. 47. gr. Þetta á ekki við um upplýsingar sem veittar eru:
     a.      erlendum ríkjum, stofnunum eða samtökum á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga ef tilgangurinn er að vinna að auknu flugöryggi;
     b.      rekstraraðilum er varða starfsemi þeirra sjálfra; og
     c.      hagsmunaaðilum sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um gagnagrunninn, þar á meðal um:
     a.      aðgang að upplýsingum úr grunninum;
     b.      úrvinnslu á grundvelli gagna úr grunninum;
     c.      miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila úr grunninum;
     d.      form, móttöku, skráningu, málsmeðferð og afgreiðslu beiðna um upplýsingar úr grunninum;
     e.      þagnarskyldu aðila og starfsmanna á hans vegum auk afléttingar hennar;
     f.      takmörkun á notkun upplýsinga úr grunninum;
     g.      skyldu til skráningar grunnupplýsinga um rannsókn flugslysa og alvarlegra flugatvika sem tilkynningarskyld eru skv. 47. gr. í gagnagrunninn meðan á rannsókn stendur.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Flugmálastjórn setur nánari reglur“ í 1 málsl. kemur: Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði.
     b.      Á eftir orðinu „öryggi“ í 1. og 3. málsl. kemur: og heilbrigði.

6. gr.

    57. gr. a laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Flugleiðsöguþjónusta og rekstrarstjórnun flugumferðar.

    Með flugleiðsöguþjónustu er átt við flugumferðar- og fjarskiptaþjónustu, leiðsögu- og kögunarþjónustu, veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónustu flugmála. Með rekstrarstjórnun flugumferðar er átt við flugumferðarþjónustu, loftrýmisstjórnun og flæðisstjórnun flugumferðar. Rekstraraðili flugleiðsöguþjónustu er hver sá opinberi aðili, stofnun eða fyrirtæki, sem veitir flugleiðsöguþjónustu fyrir flugumferð og sinnir rekstrarstjórnun flugumferðar að hluta eða öllu leyti.
    Nú vill aðili hefja starfrækslu flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar og skal þá umráðamaður og/eða eigandi sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar Íslands minnst þremur mánuðum fyrir upphaf þjónustunnar.
    Að fullnægðum þeim kröfum og stöðlum sem Flugmálastjórn metur fullnægjandi skal gefa út starfsleyfi. Í leyfi skal m.a. koma fram nafn leyfishafa og gildistími ásamt þeim takmörkunum og skilyrðum sem í leyfinu felast. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar.
    Heimilt er ráðherra að tilnefna lögaðila til að sjá um afmarkaða þætti flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar. Aðeins má tilnefna þá sem hafa gilt starfsleyfi.
    Flugmálastjórn Íslands, eða aðili sem hún samþykkir, skal hafa eftirlit með því að sá sem veitir flugleiðsöguþjónustu og sinnir rekstrarstjórnun flugumferðar uppfylli gerðar kröfur og sinni þeim skyldum sem hann tekur að sér. Stofnunin getur m.a. í því skyni beitt úrræðum 84. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
     a.      tilnefningu veitanda þjónustu, þar á meðal framkvæmd tilnefningar, hámarkstímalengd tilnefningar og önnur skilyrði;
     b.      heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar, þar á meðal heimildir til framsals eftirlits til óháðra viðurkenndra eða vottaðra aðila;
     c.      eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd eftirlits á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
     d.      skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis, þ.m.t. um öryggi, stjórnun, fjármögnun, fjárhagsstöðu og reikningsskil, gerð ársskýrslu auk krafna um starfrækslu, afköst og þjónustustig;
     e.      framkvæmd og starfrækslu flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
     f.      búnað og vottun hans vegna flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
     g.      menntun og hæfni starfsmanna sem veita flugleiðsöguþjónustu og sinna rekstrarstjórnun flugumferðar;
     h.      skilyrði fyrir vottun eða viðurkenningu þeirra sem sinna þjálfun á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
     i.      upplýsingamiðlun um eftirlit með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðarsamstarfs;
     j.      samvinnu á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. b laganna:
     a.      Við greinina bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Nú er flugvöllur, sem opinn er fyrir flugumferð í atvinnuskyni, undir tilgreindum viðmiðunarmörkum er varðar fjölda farþega og magn farms og er rekstraraðila flugvallar heimilt að fengnu samþykki Flugmálastjórnar Íslands, og að þeim skilyrðum uppfylltum sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur, að takmarka fjölda þeirra aðila sem heimilt er að veita flugafgreiðslu. Heimilt er ráðherra að kveða á um eftirlit með þeim sem sinna flugafgreiðslu í reglugerð.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Rekstraraðila flugvallar er heimilt að afhenda þriðja aðila stjórn sérstakra mannvirkja á flugvelli sem notuð eru við flugafgreiðslu og getur hann skyldað þá sem sjá um flugafgreiðslu og flugvallanotendur sem sjá um eigin afgreiðslu til að nota slík mannvirki. Þetta á við um mannvirki sem eru svo flókin eða kostnaðarsöm eða hafa svo mikil umhverfisáhrif að ekki er unnt að skipta þeim niður eða hafa fleiri en eitt af þeim, t.d. stjórn farangursflokkunar, afísingar, vatnshreinsunar og eldsneytisdreifingar. Ráðherra skal kveða nánar á um skilyrði slíks framsals á stjórnun mannvirkja og skyldu til nýtingar þeirra í reglugerð.

8. gr.

    Við 57. gr. c laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð, þar á meðal um:
     a.      tilnefningu flugvallar með tilliti til skipulagningar afgreiðslugetu flugvallarins;
     b.      skipun samráðs- eða samræmingarstjóra flugvallar og starfsskyldur þeirra;
     c.      skipun samræmingarnefndar tilnefnds flugvallar auk verkefna hennar;
     d.      skyldu flugrekenda, m.a. til upplýsingagjafar og starfrækslu flugstarfsemi á ákveðnum tímum;
     e.      heildarskrá afgreiðslutíma, úthlutun og breytingar á honum;
     f.      kvaðir á úthlutun afgreiðslutíma vegna opinberrar þjónustu á flugleiðum;
     g.      kvartanir og áfrýjunarrétt; og
     h.      takmörkun á bótaábyrgð samræmingarstjóra.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      3.–6. mgr. falla brott.
     b.      Greinin fær nýja fyrirsögn sem orðast svo: Flugvernd.

10. gr.

    Á eftir 70. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 70. gr. a – 70. gr. f, sem orðast svo:

    a.     (70. gr. a.)
    Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar, m.a. rekstraraðilar flugvalla og flugstöðva, flugrekendur og rekstraraðilar flugleiðsöguþjónustu, ræki skyldur sínar á sviði flugverndar í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og samþykktir sem um starfsemina gilda og flugverndaráætlun sem stofnunin skal gera og viðhalda fyrir Ísland. Eftirlitsskyldir aðilar skulu leggja flugverndaráætlun sína fyrir stofnunina til samþykktar. Flugmálastjórn Íslands skal gæta þess að kröfum um leynd og varðveislu verndaráætlana og annarra trúnaðarupplýsinga sé fullnægt.

    b.     (70. gr. b.)
    Rekstraraðila flugvallar, með samþykki vegna flugverndar, Flugmálastjórn Íslands eða þeim sem falin er framkvæmd flugverndar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er heimilt að leita á mönnum, í farangri, farmi, pósti, rekstrarvörum og öðrum varningi áður en hann er færður um borð í loftfar, inn á haftasvæði flugverndar eða aðgreind flugverndarsvæði. Sá sem sætir hand- og líkamsleit getur krafist þess að vitni sé tilkvatt. Handleit og líkamsleit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni. Líkamsleit skal aðeins framkvæmd af lögreglu.
    Synja skal þeim um aðgang að aðgreindu flugverndarsvæði og haftasvæði flugverndar eða um brottför og komu sem neita að undirgangast leit. Leit skal framkvæmd með eins mikilli tillitssemi og unnt er og hún má aldrei verða víðtækari en nauðsynlegt er.

    c.     (70. gr. c.)
    Flugmálastjórn Íslands eða þeim sem hún felur eftirlit með flugvernd samkvæmt lögum þessum er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings, að fela lögreglu athugun á viðkomandi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um bakgrunn og sakaferil sem lið í mati á því hvort óhætt sé að heimila honum aðgang að haftasvæði flugverndar og aðgengi að upplýsingum um framkvæmd og eftirlit flugverndar. Endurtaka skal athugunina með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    Rekstraraðila flugvallar, með samþykki vegna flugverndar, er heimilt að fela lögreglu bakgrunnsathugun vegna útgáfu aðgangsheimilda með sama hætti og greint er í 1. mgr.
    Lögregla skal upplýsa um niðurstöður sínar annaðhvort með jákvæðri eða neikvæðri umsögn um viðkomandi einstakling. Einstaklingi er heimilt að óska eftir rökstuðningi sé umsögn neikvæð. Ákvörðun lögreglu um niðurstöður bakgrunnsathugunar sætir kæru til samgönguráðuneytisins samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

