Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 724  —  454. mál.




Frumvarp til laga



um rafeyrisfyrirtæki.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um rafeyrisfyrirtæki. Með rafeyrisfyrirtæki er átt við lögpersónu, aðra en viðskiptabanka eða sparisjóði samkvæmt lögum nr. 113/1996 eða lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði samkvæmt lögum nr. 123/1993, sem gefur út greiðslumiðil í formi rafeyris.
    Með rafeyri er átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda, sem eru geymd á rafrænum miðli og gefin út í skiptum fyrir fjárhæð, sem er ekki lægri en hin útgefnu peningalegu verðmæti, og samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda.

2. gr.
Takmarkanir á gildissviði.

    Viðskiptaráðherra er heimilt að undanþiggja rafeyrisfyrirtæki frá einstökum eða öllum ákvæðum laga þessara ef að hámarki er unnt að geyma 6.000 kr. á hinum rafræna miðli og einu af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     1.      rafeyrir, sem fyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá dótturfyrirtækjum fyrirtækisins, hjá móðurfyrirtæki fyrirtækisins eða hjá öðrum dótturfyrirtækjum móðurfyrirtækisins, eða
     2.      rafeyrir, sem rafeyrisfyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá takmörkuðum fjölda fyrirtækja sem augljóslega má afmarka þar sem þau eru öll á sama athafnasvæði eða öðru afmörkuðu svæði á athafnasvæði rafeyrisfyrirtækis eða eru í nánum fjárhagslegum eða viðskiptalegum tengslum.
    Rafeyrisfyrirtæki sem fellur undir 1. mgr. skal árlega skila skýrslu um starfsemi sína til Fjármálaeftirlitsins eftir nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur, þar sem fram skulu m.a. koma upplýsingar um heildarfjárhæð skuldbindinga vegna óinnleysts rafeyris. Skýrslunni skal skilað fyrir 1. apríl ár hvert.

3. gr.
Stofnun.

    Rafeyrisfyrirtæki skal vera hlutafélag.
    Rafeyrisfyrirtæki verður ekki stofnað með lægra hlutafé en 90 millj. kr. Þó má hlutafé aldrei nema lægri fjárhæð en jafngildi einnar milljónar evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

4. gr.
Starfsleyfi.

    Ákvæði 4. og 5. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði gilda um starfsleyfi innlends rafeyrisfyrirtækis vegna starfsemi hér á landi. Þá gilda 82. og 83. gr. sömu laga um útgáfu rafeyris hjá rafeyrisfyrirtæki með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur starfsemi hér á landi. Loks gilda 86. og 87. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði um útgáfu rafeyris hjá innlendu rafeyrisfyrirtæki á hinu Evrópska efnahagssvæði. Um heimildir erlends rafeyrisfyrirtækis með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins fer skv. 2. mgr. 85. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Ákvæði III. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði gilda um synjun umsóknar um starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er erlendu rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu hér á landi einungis heimilt að gefa út rafeyri. Sama gildir um innlent rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu erlendis.
    

5. gr.
Starfsemi.

    Rafeyrisfyrirtækjum, viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum er einum heimilt að gefa út rafeyri.
    Önnur starfsemi rafeyrisfyrirtækis en útgáfa rafeyris skal takmörkuð við:
     1.      náskylda fjármálaþjónustu eða aðra þjónustu, svo sem umsýslu rafeyris með því að annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengjast útgáfu hans og útgáfu og umsýslu annarra greiðslumiðla, að undanskilinni hvers konar lánveitingu, og
     2.      geymslu gagna frá fyrirtækjum eða hinu opinbera á hinum rafræna miðli sem rafeyrir er geymdur á.
    Rafeyrisfyrirtæki má ekki eiga hlut í öðrum fyrirtækjum nema þau annist rekstrarþætti sem tengjast rafeyri sem viðkomandi rafeyrisfyrirtæki gefur út eða dreifir.

6. gr.
Endurgreiðanleiki rafeyris.

    Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds en þess sem er nauðsynlegt til að framkvæma þá aðgerð.
    Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
    Í samningum skv. 2. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en samsvarar 500 kr.


7. gr.
Eiginfjárkröfur.

    Eigið fé rafeyrisfyrirtækis skal ávallt vera að lágmarki 90 millj. kr. Þó má eigið fé rafeyrisfyrirtækis aldrei nema lægri fjárhæð en jafngildi einnar milljónar evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Um útreikning eigin fjár rafeyrisfyrirtækja fer skv. 54. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal rafeyrisfyrirtæki ávallt hafa yfir að ráða fé sem er að minnsta kosti 2% af því sem hærra er:
     1.      fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
     2.      meðalfjárskuldbindingum næstliðinna sex mánaða vegna útistandandi rafeyris.
    Hafi rafeyrisfyrirtæki ekki starfað í sex mánuði skal eigið fé þess vera að minnsta kosti 2% af því sem hærra er:
     1.      fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
     2.      heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar hennar vegna útistandandi rafeyris. Heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar viðkomandi fyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal koma fram í viðskiptaáætlun fyrirtækisins með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem Fjármálaeftirlitið kann að hafa óskað eftir.
    Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.


8. gr.
Traustur og varfærinn rekstur.

    Rafeyrisfyrirtæki skal hafa fullnægjandi innra eftirlitskerfi. Kerfið skal vera í samræmi við fjárhagslega áhættu og aðra áhættu sem rafeyrisfyrirtæki er búin. Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi rafeyrisfyrirtækja.
    Um framkvæmdastjóra og stjórnarmenn rafeyrisfyrirtækis gildir 38. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.


9. gr.
Takmörkun fjárfestinga.

    Fjárfestingar rafeyrisfyrirtækis skulu að minnsta kosti samsvara fjárskuldbindingum þess vegna útistandandi rafeyris. Rafeyrisfyrirtæki er aðeins heimilt að fjárfesta í seljanlegum eignum eða kröfum samkvæmt reglugerð sem viðskiptaráðherra setur um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja. Í reglugerðinni skal m.a. koma fram í hvaða eignum og kröfum rafeyrisfyrirtæki getur fjárfest, mat á verðmæti eigna, takmarkanir á markaðsáhættu og hámark fjárfestinga.
    Ef verðgildi eigna eða krafna skv. 1. mgr. fer niður fyrir fjárhæð skuldbindinga rafeyrisfyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal Fjármálaeftirlitið sjá til þess að viðkomandi rafeyrisfyrirtæki geri án tafar viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því ástandi.
    Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.


10. gr.
Ársreikningar.

