Ferill 281. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 421  —  281. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir fyrri málslið 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um skjöl sem afhent eru til aflýsingar þar sem dagbók er haldin í tölvu.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Nú er afhent skjal til þinglýsingar og skal þá vísa því frá ef eitthvert af eftirtöldum atriðum á við:
                  a.      skjal er afhent í röngu umdæmi,
                  b.      fasteign er ekki skráð í þinglýsingabók,
                  c.      stofnskjal landeignar er ekki forskráð í Landskrá fasteigna samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna,
                  d.      ekki er getið fastanúmers fasteignar,
                  e.      afmörkun lands eða lóðar er ekki í samræmi við 2. mgr. 20. gr.,
                  f.      ekki er ótvírætt við hvaða eign skjal á eða hvert efni þess er að öðru leyti,
                  g.      skjalið skortir undirritun útgefanda og vitundarvotta eða annarra þeirra er skjal geta staðfest, sbr. 22. gr., sé þessa þörf,
                  h.      skjal er aðeins afhent í einu eintaki eða samrit eða endurrit er ekki ritað á löggiltan þinglýsingapappír.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna, sbr. lög nr. 63/1988:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Bækur þessar skulu tölvufærðar í Landskrá fasteigna eftir nánari fyrirmælum ráðherra í reglugerð. Þar skal mælt fyrir um öryggisráðstafanir og vistun þinglýsingargagna. Þar til lokið hefur verið við þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna er þinglýsingarstjórum heimilt að nota eldri þinglýsingabækur, lausblaðabækur eða spjöld.
     b.      4. og 5. mgr. falla brott.

3. gr.

    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við þinglýsingu í Landskrá fasteigna er stöðu skjals breytt úr „dagbókarfært“ í „þinglýst“.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef beiðni um aflýsingu er færð í dagbók skv. 1. mgr. 6. gr. skulu aflýst skjöl ekki numin úr skjalahylkjum.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Með reglugerð má ákveða að vistun skjala á tölvutæku formi komi í stað geymslu í skjalahylkjum skv. 1. mgr. Þann hátt má hafa á í sumum eða öllum þinglýsingaumdæmum eftir því sem aðstæður leyfa. Takmarka má vörslu skjala á þann veg við ákveðnar tegundir skjala.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989:
     a.      Síðari málsliður 1. mgr. orðast svo: Verður þá slíkum yfirlýsingum ekki þinglýst nema sjálft veðbréfið eða endurrit þess, með áritun um veðbreytinguna, sé sýnt eða afhent þinglýsingarstjóra svo að hann geti gengið úr skugga um að hennar sé nægilega getið í veðbréfinu sjálfu.
     b.      2. mgr. fellur brott.

6. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aflýsing skjals í Landskrá fasteigna fer þannig fram að stöðu skjals er breytt úr „þinglýst“ í „aflýst“. Upplýsingar um aflýst skjöl skulu varðveittar í ferilskrá viðkomandi eignar í tölvukerfi. Síðan skal rita vottorð um aflýsinguna á frumrit skjalsins og geta þess hvenær hún fór fram og hvar hennar sé getið. Að svo vöxnu skal skila aðila sínu eintaki.

7. gr.

    Fyrsti málsliður 15. gr. laganna orðast svo: Skjali er þinglýst þegar það hefur verið fært í þinglýsingabók eða fær stöðuna „þinglýst“ í tölvu, en forgangsáhrif þinglýsingar teljast frá þeim degi er skjal var afhent til þinglýsingar, sbr. þó 2. mgr. 14. gr., enda sé skjalið tækt til þinglýsingar.

8. gr.

    Lokamálsliður 17. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989, orðast svo: Að öðrum kosti dregur þinglýsingarstjóri strik yfir færslu skjals í þinglýsingabók eða afmáir skjal í Landskrá fasteigna, og falla þá brott áhrif þinglýsingarinnar.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna, sbr. lög nr. 85/1989:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Binda skal þinglýsingu stofnskjals fasteignar því skilyrði að þar komi fram:
                  a.      heiti landeignar samkvæmt ákvörðun sveitarfélags,
                  b.      landnúmer lóðar, eitt eða fleiri,
                  c.      landnúmer þess lands sem lóð er tekin úr,
                  d.      afmörkun lóðar á uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum,
                  e.      fastanúmer hverrar fasteignar sem hefur beina tilvísun í þá skika sem henni tilheyra.
     b.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Heimilt er að þinglýsa í einu stofnskjali myndun fleiri en einnar fasteignar.
                  Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að binda skuli þinglýsingu skjals er varðar landamerki eða lóðamörk því skilyrði að tilgreina skuli hnit skurðpunkta og markalínur samkvæmt viðurkenndu hnitakerfi, svo og mælikvarða uppdrátta af landi. Nú eru ekki fyrir hendi nægilega nákvæm hnitakerfi, og getur þá ráðherra í reglugerð mælt fyrir um form og efni uppdrátta.

10. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Vitundarvottar skulu geta kennitölu sinnar, eða eftir atvikum fæðingardags og heimilisfangs.

11. gr.

    Við 2. mgr. 24. gr. laganna, sbr. lög nr. 90/1991, bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi veðandlag aðfarar- eða kyrrsetningargerðar ekki verið myndað í þinglýsingabók skal þinglýsingarstjóra heimilt að mynda eign til bráðabirgða í Landskrá fasteigna. Slík skráning til bráðabirgða kemur ekki í stað þinglýsingar stofnskjals skv. 20. gr.

12. gr.

    Síðari málsliður 2. mgr. 39. gr. laganna orðast svo: Þinglýsing á staðfestingu rétthafa samkvæmt þinglýsingabók er þó fullnægjandi ef um er að ræða bréf sem gefin hafa verið út til ríkissjóðs, opinberra stofnana, banka, sparisjóða, lífeyrissjóða, tryggingafélaga eða verðbréfasjóða.

13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Dómsmálaráðuneytið hefur umsjón með yfirfærslu þinglýsingabóka fasteigna í Landskrá fasteigna í samvinnu við Fasteignamat ríkisins í því skyni að mynda þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna í samræmi við lög um skráningu og mat fasteigna. Um gerð þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna fer eftir ákvæðum laga þessara.
    Áður en upplýsingar úr þinglýsingabók eru yfirfærðar í Landskrá fasteigna skal þinglýsingarstjóri bera saman lýsingu fasteignar eins og hún er í Landskrá fasteigna og þinglýsingabók. Komi fram misræmi þar skal þinglýsingarstjóri skrá um það athugasemdir í Landskrá fasteigna.
    Sé fasteign í þinglýsingabók ekki auðkennd með fastanúmeri eða landnúmeri er þinglýsingarstjóra heimilt að nota auðkenni fasteignar í Landskrá fasteigna, enda leiki ekki vafi á að um sömu eign sé að ræða.
    Við afmörkun landeignar í Landskrá fasteigna skal leggja til grundvallar lýsingu eignamarka í þinglýsingabók séu þau fyrir hendi, en ella skal miða við lýsingu í landamerkjaskrá. Séu upplýsingar um afmörkun landeignar ekki fyrir hendi, hvorki í þinglýsingabók né landamerkjaskrá, skal þinglýsingarstjóra heimilt að leggja til grundvallar afmörkun samkvæmt skrám sveitarfélags.
    Dómsmálaráðherra setur að öðru leyti nánari reglur um hvernig skuli brugðist við misræmi í skráningu milli þinglýsingabóka og Landskrár fasteigna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, sem lagt er fram samhliða frumvarpi til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, og frumvarpi til laga um breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, er lagður grundvöllur að því að myndað verði samhæft gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Heitir það Landskrá fasteigna og er nánar um það fjallað í fyrrnefndu frumvarpi til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna. Þar kemur meðal annars fram að þinglýsingarhluti Landskrár fasteigna geymi upplýsingar um þinglýsta eigendur og eignarhlut þeirra ásamt upplýsingum um veðbönd, kvaðir og annað er þinglýsingabók heldur. Í bráðabirgðaákvæðum frumvarps þessa er mælt fyrir um hvernig samræmingu verði náð á milli þinglýsingabóka og Landskrár fasteigna.
    Forsenda fyrir heildstæðu gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir er tölvuvæðing þinglýsingabóka hjá embættum sýslumanna og samhæfing þeirra við Landskrá fasteigna. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er að finna heimild til að tölvuvæða þinglýsingabækur og hefur sú heimild verið nýtt við embætti sýslumanna í Reykjavík, á Ísafirði og í Hafnarfirði. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að þinglýsingabækur skuli tölvufærðar, en heimilt verði að nota eldri þinglýsingabækur og -spjöld þar til yfirfærslu þinglýsingabóka í Landskrá fasteigna er lokið.