    d.     (70. gr. d.)
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
     a.      heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands á sviði flugverndar, þar á meðal heimildir til framsals eftirlits til sjálfstæðra vottunaraðila;
     b.      eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd flugverndar hér á landi;
     c.      áhættumat og vástig vegna flugverndar;
     d.      hverjir teljist eftirlitsskyldir aðilar á sviði flugverndar, þ.m.t. erlendir aðilar;
     e.      efni og útgáfu flugverndaráætlunar og framkvæmd hennar, þ.m.t. takmörkun á birtingu efnis að hluta eða í heild;
     f.      kröfur til eftirlitsskyldra aðila, þ.m.t. kröfur er varða gerð flugverndaráætlunar eftirlitsskyldra aðila, gæðakerfis og þjálfunar- og viðbúnaðaráætlana;
     g.      hvaða hluti sé óheimilt að flytja í handfarangri, lestarfarangri, pósti og farmi í almenningsflugi;
     h.      framkvæmd flugverndar, þ.m.t. aðgangsstýringar flugvalla og flugstöðva, útgáfu aðgangsheimilda, leitar á mönnum, í farangri, pósti og farmi, vélknúinna ökutækja, vinnuvéla og búnaðar og aðföngum til starfrækslu almenningsflugs, reksturs flugvalla og flugstöðva, kröfur til búnaðar sem nota skal vegna flugverndaraðgerða og ráðstafana til verndar loftförum og mannvirkjum á flugvelli og nánari kröfur til eftirlitsskyldra aðila sem ekki geta sætt birtingu skv. f-lið;
     i.      skipulag og skilgreiningu svæða innan flugvallar;
     j.      hæfniskröfur við ráðningu og þjálfun þeirra er starfa að flugvernd, framkvæmd flugverndar og eftirlits með flugvernd;
     k.      kröfur um viðurkenningu umboðsaðila og þekktra sendenda;
     l.      kröfur um vottun eða viðurkenningu þeirra sem sjá um þjálfun á sviði flugverndar;
     m.      kröfur um útgáfu skírteinis eða vottorðs um hæfni og þjálfun þeirra sem starfa að flugvernd, hafa eftirlit með flugvernd og þeirra sem annast kennslu og þjálfun á sviði flugverndar;
     n.      athuganir á bakgrunni vegna flugverndar, sem leiðir m.a. af athugun á viðkomandi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um sakaferil sem framkvæmd er af lögreglu að beiðni Flugmálastjórnar Íslands og viðkomandi rekstraraðila flugvallar, og almenn viðmið um slíkt mat;
     o.      gagnkvæma viðurkenningu á sviði flugverndar við erlend ríki;
     p.      upplýsingamiðlun um flugvernd; og
     q.      samstarf og samvinnu á sviði flugverndar við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir.
    Ráðherra er heimilt að birta aðeins að hluta eða öllu leyti efni reglugerðar skv. h-lið 1. mgr. þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar, enda varði efni reglugerðarinnar beina flugverndarhagsmuni og öryggi og leynd leiði af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar. Miðlun upplýsinga skv. h-lið 1. mgr. skal tryggð með sannanlegum hætti.
    Flugmálastjórn Íslands setur reglur um skipan og starfsemi flugverndarráðs og flugverndarnefnda.
    Rekstraraðilum flugvalla er heimilt að setja reglur um aðgangsstýringu og afmörkun aðgreindra flugverndarsvæða og haftasvæða á flugvelli.

    e.     (70. gr. e.)
    Þeim sem starfa að flugvernd ber þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfa sinna og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna eða hagsmuna í þágu flugverndar. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna, sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða framkvæmd flugverndar og fyrirhugaðar aðgerðir vegna flugverndar og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglum eða eðli máls.
    Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

    f.     (70. gr. f.)
    Nú segir maður, sem falin hafa verið trúnaðargögn í samræmi við 2. mgr. 70. gr. d, frá nokkru er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða hann er bundinn trúnaði um og varðar framkvæmd flugverndar, og skal hann þá sæta fangelsi allt að einu ári.
    Hafi hann gert það til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings eða noti hann slíka vitneskju í því skyni má beita fangelsi allt að 3 árum.
    Sömu refsingu skal sá sæta sem látið hefur af starfi og eftir það segir frá eða misnotar á sama hátt vitneskju sem hann hafði fengið í stöðu sinni og leynt á að fara.
    Brot á þagnarskyldu opinberra starfsmanna skv. 1. og 2. mgr. 70. gr. e er refsivert skv. 136. gr. almennra hegningarlaga.

11. gr.

    71. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Gjaldtaka.

    Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar og fyrir þeirri aðstöðu, búnaði og mannvirkjum sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtir á flugvellinum.
    Rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar, þar sem slík þjónusta er veitt, og þeim búnaði og mannvirkjum sem starfsemin nýtir.
    Gjaldskrá skal birt með tryggum hætti þar sem m.a. er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess ef við á og innheimtu. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um forsendur og útreikning kostnaðar, forsendur og útreikning gjaldtöku, gagnsæi kostnaðargrunns og gjaldtöku, leyfilegar undanþágur frá gjaldtöku, hvatakerfi, reglubundið samráð við hagsmunaaðila um gjaldtöku, fyrirkomulag við setningu gjaldskrár og málsmeðferð, fyrirkomulag við innheimtu og eftirlit með gjaldtöku.

12. gr.

    71. gr. a laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Notendanefnd.

    Rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis þar sem farþegar eru fleiri en ein milljón á ári skal setja á stofn notendanefnd sem er vettvangur skoðanaskipta milli hans og notenda um málefni flugvallar. Fjöldi fulltrúa notenda og samsetning í notendanefnd skal ráðast af stærð og umsvifum flugvallar. Fundir í notendanefnd flugvallar skulu haldnir eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
    Á notendafundi skal notendum veitt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir um rekstur, þjónustu, gjaldtöku eða önnur atriði sem snerta mikilvæga hagsmuni þeirra.
    Nú vill rekstraraðili flugvallar leggja fram tillögu um ákvörðun um:
     a.      hækkun gjalds;
     b.      breytingu gjalds;
     c.      nýtt gjald; eða
     d.      aðrar mikilvægar ráðstafanir sem snerta beint hagsmuni notenda;
og skal slík tillaga lögð fram með rökstuðningi a.m.k. fjórum mánuðum fyrir áætlaða gildistöku ákvörðunar. Notendum skulu veittar fullnægjandi upplýsingar með áherslu á gagnsæi svo að þeir geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra breytinga og nýmæla sem fyrirhuguð eru.
    Notendanefnd skal leitast við að ná samkomulagi um fyrirhugaðar ákvarðanir, en náist ekki samkomulag skal rekstraraðili flugvallar óbundinn af sjónarmiðum notenda flugvallar. Verði ágreiningur í notendanefnd geta notendur farið fram á frekari rökstuðning og annan fund til frekari viðræðna.
    Rekstraraðili flugvallar skal tilkynna um ákvörðun sína skv. 2. mgr. með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara fyrir gildistöku.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um notendanefndir flugvalla þar sem m.a. er kveðið á um skipun nefndarinnar, skipunartíma, hlutverk, fundarboðun og meðferð ágreiningsmála og upplýsingaskyldu til Flugmálastjórnar Íslands.

13. gr.

    71. gr. b laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Gagnsæi gjalda.

    Rekstraraðili flugvallar skal eigi sjaldnar en árlega leggja fram sundurliðun kostnaðar sem lagður er til grundvallar gjaldtöku. Við sundurliðunina skal a.m.k. leggja til grundvallar:
     a.      þá þjónustu og innviði sem gjald er tekið fyrir;
     b.      aðferðina við útreikning gjalds;
     c.      heildarsamsetningu kostnaðar á flugvelli eða innan flugvallakerfis;
     d.      tekjur af mismunandi gjöldum og heildarkostnað að baki gjaldtöku;
     e.      fjármögnun ríkis, sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila til þeirrar þjónustu sem gjald er tekið fyrir;
     f.      spá um þróun á viðkomandi flugvelli/flugvöllum varðandi gjaldtöku og flugumferð. Séu fjárfestingar í innviðum hluti af kostnaðargrunni gjalda skulu áætlanir þar um einnig sundurliðaðar;
     g.      nýtingu stofninnviða og búnaðar yfir tiltekið tímabil; og
     h.      áætlun um framlegð einstakra fyrirhugaðra fjárfestinga og áhrif þeirra á afkastagetu flugvallarins og gæði þjónustu.
Aðgreina skal í bókhaldi einstaka kostnaðarliði sem lagðir eru til grundvallar gjaldi.
    Flugrekendum, sem nýta aðstöðu flugvalla hér á landi, ber að upplýsa rekstraraðila flugvallar reglulega um áætlanir sínar m.a. varðandi tíðni flugs á hverri flugleið, fjölda farþega, samsetningu flugvélaflotans, fyrirhuguð verkefni á flugvelli og þarfir fyrir aðstöðu á honum. Rekstraraðili flugvallar skal meðhöndla upplýsingar, sem veittar eru samkvæmt þessari grein, sem trúnaðarupplýsingar.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði m.a. um sundurliðun gjalda, hvaða gjöld beri að sundurliða, birtingu upplýsinga um gjöld og aðferð við framsetningu.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. laganna:
     a.      Orðin „beiðni hafa borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis“ í 3. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
                      Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð, að höfðu samráði við dómsmálaráðherra, um hæfni og þjálfun vopnaðra varða sem og fyrirkomulag við vopnaburð, verklag, samþykki þess og eftirlit.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 132. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Ráðherra kveður á um stjórnun leitarstarfs fram til þess að slysstaður finnst, en þá taka lögregluyfirvöld við og bera ábyrgð á vettvangsstjórn. Ráðherra getur með samningi falið félagasamtökum eða fyrirtækjum að hafa umsjón með framkvæmd leitarstarfa að hluta til eða öllu leyti. Rannsóknarnefnd flugslysa fer með yfirstjórn vettvangsrannsóknar og ber lögregluyfirvöldum að aðstoða við hana í hvívetna.
     b.      Í stað orðanna „skal Flugmálastjórn“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: er.

16. gr.

    146. gr. b laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Heimild ríkisstjórnar til samningagerðar.

    Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir um gagnkvæma viðurkenningu réttinda, skírteina, heimilda, starfsleyfa, vottunar og úttekta á sviði flugs, þ.m.t. á sviði flugverndar.

17. gr.

    Á eftir 146. gr. b laganna kemur ný grein, 146. gr. c, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tölvufarskráningarkerfi.