    Um ársreikninga og endurskoðun rafeyrisfyrirtækis fer skv. VII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði, að undanskilinni 65. gr. laganna, eftir því sem við getur átt.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um ársreikninga og endurskoðun rafeyrisfyrirtækja.

11. gr.
Samruni.

    Samruni rafeyrisfyrirtækis við viðskiptabanka, sparisjóð eða annað rafeyrisfyrirtæki er því aðeins heimill að ákvörðun þar að lútandi hafi hlotið samþykki minnst 2/ 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda viðkomandi stofnana sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum að fengnu samþykki ráðherra og umsögn Fjármálaeftirlitsins. Um slíkan samruna gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt og samningar hlutaðeigandi aðila.

12. gr.
Meðferð trúnaðarupplýsinga og virkir eignarhlutir.

    Um meðferð trúnaðarupplýsinga í tengslum við rafeyrisfyrirtæki gilda ákvæði 43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði 10.–13. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði gilda um virka eignarhluti í rafeyrisfyrirtækjum.

13. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

    Ráðherra getur afturkallað starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins:
     1.      Hafi hlutaðeigandi fyrirtæki fengið starfsleyfið á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
     2.      uppfylli hlutaðeigandi fyrirtæki ekki ákvæði 3. gr. um stofnfé eða 7. gr. um eigið fé,
     3.      nýti hlutaðeigandi fyrirtæki ekki starfsleyfi innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
     4.      brjóti hlutaðeigandi fyrirtæki með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, eða
     5.      séu aðstæður með þeim hætti sem greinir í 7. mgr. 10. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóða um hæfi hluthafa eða 38. gr. sömu laga um hæfi stjórnarmanna og stjórnenda.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal hlutaðeigandi fyrirtæki veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.
    Uppfylli rafeyrisfyrirtæki ekki skilyrði 7. gr. um eigið fé skal ráðherra afturkalla starfsleyfi hlutaðeigandi fyrirtækis að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, enda hafi eigið fé ekki verið fært í lögmælt horf innan þeirra tímamarka sem Fjármálaeftirlit ákveður.

14. gr.
Tilkynning um afturköllun starfsleyfis.

    Afturköllun á starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis skal tilkynnt stjórn eða framkvæmdastjóra og rökstudd skriflega. Tilkynning um afturköllun skal birt í Lögbirtingablaði og auglýst í fjölmiðlum. Starfræki hlutaðeigandi fyrirtæki útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki um afturköllunina.
    Komi til afturköllunar á starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis skal hlutaðeigandi fyrirtæki slitið.

15. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, svo og starfsemi innlendra rafeyrisfyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í rafeyrisfyrirtæki í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 12. gr. laga þessara, sbr. 10. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut.
    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
    Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

16. gr.
Viðurlög.

    Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða fangelsi allt að tveimur árum liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.


17. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001 og 45/2001 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til þess að taka upp í innlendan rétt annars vegar ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana og hins vegar ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.

18. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

19. gr.

Breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Við 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum, bætist nýr töluliður, 3. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: Rafeyrisfyrirtæki, skv. 1. og 2. gr. laga um rafeyrisfyrirtæki.

20. gr.
Breytingar á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum, orðast svo: Viðskiptabankar, sparisjóðir, rafeyrisfyrirtæki og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir skulu greiða 0,0101% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Lágmarksgreiðsla rafeyrisfyrirtækja skv. 2. gr. laga um rafeyrisfyrirtæki er þó 150.000 kr.

21. gr.
Breytingar á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.

    Á eftir 3. mgr. 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, með síðari breytingum, koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Viðtaka fjár í skiptum fyrir rafeyri telst ekki innlán eða annað endurgreiðanlegt fé ef fénu, sem tekið er við, er strax skipt í rafeyri. Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds. Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
    Í samningum skv. 4. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en samsvarar 500 kr.
    

22. gr.
Breytingar á lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

    Á eftir 2. mgr. 8. gr. laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 123/1993, koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds. Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
    Í samningum skv. 3. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en samsvarar 500 kr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Nú gefur fyrirtæki út rafeyri í samræmi við gildandi lög við gildistöku laga þessara og skal þá litið svo á að það hafi starfsleyfi skv. 4. gr. laganna.
    Innan tveggja mánaða frá gildistöku laganna skal fyrirtæki skv. 1. mgr. afhenda Fjármálaeftirlitinu áætlun um hvernig það hyggst uppfylla skilyrði laganna innan sex mánaða frá gildistöku þeirra eða hvernig það hyggst slíta fyrirtækinu innan sömu tímamarka. Fyrirtæki skal einnig veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta hvort það uppfylli eða muni uppfylla skilyrði laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.

    Hinn 30. mars 2001 tók sameiginlega EES-nefndin ákvörðun nr. 45/2001 um að breyta IX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim (hér eftir nefnd tilskipunin). Hinn sama dag tók sameiginlega EES-nefndin ákvörðun nr. 44/2001 um að breyta IX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana. Ákvarðanirnar voru teknar með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Samkvæmt 103. gr. EES-samningsins hefur Ísland sex mánuði, frá framangreindri ákvörðun, til að tilkynna um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara. Með þingsályktun, dags. 11. maí 2001, ályktaði Alþingi að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ofangreindar tilskipanir skulu innleiddar í íslenskan rétt fyrir 27. apríl 2002. Í frumvarpi þessu er gerð tillaga að innleiðingu tilskipananna í íslenskan rétt.
    Tilskipun 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim fjallar um rafeyrisfyrirtæki, þ.e. tilteknar lögpersónur sem hafa með höndum útgáfu og umsýslu með rafeyri. Í tilskipuninni er meðal annars kveðið á um heimildir til útgáfu rafeyris, lágmarkskröfur um eigið fé rafeyrisfyrirtækja, fjárfestingarstefnu þeirra og eftirlit með þeim.
    Tilskipun 2000/28/EB frá 18. september 2000 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana fjallar um rafeyrisfyrirtæki og mælir fyrir um að slík fyrirtæki skuli skilgreind sem lánastofnanir í skilningi síðarnefndrar tilskipunar. Slíkt gerir að verkum að rafeyrisfyrirtæki getur stundað starfsemi sína hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Viðskiptaráðherra skipaði nefnd 2. mars 1999 til þess að fjalla um rafeyri og greiðslukortastarfsemi. Nefndinni var falið að vinna að mótun reglna um útgáfu rafeyris, m.a. með hliðsjón af fyrirhugaðri tilskipun ESB. Þá skyldi nefndin meta hvort þörf væri á sérstakri löggjöf um greiðslukortastarfsemi. Í nefndina voru skipuð fulltrúar Seðlabanka Íslands, Samkeppnisstofnunar, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Sambands íslenskra viðskiptabanka, Samtaka verslunarinnar, Neytendasamtakanna, Kreditkorts hf., Sambands íslenskra sparisjóða og Samtaka verslunar og þjónustu. Nefndin skilaði af sér hinn 14. nóvember 2000.
    Í janúar 2001 fól viðskiptaráðherra nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög á sviði fjármagnsmarkaðar (bankalaganefnd) að gera tillögu að innleiðingu tilskipunarinnar. Frumvarp þetta var unnið í ráðuneytinu í samráði við bankalaganefnd. Nefndin mun leggja til að ákvæði um rafeyrisfyrirtæki verði hluti af frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki sem fyrirhugað er að leggja fram á næsta löggjafarþingi.
    Í frumvarpinu er kveðið á um það að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja. Styðst það við 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. V. bálk tilskipunar 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana. Þörfin á eftirliti er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, sbr. 3. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði fyrir auknum kostnaði vegna eftirlitsins, þar sem lagt er til að þau fyrirtæki sem eru undir eftirlitinu standi undir kostnaðinum, sbr. 19. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði tilskipunarinnar eru flest innleidd án mikilla orðalagsbreytinga. Ekki hefur verið talið að gera þurfi breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993, þar sem talið er að þau lög nái yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna.
    

