Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 644. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1100  —  644. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Múla Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Valtý Þór Hreiðarsson frá Verðlagsstofu skiptaverðs, Gísla Rúnar Gíslason frá Fiskistofu, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fiskvinnslustöðva, Félagi skipstjórnarmanna, Persónuvernd, Fiskistofu, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Verðlagsstofu skiptaverðs er í lögum um stjórn fiskveiða falið mikilvægt úrræði sem ætlað er að stuðla að því að útgerðir sem flytja aflamark yfir á skip sín standi réttilega við gerða samninga um fiskverð sem haft er til viðmiðunar í uppgjöri á aflahlut áhafnar. Kemur þar fram að forsenda fyrir flutningi aflamarks sé sú að stofan hafi staðfest að fyrir liggi fullnægjandi samningur. Með þessu úrræði er dregið úr líkum á að sjómenn séu látnir bera kostnað af kaupum eða leigu á kvóta þannig að aflahlutur þeirra reiknist af lægra verði en fiskverði.
    Tilgangurinn með frumvarpinu er að veita Verðlagsstofu skiptaverðs auknar heimildir til að hafa eftirlit með því að samningar um fiskverð séu réttilega efndir. Er þar tekið af skarið um að stofan geti við framkvæmd eftirlits lagt áherslu á athugun einstakra mála með tilheyrandi gagnaöflun en þurfi ekki að einskorða sig við úrtakskannanir. Rannsókn getur farið fram ýmist eftir ábeningu eða að eigin frumkvæði stofunnar en leiði hún í ljós að fiskverðssamningur hafi verið vanefndur miðast hlutverk stofunnar almennt við að gefa út rökstutt álit og leggja það í hendur útgerð og áhöfn að leysa málið. Megintilgangur frumvarpsins er aftur á móti að styrkja heimildir stofunnar til að synja staðfestingar af sömu ástæðum þegar hennar hefur verið óskað í tilefni af kvótaframsali. Verður þeirri kvöð ekki jafnað til álits heldur íþyngjandi ákvörðunar sem ber að taka og undirbúa í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
    Við umfjöllun nefndarinnar var m.a. rætt um hvernig Verðlagsstofu skiptaverðs hefði gengið að rækja hlutverk sitt á grundvelli núgildandi laga, hvort frumvarpið væri vel til þess fallið að leysa þann vanda sem því væri ætlað og hver staða smábátaútgerðar væri gagnvart þeim lögum sem um stofuna giltu.
    Nefndin áréttar að frumvarpinu, sem samið er með aðkomu Landssambands íslenskra útvegsmanna og samtaka sjómanna, er ætlað að styrkja eftirlitsheimildir Verðlagsstofu skiptaverðs og um leið stöðu sjómanna gagnvart útgerð. Með tilliti til jafnræðisreglu þjónar það lögmætu markmiði. Enn fremur er það skoðun nefndarinnar að lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs taki jafnt til skipa hvort sem þau eru í aflamarki eða krókaaflamarki og má því til stuðnings vísa m.a. til 5. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Af þeirri ástæðu og að höfðu samráði við sjávarútvegsráðuneytið og hagsmunaaðila leggur nefndin til að nefndarmönnum í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna verði fjölgað um tvo í því skyni að Landssamband smábátaeigenda eignist þar fulltrúa og samtök sjómanna fái viðbótarfulltrúa til mótvægis við þá breytingu.
    Nefndin telur að 2.–4. efnismálsl. 3. gr. frumvarpsins eigi betur heima í nýrri grein sem bætt verði við lög nr. 13/1998 í stað 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Eðlilegra þykir að forsendur þær sem Verðlagsstofa skiptaverðs byggir staðfestingu sína á í tilefni af framsali aflamarks komi fram í þeim lögum sem um hana gilda. Samfara þessari breytingu er lögð til lítils háttar orðalagsbreyting á 1. gr. frumvarpsins.
    Loks leggur nefndin til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt þannig að það taki gildi um næstu áramót. Með því er Landssambandi smábátaeigenda gefinn kostur á að laga sig að þeim breytingum sem að framan er lýst.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Guðjón A. Kristjánsson og Jón Bjarnason skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Jóhann Ársælsson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2007.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Guðjón Ólafur Jónsson.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.



Kjartan Ólafsson.