    Til þess að takast megi að koma á samhæfðri tölvuvinnslu allra skráningaraðila fasteigna í sameiginlegu skráningarkerfi er nauðsynlegt að taka upp reglur um hvernig fasteign verði stofnuð í Landskrá fasteigna. Um það eru sett nánari fyrirmæli í fyrrgreindu frumvarpi til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna auk fyrirmæla í 9. gr. þessa frumvarps. Í meginatriðum er það skilyrði fyrir myndun fasteignar í Landskrá fasteigna að efni stofnskjals hafi áður verið forskráð. Með forskráningu er hér átt við skráningu á efni skjals til bráðabirgða sem færist úr svokallaðri biðskrá í þinglýsingabók við þinglýsingu.
    Auk breytinga sem eru nauðsynlegar vegna Landskrár fasteigna eru lagðar til aðrar minni háttar breytingar á lögunum svo sem nánar verður rakið í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.
    Frumvarp til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna og frumvarp til laga um breyting á þinglýsingalögum voru fyrst lögð fram á Alþingi á 123. löggjafarþingi en hlutu þá ekki afgreiðslu. Frumvörpin eru nú lögð fram að nýju að lokinni endurskoðun á efni þeirra ásamt frumvarpi til laga um breyting á lögum um brunatryggingar. Á milli þinga hefur verið leitað umsagnar um efni tveggja fyrrgreindra frumvarpa hjá hagsmunaaðilum, eins og Sýslumannafélagi Íslands, Félagi fasteignasala og Húseigendafélaginu. Frá þessum aðilum hafa komið gagnlegar ábendingar sem tekið hefur verið tillit til við endurskoðun frumvarpanna. Frumvarp til laga um breyting á lögum um brunatryggingar tryggir fjármögnun til uppbyggingar og rekstrar gagna- og upplýsingakerfisins Landskrár fasteigna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Um a-lið.
    Lagt er til að skjöl sem afhent eru til aflýsingar verði færð í dagbók ef hún er haldin í tölvu og jafnframt að kvittun fyrir móttöku skjals verði afhent. Með þessu munu réttaráhrif aflýsingar miðast við þann dag sem beiðni um aflýsingu var móttekin en ekki hvenær aflýsing fer fram eins og nú er. Einnig fæst með þessu sönnun þess hvort og hvenær skjal hefur verið afhent til aflýsingar. Jafnframt er með þessari breytingu stefnt að því að skráning aflýsingar í tölvukerfi þinglýsinga komi í stað útstrikunar og brottnáms skjala úr skjalahylkjum, en það mun leiða til nokkurs vinnusparnaðar fyrir starfslið þinglýsingarstjóra.
    Um b-lið.
    Í lögunum eru ekki sérstök fyrirmæli um myndun nýrrar fasteignar. Hefur ný fasteign einfaldlega verið mynduð með því að sett hefur verið nýtt blað í þinglýsingabók. Í Landskrá fasteigna er gert ráð fyrir að eign verði stofnuð með forskráningu hjá Fasteignamati ríkisins og sú skráning hljóti síðan staðfestingu við þinglýsingu. Af þessum sökum er nauðsynlegt að veita þinglýsingarstjóra rýmri heimild til frávísunar skjals sem ekki fullnægir formkröfum um myndun eigna. Skv. 9. gr. frumvarpsins er þinglýsing stofnskjals lóðar bundin því skilyrði að nafn og kennitala eiganda lands komi fram. Tilgreining á kennitölu verður að teljast nauðsynleg á öllum skjölum er varða eignayfirfærslur á fasteignum. Þá er í 10. gr. frumvarpsins áskilið að vitundarvottar geti kennitölu sinnar, eða eftir atvikum fæðingardags og heimilisfangs. Með vísun til þess og með hliðsjón af því að kennitala er eina óbreytanlega tilgreiningin á einstaklingi búsettum hér á landi og allir lögaðilar í viðskiptum hafa kennitölu verður að telja að efni skjals sé ekki ótvírætt ef kennitölu útgefanda eða rétthafa vantar. Oft og tíðum geta þinglýsingarstjórar fundið kennitölur framangreindra, ef þær eru ekki tilgreindar, þar sem á öllum sýslumannsembættum er aðgangur að þjóðskrá. Ef það reynist ekki unnt verður að líta svo á að skjali verði vísað frá skv. f-lið greinarinnar.

Um 2. gr.


    Hér er mælt fyrir um tilhögun skráningarkerfis fyrir þinglýsingar. Gert er ráð fyrir að notað verði tölvuforrit sem þróað hefur verið sem hluti af gagna- og upplýsingakerfi Landskrár fasteigna. Lagt er til að í reglugerð verði mælt fyrir um vistun þinglýsingargagna á tölvutæku formi og nauðsynlegar öryggisráðstafanir til verndar þeim.