II. Almennt um rafeyri.

1. Inngangur.
    Rafræn greiðslumiðlun hefur tekið miklum framförum undanfarin ár. Þetta er víðtækt hugtak og spannar ýmsa greiðslumiðla og greiðslutæki. Sem dæmi veitir debetkort korthafa aðgang að reikningi í banka, meðal annars til að skuldfæra á hann eða færa inn á annan reikning í gegnum hraðbanka eða heimabanka. Engir fjármunir eru í sjálfu debetkortinu. En það veitir heimild til úttektar af reikningum sem kortið er tengt. Síðan hefur komið fram greiðslumiðill sem hægt er að hlaða með ígildi peninga, svonefndur rafeyrir, og nota til greiðslu án frekari tengingar við bankareikning, annaðhvort með því að taka út í útstöð hjá seljanda eða senda hleðsluna um tölvunet.

2. Hvað er rafeyrir?
    Með rafeyri (e. electronic money) er átt við talnarunur sem geymdar eru í tölvuskrá og hafa í sér fólgin loforð útgefanda um að greiða þær við framvísun. Sem talnaruna geymd í tölvuskrá er rafeyrir í eðli sínu afritanlegur, en yfirleitt virðist ætlast til þess að kortið, tækið eða tölvan sem rafeyririnn er geymdur í hafi í sér öryggisbúnað eða forrit sem komi í veg fyrir misnotkun. Greiðslu með rafeyri er einfaldast að hugsa sér þannig að greiðandi afhendi viðtakanda skrá með talnarunum. Þá er unnt að greiða út hluta af þeim rafeyri sem til staðar er.
    Líta má á rafeyri sem örugga greiðslu frá sjónarhóli þess sem tekur við honum, þar sem ekki er unnt að vísa á eða greiða meira en örugglega hefur verið lagt til hliðar hjá útgefanda. Að því tilskildu að búnaður sé í lagi má því líta á rafeyri og tækin sem halda utan um hann sem örugga reikninga með takmarkaðri innstæðu eða eins konar rafrænar bankaávísanir. Þess vegna ætti að mega treysta greiðslum í rafeyri. Enda verður að gera ráð fyrir að útgefandi rafeyris beri skilyrðislausa ábyrgð á rétt mótteknum rafeyri. Þessir eiginleikar gera rafeyri einkar hentugan í ótengdum (e. off-line) viðskiptum.
    Rafeyrir er greiðslumiðill, sem svipar til debet- og kreditkorta, þar sem örgjörvi er notaður. Örgjörvanum er stundum komið fyrir á debet- eða kreditkorti, og er kortið þá rafeyris- og debet- eða kreditkort í senn. Hlaða má t.d. rafeyri, ígildi peninga, inn á örgjörva korts. Rafeyrinn má síðan nota til greiðslu, þannig að tekið er smám saman út sú fjárhæð sem er inni á kortinu hverju sinni. Rafeyriskort eru ólík debet- og kreditkortum að því leyti að þeirri fjárhæð sem er til ráðstöfunar er hlaðið inn á sjálft kortið.

3. Opið og lokað rafeyriskerfi.
    Rafeyrir er annaðhvort í opnu eða lokuðu kerfi. Einfaldast er lokað kerfi, þar sem útgefandi rafeyris og seljandi vöru og þjónustu er einn og hinn sami. Má nefna símakort útgefin af símafyrirtækjum og hótelum sem fá greiðslur í gegnum eigið rafeyriskort. Engin þörf er á greiðslujöfnun í lokuðu kerfi, og oft eru þar gerðar minni öryggiskröfur en ella, bæði til seljanda þjónustunnar og handhafa rafeyris. Bókhald vegna rafeyris í lokuðu kerfi, t.d. vegna síma- og bílastæðakorta, er mun einfaldara en gagnvart forhlöðnum rafeyri, þar sem einungis þarf að sinna sölu hans.
    Í opnu kerfi eru margir innbyrðis ótengdir rafeyrismóttakendur, svo og seljendur vöru og þjónustu. Þörf er á skipulögðu greiðslujöfnunarkerfi og áreiðanlegu öryggiskerfi sem tryggir að ávallt sé til innstæða fyrir þeirri fjárhæð sem kortin eru t.a.m. hlaðin með. Kostir opinna kerfa eru þeir helstir að sá sem þjónustu veitir á að geta treyst greiðslu sem innt er af hendi með rafeyri, og korthafi á aðeins að þurfa eitt kort til notkunar hjá mörgum sem þjónustu veita. Í opnu kerfi kemur því til skjalanna aukin þörf fyrir eftirlit og kröfur um fjárhagsstöðu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæði 1. mgr. mælir fyrir um gildissvið frumvarpsins og skilgreiningu á rafeyrisfyrirtæki. Það styðst við a-lið 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Viðskiptabankar og sparisjóðir falla utan skilgreiningarinnar um rafeyrisfyrirtæki. Þeir hafa þó heimild til að gefa út rafeyri, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996. Hins vegar fjalla lögin um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996 um eigið fé þeirra og önnur atriði sem frumvarp þetta mælir fyrir um að gilda skuli um rafeyrisfyrirtæki. Því er óþarft að viðskiptabankar og sparisjóðir falli undir skilgreiningu um rafeyrisfyrirtæki í frumvarpi þessu. Á sama hátt falla lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir samkvæmt lögum nr. 123/1993 utan skilgreiningarinnar. Rafeyrisstofnanir teljast lánastofnanir í skilningi tilskipunar 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.
    Í 2. mgr. er rafeyrir skilgreindur. Ákvæðið styðst við b-lið 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Unnt er að líta á rafeyri sem rafrænan staðgengil peningaseðla og mynta, sem eru geymd á rafrænum miðli, t.d. smartkorti eða tölvuminni, og sem ætlað er til rafrænnar greiðslu lágrar fjárhæðar. Það er skilgreiningaratriði að rafeyrir sé samþykktur sem greiðslumiðill hjá öðrum en útgefanda. Því teljast t.d. símakort sem gefin eru út af fjarskiptafyrirtækjum og einungis er unnt að nota í símtækjum á þeirra vegum ekki til rafeyris.

