Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 377. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 429  —  377. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    29. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Eftirtaldar fjárhæðir mynda grunn útreiknings á gjaldþoli vátryggingafélags:
     1.      a.     Innborgað hlutafé að frádregnum eigin hlutabréfum félagsins.
        b.    Stofnfé að viðbættum framlögum eigenda gagnkvæms vátryggingafélags ef þau uppfylla það skilyrði að í stofnsamningi eða samþykktum sé kveðið á um að ekki sé heimilt að greiða eigendum þessi framlög, ef það hefði í för með sér að gjaldþol færi niður fyrir tilskilið lágmark. Einnig er það skilyrði að við félagsslit skuli fyrst gera upp allar aðrar skuldir félagsins. Enn fremur skal í stofnsamningi eða samþykktum kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu skuli tilkynnt um greiðslur slíkra skulda, nema þær tengist lokum aðildar einstakra félagsmanna að félaginu, með að minnsta kosti eins mánaðar fyrirvara og að það geti lagt bann við útborgun innan þess frests. Umrædd ákvæði og breytingar á þeim öðlast ekki gildi nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins.
     2.      Varasjóðir sem ekki eru til að mæta skuldbindingum félagsins og óráðstöfuð ágóðajöfnunarskuld líftryggingafélags.
     3.      Óráðstafaður hagnaður að frádregnu ójöfnuðu tapi og ráðgerðum arðgreiðslum.
     4.      Forgangshlutafé og víkjandi lán sem bindandi samkomulag er um að víki fyrir öllum skuldbindingum sem ekki eru víkjandi og að ekki komi til endurgreiðslu fyrr en þær skuldbindingar hafa verið gerðar upp við gjaldþrot eða slit vátryggingafélags. Víkjandi lán skal einnig uppfylla eftirtalin skilyrði:
                  a.      Lánið skal vera innborgað og skuldfært í bókum félagsins.
                  b.      Upphaflegur lánstími lána með föstum lánstíma skal ekki vera skemmri en fimm ár. Eigi síðar en einu ári áður en kemur að endurgreiðslu skal vátryggingafélagið leggja áætlun fyrir Fjármálaeftirlitið til samþykktar er sýni fram á fullnægjandi gjaldþol félagsins á gjalddaga nema eftirstöðvar lánsins hafi farið minnkandi sem hlutfall af gjaldþoli félagsins á minnst fimm ára tímabili fyrir umsaminn gjalddaga. Sæki vátryggingafélagið um að flýta endurgreiðslu slíkra lána getur Fjármálaeftirlitið heimilað það að því tilskildu að gjaldþol fari ekki niður fyrir tilskilið lágmark.
                  c.      Lán sem eru ekki með föstum lánstíma skulu vera með a.m.k. fimm ára uppsagnarfresti, nema þau séu ekki lengur talin til gjaldþols félagsins eða að endurgreiðslur fyrir gjalddaga séu háðar samþykki Fjármálaeftirlitsins. Verður vátryggingafélagið þá að óska eftir slíku samþykki að minnsta kosti sex mánuðum fyrir áætlaðan greiðsludag og tilgreina áætlað gjaldþol og lágmarksgjaldþol bæði fyrir og eftir endurgreiðslu. Því aðeins skal heimila endurgreiðslu að gjaldþol vátryggingafélagsins fari ekki niður fyrir lágmarksgjaldþol.
                  d.      Lánssamningurinn má ekki fela í sér ákvæði sem gera ráð fyrir endurgreiðslu fyrr en á gjalddaga, nema vátryggingafélaginu verði slitið.
                  e.      Samþykki Fjármálaeftirlitsins þarf til að breyta lánssamningum.
        Fjárhæð samkvæmt þessum tölulið má ekki fara yfir 50% af lágmarksgjaldþoli, eða heildargjaldþoli ef það er lægra. Þar af mega víkjandi lán með fastan lánstíma og heildarfjárhæð forgangshlutafjár ekki fara yfir 25% samanlagt.
     5.      Skuldabréf án tiltekins lánstíma og önnur bréf, svo sem forgangshlutafé sem ekki fellur undir 4. tölul., ef samningarnir uppfylla eftirtalin skilyrði:
                  a.      Ekki má endurgreiða bréfin að frumkvæði handhafa og ekki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins.
                  b.      Samið er um að vátryggingafélagið megi fresta greiðslu á vöxtum.
                  c.      Kröfur á hendur vátryggingafélaginu samkvæmt þessum tölulið víkja fyrir öllum öðrum kröfum sem ekki eru víkjandi.
                  d.      Skjalfest er við útgáfu skuldabréfanna að eftirstöðvar og ógreidda vexti megi nota til að mæta tapi þannig að vátryggingafélagi sé kleift að halda áfram starfsemi sinni.
                  e.      Aðeins skal telja með innborgaðar fjárhæðir.
        Fjárhæð samkvæmt þessum tölulið og fjárhæð skv. 4. tölul. mega samanlagt ekki fara yfir 50% af lágmarksgjaldþoli, eða heildargjaldþoli ef það er lægra.
     6.      Helmingur óinnborgaðs hlutafjár eða stofnfjár, enda nemi innborgað fé minnst 25% heildarfjárins. Þessi fjárhæð má ekki fara yfir 50% af lágmarksgjaldþoli, eða heildargjaldþoli ef það er lægra.
     7.      Viðbótarframlög eða aukaiðgjöld sem gagnkvæm vátryggingafélög önnur en líftryggingafélög, eða félög hliðstæðrar gerðar með breytilegum framlögum, mega krefja félagsmenn um á reikningsárinu, allt að helming mismunar á hámarki þess sem krefjast má og þess sem þegar hefur verið krafist. Þessi fjárhæð má ekki fara yfir 50% af lágmarksgjaldþoli, eða heildargjaldþoli ef það er lægra.
     8.      Duldir sjóðir vegna vanmats eigna, enda séu þeir af varanlegum toga.
     9.      Allt að 50% áætlaðs framtíðarhagnaðar af líftryggingum. Framtíðarhagnað skal þá áætla með því að margfalda árlegan hagnað, eða lægri tölu, með stuðli sem svarar til gildistíma líftrygginganna sem eftir er í árum talið, þó ekki með hærri stuðli en 6. Með árlegum hagnaði er átt við meðaltal hagnaðar af líftryggingarekstri samkvæmt rekstrarreikningi fimm undangengin ár í viðkomandi greinum líftrygginga. Þessi fjárhæð má ekki fara yfir 25% af lágmarksgjaldþoli, eða heildargjaldþoli ef það er lægra.
     10.      Hluti iðgjaldaskuldar í líftryggingum með eða án Zillmer-aðferðar. Þegar Zillmer-aðferð er ekki beitt eða henni er beitt og kostnaðarálag vegna öflunar líftrygginga er lægra en álagið sem fólgið er í iðgjöldum vegna öflunar líftrygginganna, má reikna til gjaldþols mismuninn á iðgjaldaskuld án Zillmer-aðferðar eða iðgjaldaskuld með Zillmer-aðferð að hluta og iðgjaldaskuld þar sem reiknað er samkvæmt Zillmer-aðferð með öflunarkostnaði að fullu eins og í reiknigrundvelli iðgjalda. Fjárhæðin sem færð er til gjaldþols samkvæmt þessum tölulið má þó aldrei vera hærri en 3,5% af mismun líftryggingarfjárhæða og iðgjaldaskuldar samanlagt vegna líftryggingarsamninga þar sem unnt er að beita Zillmer-aðferð. Frá þessum mismun skal draga allan óafskrifaðan eignfærðan öflunarkostnað.
     11.      Nauðsynlegar afskriftir og niðurfærslur. Sé nauðsynlegt að afskrifa eða niðurfæra eignaliði umfram það sem gert er í efnahagsreikningi skal það koma til lækkunar gjaldþoli. Meðal annars skal hafa hliðsjón af atriðum utan efnahags.
     12.      Lækkun tjónaskuldar sem stafar af núvirðingu hennar. Þó þarf ekki að draga frá gjaldþoli lækkun vegna núvirðingar tjóna í slysa- og sjúkratryggingum, né heldur vegna lífeyrisgreiðslna í öðrum greinaflokkum.
    Gjaldþol vátryggingafélags er reiknað með því að leggja saman fjárhæðir skv. 1.–5. tölul. og draga frá fjárhæðir skv. 11.–12. tölul. Fjárhæðir skv. 6.–10. tölul. má leggja við framangreindar fjárhæðir hafi Fjármálaeftirlitið fallist á rökstudda ósk vátryggingafélags um það. Ef horfur eru á að gjaldþol verði einhvern tímann á næstu þremur árum lægra en gjaldþol reiknað skv. 1.–12. tölul. skal til viðbótar færa gjaldþolið niður um muninn á framantöldum liðum og áætluðu lægsta gjaldþoli á næstu þremur árum.
    Aðlagað gjaldþol vátryggingafélags, sem á annað vátryggingafélag að dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi, er gjaldþol þess skv. 2. mgr. að frádregnum fjárhæðum sem verða til við að sömu eignir eru taldar beint eða óbeint hjá fleiri en einum aðila, svo og öllum eignum sem verða til við gagnkvæma fjármögnun. Tekið skal tillit til allra dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélagsins, félaga sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og annarra dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga. Fjármálaeftirlitið getur í sérstökum tilvikum krafist eða heimilað að önnur aðferð sé notuð við útreikning aðlagaðs gjaldþols.
    Sé vátryggingafélag dótturfélag annars vátryggingafélags eða félags þar sem meginstarfsemin er eignarhald á vátryggingafélagi skal reikna aðlagað gjaldþol móðurfélagsins samkvæmt ákvæðum þessarar greinar auk útreiknings á gjaldþoli vátryggingafélagsins. Við útreikninginn skal taka tillit til allra hlutdeildarfélaga móðurfélagsins.
    Nánar skal kveða á um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli í reglugerð. Þar má einnig tilgreina undanþágur frá skyldu til að reikna aðlagað gjaldþol. Taki útreikningurinn til fyrirtækja í öðrum ríkjum fer um samstarf eftirlitsstjórnvalda eftir alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.