Um 3. gr.


    Í gildandi lögum er lýst verklagi við þinglýsingu í bækur en lýsingu skortir á verklagi þegar þinglýsing er tölvufærð. Lagt er til að úr þessu verði bætt.

Um 4. gr.


    Um a-lið.
    Lagt er til að afrit þinglýsts skjals verði ekki numið úr skjalahylki ef beiðni um aflýsingu þess er færð í dagbók. Slík skráning og eftirfarandi aflýsing í tölvukerfi er talin fela í sér nægilega sönnun fyrir aflýsingu skjals, enda hafi frumrit skjals verið afhent aflýsingarbeiðanda með áritun um hana.
    Um b-lið.
    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir þeim möguleika að geyma ljósmyndir þinglýstra skjala á míkrófilmum en sú heimild hefur aldrei verið notuð. Með nýrri tækni er sá kostur raunhæfari að þinglýst skjöl verði skönnuð og geymd á stafrænu formi. Sú geymsluaðferð verður sífellt algengari og ódýrari. Með þeirri aðferð skapast einnig möguleiki á sölu afrita þinglýstra skjala yfir tölvunet, en það hefði í för með sér nokkurn vinnusparnað fyrir starfslið þinglýsingarstjóra.

Um 5. gr.


    Lagt er til að lögfest verði venja sem myndast hefur um frágang lánastofnana á skjölum er varða veðflutning til þinglýsingar. Með því er gerð sú breyting að nægjanlegt er að ljósrit veðbréfs fylgi skjali um veðflutninginn. Undanþága til lánastofnana í 2. mgr. 12. gr. laganna þykir af þessum sökum ekki lengur eiga við.

Um 6. gr.


    Lagt er til að í lögunum verði kveðið á um verklag við aflýsingu í tölvukerfi þinglýsingar. Þegar aflýsing fer þannig fram er gert ráð fyrir að hætt verði að draga strik yfir efni þess afrits sem þinglýsingarstjóri varðveitir. Þykir nægilegt að getið verði um aflýsinguna í aflýsingaskrá og að stöðu skjals verði breytt í þinglýsingarkerfi.

Um 7. og 8. gr.


    Vísað er til athugasemda við 3. gr. um skýringu á þessum ákvæðum.

Um 9. gr.


    Þessi breyting er nauðsynleg til að samræma megi skráningu fasteigna í Landskrá fasteigna og í þinglýsingabók. Hugtakið stofnskjal er nýtt í lögum. Það hugtak er einnig notað í frumvarpi til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna. Með stofnskjali er átt við skjal sem felur í sér skilgreiningu nýrrar lóðar eða landeignar í Landskrá fasteigna. Með þinglýsingu þess hefur ný fasteign verið stofnuð í Landskrá fasteigna. Landnúmer er skráningarlegt auðkenni fyrir landskika í Landskrá fasteigna samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna. Allar fasteignir munu hafa skráningarlegt auðkenni, fastanúmer, samkvæmt sömu lögum. Auk fastanúmers mun hver fasteign bera heiti samkvæmt ákvörðun sveitarfélags eða samkvæmt lögum um bæjanöfn o.fl. Með heiti er hér átt við götuheiti, húsnúmer og heiti séreignarhluta í fjöleignarhúsi. Fasteignamat ríkisins úthlutar fastanúmerum við forskráningu fasteignar samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna.
    Í 2. mgr. b-liðar er ráðherra veitt heimild til að mæla svo fyrir í reglugerð að binda skuli þinglýsingu skjals er varðar landamerki eða lóðamörk því skilyrði að tilgreina skuli hnit skurðpunkta og markalínur í viðurkenndu hnitakerfi. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. er ráðherra heimilt að mæla sérstaklega fyrir um form og efni uppdrátta þar sem nægilega nákvæm hnitakerfi eru ekki fyrir hendi. Nú þegar er unnt að taka upp skyldu til hnitasetningar nýrra lóða í svokölluðum þéttbýlissveitarfélögum, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og í stærri bæjarfélögum annars staðar á landinu. Mæliblöð með lóðarleigusamningum sem þessi sveitarfélög gefa út tilgreina að jafnaði afmörkun lóða með hnitum en í mismunandi hnitakerfum þó. Sveitarfélög í dreifbýli eru misjafnlega í stakk búin til þess að afmarka nýjar lóðir með hnitum. Helsta hindrunin í því sambandi hefur verið skortur á samræmdu landshnitakerfi. Hafinn er undirbúningur að notkun slíks kerfis sem hlotið hefur nafnið ISN-93 (Íslandsnet 1993) og kemur það í stað eldra kerfis sem ber heitið Hjörsey-1955. Um þessar mundir stendur yfir undirbúningur að setningu reglugerðar um ISN-93 á vegum umhverfisráðuneytisins. Með viðurkenndum hnitakerfum er átt við hnitakerfi sem eru í notkun hjá þéttbýlissveitarfélögum og nýja landshnitakerfið, ISN-93. Rétt þykir að dómsmálaráðuneytið hafi náið samráð við umhverfisráðuneytið vegna Landmælinga Íslands og taki mið af reglum um landshnitakerfi sem eru í gildi á hverjum tíma, sem og hafi samráð við fjármálaráðuneytið vegna Fasteignamats ríkisins þegar kemur að útgáfu fyrirmæla um afmörkun lóða með hnitum í stofnskjali fasteignar.