Um 2. gr.

    Ákvæðið styðst við 1. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar. Lagt er til að viðskiptaráðherra verði heimilt að undanþiggja tiltekin rafeyrisfyrirtæki frá ákvæðum frumvarpsins. Sem dæmi um náin fjárhagsleg eða viðskiptaleg tengsl í 3. tölul. 1. mgr. má nefna sameiginlega markaðssetningu eða dreifingu.
    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar skulu þau rafeyrisfyrirtæki sem veitt er undanþága frá tilskipuninni og þar með ákvæðum frumvarpsins skila reglubundið skýrslu um starfsemi sína. Ákvæði þetta er innleitt í 2. mgr.

Um 3. gr.

    Lagt er til í 1. mgr. að rafeyrisfyrirtæki skuli vera hlutafélag.
    Ákvæði 2. mgr. styðst við 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar og mælir fyrir um að hlutafé rafeyrisfyrirtækis við stofnun skuli ekki vera undir 90 millj. kr. Þá megi hlutafé aldrei nema lægri fjárhæð en jafngildi einnar milljónar evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Ákvæðið miðar að því að tryggja að rafeyrisfyrirtækjum verði unnt að standa við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum rafeyris og þeim sem samþykkja rafeyri sem greiðsluhátt.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði gildi um starfsleyfi innlendra rafeyrisfyrirtækja vegna starfsemi þeirra hér á landi og á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er lagt til að ákvæði sömu laga eigi við um útgáfu rafeyris hjá erlendum rafeyrisfyrirtækjum hér á landi. Með ákvæðum þessum er tryggt að rafeyrisfyrirtæki geti gefið út rafeyri á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þau hafa fengið starfsleyfi í einu aðildarríkjanna. Ákvæðið styðst við 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði III. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, gildi um rafeyrisfyrirtæki. Ákvæðið styðst við 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. II. bálk tilskipunar nr. 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.
    Ákvæði 3. mgr. gerir tillögu að innleiðingu 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar.
    

Um 5. gr.

    Ákvæði 1. mgr. styðst við 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og mælir fyrir um einkarétt rafeyrisfyrirtækja til að gefa út rafeyri. Einnig er mælt fyrir um einkarétt viðskiptabanka og sparisjóða samkvæmt lögum nr. 113/1996 til að gefa út rafeyri og lánastofnana sem falla undir lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
    Ákvæði 2. mgr. styðjast við a- og b-lið 5. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og mæla fyrir um þá starfsemi sem rafeyrisfyrirtæki mega hafa með höndum. Sem dæmi um náskylda fjármála- eða aðra þjónustu í 1. tölul. má nefna útgáfu og umsjón með öðrum greiðslumiðlum.
    Ákvæði 3. mgr. er ætlað að tryggja að rafeyrisfyrirtæki komi ekki óbeint að rekstri eða áhættu í tengslum við fyrirtæki sem hefur með höndum starfsemi sem fellur ekki undir 2. mgr.

Um 6. gr.

    Greinin styðst við 3. gr. tilskipunarinnar. Í henni er mælt fyrir um að handhafi rafeyris geti innleyst rafeyri sinn á gildistíma hans. Skilyrði innlausnar skulu tilgreind með skýrum hætti í samningi milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris. Ekki má taka hærri þóknun fyrir innlausn en nemur sannanlegum kostnaði. Ákvæði greinarinnar gilda einnig um aðra útgefendur rafeyris, sbr. 20. og 21. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Greinin styðst við 2. og 3. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Kröfu um eigið fé er ætlað að tryggja bæði handhafa og viðtakanda rafeyris að rafeyrisfyrirtækið sé nægilega greiðslufært til að uppfylla skyldur sínar á hverjum tíma. Eigið fé er skilgreint með sama hætti og gert er í 54. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996. Ákvæðið tengist þannig 9. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 4. mgr. styðst við 6. gr. tilskipunarinnar. Það á að tryggja að Fjármálaeftirlitið fái upplýsingar um eigið fé rafeyrisfyrirtækja svo að því sé unnt að fylgjast með hvort rafeyrisfyrirtæki uppfylli ákvæði frumvarpsins um eigið fé.

Um 8. gr.

    Ákvæði greinarinnar styðjast við 7. gr. tilskipunarinnar.

Um 9. gr.

    Ákvæði 9. gr. hafa að geyma tillögur að innleiðingu 5. gr. tilskipunarinnar. Þeim er ætlað að tryggja að rafeyrisfyrirtæki geti ætíð uppfyllt skyldu sína um innlausn. Ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar er nokkru ítarlegra en frumvarpsgreinin. Lagt er til að hún verði að öðru leyti innleidd með reglugerð.

Um 10. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að ákvæði VII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, gildi um rafeyrisfyrirtæki. Þannig er gerð tillaga að innleiðingu 7. gr. tilskipunarinnar og 1. mgr. 2. gr. hennar, sbr. 17. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana. Lög um ársreikninga, nr. 144/1994, munu og gilda um rafeyrisfyrirtæki þar sem þau gilda um öll hlutafélög, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Um 11. gr.

    Greinin svarar til 72. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996.

Um 12. gr.

    Ákvæði greinarinnar um þagnarskyldu gera ráð fyrir að sömu reglur gildi á þeim sviðum og að því er varðar viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæðin um virka eignarhluti gera tillögu að innleiðingu á 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1.–6. mgr. 16. gr. tilskipunar 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.

Um 13. gr.

    Ákvæði greinarinnar um afturköllun gera tillögu að innleiðingu 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. 14. gr. tilskipunar nr. 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana. Höfð hefur verið hliðsjón af 90. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, við samningu ákvæðisins.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um tilkynningar um afturköllun starfsleyfis, annars vegar til stjórnar eða framkvæmdastjórnar og hins vegar til almennings.
    Í 2. mgr. er lagt til að hlutaðeigandi fyrirtæki skuli slitið ef starfsleyfi þess er afturkallað.