2. gr.

    30. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Gjaldþol vátryggingafélags, sem rekur aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi, skal á hverjum tíma nema minnst þeirri fjárhæð sem hærri er samkvæmt eftirfarandi útreikningi og nefnist lágmarksgjaldþol félagsins, sbr. þó 33. gr.:
     1.      Við útreikning á lágmarksgjaldþoli á grundvelli iðgjalda skal nota þá fjárhæð sem hærri er af bókfærðum iðgjöldum og iðgjöldum ársins samkvæmt rekstrarreikningi. Byggt skal á iðgjöldum að frádregnum endurgreiðslum og niðurfellingum, en án frádráttar á hlut endurtryggjenda. Hækka skal iðgjöld í greinaflokkum skv. 11., 12. og 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. um 50%. Í gagnkvæmum vátryggingafélögum skal telja með iðgjöldum þau framlög eigenda á reikningsárinu sem jafna má til iðgjalda.
                  Fjárhæð sem reiknuð er skv. 1. mgr. þessa töluliðar skal skipt í tvennt, þannig að fyrri hlutinn nemi allt að 4.250 millj. kr. og sá síðari því sem umfram er. Fjárhæð þessi skal taka árlegum breytingum með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 33. gr. Leggja skal saman 18% af fyrri hlutanum og 16% af því sem umfram er. Niðurstaða þeirrar samlagningar er síðan margfölduð með hlutfallinu milli samanlagðra eigin tjóna síðustu þriggja reikningsára og samanlagðra tjóna í heild síðustu þrjú reikningsár samkvæmt rekstrarreikningi, en þó aldrei með lægri tölu en 0,5.
     2.      Við útreikning á lágmarksgjaldþoli á grundvelli tjóna skal byggt á meðalfjárhæð tjóna ársins síðustu þrjú reikningsár, að frádregnum yfirteknum vátryggðum fjármunum og réttindum sem félagið öðlast, en án frádráttar á hlut endurtryggjenda. Áður en meðaltal er reiknað skal hækka tjón í greinaflokkum skv. 11., 12. og 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. um 50%. Reki vátryggingafélag starfsemi í ferðamannaaðstoð skv. 18. tölul. 1. mgr. 22. gr. skal leggja við tjónsfjárhæðir í þeirri grein allan kostnað sem félagið hefur borið vegna veittrar aðstoðar, jafnvel þótt hann kunni að falla undir aðra liði í rekstrarreikningi.
                  Fjárhæð sem reiknuð er skv. 1. mgr. þessa töluliðar skal skipt í tvennt, þannig að fyrri hlutinn nemi allt að 2.975 millj. kr. og sá síðari því sem umfram er. Fjárhæð þessi skal taka árlegum breytingum með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 33. gr. Leggja skal saman 26% af fyrri hlutanum og 23% af því sem umfram er. Útkoma þeirrar samlagningar er síðan margfölduð með hlutfallinu milli samanlagðra eigin tjóna síðustu þriggja reikningsára og samanlagðra tjóna í heild síðustu þrjú reikningsár samkvæmt rekstrarreikningi en þó aldrei með lægri tölu en 0,5.
    Í útreikningum skv. 1. mgr. skal miða við meðaltal sjö síðustu reikningsára í stað þriggja reki félagið aðallega starfsemi í óveðurs-, hagl- eða frostskaðatryggingum eða í greiðsluvátryggingum.
    Ef lágmarksgjaldþol reynist vera lægra en á næstliðnu reikningsári, skal það ekki lækka meira hlutfallslega en sem nemur hlutfallslegri lækkun eigin tjónaskuldar milli sömu ára.
    Í sjúkratryggingum sem reknar eru samkvæmt tæknilegum reiknigrundvelli skal miða við 6% eða 5,33% bókfærðra iðgjalda í stað 18% eða 16% þegar reiknað er á grundvelli iðgjalda, og 8,67% eða 7,67% meðaltjónsfjárhæðar á síðustu þremur árum í stað 26% eða 23% þegar reiknað er á grundvelli tjóna og eftirfarandi skilyrðum er öllum fullnægt:
     1.      Iðgjöld eru reiknuð samkvæmt tryggingastærðfræðilegum aðferðum út frá sjúkratöflum.
     2.      Vátryggingaskuldin tekur m.a. mið af hækkandi aldri.
     3.      Kveðið er á um greiðslu viðbótariðgjalda til að koma upp hæfilegu öryggisálagi.
     4.      Vátryggingafélagið má segja vátryggingarsamningum upp fyrir lok 3. vátryggingarárs í síðasta lagi.
     5.      Vátryggingarsamningar kveða á um að hækka megi iðgjöld eða lækka bætur á vátryggingartímabilinu.
    Í reglugerð er heimilt að kveða á um hvort og hvernig tekið skuli tillit til hliðarstarfsemi skv. 11. gr. við útreikning á lágmarksgjaldþoli.

