Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
Þskj. 472  —  390. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    2. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 7. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, er kveðið á um að starfrækja skuli sóttvarna- og einangrunarstöðvar vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni þeirra. Í samræmi við þessi ákvæði laganna stofnsetti landbúnaðarráðuneytið árið 1990 einangrunarstöð fyrir gæludýr í Hrísey. Með lögum nr. 175/2000, um breytingu á lögum um innflutning dýra, var landbúnaðarráðherra heimilað að fela einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur einangrunarstöðva. Með reglugerð nr. 432/2003 voru síðan skilgreindar þær kröfur sem gerðar eru um útbúnað einangrunarstöðva fyrir gæludýr og hvernig skuli staðið að veitingu rekstrarleyfis fyrir slíkar stöðvar. Landbúnaðarráðherra hefur nú veitt einkaaðila leyfi til reksturs einangrunarstöðvar fyrir gæludýr og er stefnt að því að stöðin taki til starfa 1. desember nk. Í framhaldi af því mun landbúnaðarráðuneytið hætta rekstri einangrunarstöðvarinnar í Hrísey og stefnt er að því að aðstaðan verði seld.
    Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna, sem hér er lagt til að falli brott, er kveðið á um gjaldskrá fyrir þjónustu sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Óeðlilegt þykir að gefin sé út opinber verðskrá fyrir þjónustu einangrunarstöðva eftir að ríkið hefur dregið sig út úr slíkum rekstri og stöð í eigu einkaaðila hefur tekið til starfa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990,
um innflutning á dýrum, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að lagaskylda landbúnaðarráðherra til útgáfu gjaldskrár fyrir þjónustu sóttvarna- og einangrunarstöðva falli niður.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.