Um 15. gr.

    Í 2. gr. tilskipunarinnar kemur fram að tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana eigi við um rafeyrisfyrirtæki. Í 26. gr. síðarnefndu tilskipunarinnar kemur fram að hafa skuli eftirlit með slíkum stofnunum. Því er kveðið á um það í 15. gr. hvernig því eftirliti verður háttað. Höfð var hliðsjón af sambærilegum ákvæðum í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Vakin er athygli á að lög um eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gilda um eftirlit Fjármálaeftirlitsins að öðru leyti en því sem segir í frumvarpinu. Í IV. kafla laganna er mælt fyrir um þagnarskyldu eftirlitsaðila og er það innleiðing á 30. gr. tilskipunar 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana, sbr. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar.

Um 16. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um viðurlög sem eru hin sömu og kveðið er á um í 101. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996.

Um 17. gr.

    Greinin tilgreinir hvaða tilskipanir liggja að baki frumvarpinu og styðst við 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Greinin miðar að því að skýra að rafeyrisfyrirtæki verði undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Gildir það jafnt um rafeyrisfyrirtæki skv. 1. sem 2. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.

    Þar sem rafeyrisfyrirtæki eru undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins er rétt að þau taki þátt í greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þar sem þau teljast til lánastofnana samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins, eins og viðskiptabankar, sparisjóðir og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir, er talið skynsamlegt að skipa þeim í flokk með þeim fyrirtækjum.

Um 21. gr.

    Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, er viðskiptabönkum og sparisjóðum heimilt að sjá um útgáfu og umsýslu greiðslumiðla. Því verður að telja að þeim sé þegar heimilt að gefa út rafeyri.
    Ákvæði 1. mgr. um að viðtaka rafeyris teljist ekki innlán að nánari skilyrðum fullnægðum styðst við 3. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Einungis er þörf á að innleiða það ákvæði í tengslum við viðskiptabanka og sparisjóði, þar sem þeir eru einu fjármálafyrirtækin sem hafa heimildir til að taka við innlánum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996.
    Ákvæði greinarinnar um innlausn styðjast við 3. gr. tilskipunarinnar, sem gildir um alla útgefendur rafeyris, óháð því hvort þeir teljist rafeyrisfyrirtæki.

Um 22. gr.

    Um skýringar á greininni vísast til athugasemda við 21. gr. frumvarpsins.


Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið styðst við 9. gr. tilskipunarinnar og þarfnast ekki frekari skýringa.




Fylgiskjal I.



TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/46/EB

frá 18. september 2000

um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málslið 2. mgr. 47. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 3 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Lánastofnanir, í skilningi b-liðar fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB ( 5 ), hafa takmarkað starfssvið.

     2)      Taka þarf tillit til séreinkenna þessara stofnana og kveða á um viðeigandi og nauðsynlegar ráðstafanir til að samræma og samhæfa lög aðildarríkjanna um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.

     3)      Að því er varðar þessa tilskipun er rafeyrir rafrænn staðgengill fyrir mynt og peningaseðla sem er geymdur í rafrænum búnaði, eins og á gjörvakortum eða í tölvuminni, og er að jafnaði ætlaður til rafrænnar greiðslu lágra fjárhæða.

     4)      Aðferðin, sem valin var, hentar til að ná einmitt þeirri grunnsamhæfingu sem þarf og nægir til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á (starfs)leyfum og eftirlit með rafeyrisstofnunum, sem gerir það að verkum að nóg er að gefa út eitt leyfi sem er viðurkennt í öllu bandalaginu og er ætlað að tryggja tiltrú handhafa þess og beitingu meginreglunnar um eftirlit heimaríkis.

     5)      Séð í samhengi við þá hröðu þróun sem á sér stað í rafrænum viðskiptum er æskilegt að sett verði rammaákvæði sem stuðla að því að allir kostir rafeyris verði nýttir og varna því einkum að tækninýjungar verði tafðar. Í þessari tilskipun eru því sett rammaákvæði sem eru hlutlaus í tæknilegu tilliti og samhæfa eftirlit með rafeyrisstofnunum að því marki sem er nauðsynlegt til að tryggja traustan og varfærinn rekstur þessara stofnana og einkum fjárhagslegan heilleika þeirra.

     6)      Skv. 5. lið I. viðauka við tilskipun 2000/12/EB er lánastofnunum nú þegar heimil útgáfa og umsýsla greiðslumiðla, að meðtöldum rafeyri, og ástundun slíkrar starfsemi í öllu bandalaginu svo fremi að þau hafi hlotið gagnkvæma viðurkenningu og heyri undir heildareftirlitskerfi í samræmi við bankatilskipanir Evrópubandalagsins.

     7)      Það er rökrétt og æskilegt að taka upp sérstakt eftirlitskerfi fyrir rafeyrisstofnanir sem er frábrugðið því kerfi sem gildir fyrir aðrar lánastofnanir þótt það sé sniðið eftir því, einkum að því er varðar tilskipun 2000/12/EB, nema 2. og 3. kafla V. bálks hennar, því að útgáfa rafeyris telst ekki í sjálfu sér, með hliðsjón af séreinkennum hans sem rafræns staðgengils fyrir mynt og bankaseðla, innlánsstarfsemi skv. 3. gr. tilskipunar 2000/12/EB ef fjármununum, sem tekið er við, er umsvifalaust skipt í rafeyri.
     8)      Viðtaka fjármuna frá almenningi í skiptum fyrir rafeyri, sem leiðir til innistæðu á reikningi hjá stofnuninni sem gefur þá út, telst viðtaka innláns eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna að því er varðar tilskipun 2000/12/EB.

     9)      Rafeyrir skal vera innleysanlegur til að handhafar hans hafi trú á honum. Að rafeyrir sé innleysanlegur merkir ekki endilega að líta beri á fjármuni, sem tekið er við í skiptum fyrir rafeyri, sem innlán eða annað endurgreiðanlegt fé, að því er varðar tilskipun 2000/12/EB.

     10)      Endurgreiðsla skal ætíð vera á nafnverði.

     11)      Vegna þeirrar sérstöku áhættu sem tengist útgáfu rafeyris verður eftirlitskerfið að vera markvissara og um leið þjálla en eftirlitskerfið sem gildir fyrir lánastofnanir, einkum af því að kröfur um stofnfé eru lægri og tilskipun 93/6/EBE ( 1 ) og II. og III. þætti 2. kafla V. bálks tilskipunar 2000/12/EB er ekki beitt.