    Tölvufarskráningarkerfi er kerfi þar sem m.a. er að finna upplýsingar flugrekenda um ferðaáætlanir, laus sæti, fargjöld og aðra tengda þjónustu, ýmist með eða án búnaðar til farskráningar eða útgáfu ferðaheimilda að því marki sem áskrifendur kerfisins fá aðgang að þessari þjónustu að hluta eða að fullu. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um starfrækslu slíkra kerfa, aðgengi, áreiðanleika og röðun upplýsinga, skilmála, bann við mismunun, eftirlit með starfsemi tölvufarskráningarkerfa, ráðstafanir til varnar jafnri samkeppni og vernd persónuupplýsinga.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Heimilt er að innheimta gjöld fyrir framkvæmd flugverndar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga þessara, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. og 13. gr., þar til ný gjaldskrá hefur verið birt, eigi síðar en 1. júlí 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur til breytinga á nokkrum ákvæðum laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Um er að ræða breytingar af margvíslegum toga.
    Í 1. gr. og a-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Flugmálastjórn Íslands verði heimilt að fela viðurkenndum aðilum skrásetningu og eftirlit með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund eða flokki. Er þar leitast við að styrkja og bæta heimildir núgildandi laga til að festa frekar í sessi það fyrirkomulag sem komið hefur verið á varðandi hreyfilknúin fis með það fyrir augum að mögulegt sé að koma sama fyrirkomulagi á varðandi aðra flokka loftfara.
    Aðrar breytingar lúta m.a. að því að bæta og styrkja lagastoð fyrir setningu reglugerða og innleiðingu gerða á nokkrum sviðum vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Má þar nefna heimildir til vottunar eða viðurkenningar til verklegrar og bóklegrar kennslu í b-lið 2. gr. frumvarpsins og heimildir til setningar reglugerða á sviði almannaflugs og verkflugs, sbr. e- og f-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Þá er lagt til að lagastoð fyrir setningu reglugerðar um hámarksflugvakt verði bætt í lögin skv. 3. gr. frumvarpsins og ráðherra verði falið að setja reglugerð á sviði öryggis og heilbrigði, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Ákvæði laganna er lúta að flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar eru styrkt enn frekar í 6. gr. frumvarpsins og í 7. og 8. gr. er kveðið á um skýrari lagastoð fyrir innleiðingu gerða Evrópusambandsins á sviði flugafgreiðslu og flugafgreiðslutíma.
    Umfangsmestu breytingarnar snúa að flugvernd og gjaldtöku vegna flugverndar, sjá 9.–14. gr. frumvarpsins. Kveðið er nánar á um eftirlit Flugmálastjórnar Íslands, heimildir til leitar, gerð bakgrunnsathugana og þagnarskyldu. Enn fremur er kveðið á um skýrari lagastoð til setningar reglugerða á sviði flugverndar. Lagt er til að sá skattur sem núgildandi lög ákveða vegna flugverndar verði afnuminn og rekstraraðila flugvallar veitt heimild til gjaldtöku vegna flugverndareftirlits. Enn fremur er lagt til að komið verði á notendanefnd á flugvelli sem verði vettvangur skoðanaskipta milli notenda flugvallar og rekstraraðila um málefni flugvallarins, þ.m.t. gjaldtöku. Kveðið er á um gagnsæi gjalda í 13. gr. frumvarpsins þar sem sú skylda er lögð á rekstraraðila flugvallar að leggja árlega fram sundurliðun kostnaðar sem lögð er til grundvallar gjaldtöku.
    Í a-lið 14. gr. frumvarpsins er lagt til að fellt verði brott það skilyrði sem 3. mgr. 78. gr. núgildandi laga um loftferðir áskilur er lýtur að því að beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi.
    Sérstök breyting er gerð í 15. gr. frumvarpsins er varðar leiðréttingu á orðalagi 132. gr. núgildandi laga um leit og björgun þar sem ákvörðunarvaldið á fyrirkomulagi við leit og björgun er fært til samgönguráðherra frá Flugmálastjórn Íslands. Er breytingin gerð með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á hlutverki stofnunarinnar í kjölfar breytinga á lögum um loftferðir, nr. 165/2006, laga um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006, og laga um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, nr. 102/2006.
    Áréttuð er heimild ríkisstjórnar til samningagerðar í 16. gr. frumvarpsins og heimildin útvíkkuð frekar til samninga á sviði flugverndar.
    Um nokkurt skeið hefur staðið fyrir dyrum heildarendurskoðun laga um loftferðir í samgönguráðuneytinu. Þar sem sú vinna er komin skammt á veg þótti brýnt að koma að tilteknum breytingum á lögunum ekki síst með tillit til þeirra stjórnskipulegu fyrirvara sem gerðir hafa verið vegna innleiðingar nokkurra reglugerða Evrópusambandsins í íslenskan rétt, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Verði frumvarpið að lögum verður unnt að aflétta þeim fyrirvörum og innleiða viðkomandi gerðir án frekari tafa. Í öðrum tilvikum þótti mikilvægt að styrkja og bæta lagastoð fyrir setningu reglugerða á tilteknum sviðum.
    Frumvarpið er samið í samgönguráðuneytinu og var sent út til umsagnar flugráðs og hagsmunaaðila auk þess sem einstök ákvæði voru unnin í samráði við dómsmálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimild Flugmálastjórnar Íslands til að fela viðurkenndum aðila skrásetningu loftfara af tiltekinni tegund eða flokki. Með tiltekinni tegund loftfara eða flokki er horft til flokkunar loftfara samkvæmt ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1592/2002 frá 15. júlí 2002 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, 1 bæði hvað varðar flokkun loftfara sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar og þeirra sem reglugerðin skilgreinir að falli tímabundið utan gildissviðs hennar.
    Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að ná til skráningar hreyfilknúinna fisa og léttra flugvéla og svifflugvéla síðar meir. Um nokkurt skeið hefur Flugmálastjórn Íslands falið viðurkenndu fisfélagi skráningu hreyfilknúinna fisa auk eftirlits með starfrækslu þeirra og lofthæfi og hefur slíkt fyrirkomulag almennt gefist vel. Byggt hefur verið á 2. mgr. 12. gr. laganna varðandi fyrirkomulag skráningar, en fram hafa komið athugasemdir við framkvæmdina af hálfu umboðsmanns Alþingis sem hefur talið að fullnægjandi lagastoð hafi skort. Með ákvæðinu er úr því bætt. Í samræmi við athugasemdirnar er því hér mælt fyrir um skýra heimild til slíks framsals á skráningu sem og setningu reglugerðar um þá flokka og tegundir loftfara sem sætt geta slíku framsali.

Um 2. gr.

     Um a-lið (28. gr. a).
    Í greininni er lagt til að Flugmálastjórn Íslands sé heimilt að viðurkenna aðila til eftirlits með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund eða flokki. Í 2. mgr. 21. gr. laganna er kveðið á um að Flugmálastjórn sé heimilt að láta íslenskan eða erlendan aðila eða erlent stjórnvald, sem hún velur og til þess er hæft, framkvæma skoðun og eftirlit er varðar lofthæfi. Nauðsynlegt er talið að útvíkka þessa heimild frekar þannig að hún nái ekki aðeins til lofthæfis heldur einnig starfrækslu loftfarsins, með sérstöku ákvæði um tilhögun viðurkenningar slíks aðila og afturköllunar eða sviptingu viðurkenningar fullnægi aðili ekki lengur þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett. Ráðgert er að aðili sem hlotið hefur viðurkenningu geti haft almennt eftirlit með starfrækslu og lofthæfi loftfars, unnið grunnvinnu varðandi t.a.m. útgáfu lofthæfisvottorða en hafi ekki heimild til útgáfu þess sem áfram verður á hendi Flugmálastjórnar Íslands.
    Þá er í 5. mgr. kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari reglur til fyllingar greininni, þ.m.t. til að kveða á um eftirlit, kröfur um viðurkenningu, framkvæmd og starfrækslu, félagaform, fjármögnun, fjárhagsstöðu, reikningsskil, vátryggingar, kennslu, þjálfun, prófanir, menntun og hæfni kennara og fleira, auk upplýsingamiðlunar og skýrslugjafar til Flugmálastjórnar Íslands.
     Um b-lið (28. gr. b).
    Í greininni er lagt til að sett verði almennt ákvæði um vottun eða viðurkenningu aðila sem fara með verklega eða bóklega kennslu, þjálfun eða prófun á sviði loftferða. Slíkt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum, en svipað ákvæði í 6. mgr. 57. gr. a loftferðalaga tekur einungis til skólastarfsemi á sviði flugleiðsöguþjónustu.
    Ísland hefur þegar undirgengist víðtækar skuldbindingar er lúta að veitingu réttinda á þeim sviðum er 1. mgr. greinarinnar tiltekur. Annars vegar er um að ræða viðauka Chicago-samningsins svonefnda 2 og hins vegar skuldbindingar er leiðir af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ákvæðið tekur almennt til vottunar eða viðurkenningar á þeim aðilum er hyggjast bjóða verklega og/eða bóklega kennslu, þjálfun og prófun skv. a–g-lið 1. mgr. Liðirnir skýra sig að mestu sjálfir en rétt er að taka fram að a-liður tekur til flugmanna loftfara og er ekki bundinn við tiltekna tegund eða flokk loftfars. Til flugliða teljast einnig flugvélstjórar en kennsla til slíkra réttinda er nú að mestu að leggjast af. B-liður 1. mgr. tekur til öryggis- og þjónustuliða sem starfa í farþegarými loftfars og f-liður 1. mgr. tekur m.a. til flugumferðarstjóra en einnig annars starfsfólks sem starfar að flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar.
    Umfangsmikið safn reglugerða er þegar í gildi um framkvæmd verklegrar og bóklegrar kennslu þeirra aðila er að framan greinir. Vegna frekari flutnings verkefna til Flugöryggisstofnunar Evrópu á næstunni munu fjölmargar þessara reglugerða verða endurútgefnar og taka breytingum. Því er nauðsynlegt að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir hendi til innleiðingar á reglugerðunum og er í því skyni gerð tillaga að mjög ítarlegri heimild ráðherra til setningar reglugerða á þessu sviði í 5. mgr. greinarinnar.
     Um c-lið (28. gr. c).
    Um langt skeið hafa verið í gildi hér á landi ákvæði í reglugerð um heilbrigði flugliða og flugumferðarstjóra. Setning reglugerða um heilbrigði hefur byggst á ákvæðum 31. og 73. gr. laga um loftferðir. Lögin hafa hingað til ekki tekið til þeirrar starfsemi fluglækna sem tilnefndir eru eða fluglæknasetra sem samþykkt eru af flugmálayfirvöldum til vottunar á heilbrigði á grundvelli reglugerða um heilbrigði og reglugerða um skírteini flugliða og flugumferðarstjóra.
    Vegna frekari flutnings verkefna til Flugöryggisstofnunar Evrópu, m.a. á sviði skírteinamála á næstunni, munu þessar reglugerðir verða endurútgefnar og taka breytingum. Því er nauðsynlegt að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir hendi til innleiðingar á reglugerðunum og er í því skyni gert ráð fyrir heimild ráðherra til setningar reglugerða á þessu sviði í 5. mgr. greinarinnar.
     Um d-lið (28. gr. d).
    Hér er frekar áréttað um eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með vottuðum og viðurkenndum aðilum skv. 28. gr. a, 28. gr. b og 28. gr. c, sbr. a–c-lið greinarinnar.
     Um e-lið (28. gr. e).
    Í gildandi lögum hefur skort ákvæði um starfrækslu almannaflugs, að lofthæfikröfum undanskildum. Til að bæta úr því er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð þar sem kveðið verður á um skyldu eigenda og umráðenda loftfars til að uppfylla þær kröfur og skilyrði sem nauðsynleg eru til öruggrar starfrækslu þess. Heimildin tekur til alls almannaflugs, þ.m.t. einka- og kennsluflugs.
     Um f-lið (28. gr. f).
    Í gildandi lögum hefur skort ákvæði um starfrækslu verkflugs, hvort heldur það er stundað í einkaflugi eða í atvinnuskyni. Til að bæta úr því er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð þar sem kveðið verður á um skyldu eiganda og umráðanda loftfars til að uppfylla þær kröfur og skilyrði sem nauðsynleg eru til öruggrar starfrækslu. Heimildin tekur til verkflugs, hvort heldur það er starfrækt í einkaflugi eða í atvinnuskyni.