3. gr.

    31. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Gjaldþol vátryggingafélags sem rekur líftryggingastarfsemi skal á hverjum tíma nema minnst samanlögðum fjárhæðum skv. 1.–7. tölul. hér á eftir, en samtala þessi nefnist lágmarksgjaldþol félagsins, sbr. þó 33. gr.:
     1.      Hlutdeild áhættu- og söfnunarlíftrygginga án fjárfestingaráhættu skv. 1. tölul. 23. gr. er samtala þeirra fjárhæða sem koma út úr a-, b- og c-liðum hér á eftir:
                  a.      Reikna skal 4% af líftryggingaskuldinni í frumtryggingum samkvæmt reiknigrundvelli án frádráttar á hlut endurtryggjenda, en að viðbættri líftryggingaskuld vegna móttekinna lífendurtrygginga. Sú fjárhæð er margfölduð með hlutfallinu milli líftryggingaskuldar að frádregnum hlut endurtryggjenda og heildarlíftryggingaskuldar eins og hlutfallið var á næstliðnu reikningsári, en hlutfall þetta má þó aldrei vera lægra en 0,85.
                  b.      Reikna skal 0,3% af samanlögðum þeim hluta líftryggingarfjárhæða vegna dánaráhættu sem líftryggingafélagið ber áhættu af gagnvart hinum líftryggðu í lok reikningsárs án frádráttar á hlut endurtryggjenda. Sú fjárhæð er margfölduð með hlutfallinu milli samanlagðra líftryggingarfjárhæða að frádregnum hlut endurtryggjenda og heildarlíftryggingarfjárhæða eins og hlutfallið var á næstliðnu reikningsári, en hlutfall þetta má þó aldrei vera lægra en 0,50.
                  c.      Beita skal aðferð 30. gr. til þess að reikna gjaldþolskröfu vegna viðbótartrygginga sem falla undir f- til h-liði 1. tölul. 23. gr.
        Sé um að ræða tímabundnar dánaráhættulíftryggingar með gildistíma í þrjú ár eða skemur skal stuðullinn í b-lið vera 0,1% í stað 0,3% og 0,15% sé gildistími lengri en þrjú ár en mest fimm ár.
     2.      Hlutdeild hjóna- og barnalíftrygginga skv. 2. tölul. 23. gr. er reiknuð eins og í 1. tölul. þessarar greinar.
     3.      Hlutdeild áhættu- og söfnunarlíftrygginga með fjárfestingaráhættu skv. 3. tölul. 23. gr. er samtala fjárhæða samkvæmt eftirfarandi:
                  a.      Ef líftryggingafélagið ber fjárfestingaráhættu skal reikna 4% af líftryggingaskuldinni í frumtryggingum skv. a-lið 1. tölul.
                  b.      Ef kostnaðarhluti iðgjalda er bundinn til að minnsta kosti fimm ára án þess að líftryggingafélagið beri fjárfestingaráhættu skal reikna 1% af líftryggingaskuldinni skv. a-lið 1. tölul.
                  c.      Ef líftryggingafélagið ber ekki fjárfestingaráhættu og kostnaðarhluti iðgjalda er ekki bundinn til að minnsta kosti fimm ára skal reikna 25% af skrifstofu- og stjórnunarkostnaði við rekstur þeirrar starfsemi á síðasta reikningsári.
                  d.      Vegna dánaráhættu skal reikna hlutfall líftryggingarfjárhæða skv. b-lið 1. tölul.
     4.      Hlutdeild varanlegra heilsutrygginga án uppsagnarréttar skv. 4. tölul. 23. gr. er samtala tveggja liða sem ákvarðast annars vegar af vátryggingaskuldinni, sbr. a-lið 1. tölul., og hins vegar af lágmarksgjaldþoli eins og það er reiknað skv. 30. gr. Þó má falla frá kröfu 2. tölul. 4. mgr. þeirrar greinar þegar um hópvátryggingar er að ræða.
     5.      Hlutdeild annarra líftrygginga skv. 5. tölul. 23. gr. í lágmarksgjaldþoli skal ákveðin með reglugerð.
     6.      Hlutdeild endurtrygginga líftrygginga skv. 6. tölul. 23. gr. skal ákveðin skv. 1.–5. tölul. í samræmi við eðli þeirra líftryggingarsamninga sem endurtryggðir eru. Sé endurtryggingarsamningur ekki til lengri tíma en eins árs er þó heimilt að beita aðferð 30. gr.
     7.      Hlutdeild slysa- og sjúkratrygginga skv. 1.–2. tölul. 22. gr. skal ákvörðuð skv. 30. gr.
    Í reglugerð er heimilt að kveða á um hvort og hvernig tekið skuli tillit til hliðarstarfsemi skv. 11. gr. við útreikning á lágmarksgjaldþoli.

4. gr.

    32. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    33. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 30. og 31. gr. skal lágmarksgjaldþol vátryggingafélags aldrei vera lægra en 255 millj. kr. Stundi vátryggingafélagið eingöngu starfsemi skv. 1.–9. eða 16.–18. tölul. 1. mgr. 22. gr. má lágmarksgjaldþol ekki vera lægra en 170 millj. kr. Fjárhæðir þessar skulu taka breytingum hinn 31. desember ár hvert í samræmi við breytingar á samræmdri vísitölu neysluverðs í aðildarríkjum EES frá gildinu 111,2 og breytingar á opinberu viðmiðunargengi evru frá genginu 85 kr. Nánar skal kveðið á um útreikning fjárhæða þessara í reglugerð.
    Að minnsta kosti þriðjungur lágmarksgjaldþols, þó ekki lægri fjárhæð en segir í 1. mgr., skal myndaður af gjaldþolsliðum skv. 1.–5. tölul. í 1. mgr. 29. gr. Einnig er heimilt að telja þar með gjaldþolsliði skv. 8. tölul. 1. mgr. 29. gr. að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið getur heimilað að lágmarksfjárhæðir skv. 1. mgr. séu lægri í gagnkvæmu vátryggingafélagi en í vátryggingahlutafélagi að teknu tilliti til ábyrgðar vátryggingartaka samkvæmt samþykktum félagsins, sbr. 42. gr. Lágmarksfjárhæðir mega þó aldrei vera lægri en þrír fjórðu hlutar þess sem krafist er í vátryggingahlutafélagi.
    Við stofnun vátryggingafélags og meðan félag starfar á grundvelli framlagðrar áætlunar um starfsemina, sbr. 24. gr. eða 90. gr., skal tilskilið lágmarksgjaldþol reiknað á grundvelli áætlunarinnar og endurskoðunar hennar ef forsendur áætlunarinnar breytast.

6. gr.