     12)      Það er þó nauðsynlegt að skapa jöfn samkeppnisskilyrði milli rafeyrisstofnana og annarra lánastofnana sem gefa út rafeyri og tryggja þannig sanngjarna samkeppni milli fleiri stofnana, sem kemur sér vel fyrir handhafana. Þessu takmarki verður náð því að á móti framangreindri einföldun á eftirlitskerfinu, sem gildir fyrir rafeyrisstofnanir, vega strangari ákvæði en gilda um aðrar lánastofnanir, meðal annars að því er varðar takmarkanir á þeirri viðskiptastarfsemi sem rafeyrisstofnunum er heimilt að stunda og varfærnismörk fyrir fjárfestingar þessara stofnana, til að öruggt sé að fjárhagslegar skuldbindingar þeirra vegna útistandandi rafeyris séu ávallt tryggðar með nægilegu lausafé með lítilli áhættu.

     13)      Uns eftirlit með utankaupastarfsemi fyrir lánastofnanir hefur verið samhæft er rétt að rafeyrisstofnanir hafi trausta og varfærna stjórnun og eftirlitsaðferðir. Til að fyrirtæki, sem sæta ekki eftirliti, geti annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengjast útgáfu rafeyris er mikilvægt að rafeyrisstofnanir hafi innra stjórnskipulag sem er í samræmi við fjárhagslega áhættu og aðra áhættu sem þeim er búin.

     14)      Útgáfa rafeyris getur haft áhrif á fjármálakerfið og snurðulausan rekstur greiðslukerfa. Mat á heilleika rafeyriskerfa útheimtir náið samstarf.

     15)      Lögbær yfirvöld ættu að eiga kost á að veita undanþágu frá sumum eða öllum kröfum sem settar eru fram í þessari tilskipun ef um er að ræða rafeyrisstofnanir sem starfa aðeins á yfirráðasvæðum viðkomandi aðildarríkis.

     16)      Samþykkt þessarar tilskipunar er besta leiðin til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Þessi tilskipun er takmörkuð við það lágmark sem þarf til að ná þessum markmiðum og gengur ekki lengra en þarf til þess.

     17)      Rétt er að kveða á um endurskoðun þessarar tilskipunar með hliðsjón af þróuninni á markaðinum og verndun handhafa rafeyris.

     18)      Samráð hefur verið haft við ráðgjafarnefnd um bankamál varðandi samþykkt þessarar tilskipunar.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Gildissvið, skilgreiningar og takmörkun starfsemi

1.     Tilskipun þessi gildir um rafeyrisstofnanir.

2.     Hún gildir ekki um stofnanir sem um getur í 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2000/12/EBE.

3.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „rafeyrisstofnun“: fyrirtæki eða önnur lögpersóna, nema lánastofnun samkvæmt skilgreiningu í a-lið fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, sem gefur út greiðslumiðil í formi rafeyris;

b)      „rafeyrir“: peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda, sem eru:

    i)     geymd í rafrænum miðli;

    ii)    gefin út í skiptum fyrir fjárhæð sem er ekki lægri en þau peningalegu verðmæti sem eru gefin út;

    iii)    samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda.

4.     Aðildarríkin skulu banna einstaklingum, lögpersónum eða fyrirtækjum, sem eru ekki lánastofnanir samkvæmt skilgreiningu í a-lið fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, að stunda viðskiptastarfsemi sem felst í útgáfu rafeyris.

5.     Önnur viðskiptastarfsemi rafeyrisstofnana en útgáfa rafeyris skal takmörkuð við:

a)      náskylda fjármálaþjónustu eða aðra þjónustu, svo sem umsýslu rafeyris með því að annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengist útgáfu hans og útgáfa og umsýsla annarra greiðslumiðla, að undanskilinni hvers konar lánveitingu; og

b)      geymslu gagna í rafræna búnaðinum fyrir önnur fyrirtæki eða opinberra stofnanir.

Rafeyrisstofnanir mega ekki eiga hlut í öðrum fyrirtækjum nema fyrirtækin annist rekstrarþætti eða aðra stoðþætti sem tengist rafeyri sem viðkomandi stofnun gefur út eða dreifir.

2. gr.

Beiting bankatilskipana

1.     Aðeins tilvísanir til lánastofnana í tilskipun 91/308/EBE ( 1 ) og tilskipun 2000/12/EB, að undanskildum 2. kafla V. bálks hennar, gilda um rafeyrisstofnanir nema skýrt sé kveðið á um annað.

2.     Ákvæði 5., 11., 13., 19., 20. (7. mgr.), 51. og 59. gr. tilskipunar 2000/12/EB gilda ekki. Það fyrirkomulag á gagnkvæmri viðurkenningu, sem kveðið er á um í tilskipun 2000/12/EB, gildir ekki um aðra viðskiptastarfsemi rafeyrisstofnana en útgáfu rafeyris.

3.     Viðtaka fjármuna í skilningi ii-liðar b-liðar 3. mgr. 1. gr. telst ekki innlán eða annað endurgreiðanlegt fé, skv. 3. gr. tilskipunar 2000/12/EB, ef fénu, sem tekið er við, er strax skipt í rafeyri.

3. gr.

Endurgreiðanleiki

1.     Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem hann er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt og peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds en er strangt til tekið nauðsynlegt til að framkvæma þá aðgerð.

2.     Í samningi milli útgefanda og handhafa skal tilgreina skýrt skilyrðin fyrir innlausn.

3.     Í samningnum má setja lágmark fyrir innlausn. Lágmarkið má ekki vera hærri 10 evrur.

4. gr.

Stofnfjárkröfur og eiginfjárkröfur

1.     Rafeyrisstofnanir skulu hafa stofnfé, skv. skilgreiningu í 1. og 2. lið 2. mgr. 34. gr. tilskipunar 2000/12/EBE, sem er ekki undir einni milljón evra. Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. skal eigið fé þeirra, skv. skilgreiningu í tilskipun 2000/12/EBE, aldrei fara niður fyrir þá fjárhæð.

2.     Rafeyrisstofnanir skulu ávallt hafa yfir að ráða eigin fé sem er að minnsta kosti 2% af því sem hærra er: fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris eða meðalfjárskuldbindingum næstliðinna sex mánaða vegna útistandandi rafeyris.

3.     Hafi rafeyrisstofnun ekki enn starfað í sex mánuði, að meðtöldum þeim degi sem starfssemi hennar hófst, skal eigið fé hennar vera að minnsta kosti 2% af því sem hærra er: fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris eða heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar hennar vegna útistandandi rafeyris. Heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar viðkomandi stofnunar vegna útistandandi rafeyris skal koma fram í viðskiptaáætlun stofnunarinnar með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem lögbær yfirvöld kynnu að hafa óskað eftir.

5. gr.

