Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 574  —  372. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), nr. 3 12. janúar 1945.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    4. málsl. 2. gr. laganna orðast svo: Íslenska þjóðkirkjan og önnur skráð trúfélög skulu greiða fyrir kirkju- og manntalsbækur sem þau færa.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt gildandi lögum um kirkju- og manntalsbækur skal andvirði kirkju- og manntalsbóka greiðast úr ríkissjóði. Á síðastliðnu ári lauk endurskoðun á kirkjubókum þar sem gerðar voru mjög umtalsverðar breytingar á formi og gerð þeirra. Við hönnun þeirra var uppsetning og efnisinnihald jöfnum höndum sniðið að þörfum þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga, eftir því sem unnt var, en bækurnar eru að grunni til almennur og afar nauðsynlegur grundvöllur að almannaskráningu. Í kjölfar endurhönnunar kirkjubókanna tók þjóðkirkjan hina nýju gerð þeirra alfarið í notkun frá 1. júlí 2000.
    Í 2. gr. laga um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36 8. september 1931, segir að ráðuneytið (með því er væntanlega átt við dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Hagstofu Íslands) leggi sóknarprestum til löggiltar embættisbækur, svo og eyðublöð undir lögboðnar skýrslur og embættisvottorð. Þrátt fyrir að umræddar bækur skuli lagðar til, er ekki þar með sagt að ríkið skuli greiða kostnaðinn af þeim. Ákvæðið er fyrst og fremst sett til þess að tryggja að embættisbækurnar verði hannaðar með þarfir almannaskráningar í huga og að formið sé í lagi.
    Í tengslum við endurhönnun kirkjubókanna voru gerðar breytingar á eyðublöðum um prestverk sem prestum er ætlað að tilkynna til Hagstofu Íslands, svo og vottorðum sem prestar láta í té um þær athafnir, þ.e. skírnar-, hjónavígslu- og útfararvottorðum.
    Með þeim breytingum sem orðið hafa á kirkjulöggjöfinni á síðustu árum hafa nær öll verkefni sem fyrrum voru hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu verið flutt til þjóðkirkjunnar eða stofnana á hennar vegum, svo sem prestssetrasjóðs. Með síðustu lagabreytingu skal rekstrarkostnaður þjónandi presta og prófasta vegna embætta þeirra nú greiddur frá biskupsstofu samkvæmt reglum sem kirkjuþing setur, sbr. lög nr. 141/1998, um breyting á lögum nr. 36/1931, og er ekki lengur ákvarðaður af kirkjumálaráðherra né greiddur ásamt launum frá launaafgreiðslu Ríkisbókhalds. Hefur kirkjuþing í kjölfar þessa sett starfsreglur um rekstrarkostnað prestsembætta og vegna prófastsstarfa, nr. 819/1999.
    Samkvæmt framansögðu þykir réttast að trúfélögin sem í hlut eiga standi sjálf straum af kostnaði af manntals- og kirkjubókum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/1945,
um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur).

    Í frumvarpinu er lagt til að íslenska þjóðkirkjan og önnur trúfélög greiði fyrir kirkju- og manntalsbækur sem þau færa. Verði frumvarpið að lögum verður skýrar kveðið á um að ríkissjóður beri ekki útgjöld af hönnun og prentun slíkra bóka en í gildandi lögum.