    1. mgr. 54. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal a.m.k. árlega kanna gjaldþol og greiðsluþol vátryggingafélaga á grundvelli ársreiknings fyrir næstliðið reikningsár og annarra nauðsynlegra gagna og upplýsinga um starfsemina. Einnig skal kanna aðlagað gjaldþol vátryggingafélaga og móðurfélaga þeirra ef við á. Fjármálaeftirlitið getur snúið sér til dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélags, félaga sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og til dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga til að afla nauðsynlegra gagna hafi vátryggingafélagið sjálft ekki staðið Fjármálaeftirlitinu skil á þeim. Viðkomandi fyrirtæki skal þegar verða við beiðni um slík gögn. Einu gildir hvort eignaraðild er bein eða óbein. Gögnin má sannreyna með athugun á staðnum, hjá vátryggingafélaginu sjálfu eða öðrum félögum í sömu félagasamstæðu. Fjármálaeftirlitið getur í könnun sinni lækkað gjaldþolsliði frá mati vátryggingafélags, einkum þegar markaðsverð þeirra hefur lækkað eða er óvissu undirorpið. Einnig má draga úr áhrifum endurtrygginga við útreikning lágmarksgjaldþols skv. 30. og 31. gr. hafi orðið veruleg breyting á endurtryggingarvernd frá því tímabili sem útreikningur lágmarksgjaldþols miðast við, eða ef óveruleg vátryggingaráhætta er flutt til endurtryggjenda. Fjármálaeftirlitið metur hvort skilyrði 29.–33. gr., eftir því sem við á, séu uppfyllt. Hafi Fjármálaeftirlitið athugasemdir fram að færa skal það tilkynnt félaginu. Sé nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana vegna þessa eiga ákvæði XI. kafla við.

7. gr.

    90. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Uppfylli vátryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi, ekki lágmarkskröfur um gjaldþol við ársuppgjör eða á öðrum tíma skal félagið þegar í stað gera áætlun um hvenær og á hvern hátt markinu verði náð og skal áætlunin lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem ákveður hvort þær ráðstafanir sem gera á teljist fullnægjandi. Slík áætlun skal ekki taka til skemmri tíma en næstu þriggja reikningsára og innihalda m.a.:
     1.      Áætlaðan rekstrarkostnað, m.a. við núverandi yfirstjórn, og umboðslaun.
     2.      Sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld í frumtryggingum, endurtryggingum sem félagið kann að taka að sér og vegna endurtryggingarverndar þess.
     3.      Áætlaðan efnahagsreikning.
     4.      Greinargerð um fjármagn sem ætlað er að mæta vátryggingaskuldbindingum og lágmarksgjaldþoli.
     5.      Ráðgerða endurtryggingarvernd.
    Meðan slík áætlun er í gildi skal hvorki gefa út gjaldþolsvottorð vegna ráðagerða um starfsemi erlendis, sbr. 1. mgr. 77. gr. og 1. mgr. 78. gr., né heimila félaginu að veita viðtöku vátryggingarstofni, sbr. 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 86. gr.
    Sé gjaldþol vátryggingafélags minna en þriðjungur þess sem tilskilið er eða minna en sú lágmarksfjárhæð sem tilgreind er fyrir þá starfsemi sem félagið rekur, sbr. 33. gr., hvort sem hærra er, skal áætlun skv. 1. mgr. miða að því að rétta við fjárhag félagsins á skömmum tíma og skal Fjármálaeftirlitið setja félaginu ákveðinn frest í því efni.
    Sé vátryggingaskuld félags vanmetin við ársuppgjör eða á öðrum tíma að mati Fjármálaeftirlitsins eða hafi fjárhagsstaða þess með öðrum hætti versnað þannig að tilskildar kröfur um gjaldþol eru ekki uppfylltar skal með sama hætti grípa til viðeigandi ráðstafana.
    Sé vátryggingaskuld vanmetin skal vanmatið koma til lækkunar gjaldþoli.
    Sé aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða móðurfélags þess minna en lágmarksgjaldþol skv. 30., 31. og 33. gr. að viðbættri hlutdeild í lágmarksgjaldþoli allra hlutdeildar- og dótturfélaga sem eru vátryggingafélög skal vátryggingafélagið þegar í stað gera áætlun um hvenær og hvernig markinu verði náð og skal áætlunin lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem ákveður hvort hún telst fullnægjandi. Lágmarksgjaldþol hlutdeildar- og dótturfélaga skal reiknað samkvæmt tilvísuðum greinum, jafnvel þótt aðrar reglur gildi í heimaríki þeirra.
    Telji Fjármálaeftirlitið fjárhag vátryggingafélags vera með þeim hætti að réttindum vátryggingartaka sé stefnt í hættu getur það krafist áætlunar eins og gjaldþol væri ófullnægjandi, sbr. 1. mgr.
    Fjármálaeftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags, sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi, á fjármunum sínum og eignum sé það liður í aðgerðum til að koma fjárhag þess á réttan kjöl, sbr. 1.–5. mgr. Ákvörðun þessa efnis skal tilkynna eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja eftir því sem við á.
    Starfi félagið eftir áætlun skv. 24. gr. eða skv. 1. mgr. þessarar greinar og hafi fjárhagsstaða félagsins versnað miðað við þá áætlun skal Fjármálaeftirlitið taka ákvörðun um nauðsynlegar ráðstafanir og gera kröfu um að ný rekstraráætlun til þriggja ára verði lögð fram ef þörf er á.

8. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða laganna verður svohljóðandi:
    Þau vátryggingafélög sem ekki uppfylla ákvæði 33. gr. um lágmarksfjárhæðir 1. janúar 2003 hafa frest til ársloka 2007 til þess að uppfylla þau, enda verði gjaldþol þeirra fram til þess aldrei lægra en krafist var 31. desember 2001. Hafi markið ekki náðst á tilskildum tíma getur Fjármálaeftirlitið heimilað að félag starfi í tvö ár til viðbótar á grundvelli áætlunar skv. 90. gr.
    Hinn 31. desember 2009 fellur 9. tölul. 1. mgr. 29. gr. brott.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum, sem fjalla um gjaldþol vátryggingafélaga og opinbert eftirlit með því.
    Tilefni breytinganna er að lögfesta þarf breytingar á tilskipunum ESB um þetta efni. Tilskipanir þær sem verið er að breyta eru í IX. viðauka við EES-samninginn og voru upphaflega teknar í íslenskan rétt í lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, og reglugerðum sem settar voru samkvæmt þeim.
    Reglur EES réttar um gjaldþol vátryggingafélaga eru reglur um lágmarkssamræmingu milli löggjafar aðildarríkjanna. Öllum aðildarríkjum ber að lögfesta ákvæðin efnislega innan tilskilins frests, en heimilt er að hafa reglur strangari eða láta þær öðlast gildi fyrr en tilskipunin gerir ráð fyrir.
    Þær tilskipanir sem lagt er að lögfestar verði nú eru tvær:
     1.      Tilskipun 2002/12/EB um breytingar á fyrstu tilskipun um líftryggingar 1979/267/EBE hvað varðar lágmarksgjaldþol líftryggingafélaga.
     2.      Tilskipun 2002/13/EB um breytingar á fyrstu tilskipun um skaðatryggingar 1973/239/ EBE hvað varðar lágmarksgjaldþol skaðatryggingafélaga.
    Breytingar samkvæmt frumvarpinu eru í meginatriðum þrenns konar:
     1.      Lágmarksfjárhæðir 33. gr. laganna eru hækkaðar. Lágmarksgjaldþol skaðatryggingafélags sem stundar almenna vátryggingastarfsemi má að breyttum lögum aldrei vera lægra en 255 millj. kr. (3 milljónir evra). Það er nú um 34 millj. kr. (400 þús. evrur) samkvæmt eldri ákvæðum tilskipana ESB sem staðið hafa óbreytt frá upphafi. Þessi breyting hefur mest áhrif á starfsemi íslenskra vátryggingafélaga af þeim breytingum sem lagt er til að nú verði gerðar og er gert ráð fyrir sérstökum aðlögunartíma vegna hennar. Litlum vátryggingafélögum hefur reyndar farið ört fækkandi á síðastliðnum 10–12 árum, en engu að síður voru þrjú vátryggingafélög undir hinum nýju mörkum við árslok 2001 eins og nánar er gerð grein fyrir í skýringum við ákvæði til bráðabirgða.
     2.      Tekin eru inn í tilskipanirnar bein ákvæði um matsheimildir eftirlitsstjórnvalda og skyldu þeirra til afskipta af málum ef þau telja réttindum vátryggingartaka stefnt í hættu. Ákvæði þessa efnis hafa verið í íslenskri löggjöf, en eru nú komin í tilskipanir EES. Nýju ákvæðin eru ítarlegri en verið hefur.
     3.      Breytingar verða á reglum um gjaldþol og lágmarksgjaldþol þannig að kröfur eru auknar vegna tiltekinna skilgreindra aðstæðna. Meðal annars er krafist aukins gjaldþols vegna ýmissa ábyrgðartrygginga.
    Ákvæði um gjaldþol eru í 29.–33. gr. laga nr. 60/1994. Ákvæði um eftirlit með gjaldþoli eru í 54. gr. laganna og um ráðstafanir vegna ófullnægjandi gjaldþols er fjallað í 90. gr. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á framantöldum greinum. Breytingarnar eru einkum til þess að lögfesta ákvæði hinna nýju tilskipana, en einnig er lagt til að tekin verði óbreytt upp í lögin fáein ákvæði sem voru í reglugerð 494/1997, sem sett var með stoð í 29. gr. laganna. Sú reglugerð verður þá óþörf.
    Lengi hefur legið fyrir að gjaldþolsákvæði Evrópuréttar yrðu endurskoðuð. Fyrir 1990 var unnið að svokölluðum þriðju tilskipunum um vátryggingar, þar sem höfuðatriðið var að koma á sameiginlegum markaði (e. single market) með vátryggingar, eins og fram kom í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/1994. Þær tilskipanir voru birtar árið 1991, en við undirbúning þeirra var rætt um að gjaldþolsákvæðin þyrftu endurskoðunar við þótt ekki ynnist tími til endurskoðunarinnar þá. Vinna við hana hófst á árinu 1994 og hafa íslensk stjórnvöld átt fulltrúa í þeim sérfræðingahópum sem EFTA-ríkin í EES hafa aðgang að á þessu sviði. Ákveðið var að skipta endurskoðuninni í tvo áfanga. Fyrri áfanginn hefur falist í að lagfæra gildandi ákvæði án breytinga á meginefni þeirra og lýkur honum með því að aðildarríkin lögfesti þau ákvæði sem hér er lagt til að tekin verði í íslenska löggjöf. Síðari áfanginn felst í gagnrýnni heildarendurskoðun á gjaldþolsákvæðunum. Gjaldþol skaðatryggingafélags má í meginatriðum ekki vera lægra en 18% af iðgjöldum hvers árs, en stærð félagsins, starfssvið og tjónahlutfall skipta auk þess máli. Lágmarkið er ákvarðað með því að horfa til ákveðinna þátta sem varða vátryggingastarfsemina sjálfa í rekstrarreikningi félagsins. Ekki er tekið beint tillit til fjármálaáhættu með því að sækja mælikvarða í efnahagsreikning og liði utan efnahags, líkt og gert er þegar lágmark eigin fjár lánafyrirtækja er ákveðið. Sú aðferð að láta lágmarksgjaldþol ákvarðast af iðgjöldum og tjónum, án þess að horfa til eignasamsetningar, hefur sætt gagnrýni fyrir að taka ekki tillit til þess að vátryggingafélög kunna að vera misjafnlega áhættusækin í fjármálahluta starfsemi sinnar. Hins vegar gilda ákveðnar reglur um fjárfestingarstefnu eigna sem samsvara vátryggingaskuldinni, sbr. 34. og 35. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Við frekari endurskoðun gjaldþolsreglna er ætlunin að finna sem besta mælikvarða á alla helstu áhættuþætti í vátryggingastarfseminni og gefa þeim eðlilegt vægi þegar lágmarksgjaldþol er ákvarðað. Ein leið að þessu marki gæti verið að taka meira mið af reglum um eigið fé lánastofnana. Önnur leið er farin að hluta í þeim breytingum sem hér eru lagðar til, með því að leggja 50% ofan á iðgjöld og tjón í ábyrgðartryggingum og reikna síðan ákveðið hlutfall þannig breyttrar fjárhæðar. Ábyrgðartryggingar eru meðal þeirra greinaflokka vátrygginga þar sem uppgjör taka hvað lengstan tíma, og verður fjármálaáhætta í þeim mun meiri en í greinaflokkum eins og eignatryggingum, þar sem uppgjör taka venjulega fáeina mánuði. Jafnframt er óvissa um bótafjárhæðir meiri en í greinum þar sem uppgjör taka skamman tíma. Þessi hækkun tekur ekki til ábyrgðartrygginga ökutækja.
    Reglur um lágmarksgjaldþol líftryggingafélaga eru flóknari, en við frekari endurskoðun þeirra verður gengið út frá svipuðum forsendum um mat á áhættu.
    Í Evrópurétti eru sérstakar tilskipanir um líftryggingar og aðrar um skaðatryggingar, þótt mörg ákvæði séu sameiginleg með flokkunum. Sú skipting á sér ekki hefð í íslenskri löggjöf og gilda lög um vátryggingastarfsemi um allar vátryggingar. Gert er ráð fyrir að þeirri skipan verði haldið í breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Í tilskipununum eru fjárhæðir tilgreindar í evrum og er kveðið á um að þær taki breytingum með vísitölu neysluverðs á EES eftir nánar tilgreindum reglum. Lagt er til að sett verði reglugerð um framkvæmd þeirra breytinga.

Um 1. gr.