Um 3. gr.

    Í gildandi lögum er kveðið á um það í 4. mgr. 37. gr. að samgönguráðherra sé heimilt að kveða á um lágmarkshvíldartíma í reglugerð. Hvergi er þess getið hvernig farið skuli með hámarksvinnutíma eða hámarksflugvakttíma. Þá skortir á ákvæði er kveða á um skyldu til að fylgja reglum um vinnu- og hvíldartíma eða hverjir skuli njóta réttinda samkvæmt þeim.
    Með ákvæðinu er bætt úr þessu þar sem kveðið er á um heimild ráðherra til að setja ákvæði í reglugerð um réttindi og skyldur flugrekenda og flugverja, þ.e. öryggis- og þjónustuliða og flugliða, um þau atriði sem upp eru talin í ákvæðinu. Jafnframt er með ákvæðinu veitt heimild til samgönguráðherra til að kveða á um réttindi og skyldur samþykktra flugskóla og aðila á þeirra vegum að því er varðar sömu atriði.
    Með málsgreininni er m.a. tryggð nægileg lagastoð fyrir setningu reglugerðar um flug- og vakttíma sem byggist á ákvæðum þriggja reglugerða Evrópusambandsins um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála, þ.e. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1899/2006 frá 12. desember 2006, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2007, reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 8/2008 frá 11. desember 2007, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2008, og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 859/2008 frá 20. ágúst 2008.

Um 4. gr.

    Lagt er til að gerðar verði breytingar á orðalagi 47. gr. a núgildandi laga með vísan til stjórnskipulegs fyrirvara vegna innleiðingar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1330/2007 frá 24. september 2007 um skráningu og miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1321/2007 frá 12. nóvember 2007 um rekstur miðlægs gagnagrunns um tilkynnt slys og atvik.
    1. mgr. tilgreinir frekari frávik frá meginreglunni um takmarkaðan aðgang að upplýsingum eða tilkynningum sem berast skv. 47. gr. laganna. 1. málsl. kveður á um að óheimilt sé að veita slíkan aðgang. Undanþágan heimilar hins vegar aðgang í tveimur tilvikum samkvæmt núgildandi lögum en lagt er til í frumvarpinu að þriðja tilvikinu verði bætt við, þ.e. í þeim tilvikum þegar hagsmunaaðilar, sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi, óska eftir aðgangi að upplýsingum. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að þeir hagsmunaaðilar, sem taldir eru þar upp og sem vinna að bættu flugöryggi, geti sótt um aðgang að upplýsingum úr gagnagrunninum og fengið umsóknir sínar metnar og afgreiddar í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar sem samgönguráðherra setur. Gert er ráð fyrir að mat á því hvort um hagsmunaaðila sé að ræða, sem fellur undir lögin, liggi í höndum aðila sem falið verður að taka á móti umsögnum og vinna úr þeim á grundvelli reglugerðar. Miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila skal takmarkast við þær upplýsingar sem teljast vera nauðsynlegar fyrir notendur þeirra í þágu flugöryggis svo að unnt sé að tryggja viðeigandi leynd upplýsinganna.
    Eins og málum er háttað í dag er gert ráð fyrir því að Flugmálastjórn Íslands verði falið að taka á móti og afgreiða þær beiðnir sem berast frá hagsmunaaðilum vegna þessa. Ekkert er því til fyrirstöðu að í framtíðinni verði þessari framkvæmd fyrirkomið með öðrum hætti.
    Gengið er út frá því í 2. mgr. að samgönguráðherra geti sett reglugerð um nánari útfærslu á þeim atriðum sem upp eru talin í ákvæðinu. Í núgildandi lögum er heimild ráðherra til að setja reglugerð talsvert þrengri en frumvarpið mælir fyrir um. Með tilkomu reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1330/2007 frá 24. september 2007 um skráningu og miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1321/2007 frá 12. nóvember 2007 um rekstur miðlægs gagnagrunns um tilkynnt slys og atvik, er nú talin þörf á að víkka nokkuð út heimild ráðherra til setningar reglugerðar. Er það m.a. gert með því að veita honum heimild til að setja frekari ákvæði um miðlun upplýsinga úr grunninum til hagsmunaaðila, form beiðna um aðgang að upplýsingum og um móttöku, skráningu, málsmeðferð og afgreiðslu beiðna um upplýsingar úr grunninum.
    Þá er sérstaklega vikið að heimild ráðherra til að kveða á um þagnarskyldu aðila og starfsmanna á hans vegum. Í ákveðnum tilvikum er gert ráð fyrir því að þeir aðilar, sem skráð hafa upplýsingar í grunninn, geti undir vissum kringumstæðum aflétt þagnarskyldu af tilteknum upplýsingum. Er ráðherra falið að kveða á um umfang og skilyrði slíkrar afléttingar en ljóst er að frumskilyrði hennar er að hún sé veitt með sannanlegum og formlegum hætti. Gengið er út frá því að hagsmunaaðilar noti þær upplýsingar, sem þeim berast á grundvelli þessarar heimildar, sem trúnaðargögn og að upplýsingarnar verði eingöngu notaðar í þeim tilgangi sem tilgreindur var í beiðni um aðgang að gögnum.
    Lagt er til það nýmæli að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um skyldu til skráningar upplýsinga í gagnagrunninn meðan á rannsókn stendur. Er hér vísað til grunnupplýsinga um rannsóknir flugslysa og alvarlegra flugatvika sem tilkynningarskyld eru skv. 47. gr. núgildandi laga. Samkvæmt gildandi lögum er enginn áskilnaður um tímamörk varðandi skráningu upplýsinga í gagnagrunninn. Telja verður að það geti leitt til aukins flugöryggis í ákveðnum tilvikum ef þetta tímamark er gert ljóst. Miðað er við að fyrsta skráning hefjist við upphaf rannsóknar og síðan sé skráningu viðhaldið og hún uppfærð meðan á rannsókn stendur eftir atvikum. Framangreint fyrirkomulag er til samræmis við ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar (EB) nr. 1321/2007.

Um 5. gr.

    Í 54. gr. laganna er kveðið á um að Flugmálastjórn setji nánari reglur um ýmis atriði er varða aðbúnað og hollustuhætti um borð í loftförum. Er hér lagt til að ráðherra setji slíka reglugerð í stað reglna sem Flugmálastjórn gæti sett. Jafnframt er lagt til að frekar verði útvíkkað gildissvið slíkra reglna til atriða er lúta að heilbrigði flugverja.
    Viðamikil löggjöf Evrópusambandsins á sviði vinnuverndar tekur að takmörkuðu leyti til flugstarfsemi þar sem slík starfsemi er almennt undanskilin gildissviði hennar. Tiltekin efnisatriði er lúta að almennri vinnuvernd og hollustuháttum geta þó átt við um starfsumhverfi flugverja um borð í loftförum. Skýr lagaheimild til setningar reglugerðar á þessu sviði er því nauðsynleg.

Um 6. gr.