Takmörkun fjárfestinga

1.     Fjárfestingar rafeyrisstofnana skulu að minnsta kosti samsvara fjárskuldbindingum þeirra vegna útistandandi rafeyris en aðeins í eftirfarandi eignum:

a)      nægilega seljanlegum eignum sem, skv. 1., 2., 3. og 4. lið a-liðar 1. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 44. gr. tilskipunar 2000/12/EB, fá lánsáhættuvægið núll;
b)      sýningarinnlánum hjá lánastofnunum á svæði A, eins og þær eru skilgreindar í tilskipun 2000/12/ EB; og

c)      skuldaskjölum sem:

    i)         eru nægilega seljanleg;

    ii)    heyra ekki undir a-lið 1. mgr.;

    iii)    eru viðurkennd af lögbærum yfirvöldum sem fullgildir liðir í skilningi í 12. mgr. 2. gr. tilskipunar 93/6/EBE;

    iv)    eru gefin út af öðrum fyrirtækjum en þeim sem eiga virkan eignarhluta, eins og hann er skilgreindur í 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, í viðkomandi rafeyrisstofnun eða þeim sem koma fram í samstæðureikningum þessara fyrirtækja.

2.     Fjárfestingar, sem um getur í b- og c-lið 1. mgr., mega ekki fara yfir tuttugufalt eigið fé viðkomandi rafeyrisstofnunar og skulu vera háðar takmörkunum sem eru að minnsta kosti jafnstrangar og þær sem gilda um lánastofnanir í samræmi við III. þátt 2. kafla V. bálks tilskipunar 2000/12/EB.

3.     Til að baktryggja sig gegn markaðsáhættu sem leiðir af útgáfu rafeyris og fjárfestinganna sem um getur í 1. mgr. er rafeyrisstofnunum heimilt að nota nægilega seljanlega vaxtaberandi og gengistengda liði utan efnahagsreiknings í formi afleiddra skjala sem verslað er með á verðbréfamarkaði (þ.e. ekki afleidd skjöl sem verslað er með utan verðbréfamarkaðar) þar sem þau heyra undir daglegar kröfur um tryggingarfé eða gjaldeyrissamninga með upphaflegan lánstíma sem er í mesta lagi 14 dagar. Notkun afleiddra skjala samkvæmt fyrsta málslið er því aðeins leyfileg að ætlunin sé að útrýma til fulls markaðsáhættu og að því markmiði sé náð eftir því sem unnt er.

4.     Aðildarríkin skulu setja viðeigandi takmarkanir á markaðsáhættu rafeyrisstofnana í tengslum við fjárfestingarnar sem um getur í 1. mgr.

5.     Við beitingu 1. mgr. skal meta eignir á því verði sem er lægra: kaupverði eða markaðsverði.


6.     Ef verðgildi eignanna, sem um getur í 1. mgr., fer niður fyrir fjárhæð fjárskuldbindinga vegna útistandandi rafeyris skulu lögbær yfirvöld sjá til þess að viðkomandi rafeyrisstofnun geri viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því ástandi án tafar. Í því skyni geta lögbær yfirvöld heimilað, en aðeins tímabundið, að fjárskuldbindingar stofnunarinnar vegna útistandandi rafeyris séu tryggðar með öðrum eignum en þeim sem um getur í 1. mgr. sem nemur að hámarki fjárhæð sem er í mesta lagi 5% af þessum skuldbindingum eða af samanlögðu eigin fé stofnunarinnar.

6. gr.

Eftirlit lögbærra yfirvalda með sérkröfum

Lögbær yfirvöld skulu sjá til þess að reiknað sé út að minnsta kosti tvisvar á ári hvort ákvæðum 4. og 5. gr. hafi verið hlítt og að annaðhvort annist rafeyrisstofnanirnar sjálfar útreikningana og sendi niðurstöðurnar og nauðsynleg fylgigögn til lögbærra yfirvalda eða að lögbær yfirvöld annist þá og noti til þess gögn frá rafeyrisstofnununum.

7. gr.

Traustur og varfærinn rekstur

Rafeyrisstofnanir skulu hafa trausta og varfærna stjórnun og umsýslu- og reikningshaldsaðferðir og fullnægjandi innri eftirlitskerfi. Þessi kerfi ættu að vera í samræmi við þá fjárhagslegu áhættu og aðra áhættu sem viðkomandi stofnun er búin, þar með talið áhætta sem tengist tækni og málsmeðferð og áhætta sem tengist samstarfi hennar við annað fyrirtæki sem annast rekstrarþætti eða aðra stoðþætti í tengslum við viðskiptastarfsemi hennar.

8. gr.

Undanþágur

1.     Aðildarríkin geta leyft lögbærum yfirvöldum sínum að undanþiggja rafeyrisstofnanir beitingu sumra eða allra ákvæða þessarar tilskipunar svo og beitingu tilskipunar 2000/12/EB:

a)      ef öll viðskiptastarfsemi stofnunarinnar af þeirri tegund, sem um getur í a-lið 3. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar, leiðir til fjárskuldbindinga vegna útistandandi rafeyris sem að heildarfjárhæð fara að jafnaði ekki yfir 5 milljónir evra og aldrei yfir 6 milljónir evra.; eða

b)      ef rafeyririnn, sem stofnunin gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá dótturfyrirtækjum stofnunarinnar, sem annast rekstrarþætti eða aðra stoðþætti vegna rafeyris sem stofnunin gefur út eða dreifir, hjá móðurfyrirtæki stofnunarinnar eða hjá öðrum dótturfyrirtækjum móðurfyrirtækisins; eða

c)      ef rafeyrir, sem stofnunin gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá takmörkuðum fjölda fyrirtækja sem ótvírætt má þekkja á því að:

    i)        þau eru staðsett á sama athafnasvæði eða öðru afmörkuðu svæði á staðnum; eða

    ii)    þau eru í nánum fjárhagslegum eða viðskiptalegum tengslum við útgáfustofnunina, svo sem með sameiginlegu markaðs- eða dreifingarkerfi.

Í þeim samningum, sem liggja til grundvallar, skulu vera ákvæði um að í mesta lagi megi geyma 150 evrur á rafræna geymslumiðlinum sem handhafar fá til ráðstöfunar til greiðslu.

2.     Rafrænar stofnanir, sem hafa fengið undanþágu skv. 1. mgr., skulu ekki njóta góðs af því fyrirkomulagi á gagnkvæmri viðurkenningu sem kveðið er á um í tilskipun 2000/12/EB.

3.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að allar rafeyrisstofnanir, sem hafa fengið undanþágu frá þessi tilskipun og tilskipun 2000/12/EB, skili reglubundið skýrslu um starfsemi sína, þar með talið um heildarfjárhæð fjárskuldbindinga vegna rafeyris.