    Lagt er til að ný grein komi í stað 29. gr. laganna, en í þeirri grein er gjaldþol skilgreint ásamt aðlöguðu gjaldþoli.
    Gjaldþol vátryggingafélags er mælikvarði á fjárhagslegan styrk félagsins. Það er eign félagsins að frádregnum fyrirsjáanlegum skuldum og skuldbindingum, þar á meðal vátryggingaskuld. Gjaldþol getur verið hið sama og eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi, en kveðið er á um ákveðin frávik, sum til lækkunar en önnur sem geta valdið því að gjaldþol verði hærra en eigið fé. Endanlegt mat á gjaldþoli er á hendi Fjármálaeftirlitsins, sem hefur heimild til þess að víkja frá mati félagsins sjálfs eins og það er tilgreint í ársreikningi, sbr. 54. gr.
    Útreikningur á gjaldþoli byggist á allt að 12 liðum sem taldir eru upp í greininni. Fyrstu fimm eru venjulega teknir upp úr eiginfjárhluta ársreiknings en 6.–10. lið má leggja við að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Þar eru annars vegar eignir sem ekki koma fram í efnahagsreikningi og hins vegar tekju- og kostnaðarliðir sem ekki eru færðir á viðkomandi reikningsár við gerð ársreiknings. 11. og 12. liður koma til lækkunar á gjaldþoli. Auk þess er kveðið á um að lækka skuli gjaldþol strax ef fyrirsjáanlegt er að það muni lækka á næstu þremur árum. Það ákvæði hefur verið í reglugerð.
    Efnislegar breytingar sem lagt er til að gerðar verði eru þessar:
    Í 4. tölul., og víðar þar sem settar eru skorður við því hve tilteknir gjaldþolsliðir megi vera mikill hluti gjaldþols, segir nú að miða skuli við það sem lægra er af gjaldþoli og lágmarksgjaldþoli. Þetta nýja ákvæði eykur kröfur til vátryggingafélaga sem ekki uppfylla ákvæði um lágmarksgjaldþol og þurfa að auka eigið fé af þeim sökum.
    Úr 8. tölul. hefur verið felld heimild til þess að telja til gjaldþols duldar eignir vegna ofmats skuldbindinga. Þar með verður óheimilt að telja álag í vátryggingaskuld til gjaldþols. Þessi heimild hefur verið í lögum um vátryggingastarfsemi, en hefur ekki verði notuð.
    Í 12. tölul. er kveðið á um að þótt mat ákveðinna tjóna sé núvirt, þá skuli gjaldþol ekki hækka að sama skapi. Ákvæðið er nýtt. Það veldur ekki breytingum á högum íslenskra vátryggingafélaga, þar eð tjónaskuld hefur ekki verið núvirt í ársreikningum þeirra. Er það í samræmi við reglugerð nr. 613/1996, um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga, þar sem verulegar skorður eru reistar við núvirðingu tjónaskuldar. Þróun í alþjóðlegum umræðum um reikningsskil vátryggingafélaga er hins vegar í átt til þess að núvirða flestar skuldbindingar, þannig að viðbúið er að þær skorður sem verið hafa við núvirðingu tjónaskuldar verði felldar brott á næstu árum. Má líta á ákvæðið sem hliðarráðstöfun til þess að fyrirbyggja að gjaldþolskröfur lækki í reynd við að núvirðing yrði tekin upp sem almenn regla.
    Þau ákvæði sem lagt er til að lögfest verði í þessari grein eru í nýrri 16. gr. tilskipunar 1973/239/EBE, sbr. 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/13/EB, og í nýrri 18. gr. tilskipunar 1973/239/EBE, sbr. 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/12/EB. Í gildandi löggjöf um vátryggingastarfsemi er fjallað um hvernig meta skuli gjaldþolið sjálft í 1. mgr. 29. gr. laga um vátryggingar og í 2. gr. reglugerðar nr. 494/1997.
    Í tilskipununum sem hér er lagt til að verði lögfestar er kveðið á um að þessum ákvæðum megi breyta með ferli sem ESB hefur skilgreint fyrir tæknilegar breytingar á tilskipunum og öðrum gerðum án þess að fara þurfi gegnum allt löggjafarferli Evrópusambandsins (e. comitology, eða nefndaferli). Ákvæði um þetta ferli eru ekki tekin upp í frumvarpið heldur er gert ráð fyrir að lögum um vátryggingastarfsemi verði breytt með venjulegum hætti þegar þar að kemur, þótt tilefnið verði tæknilegar breytingar á tilskipun gegnum nefndaferli.
    Ákvæði um aðlagað gjaldþol eru óbreytt í frumvarpinu frá því sem verið hefur, en þau voru tekin upp í lög um vátryggingastarfsemi með lögum nr. 97/2000, sem sett voru til lögfestingar á tilskipun 1998/78/EB um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í fyrirtækjahópi á vátryggingasviði. Skýringar á þeim ákvæðum eru í þskj. 827, 526. máli 125. löggjafarþings, 1999–2000.

Um 2. gr.


    Í 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi er fjallað um lágmarksgjaldþol skaðatryggingafélaga. Lagt er til að í stað gildandi 30. gr. komi ný grein í samræmi við grein 16 a í tilskipun 1973/239/EBE, sbr. 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/13/EB.
    Eins og áður ræðst lágmarksgjaldþol af hinum hærri af tveimur liðum sem reiknaðir eru hvor fyrir sig, annar út frá iðgjöldum en hinn út frá tjónum. Þriðji liðurinn sem horfa þarf til er lágmarksfjárhæð sem tilgreind er í nýrri 33. gr., sbr. 5. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að eftirtaldar breytingar verði gerðar:
    Kveðið verði á um að nota skuli þá fjárhæð sem hærri er af iðgjöldum ársins og bókfærðum iðgjöldum til þess að reikna lágmarksgjaldþol. Breyting þessi verður til þess að lágmarksgjaldþol vátryggingafélags með vaxandi umsvif getur orðið hærra en eftir eldri reglum, en þá eru bókfærð iðgjöld hærri en iðgjöld ársins, vegna þess að iðgjöld eru greidd fyrir fram.
    Gerðar verði meiri kröfur en áður vegna ábyrgðartrygginga, með þeim hætti að iðgjöld og tjón í 11., 12. og 13. greinaflokki (sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um vátryggingastarfsemi) hækka um 50% þegar lágmarksgjaldþol er reiknað. Iðgjöld og tjón í ábyrgðartryggingum ökutækja sæta þó ekki þessari hækkun.
    Við útreikning á lágmarksgjaldþoli er miðað við lægra hlutfall iðgjalda og tjóna þegar komið er yfir mörk sem tilgreind eru í greininni. Þau mörk eru fimmfölduð frá því sem var í eldri lögum og taka framvegis árlegum breytingum eins og lýst er í nýrri 33. gr., sbr. 5. gr. frumvarpsins.
    Þegar reiknuð er lækkun sem vátryggingafélag nýtur á lágmarksgjaldþoli vegna endurtryggingarverndar sem það kaupir skal horft til þriggja ára í stað eins. Í 54. gr. er samkvæmt frumvarpinu tekin upp heimild til handa eftirlitsstjórnvöldum til þess að draga úr þessari lækkun sé þriggja ára viðmiðunin óeðlileg vegna breytinga sem orðið hafa á endurtryggingarvernd. Þegar ný vátryggingafélög eiga í hlut, eða félög sem breytt hafa starfsemi sinni verulega, og saga viðkomandi vátryggingagreina nær ekki þremur árum er eðlilegt að lækkun vegna endurtrygginga sé byggð á þeirri sögu sem til er og á áætlun skv. 24. gr.
    Ef lágmarksgjaldþol lækkar milli ára skal lækkunin ekki vera meiri en sem nemur lækkun eigin tjónaskuldar. Breyting þessi verður til þess að lágmarksgjaldþol lækkar ekki jafnhratt og iðgjöld þegar dregur úr starfsemi vátryggingafélags, t.d. þegar hætt er að taka við iðgjöldum og félagið einbeitir sér að uppgjöri eldri tjóna.
    Ákvæði um lágmarksgjaldþol vegna sjúkratrygginga sem reknar eru samkvæmt tæknilegum reiknigrundvelli hefur verið í reglugerð, en lagt er til að það verði tekið óbreytt inn í lögin. Lágmarksgjaldþol vegna slíkrar starfsemi er þriðjungur þess sem er í öðrum greinaflokkum.
    Í greininni er heimild til þess að setja reglugerð um hvort og hvernig tekið skuli tillit til hliðarstarfsemi skv. 11. gr. við útreikning á lágmarksgjaldþoli. Hliðarstarfsemi skaðatryggingafélaga, sem heimil er samkvæmt ákvæðum 11. gr., er óveruleg og ekki er tilefni til að ætla að hún leggi fjárhagslegar byrðar á viðkomandi vátryggingafélög.

Um 3. gr.