    Með lögum nr. 75/2005 var flugleiðsöguþjónusta fyrst skilgreind og kveðið á um starfsleyfisskyldu vegna hennar. Með breytingu á 1. mgr. 57. gr. a, sem hér er ráðgerð, er skilgreiningu hugtaksins „flugleiðsöguþjónusta“ breytt lítils háttar og hún samræmd því hugtaki sem nú hefur verið innleitt í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með löggjöf Evrópusambandsins á sviði flugleiðsögu, 3 þ.e. fjarskipta- og ratsjárþjónusta verður leiðsögu- og kögunarþjónusta. Fjarskiptaþjónusta (Communication services) tekur til faststöðva- og farstöðvaþjónustu fyrir flug til að gera möguleg fjarskipti milli landstöðva, milli loftfara og landstöðva og milli loftfara að því er varðar flugstjórnarþjónustu og kögunarþjónusta (Surveillance services) er sá búnaður og þjónusta sem eru notuð til að ákvarða staðsetningu sérhvers loftfars til að tryggja örugga fjarlægð milli loftfara.
    Rekstrarstjórnun flugumferðar (Air Traffic Management) tekur til samstilltrar stjórnunar í lofti og á jörðu niðri (flugumferðarþjónustu, loftrýmisstjórnun og flæðisstjórnun flugumferðar) sem krafist er til að tryggja örugga og skilvirka hreyfingu loftfars á öllum stigum starfrækslu. Flugumferðarþjónusta (Alir traffic services) er yfirhugtak sem nær til mismunandi flugupplýsingaþjónustu, viðbúnaðarþjónustu, ráðgjafarþjónustu og flugstjórnarþjónustu (aðflugsstjórnarþjónustu, flugstjórnarsvæðisþjónustu og flugturnsþjónustu). Flæðisstjórnun flugumferðar (Air traffic flow management) er sú þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að öruggu, skipulegu og hröðu flæði flugumferðar með því að tryggja að geta flugumferðarstjórnar sé nýtt til hins ýtrasta og að umfang flugumferðar sé í samræmi við getuna sem viðeigandi þjónustuveitendur flugumferðar hafa gefið upp.
    2. og 3. mgr. greinarinnar eru samhljóða núgildandi málsgreinum 57. gr. a nema að bætt hefur verið í 2. mgr. vísun til rekstrarstjórnunar flugumferðar.
    Í samræmi við reglugerðir Evrópusambandsins á sviði flugleiðsöguþjónustu er hér lagt til í 4. mgr. að ráðherra geti tilnefnt þjónustuveitanda til að sjá um afmarkaða þjónustuþætti flugleiðsögu og rekstrarstjórnunar flugumferðar. Um er að ræða skyldu ríkisins til að tryggja þjónustuna á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga og að viðkomandi þjónustuaðila er veittur einkaréttur, að hluta, til að sinna slíkri starfsemi. Á þetta eingöngu við um starfsemi flugumferðarþjónustu, þjónustupakka eða eina tegund flugleiðsöguþjónustu, innan tiltekinna loftrýmisumdæma að því er varðar loftrými á ábyrgð íslenska ríkisins. Loftrýmisumdæmi (Airspace block) er loftrými af skilgreindri stærð, að því er varðar rúm og tíma, þar sem veitt er flugleiðsöguþjónusta. Þá getur samgönguráðherra tilnefnt þjónustuveitanda sem hefur einkarétt á því að láta í té öll veðurfræðileg gögn eða hluta af þeim í öllu eða hluta af loftrýminu sem er á ábyrgð íslenska ríkisins, að teknu tilliti til öryggisráðstafana.
    Í 5. mgr. er áréttað að Flugmálastjórn Íslands eða aðili sem hún samþykkir skal fara með eftirlit með þeim sem veitir flugleiðsöguþjónustu og sinnir rekstrarstjórnun flugumferðar.
    Í 6. mgr. er samgönguráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um framkvæmd, starfrækslu og eftirlit með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar. Fyrirsjáanlegt er að á næsta ári muni verkefni er lúta að flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar flytjast til Flugöryggisstofnunar Evrópu. Þrátt fyrir að þegar hafi verið innleiddar fjölmargar reglugerðir er tengjast framkvæmd flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er fyrirséð að þeim mun fjölga mjög á næstunni. Um afar sérhæft svið er að ræða og því brýn nauðsyn að skýr lagaheimild sé til staðar til innleiðingar regluverksins.

Um 7. gr.

    Með þeim breytingum sem ráðgerðar eru á 57. gr. b er leitast við að styrkja enn frekar þann grundvöll sem byggt er á við innleiðingu á tilskipun ráðsins 96/67/EB frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum bandalagsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2000. Talið er nauðsynlegt að árétta að sé flugvöllur sem opinn er fyrir flugumferð í atvinnuskyni undir tilteknum viðmiðunarmörkum hvað varðar fjölda farþega og magn farms þá er rekstraraðila heimilt að takmarka fjölda þeirra aðila sem heimilt er að veita flugafgreiðslu á viðkomandi flugvelli, enda uppfylli rekstraraðili þau skilyrði sem kveðið er á um í reglugerð. Þá er lagt til að ráðherra geti kveðið á um eftirlit með þeim sem sinna flugafgreiðslu í reglugerð. Er þar m.a. horft til reksturs þeirra sem sinna flugafgreiðslu, flugöryggi og flugvernd innan athafnasvæðis flugvallar.
    Í b-lið er kveðið á um heimild rekstraraðila flugvallar til að afhenda þriðja aðila stjórn sérstakra mannvirkja til flugafgreiðslu þar sem ekki getur talist hagkvæmt og skilvirkt að margir reki sams konar mannvirki. Í heimildinni felst að rekstraraðili flugvallar getur skyldað þá sem sjá um flugafgreiðslu og flugvallanotendur sem sjá um eigin afgreiðslu til að nota slík mannvirki. Ákvæðið tekur samkvæmt orðanna hljóðan til sérstakra mannvirkja sem notuð eru við flugafgreiðslu og eru svo flókin eða kostnaðarsöm eða hafa svo mikil umhverfisáhrif að ekki er unnt að skipta þeim niður eða hafa fleiri en eitt af þeim. Í dæmaskyni eru talin upp mannvirki sem notuð eru til stjórnar farangursflokkunar, afísingar, vatnshreinsunar og eldsneytisdreifingar. Ekki er loku fyrir það skotið að ákvæðið gæti átt við fleiri mannvirki sem nýtt eru við flugafgreiðslu.

Um 8. gr.

    Lagt er til að ný málsgrein bætist við 57. gr. c laganna sem kveði nánar á um afgreiðslugetu flugvalla, í hvaða tilvikum eigi að taka hana til skoðunar og hverjir geti farið fram á það. Afgreiðslugetan kemur aðeins til skoðunar ef umferðarmagn um flugvöll leiðir til útgáfu sérstakra afgreiðslutíma (slot allocation) til lendingar eða brottflugs. Jafnframt er kveðið á um heimild samgönguráðherra til að setja nánari reglur um fyrirkomulagið.
    Tekið er mið af áskilnaði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 793/2004 frá 21. apríl 2004 um breytingu á fyrrgreindu reglugerðinni.
    Samkvæmt a-lið er ráðherra veitt heimild til að kveða á um tilnefningu flugvallar. Annars vegar er gert ráð fyrir að flugvöllur geti verið tilnefndur sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma. Hins vegar mun verða hægt að tilnefna flugvöll sem flugvöll með afgreiðslutíma eftir samráði. Í b-lið er gert ráð fyrir að settar verði reglur um skipun samráðs- eða samræmingarstjóra flugvalla og starfsskyldur þeirra. Mikilvægt er að þeir ræki störf sín í hvívetna á sjálfstæðan, hlutlausan og skýran hátt og án mismununar. Gert er ráð fyrir að samræmingarstjóri komi til með að bera ábyrgð á úthlutun afgreiðslutíma og hafa eftirlit með að starfsemi flugrekenda samræmist þeim afgreiðslutíma sem úthlutað er, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Samráðsstjóra er ætlað að hafa eftirlit með að starfsemi flugrekenda samræmist þeim áætlunum sem þeim er gert að fylgja. Um skyldur samráðs- og samræmingarstjóra verður að öðru leyti kveðið á um í reglugerðinni.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórn flugvallar verði falið að skipa samræmingarnefnd flugvallar með skammtaðan afgreiðslutíma skv. c-lið. Nánari ákvæði um ábyrgð og verksvið nefndarinnar verða í reglugerð. Jafnframt verður kveðið á um skyldu flugrekenda, m.a. til upplýsingagjafar og starfrækslu flugstarfsemi á ákveðnum tímum og um afleiðingar þess að gögnum er ekki skilað á tilsettum tíma, sbr. d-lið.
    Þá er kveðið á um heimild ráðherra skv. e-lið til að setja ákvæði í reglugerð um skyldu til að halda heildarskrá um afgreiðslutíma, úthlutun og breytingar á honum (hreyfanleiki afgreiðslutíma). Eðlilegt er að flugrekendum verði gert óheimilt að starfrækja flugstarfsemi, ítrekað og af ásetningi, á tímum sem eru verulega frábrugðnir úthlutuðum afgreiðslutímum eða nota afgreiðslutíma á verulega frábrugðinn hátt frá því sem kveðið er á um í úthlutun ef það raskar starfsemi flugvallar eða flugumferð.
    Í þeim tilvikum þegar flugleið á Evrópska efnahagssvæðinu á undir högg að sækja af einhverjum orsökum er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að leggja kvaðir um opinbera þjónustu á viðkomandi flugleið. Er í slíkum tilvikum gert ráð fyrir að ráðherra geti óskað eftir því að tekinn verði frá nauðsynlegur afgreiðslutími fyrir fyrirhugaðan rekstur á þeirri leið, sbr. f-lið.
    Í g-lið er ráðherra veitt heimild til að setja ákvæði í reglugerð um kvartanir og áfrýjunarrétt.
    Að lokum er ráðherra veitt heimild til að setja reglur um takmörkun á bótaábyrgð samræmingarstjóra, sbr. h-lið. Hér er um að ræða nýmæli þar sem horft er til þess að rétturinn til að raða afgreiðslutíma hafi ekki í för með sér rétt til skaðabóta vegna takmarkana, hamla eða afnáms afgreiðslutímans samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða, einkum við beitingu reglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er varða loftflutninga. Þetta hefur það í för með sér að telji aðili sig verða fyrir tjóni vegna úthlutaðs afgreiðslutíma, sem tekið hefur breytingum eða vegna þess að hann hefur ekki hlotið umbeðinn afgreiðslutíma, á hann ekki rétt á skaðabótum á grundvelli þessa. Eðlilegt má telja að samræmingarstjóri verði ekki gerður bótaskyldur vegna þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og tengjast störfum hans samkvæmt ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur, nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða stórfellt gáleysi eða misferli af hans hálfu.

Um 9. og 10. gr.