9. gr.

Starfsleyfi til starfandi stofnana

Litið skal svo á að rafeyrisstofnanir hafi starfsleyfi ef þær heyra undir þessa tilskipun og hófu starfsemi sína í samræmi við gildandi ákvæði í aðildarríkinu, þar sem þær hafa aðalskrifstofur, fyrir gildistökudag ákvæða sem samþykkt eru til að koma þessari tilskipun í framkvæmd eða fyrir daginn sem um getur í 1. mgr. 10. gr., eftir því hvor dagurinn kemur á undan. Aðildarríkin skulu skylda þessar rafeyrisstofnanir til að afhenda lögbærum yfirvöldum allar viðeigandi upplýsingar til að þau geti metið, innan sex mánaða frá gildistöku ákvæða sem samþykkt eru til að koma þessari tilskipun í framkvæmd, hvort stofnanirnar uppfylli kröfur samkvæmt þessari tilskipun, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að tryggja að kröfur séu uppfylltar eða hvort starfsleyfi skuli afturkallað. Ef kröfur hafa ekki verið uppfylltar innan sex mánaða frá deginum sem um getur í 1. mgr. 10. gr. skal rafeyrisstofnunin ekki njóta gagnkvæmrar viðurkenningar eftir þann tíma.

10. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 27. apríl 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum, sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

11. gr.

Endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 27. apríl 2005, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar tilskipunar, einkum að því er varðar:

–    ráðstafanir til að vernda handhafa rafeyris, þar með talið hugsanleg þörf á að taka upp ábyrgðarkerfi,

–    eiginfjárkröfur,

–    undanþágur, og

–    hugsanlega þörf á banni gegn greiðslu vaxta á fé sem tekið er við í skiptum fyrir rafeyri, ef þörf krefur ásamt tillögu um endurskoðun bannsins.

12. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

13. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 18. september 2000.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

    N. FONTAINE     H. VÉDRINE

     forseti.     forseti.
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/28/EB

frá 18. september 2000

um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málsl. 2. mgr. 47. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 3 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í samræmi við markmið sáttmálans ber að vinna að samræmdri þróun í starfsemi lánastofnana í bandalaginu, einkum að því er varðar útgáfu rafeyris.

     2)      Tilteknar stofnanir takmarka starfsemi sína í meginatriðum við útgáfu rafeyris. Til að komast hjá röskun á samkeppni milli þeirra sem gefa út rafeyri, jafnvel í tengslum við beitingu ráðstafana er varða peningastefnu, er æskilegt að þessar stofnanir séu felldar undir gildissvið tilskipunar 2000/12/EB ( 5 ), samanber þó viðeigandi sérákvæði þar sem tekið er tillit til sérkenna þeirra.

     3)      Það er því ráðlegt að rýmka skilgreininguna á lánastofnunum, sem kveðið er á um í 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, þannig að hún nái til þessara stofnana.

     4)      Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/ EB frá 18. september um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim ( 6 ) eru rafeyrisstofnanir skilgreindar.

     5)      Rafeyrir skal vera innleysanlegur til að handhafar hans hafi trú á honum.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 2000/12/EB er breytt sem hér segir:

1.    Í stað fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. komi eftirfarandi texti:

    „1.     „Lánastofnun“:

         a)        fyrirtæki með starfsemi sem felst í að taka á móti innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu og veita lán fyrir eigin reikning; eða

         b)        rafeyrisstofnun í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim ( * ),
( * )     Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.“

2.     Eftirfarandi grein bætist við V. bálk:

     „33. gr. a

    Ákvæði 3. gr. tilskipunar 2000/46/EB skulu gilda um lánastofnanir.“

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 27. apríl 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 18. september 2000.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

    N. FONTAINE     H.VÉDRINE

     forseti.     forseti.



Fylgiskjal III.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um rafeyrisfyrirtæki.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að lögfesta reglur og skilgreiningar á rafeyri og rafeyrisfyrirtæki. Kveðið er á um í 15. gr. frumvarpsins að Fjármálaeftirlitið skuli hafa eftirlit með starfsemi innlendra rafeyrisfyrirtækja. Skv. 20. gr. skulu rafeyrisfyrirtæki og aðrar lánastofnanir en bankar og sparisjóðir greiða til Fjármálaeftirlits 0,0101% af eignum, en eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. fyrir lánastofnanir og 150.000 kr. fyrir rafeyrisfyrirtæki. Greinin breytir 5. gr. laga nr. 99/1999 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, sem kveður á um að lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir greiði 0,0101% af eignum en þó ekki lægri fjárhæð en 400.000 kr. fyrir fjármálaeftirlit. Óvíst er um hvort ákvæðið mun auka tekjur Fjármálaeftirlits þar sem ekki liggja fyrir umsóknir rafeyrisfyrirtækja sem ekki teljast til viðskiptabanka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.
    Ekki er talið að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

( 1)    Stjtíð. EB C 317, 15. 10. 1998, bls. 7.
( 2)    Stjtíð. EB C 101, 12. 4. 1999, bls. 64.
( 3)    Stjtíð. EB C 189, 6. 7. 1999, bls. 7.
( 4)    Álit Evrópuþingsins frá 15. apríl 1999 (Stjtíð. EB C 219, 30. 7. 1999, bls. 415), staðfest 27. október 1999, sameiginleg afstaða ráðsins frá 29. nóvember 1999 (Stjtíð. EB C 26, 28. 1. 2000, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 11. apríl 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 16. júní 2000.
( 5)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana (Stjtíð. EB L 126, 26. 5. 2000, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/28/EB (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37 ).
( 1)    Tilskipun ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana (Stjtíð. EB L 141, 11. 6. 1993, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 98/33/EB (Stjtíð. EB L 204, 21. 7. 1998, bls. 29).
( 1)    Tilskipun ráðsins 91/308/EEC frá 10. júní 1991 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar (Stjtíð. EB L 166, 28.6.1991, bls. 77).
( 1)    Stjtíð. EB C 317, 15.10.1998, bls. 12.
( 2)    Stjtíð. EB C 101, 12.4.1999, bls. 64.
( 3)    Stjtíð. EB C 189, 6.7.1999, bls. 7.
( 4)    Álit Evrópuþingsins frá 15. apríl 1999 (Stjtíð. EB C 219, 30.7.1999, bls. 421), staðfest 27. október 1999, sameiginleg afstaða ráðsins frá 29. nóvember 1999 (Stjtíð. EB C 26, 28.1.2000, bls. 12) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 11. apríl 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
( 5)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana (Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls.1).
( 6)    Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.