    Með greininni er tekin upp ný 31. gr. sem fjallar um útreikning á lágmarksgjaldþoli líftryggingafélaga. Það er reiknað fyrir hvern greinaflokk líftrygginga fyrir sig og síðan lagt saman. Greinaflokkar líftrygginga eru taldir upp í 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Þeir eru sex talsins með flokki sem nefnist aðrar líftryggingar og að meðtöldum endurtryggingum líftrygginga. Fylgt er flokkun í líftryggingatilskipunum ESB í öllum meginatriðum.
    Undir 1. greinaflokk falla m.a. hefðbundnar líftryggingar, sem eiga sér langa hefð hjá íslenskum líftryggingafélögum. Lágmarksgjaldþol vegna þeirra ræðst af líftryggingaskuld og samanlögðum líftryggingarfjárhæðum sem líftryggingafélagið ber áhættu af, það er frá líftryggingarfjárhæð sem við andlát yrði greidd vegna hvers líftryggingarsamnings skal draga það sem lagt hefur verið í iðgjaldaskuld vegna þess samnings. Sé sá mismunur neikvæður skal ekki taka viðkomandi samning með þegar lagt er saman. Auk þess er tekið tillit til slysa- og sjúkratrygginga sem kunna að vera hliðaráhætta í líftryggingarsamningnum.
    Lágmarksgjaldþol vegna starfsemi sem fellur undir 2. greinaflokk skal reikna með sama hætti og vegna starfsemi í 1. greinaflokki. Íslensk líftryggingafélög eru ekki með starfsemi sem fellur undir þennan greinaflokk.
    Í 3. greinaflokki eru söfnunarlíftryggingar þar sem viðskiptavinurinn ber að hluta eða öllu leyti þá fjárfestingaráhættu sem samningnum fylgir. Umsvif íslenskra líftryggingafélaga á þessu sviði hafa vaxið hratt síðustu árin, auk þess sem erlend líftryggingafélög hafa selt slíkar tryggingar hérlendis. Lágmarksgjaldþol ræðst af kostnaðarhluta iðgjalda og af þeim tryggingum sem innifaldar eru í samningnum. Í c-lið flokksins er miðað við hlut viðkomandi starfsemi í hreinum rekstrarkostnaði samkvæmt rekstrarreikningi eins og hann er skilgreindur í 8. lið viðauka við reglugerð nr. 612/1996, um ársreikninga líftryggingafélaga.
    Fjórði greinaflokkur inniheldur varanlegar heilsutryggingar án uppsagnarréttar af hálfu líftryggingafélagsins. Lágmarksgjaldþol er samanlagt lágmarksgjaldþol vegna vátryggingaskuldar eins og það væri reiknað í 1. greinaflokki, a-lið, og lágmarksgjaldþol sem reiknað er skv. 30. gr.
    Fimmti flokkur líftrygginga í lögunum nefnist „aðrar líftryggingar“, og inniheldur nokkra flokka sem tilgreindir eru í tilskipun en eru óþekktir á Íslandi og hafa ekki allir sérstök heiti á íslensku. Gert er ráð fyrir reglugerðarheimild til þess að ákvarða lágmarksgjaldþol í þeim greinum. Ekki þarf að setja slíka reglugerð nema líftryggingafélag með starfsleyfi gefið út á Íslandi hefji starfsemi í einhverri þessara greina.
    Sjötti greinaflokkurinn tekur til endurtrygginga líftrygginga sem líftryggingafélög taka að sér. Lagt er til að það ráðist af hverjum endurtryggingarsamningi hvort beitt verði reglum um líftryggingar eða skaðatryggingar til þess að ákvarða lágmarksgjaldþol vegna hans.
    Sjöundi töluliður greinarinnar á sér ekki samsvörun í greinaflokkum líftrygginga, heldur er þar fjallað um það þegar líftryggingafélög stunda starfsemi sem fellur undir greinaflokka skaðatrygginga skv. 22. gr., en starfssvið líftryggingafélaga og skaðatryggingafélaga geta skarast í slysa- og sjúkratryggingum, sbr. 10. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Vegna slíkra samninga er gert ráð fyrir að lágmarksgjaldþol verði reiknað samkvæmt nýjum ákvæðum 30. gr. og lagt við lágmarksgjaldþol eins og það er reiknað vegna líftrygginga. Með þeim hætti er jafnræði með líf- og skaðatryggingafélögum hvað varðar kröfur um fjárhagsstyrk vegna þessarar starfsemi.
    Í greininni er heimild til þess að setja reglugerð um hvort og hvernig tekið skuli tillit til hliðarstarfsemi skv. 11. gr. við útreikning á lágmarksgjaldþoli. Hliðarstarfsemi vátryggingafélaga, sem heimil er skv. 11. gr., er óveruleg og ekki er tilefni til að ætla að hún leggi fjárhagslegar byrðar á viðkomandi vátryggingafélög. Þó getur viðbótartryggingarvernd, samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og starfsemi lífeyrissjóða, fallið undir þessa grein. Líftryggingafélög mega taka við iðgjaldi vegna viðbótartryggingarverndar á grundvelli þeirra laga og getur sú starfsemi flokkast sem hliðarstarfsemi. Form viðkomandi samninga getur verið margvíslegt, en ætla má að hvað áhættu félagsins varðar séu þeir oft hliðstæðir líftryggingarsamningum sem falla undir c-lið 3. tölul. greinarinnar. Verði sett reglugerð um áhrif hliðarstarfsemi á lágmarksgjaldþol þarf að gæta samræmis við líftryggingareksturinn og við hliðstæða þjónustu annarra fjármálafyrirtækja ef um hana er að ræða.

Um 4. gr.


    Lagt er til að 32. gr. verði felld brott, en ákvæði hennar flutt í 90. gr., sbr. 7. gr. frumvarpsins. Greinin fjallar um hvað geri skuli ef gjaldþol vátryggingafélags er ófullnægjandi, en slík ákvæði eiga betur heima í 90. gr. Hingað til hafa að hluta til sömu ákvæði verið í báðum greinum.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að tekin verði upp ný 33. gr., þar sem kveðið verði á um lágmarksfjárhæð gjaldþols, líkt og gert er í gildandi lögum. Lágmarksfjárhæðirnar eiga við óháð því hvaða tölur koma út úr útreikningum skv. 30. og 31. gr., þannig að greinin kveður í reynd á um lágmarksstærð vátryggingafélaga hvað fjárhagsstyrk varðar. Helsta breytingin er, að fjárhæðir eru hækkaðar frá eldri tilskipun. Meginástæða hækkunar er verðlagsbreyting frá því að fjárhæðir voru fyrst ákveðnar, en þær hafa verið óbreyttar allan gildistíma eldri tilskipana.
    Nú eru í tilskipunum ákvæði um að lágmarksfjárhæðir skuli árlega breytast eftir samræmdri vísitölu neysluverðs í aðildarríkjum EES. Hliðstæðar breytingar þarf að gera á fjárhæðum í lögum um vátryggingastarfsemi. Lagt er til að sett verði nánari ákvæði í reglugerð um þetta atriði.
    Ákvæði greinarinnar um heimild til þess að víkja frá meginreglunni um lágmarksfjárhæðir til lækkunar í gagnkvæmu vátryggingafélagi er óbreytt frá gildandi lögum.
    Bætt er inn í lokamálsgrein greinarinnar tilvísun í ákvæði 90. gr. um áætlun um aðgerðir til að ráða bót á ófullnægjandi gjaldþoli.
    Ákvæði um lágmarksfjárhæð gjaldþols fyrir skaðatryggingafélög eru í 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 1973/239/EBE eins og henni var breytt með 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/13/EB. Fyrir líftryggingafélög eru lágmarksfjárhæðirnar í 20. gr. tilskipunar 1979/267/EBE eins og henni var breytt með 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/12/EB.

Um 6. gr.