    Flugvernd er skilgreind sem sambland af ráðstöfunum og mannlegum og náttúrulegum úrræðum til að vernda almenningsflug gegn ólögmætum aðgerðum. Frá því að núgildandi 70. gr. laga um loftferðir var sett í kjölfar atburðanna 11. september 2001 í Bandaríkjunum, með lögum nr. 21/2002 og síðari breytingu með lögum nr. 75/2005, hefur umhverfi flugverndarmála í heiminum tekið breytingum.
    Fyrir dyrum er nú innleiðing nýrrar reglugerðar Evrópusambandsins á sviði flugverndar, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 frá 11. mars 2008 um sameiginlegar reglur á sviði flugverndar og leysir af hólmi reglugerð (EB) nr. 2320/2002 sama efnis. Þá er einnig fram komin ný reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 820/2008 frá 8. ágúst 2008 um ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd sem kemur til með að leysa af hólmi hluta af reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 622/2003 frá 4. apríl 2003 með síðari breytingum (svonefnd innleiðingarreglugerð verklags). 4 Báðar þær reglugerðir Evrópusambandsins, sem nú falla niður, voru innleiddar hér á landi í reglugerð um flugvernd nr. 361/2005.
    Þann hluta reglugerðar (EB) nr. 633/2003, sem ekki er innleiddur í reglugerð (EB) nr. 820/2008, hefur framkvæmdastjórnin aðgreint frá reglugerðinni og gefið út í formi ákvörðunar sem beint er til aðildarríkja Evrópusambandsins og er ekki birt í Stjórnartíðindum EB. 5 Ákvörðunin hefur að geyma viðkvæmt efni og lýsingu á verklagi sem flokkað er sem leynilegt. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar verður einungis birt aðildarríkjunum. Gert er ráð fyrir því að ákvörðun þessi verði innleidd í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og aðrar reglugerðir á sviði flugverndar. Umfjöllun í d-lið 10. gr. (70. gr. b) miðast því við þær forsendur.

Um 10. gr.

     Um a-lið (70. gr. a).
    Í a-lið er lagt til að ný grein, 70. gr. a, bætist við lögin. Greinin byggist að hluta til á núgildandi 3. mgr. 70. gr. en gerðar hafa verið lítils háttar breytingar á henni. Í síðasta málslið greinarinnar er að finna nýmæli er varðar leynd og vernd verndaráætlana og annarra trúnaðarupplýsinga. Í ljósi þess hversu viðkvæmar upplýsingar er um að ræða þykir rétt að Flugmálastjórn hafi sérstakt eftirlit með því að upplýsingar berist einungis til þeirra aðila sem fullnægja skilyrðum um trúnað.
     Um b-lið (70. gr. b).
    Í b-lið er lagt til að ný grein, 70. gr. b, bætist við lögin. Greinin byggist að hluta til á núgildandi 4. mgr. 70. gr. Í greininni er kveðið á um leit sem tekur til hvers konar leitar, skimunar, handleitar og líkamsleitar. Skimun er skilgreind sem beiting tæknilegra aðferða eða annarra aðferða til að bera kennsl á og/eða finna bannaða hluti. Áréttað er að handleit og líkamsleit sé framkvæmd af einstaklingi af sama kyni þar sem hún felur í sér nána snertingu þess sem leitar á þeim sem sætir leitinni. Líkamsleit er sú leit er gengur næst þeim sem sætir leit og tekur m.a. til leitar í líkamsopum. Líkamsleit skal aðeins framkvæmd af lögreglu.
     Um c-lið (70. gr. c).
    Í c-lið er lagt til að ný grein, 70. gr. c, bætist við lögin. Greinin byggist að hluta til á 5. mgr. 70. gr. núgildandi laga þar sem fjallað er um heimildir flugmálayfirvalda til að setja reglur um takmarkaðan aðgang starfsmanna að flugvöllum og flugvallarsvæðum vegna flugverndar, sem m.a. leiðir af athugun á viðkomandi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um sakaferil.
    Skv. 1. og 2. mgr. greinarinnar er Flugmálastjórn Íslands eða þeim sem hún felur eftirlit með flugvernd og rekstraraðila flugvallar, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings, heimilt að fela lögreglu athugun á viðkomandi einstaklingi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um bakgrunn og sakaferil sem lið í mati á því hvort óhætt sé að heimila viðkomandi aðgang að haftasvæði flugverndar og aðgengi að upplýsingum um framkvæmd og eftirliti með flugvernd. Í d-lið 10. gr. frumvarpsins er í n-lið nýrrar 70. gr. d lagt til að ráðherra verði í reglugerð heimilt að útfæra frekar þau viðmið og kröfur sem gera má með tilliti til slíkra athugana á bakgrunni einstaklinga í þessum tilgangi.
     Um d-lið (70. gr. d).
    Í ákvæðinu er kveðið á um heimild samgönguráðherra til að setja reglugerð um fjölmörg atriði er lúta að flugvernd, eftirliti og framkvæmd flugverndar auk krafna til samþykktar, viðurkenningar og upplýsingamiðlunar á sviði flugverndar. Í núgildandi 6. mgr. 70. gr. er að finna heimild ráðherra til setningar reglna á sviði flugverndar. Ástæða þótti til þess að tilgreina skýrari heimild til setningar reglugerðar á sviði flugverndar.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði sérstök heimild samgönguráðherra til að birta aðeins að hluta eða öllu leyti efni reglugerðar skv. h-lið 1. mgr. þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar, enda varði efni reglugerðarinnar beina flugverndarhagsmuni og öryggi og leynd leiði af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar.
    Eins og tæpt var á í inngangi athugasemda um 9. og 10. gr. frumvarpsins er hluti af því efni sem til stendur að innleiða í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á sviði flugverndar í formi ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar sem ekki sætir birtingu í Stjórnartíðindum EB. Ákvörðuninni er beint til aðildarríkja Evrópusambandsins og hefur hún að geyma nákvæmar lýsingar á því verklagi sem viðhaft skal við flugvernd. Í ákvörðuninni er kveðið á um að frá og með 1. október 2008 skuli aðildarríkin tryggja beitingu ákvæða í viðauka við ákvörðunina. Í 4. mgr. 1. gr. segir jafnframt að reglur í viðaukanum skuli ekki birtar. Upplýsingar um reglurnar skuli aðildarríkin gera aðgengilegar þeim sem þurfa að hafa þekkingu á efni þeirra í samræmi við innlendar reglur um dreifingu viðkvæmra upplýsinga.
    Viðaukinn hefur að geyma sambærilegar reglur og þær sem áður voru leynilegar í reglugerð (EB) nr. 633/2003 en fáein atriði hafa verið tekin út og birt í reglugerð (EB) nr. 820/2008. Viðaukinn við ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, sem beint er til aðildarríkjanna, hefur því áfram að geyma leynilegar reglur um verklag sem fjölmargir aðilar og einstaklingar (almenningur) þurfa að fara eftir. Aðgerðir þessar og verklag sæta eftirliti Flugmálastjórnar Íslands.
    Ljóst er að séu verklagsreglurnar birtar og aðgengilegar almenningi, þar á meðal þeim sem hyggja á ólögmætar aðgerðir gegn flugstarfsemi, eru brostnar forsendur fyrir því að verklagið nái því markmiði sínu að koma í veg fyrir slíkar aðgerðir. Verklagsreglurnar ná til fjölmargra ólíkra aðila, svo sem flugrekenda, rekstraraðila flugvalla, farmflytjenda, póst- og hraðsendingarfyrirtækja og ekki aðeins stjórnvalda eða handhafa opinbers valds. Verklagsreglurnar eru ólíkar öðrum reglum sem sæta leynd að því leyti sem þeim er ætlað að binda fjölmarga aðra aðila en stjórnvöld.
    Hér á landi er almennt ekki til að dreifa ákvæðum í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum um dreifingu og leynd viðkvæmra upplýsinga umfram það sem tiltekið er í lögum um Stjórnartíðindi og varðar einungis stjórnvöld (þ.e. að óbirt stjórnvaldsfyrirmæli bindi aðeins stjórnvöld, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005). Er því hér mælt fyrir um sérstaka lagaheimild til þess að takmarka birtingu verklagsreglna skv. h-lið 2. mgr. Framkvæmd miðlunar upplýsinga um verklagsreglur skv. h-lið 2. mgr. færi því fram eingöngu til þeirra aðila sem undirgengist hafa bakgrunnsathugun og miðlun upplýsinga tryggð með áritun viðkomandi til staðfestingar á móttöku eða öðrum sambærilega tryggum hætti.
    Leitast var við að takmarka efnislega heimild 2. mgr. með vísan eingöngu til h-liðar 1. mgr. Því er ljóst að ákvæði reglugerðar er taka til heimildarveitinga, eftirlits, krafna til eftirlitsskyldra aðila, bannaðra hluta, skilgreiningar haftasvæða og aðgreindra flugverndarsvæða, aðgangs, bakgrunnsathugana og fleira verða birtar almenningi. Aðeins kröfur er lúta að framkvæmd (verklagi) og starfrækslu flugverndar verða háðar leynd.
     Um e-lið (70. gr. e).
    Í ákvæðinu er kveðið á um þagnarskyldu vegna flugverndar. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.
     Um f-lið (70. gr. f).
    Í ákvæðinu er kveðið á um refsingu við broti á þagnarskyldu. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 11. gr.