    Í greininni er lagt til breytt verði 1. mgr. 54. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að Fjármálaeftirlitið skuli kanna gjaldþol vátryggingafélaga. Tekin verði inn í lögin bein heimild eftirlitsstjórnvalda til þess að lækka mat gjaldþolsliða frá mati félagsins sjálfs. Þetta ætti sérstaklega við þegar eignir eru metnar á markaðsverði og markaðsverðið fer lækkandi, en einnig þegar matið er óvisst af öðrum orsökum, t.d. þeim að markaðsverð liggi ekki fyrir. Stjórnvöld hafa til þessa talið slíka heimild felast í gildandi ákvæðum 1. mgr. 54. gr. um að Fjármálaeftirlitið meti hvort ákvæði um gjaldþol séu uppfyllt.
    Samkvæmt hinum breyttu ákvæðum ber Fjármálaeftirlitinu að krefjast áætlunar um fjárhagslega endurreisn vátryggingafélags ef réttindi vátryggingartaka eru í hættu, jafnvel þótt gjaldþol félagsins sé enn ekki komið niður fyrir lágmark skv. 30. og 31. gr. Ákvæði um efni slíkrar áætlunar er lagt til að verði tekið upp í 90. gr. laganna. Þetta er strangara ákvæði en var í eldri tilskipunum, en vísir að því hefur verið í íslenskum rétti í reglugerð 494/1997. Þar segir í 13. tölul. 2. gr. að færa skuli gjaldþol niður ef horfur séu á að það verði einhvern tíman á næstu þremur árum lægra en á þeim tíma sem matið að öðru leyti miðast við.
    Þá er kveðið á um að stjórnvöld geti dregið úr því vægi sem endurtryggingarvernd hefur til lækkunar á lágmarksgjaldþoli. Þetta á einkum við ef breytingar hafa orðið á endurtryggingarvernd og er þá gert ráð fyrir að minni lækkun miðist við hina nýju skipan. Einnig má draga úr vægi endurtryggingarverndar ef endurtryggingarnar eru fjárhagslegs eðlis frekar en að þær veiti hefðbundna vernd gegn vátryggingaratburðum.
    Þær breytingar á tilskipunum í EES-samningnum sem lagt er til að lögfestar verði innihalda ítarlegri ákvæði en áður um þetta mat eftirlitsstjórnvalda. Í fyrstu tilskipun um skaðatryggingar er bætt nýrri grein, 20 a, þar sem kveðið er á um þetta mat. Samsvarandi ný grein í fyrstu tilskipun um líftryggingar er 24 a. Lagt er til að þessar greinar tilskipananna verði lögfestar í tveimur greinum, 54. gr., þar sem kveðið er á um eftirlit, og 90. gr., þar sem fjallað er um sérstakar ráðstafanir.

Um 7. gr.


    Lagt er til að tekin verði upp ný 90. gr. sem innihaldi m.a. ákvæði sem flutt eru úr 32. gr. sem fellur brott samkvæmt frumvarpinu.
    Sérstök ákvæði um efni áætlunar þegar gjaldþol starfandi vátryggingafélags verður ófullnægjandi eru nýmæli, en í gildandi lögum er fjallað um áætlun um starfsemi vátryggingafélags í II. kafla um stofnun vátryggingafélags, sbr. 24. gr. gildandi laga. Þau ákvæði sem hér er lagt til að tekin verði í lögin í samræmi við breytt ákvæði í tilskipunum Evrópuréttarins eru hliðstæð ákvæðunum í 24. gr. en áherslur eru aðrar. Einnig er lagt til að innleiddar verði takmarkanir á starfsemi félags sem starfar eftir slíkri áætlun. Þær takmarkanir gilda um allar ráðstafanir sem gerðar eru á grundvelli þessarar greinar.
    Í 4. mgr. er fjallað um vanmat á vátryggingaskuld. Einn liðurinn í eftirliti Fjármálaeftirlitsins með vátryggingafélögum er að leggja mat á vátryggingaskuldina, eins og lýst er í 2. mgr. nýrrar 54. gr. laganna samkvæmt frumvarpinu. Sé hún talin vanmetin, t.d. vegna þess að óuppgerð tjón séu vanáætluð, hefur það þau áhrif að eigið fé viðkomandi vátryggingafélags er í ársreikningi talið hærra en tilefni er til. Við þessar aðstæður er eðlilegt að Fjármálaeftirlitið lækki eiginfjárliði um fjárhæð sem nemur vanmatinu og lækkar þá gjaldþol að sama skapi.

Um 8. gr.


    Lagt er til að nýtt ákvæði til bráðabirgða komi í stað þess sem fyrir var í lögunum og hefur nú runnið sitt skeið. Annars vegar verði kveðið á um aðlögunartíma vegna hertra ákvæða í 33. gr. og hins vegar að einn liður nýrrar 29. gr falli brott að tilteknum tíma liðnum.
    Í tilskipunum þeim sem lagt er til að lögfestar verði er kveðið á um að breytingar á þeim þurfi ekki að koma til framkvæmda fyrr en að nokkrum árum liðnum. Sú leið er ekki talin heppileg í íslenskri löggjöf. Upp gæti komið staða þar sem stjórnvöldum væri ekki unnt að bregðast við óheillaþróun í málum vátryggingafélags vegna þess að eldri og vægari ákvæði væru enn í gildi. Lagt er til að breytingarnar öðlist gildi strax, en aðlögunartími verði veittur varðandi breytingar á lágmarksfjárhæðum í 33. gr. Aðlögunartíma er ekki talin þörf varðandi önnur ákvæði.
    Lágmarksfjárhæðir í 33. gr. laganna, sem hækkaðar eru skv. 5. gr. frumvarpsins, fela í reynd í sér kröfu um lágmark fjárhagslegs styrks vátryggingafélaga. Nokkur íslensk vátryggingafélög eru undir hinum nýju mörkum miðað við eigið fé þeirra við árslok 2001. Trygging hf., Vörður – vátryggingafélag og Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta þurfa að nýta aðlögunartímann til þess að auka eigið fé sitt eða til þess að leita leiða til sameiningar við önnur félög ef þau hyggjast starfa áfram eftir að aðlögunartími laganna er liðinn. Fimm önnur vátryggingafélög hafa það lítil umsvif að lágmarksgjaldþol þeirra gæti ráðist af nýjum ákvæðum 33. gr., sbr. 5. gr. frumvarpsins, en þau eiga nægilegt eigið fé til þess að uppfylla þær kröfur. Þau þrjú líftryggingafélög sem nú starfa falla öll í þann flokk (Alþjóða líftryggingafélagið hf., Líftryggingafélag Íslands hf. og Sameinaða líftryggingafélagið hf.), svo og Íslensk endurtrygging hf. og Viðlagatrygging Íslands. Lagabreytingarnar hafa ekki mikil áhrif á stóru almennu vátryggingafélögin þrjú, Sjóvá – Almennar tryggingar hf., Tryggingamiðstöðina hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., þótt gjaldþolshlutfall þeirra muni breytast, væntanlega til lækkunar, vegna þess að ákvæði um lágmarksgjaldþol verða strangari en áður.
    Bráðabirgðaákvæði um að einn liður 29. gr. skuli falla brott við árslok 2009 er úr tilskipuninni.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1994,
um vátryggingastafsemi, með síðari breytingum.

     Frumvarpið fjallar um starfsskilyrði vátryggingafélaga á Íslandi og innleiðir tilskipanir Evrópusambandsins nr. 2002/12/EB og 2002/13/EB hvað varðar lágmarksgjaldþol líftrygginga og skaðatrygginga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.