    Lagt er til að tilteknar breytingar verði gerðar á 71. gr. og 71. gr. a og 71. gr. b, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Skilið er á milli heimilda til gjaldtöku vegna reksturs flugvalla annars vegar og gjaldtöku fyrir flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar hins vegar.
    1. mgr. 11. gr. frumvarpsins tekur til gjaldtöku á flugvöllum og byggist að hluta til á 1. mgr. 71. gr. laganna. Ákvæðið leysir af hólmi ákvæði 1. mgr. 71. gr., 71. gr. a og 71. gr. b í lögunum.
    Eitt markmið þessara breytinga er að leggja af töku skatts, öryggisgjaldsins sem lagt er á þar sem vopna- og öryggisleit fer fram, sbr. núgildandi 71. gr. b, og taka upp gjaldtöku í formi þjónustugjalds. Almennt mun gjaldtaka skv. 1. og 2. mgr. því byggjast á því sérgreinda endurgjaldi sem fæst gegn greiðslu gjaldsins og miðast fjárhæðin við þann kostnað sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem í hlut á. Gjaldi er því ætlað að standa undir þeim kostnaði við þá þjónustu sem gjaldanda er veitt.
    Stærð og umfang starfsemi á flugvöllum hér á landi er misjafnt og er því fyrirséð að eftir sem áður kunni ríkið eða aðrir opinberir aðilar að þurfa leggja fram fé til reksturs flugvalla til að varna því að gjaldtaka tiltekinna þátta í starfsemi flugvallar eftir atvikum geri notendum ókleift að færa sér í nyt þjónustu flugvallar og geri flugvöllinn með öllu ósamkeppnishæfan. Er því ráðgert að rekstraraðili flugvallar standi að gerð kostnaðargrunns að baki hverju gjaldi sem sé gagnsær og forsendur og útreikningar á gjaldtöku séu skýr og traust.
    Sú breyting sem hér er ráðgerð með niðurlagningu vopna- og öryggisgjaldsins sem skatts er tilkomin vegna heildarendurskoðunar skattheimtu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar stofnunar opinbers hlutafélags, Keflavíkurflugvallar ohf., í tengslum við sameiningu Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í samræmi við lög nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.
    Brýnt þykir að breyta formi gjaldtökunnar nú þegar, m.a. í ljósi hins breytta rekstrarforms. Flugstoðir ohf. sjá einnig um framkvæmd flugverndar í millilandaflugi frá Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum og tekur ákvæðið einnig til gjaldheimtu á vegum þeirra. Innheimta skattsins hefur staðið undir framkvæmd flugverndar á Keflavíkurflugvelli en með breytingu á formi gjaldsins er gert ráð fyrir að greint verði milli einstakra kostnaðarþátta og að hver gjaldandi standi undir sínum hluta. Þessi breyting mun væntanlega leiða til lækkunar gjalda á flugfarþega í millilandaflugi vegna flugverndar, m.a. þar sem gjaldtakan mun dreifast með jafnari hætti á fleiri aðila en eingöngu farþega. Með vísan til ákvæðis til bráðabirgða mun núverandi skattheimta öryggisgjalds leggjast af við gildistöku laganna, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.
    Í 1. og 2. mgr. er stuðst við leiðbeiningarefni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um gjaldtöku 6 og ákvæði 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 300/2008 frá 11. mars 2008 um sameiginlegar reglur á sviði flugverndar sem fyrirhugað er á næstunni að innleiða í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið þar sem áhersla er lögð á skýran grundvöll gjaldtöku vegna flugverndar, gagnsæi gjaldtökunnar og virkt samráð við hagsmunaaðila.
    2. mgr. tekur til gjaldtöku til að standa undir rekstri flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar. Ákvæðið byggist á núgildandi 2. mgr. 71. gr. laganna. Um lítils háttar orðalagsbreytingar er að ræða, áréttað er að gjaldtaka taki einnig til kostnaðar af búnaði og mannvirkjum sem starfsemin nýtir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að birta skuli gjaldskrá rekstraraðilans með tryggum hætti. Þetta mætti t.d. gera á heimasíðu viðkomandi rekstraraðila. Þá er ráðgert að ráðherra staðfesti gjaldskrá þjónustunnar. Þar sem í dag hefur ekki verið komið á virku eftirliti með gjaldtöku flugvalla, sem m.a. skýrist af sögulegu fyrirkomulagi við rekstur þeirra, er brýnt að rekstraraðilar sæti aðhaldi og notendur flugvallar vernd gagnvart mögulegri misnotkun í skjóli einokunar sem rekstraraðili hefur með rekstri sínum, sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Með því að óska þurfi eftir staðfestingu ráðherra á gjaldskrá er leitast við að stemma stigu við breytingum á gjaldskrá sem ekki fær staðist með tilliti til kostnaðar við þá þjónustu sem veitt er.
    Í 4. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um ýmis atriði er lúta að gjaldtöku, innheimtu og eftirliti með gjaldtöku. Telja má mikilvægt að í reglugerð séu frekar útfærðar þær meginreglur sem gjaldtaka byggist á og forsendur þess kostnaðar sem leggja má til grundvallar gjaldtöku. Þegar hefur verið innleidd reglugerð Evrópusambandsins (EB) nr. 1794/2006 frá 6. desember 2006 um sameiginlegt gjaldtökukerfi vegna flugleiðsöguþjónustu, sbr. reglugerð nr. 1020/2008 um sameiginlegt gjaldtökukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu, en gildissvið reglugerðarinnar tekur þó hvorki til þess svæðis sem Ísland veitir þjónustu á á úthafinu né að svo stöddu til þjónustu sem veitt er innan íslenskrar lofthelgi.

Um 12. gr.

    Í greininni, sem er nýmæli, er kveðið á um að rekstraraðili flugvallar eða rekstraraðili sem rekur tvo eða fleiri flugvelli, flugvallakerfi, þar sem farþegafjöldi er yfir tilteknum mörkum skuli setja á stofn notendanefnd. Með notanda flugvallar er átt við einstakling eða lögaðila sem stundar flutninga í lofti á farþegum, pósti og/eða farmi til eða frá viðkomandi flugvelli. Með þessu er kveðið á um að komið verði á vettvangi fyrir skoðanaskipti milli rekstraraðilans og notenda flugvallar um málefni sem varða rekstur flugvallarins og sem m.a. hafa áhrif á gjaldtöku. Þetta er m.a. gert sem liður í að auka gagnsæi í rekstri og gjaldtöku á flugvöllum sem eru í reynd í einokunaraðstöðu gagnvart notendum. Gert er ráð fyrir að fjöldi fulltrúa og samsetning nefndarinnar ráðist að öðru leyti af stærð og umsvifum á flugvellinum. Með þessu er verið að auka aðkomu notenda að rekstri flugvalla og veita þeim tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, áður en mikilvægar ákvarðanir, er varða rekstur flugvalla, þ.m.t. um þjónustu, gjaldtöku eða önnur atriði sem snerta mikilvæga hagsmuni þeirra, eru teknar.
    Í 2. mgr. er nánar kveðið á um í hvaða tilvikum sé skylt að leggja fram rökstudda tillögu um breytingar og nýmæli. Tillaga skal lögð fram a.m.k. fjórum mánuðum fyrir áætlaða gildistöku. Með þessu er verið að leggja áherslu á að notendur hafi nægan fyrirvara á breytingum er varða hagsmuni þeirra, þ.m.t. á gjöldum, og hafi tíma til að kynna sér forsendur fyrirhugaðra breytinga eða gjaldtöku. Þetta á að auðvelda þeim að taka afstöðu til breytinga og kalla eftir upplýsingum til að auka gagnsæi. Þá er gert ráð fyrir að fundir í notendanefnd verði haldnir eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
    Lagt er til í 3. mgr. að notendanefndin leitist við að ná samkomulagi um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru. Náist ekki samkomulag er rekstraraðili flugvallar þó óbundinn af afstöðu notenda. Með þessu er undirstrikað að þó að ágreiningur sé um nýja eða breytta gjaldtöku eða einstaka þjónustuþætti þá gæti sá ágreiningur ekki orðið til þess að koma í veg fyrir breytingar á gjöldum eða að nauðsynlegar rekstrarákvarðanir nái fram að ganga. En gert er ráð fyrir að ef ágreiningur rís geti notendur farið fram á ítarlegri rökstuðning fyrir ákvörðun og frekari viðræður. Þá er gert ráð fyrir að rekstraraðili flugvallar tilkynni um mikilvægar ákvarðanir er varða hagsmuni notenda með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara. Ætla verður að það sé algjör lágmarksfrestur og miða ætti almennt við mun lengri tíma vegna breytinga á gjaldtöku af tillitssemi við flugrekendur sem iðulega selja farseðla langt fram í tímann.
    Í 4. mgr. er almenn heimild ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar í reglugerð. Gert er ráð fyrir að í henni verði m.a. kveðið nánar á um meðferð ágreinings hjá nefndinni og upplýsingaskyldu til Flugmálastjórnar Íslands.

Um 13. gr.

    Í greininni, sem er nýmæli, er frekar kveðið á um gagnsæi gjaldtöku á flugvöllum þar sem lögð er sú skylda á rekstraraðila flugvallar að leggja fram sundurliðun kostnaðar sem lagður er til grundvallar gjaldtöku. Þetta ber að gera eigi sjaldnar en árlega. Í ákvæðinu er í dæmaskyni upptalning á helstu liðum sem leggja ber til grundvallar við sundurliðun gjalda. Þá er gerð sú krafa að einstakir kostnaðarliðir, sem lagðir eru til grundvallar gjaldi, skuli aðgreindir í bókhaldi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu flugrekstraraðila sem nýta aðstöðu flugvalla til að upplýsa rekstraraðila flugvallar reglulega um áætlanir sínar varðandi ýmsa þætti sem áhrif geta haft á rekstur flugvallar, þ.m.t. umfang þjónustu, aðstöðu og uppbyggingu innviða á flugvelli. Þetta eru m.a. upplýsingar er lúta að áætlunum um tíðni flugs, fjölda farþega, samsetningu flugvélaflotans eða breytingu þar á. Þá er kveðið á um að með slíkar upplýsingar skuli fara sem trúnaðarmál.
    Þá er í 3. mgr. almenn heimild ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar í reglugerð.

Um 14. gr.

    Í a-lið er lagt til að fellt sé brott það skilyrði sem 3. mgr. 78. gr. laganna áskilur, er lýtur að því að beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi. Skilyrðið sem slíkt er talið of takmarkandi þar sem það bindur hendur ríkisvaldsins til sjálfstæðrar ákvörðunartöku. Í ákvæðinu er miðað við að skapist slíkt ástand, sem byggist á mjög brýnum ástæðum, þar sem til athugunar er hvort setja eigi vopnaða verði um borð í íslenskt loftfar verði samgönguráðherra að ráðfæra sig við dómsmála- og utanríkisráðherra. Sú ráðagerð, sem 3. mgr. 78. gr. felur í sér, takmarkar slíka heimild og bindur hana við það ástand eitt að erlent ríki hafi krafist slíks af hendi íslensks flugrekanda.
    Breytingin sem hér er lögð til grundvallast á inngangsorðum reglugerðar (EB) nr. 300/2008 um sameiginlegar reglur um flugvernd sem til stendur að innleiða í íslenskan rétt á næstunni, sbr. inngang að athugasemdum við 9. og 10. gr. hér á undan. Þar er sérstök áhersla lögð á ákvörðunarrétt aðildarríkjanna varðandi vopnaða verði. Kröfur og fyrirmæli er lúta að því að setja vopnaða verði um borð í borgaraleg loftför í almenningsflugi eru og verða á forræði hvers ríkis fyrir sig. Það er því mikilvægt að afnema skilyrði 78. gr. sem viðhalda íhlutunarrétti erlendra ríkja til ráðstafana sem þessara.
    B-liður kveður á um reglugerðarheimild til handa samgönguráðherra að höfðu samráði við dómsmálaráðherra til setningar reglugerðar um hæfni og þjálfun vopnaðra varða sem og fyrirkomulag við vopnaburð, verklag og samþykki þess og eftirlit.

Um 15. gr.

    Hér er lögð til sú breyting að samgönguráðherra geti kveðið á um fyrirkomulag við stjórnun leitarstarfs fram til þess að slysstaður finnst. Þetta hlutverk hefur verið í höndum Flugmálastjórnar Íslands samkvæmt ákvæðinu. Með lögum nr. 100/2006, um Flugmálastjórn Íslands, var stofnuninni falin stjórnsýsla og eftirlit en framkvæmdir og rekstur flugvalla og rekstur flugleiðsöguþjónustu færð í sérstakt opinbert hlutafélag sem stofnað var með lögum nr. 102/2006. Eftir þessar breytingar hefur Flugmálastjórn annað hlutverk en hún hafði áður er varðar leit og björgun loftfara. Nú er stofnunin fyrst og fremst eftirlitsaðili með framkvæmd laga og reglna er lúta að leit og björgun, sbr. ákvæði er lúta að þætti veitanda flugleiðsöguþjónustu.
    Á íslenska ríkinu hvílir ábyrgð á leitar- og björgunarstarfi innan íslenskrar lofthelgi og á því svæði utan hennar sem ríkið hefur sérstaklega undirgengist þjóðréttarlegar skuldbindingar til að annast leitar- og björgunarstarf á. Hvað alþjóðlegar flugsamgöngur áhrærir eru þær skuldbindingar nokkrar. Mikilvægt er því að þessu hlutverki verði sinnt á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt. Lagt er til að ákvörðun um hvaða aðili, félag eða fyrirtæki tekst á hendur verkefnið verði í höndum samgönguráðherra.

Um 16. gr.

    Lagt er til að 146. gr. b verði umorðuð. Ákvæðið kom fyrst inn í lögin með lögum nr. 165/2006, um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998. Horft var þá sérstaklega til þeirra samninga sem voru í bígerð varðandi gagnkvæma viðurkenningu á sviði flugöryggismála, þ.e. tegundaskírteina loftfara, lofthæfis, viðhalds og mögulega síðar skírteina einstaklinga til réttinda á sviði loftflutninga. Vegna þeirra breytinga sem þegar eru orðnar á viðfangsefnum Flugöryggisstofnunar Evrópu eru frekari samningar um gagnkvæma viðurkenningu í sjónmáli. Má þar m.a. nefna samninga sem byggjast á gagnkvæmri viðurkenningu á flugverndarráðstöfunum við þriðju ríki og samninga um gagnkvæma nýtingu úttekta á grundvelli viðauka 17 við Chicago-samninginn um úttektir á sviði flugverndar. Þegar er hafin undirbúningur milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Bandaríkjanna að gagnkvæmri viðurkenningu á sviði flugverndar með vísan til samstarfs þjóðanna samkvæmt loftferðasamningi ríkjanna. Þegar hafa hafist viðræður við aðildarríki Evrópusambandsins og Bandaríkin um aðild Íslands að loftferðasamningnum. Gagnkvæm viðurkenning á sviði flugverndar við t.a.m. Bandaríkin fæli mögulega í sér afnám leitar á farþegum, farangri og farmi við komu hingað til lands frá Bandaríkjunum.

Um 17. gr.

    Hér er lagt til að nýju ákvæði, 146. gr. c, verði bætt inn í lögin. Ákvæðið fjallar um starfrækslu tölvufarskráningarkerfa og hefur að geyma lagastoð til setningar frekari reglugerða um starfsemi slíkra kerfa. Reglugerðir um starfrækslu slíkra kerfa voru fyrst teknar inn í EES-samninginn við gerð hans. Aðeins er fyrir hendi almenn reglugerðarheimild í 145. gr. laganna og er hér lagt til að úr því verði bætt.
    Tölvufarskráningarkerfi eru kerfi þar sem m.a. er að finna upplýsingar flugrekenda um ferðaáætlanir, laus sæti, fargjöld og aðra tengda þjónustu, ýmist með eða án búnaðar til farskráningar eða útgáfu ferðaheimilda að því marki sem áskrifendur kerfisins fá aðgang að þessari þjónustu að hluta eða öllu leyti. Meginhlutverk starfsreglna um rekstur tölvufarskráningarkerfa er því að stuðla að samkeppni, jöfnu aðgengi þeirra sem nýta kerfin, hvort heldur flugrekenda eða neytenda, tryggja bann gegn misnotkun eða mismunun og vernda hagsmuni neytenda. Tryggja verður að tölvufarskráningarkerfin séu hlutlaus í samkeppninni gagnvart flugfélögunum að því er varðar sams konar öryggi gagna, einkum sama aðgang að upplýsingum/gögnum og notkun skilflata og skal skýrt greint á milli eigin kerfis flugfélaganna og miðlunarkerfisins.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ljóst er að ef frumvarpið verður að lögum munu rekstraraðilar flugvallar þurfa að undirbúa gjaldtöku í samræmi við 11. gr. frumvarpsins og hafa virkt samráð við notendur flugvallarins. Nauðsynlegur frestur vegna þessa er a.m.k. 6 mánuðir.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir,
nr. 60/1998, með síðari breytingum.

    Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru annars vegar þær að lagt er til að Flugmálastjórn Íslands verði heimilt að fela viðurkenndum aðilum skrásetningu og eftirlit með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund eða flokki. Umfangsmestu breytingarnar snúa hins vegar að flugvernd og gjaldtöku vegna hennar. Samkvæmt frumvarpinu munu ákvæði 71. gr. laganna um skyldu flugrekstraraðila til að greiða lendingargjald og öryggisgjald verða lögð af. Þess í stað verður rekstraraðila flugvallar heimilt að innheimta gjöld í samræmi við gjaldskrá vegna lendinga og framkvæmdar flugverndar. Er sá skilningur lagður í þessa breytingu að tekjur af lendingargjöldum og öryggisgjöldum verði ekki lengur markaðar ríkistekjur heldur þjónustutekjur þess hlutafélags sem fer með rekstur flugvallarins. Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins verður rekstraraðila flugvallar veitt heimild til að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar, flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar. Gert er ráð fyrir að ráðherra staðfesti gjaldskrá þjónustunnar. Almennt mun gjaldtakan skv. 11. gr. frumvarpsins miðast við þann kostnað sem hlýst af því að veita þá þjónustu sem í hlut á.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Keflavíkurflugvallar ohf. vegna tekna af öryggisgjaldi verði 513,9 m.kr. og 639,1 m.kr. vegna lendingargjalda í millilandaflugi. Framlag ríkissjóðs til Flugstoða ohf. vegna tekna af lendingargjöldum í innanlandsflugi var hins vegar 65 m.kr. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs og gjöld, sem færast á fjárlagalið 10-475 Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta, lækki sem þessari gjaldheimtu nemur eða um 1.218 m.kr. Velta ríkissjóðs lækkar sem því nemur en afkoma ríkissjóðs verður óbreytt eftir sem áður.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Reglugerð (EB) nr. 1592/2002 var innleidd hér á landi með reglugerð um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um sameiginlegar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, nr. 612/2005, með síðari breytingum.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Sjá viðauka 1 um skírteini, viðauka 6 um flugrekstur og almannaflug, viðauka 8 um lofthæfi, viðauka 17 um flugvernd og viðauka 11 og 12 um flugumferðarþjónustu og leit- og björgun loftfara.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Sjá reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007 sem er innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði (rammareglugerðin), reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á samevrópska flugumferðarsvæðinu (þjónustureglugerðin), reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á samevrópska flugumferðarsvæðinu (loftrýmisreglugerðin) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (rekstrarsamhæfisreglugerðin).
Neðanmálsgrein: 4
    4 Reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 með síðari breytingum innleiðir bæði reglugerð (EB) nr. 2320/2003 og reglugerð (EB) nr. 622/2003. Auk þessa hefur tekið gildi reglugerð um innleiðingu reglugerða á sviði flugverndar nr. 125/2006 sem innleiðir þrjár reglugerðir: reglugerð (EB) nr. 1217/2003 um gæðaeftirlit með flugvernd, reglugerð (EB) nr. 1486/2003 um verklagsreglur við eftirlit á vegum framkvæmdastjórnarinnar á sviði flugverndar og reglugerð (EB) nr. 1138/2004 um skilgreiningu á viðkvæmustu hlutum haftasvæða flugverndar á flugvöllum.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Sjá Commission Decision of 8/VIII72008 laying down additional measures for the implementation of the common basic standards of aviation security.
Neðanmálsgrein: 6
    6 ICAO's Policies on Charges for Airports and Air Navigation Services, Seventh Edition 2004, Doc 9082/7; ICAO's Policies on Taxation in the Field of International Air Transport, Third Edition 2000, Doc 8632; Airport Economics Manual, Doc 9562.