Um 10. gr.


    Heimilisfang og staða eru ekki lengur óyggjandi tilvísun fyrir vitundarvotta. Af þessum sökum og í samræmi við viðtekna venju þykir nægilegt að vitundarvottar séu tilgreindir með kennitölu. Fyrir þá votta sem af einhverjum ástæðum hafa ekki fengið úthlutað kennitölu frá Hagstofu Íslands væri nægilegt að geta fæðingardags og heimilisfangs.

Um 11. gr.


    Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir myndun fasteignar í Landskrá fasteigna til bráðabirgða, en eingöngu í því skyni að tryggja aðfararveð og úthlutun við nauðungarsölu. Myndun fasteignar til bráðabirgða leysir eiganda lands þó ekki undan þeirri skyldu að gefa út stofnskjal og skrá það með formlegum hætti síðar.

Um 12. gr.


    Rétt þykir að gefa verðbréfasjóðum og tryggingafélögum kost á sama hagræði og aðrar lánastofnanir njóta samkvæmt ákvæðinu, enda er um að ræða aðila sem hafa opinbert starfsleyfi og starfsábyrgðartryggingu.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Lagt er til að yfirfærsla þinglýsingabóka í Landskrá fasteigna verði í höndum dómsmálaráðuneytisins í samvinnu við Fasteignamat ríkisins. Tölvuvæðing þinglýsinga er frumforsenda þess að unnt verði að samhæfa efni þinglýsingabóka og Landskrár fasteigna. Við samhæfingu þessara skráa verður til þinglýsingarhluti Landskrár fasteigna sem er gagna- og upplýsingakerfi fyrir fasteignir á Íslandi, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna. Stefnt er að því að yfirfærslu þinglýsingabóka í Landskrá fasteigna verði lokið á fimm árum frá gildistöku laganna.
    Lagt er til að athugasemdir um misræmi milli þinglýsingabóka og Landskrár fasteigna verði færðar í Landskrá. Nauðsynlegur undirbúningur að samræmingu þinglýsingabóka við Landskrá fasteigna er að skrá það misræmi sem er nú á milli þessara tveggja skráa. Slíkar upplýsingar verða síðan grundvöllur verkáætlana um samræmingu skránna.
    Fasteignir í þinglýsingabók eru að jafnaði eingöngu auðkenndar með götuheiti, húsnúmeri og íbúðarnúmeri. Af þessum sökum er nauðsynlegt að heimila þinglýsingarstjóra að draga ályktanir á milli heitis í þinglýsingabók og heitis og fastanúmers í Landskrá fasteigna. Að því loknu verður fastanúmer óbreytanlegt auðkenni fasteignar í Landskrá fasteigna.
    Þar sem marka fasteignar er getið í þinglýsingabók eða landamerkjaskrá skulu þau lögð til grundvallar í Landskrá fasteigna.
    Þá er og mælt fyrir um hvernig taka skuli einstökum tegundum misræmis sem í ljós kemur við samanburð þinglýsingabóka og Landskrár fasteigna.
    Loks er mælt fyrir um að ráðherra setji nánari reglur um hvernig skuli brugðist við misræmi í skráningu milli þinglýsingabókar og Landskrár fasteigna. Ástæða þess að slíkar reglur eru ekki tíundaðar í lögunum er sú að ekki þykir fyrirséð um öll þau tilvik misræmis er upp kunna að koma við yfirfærslu þinglýsingabóka í Landskrá fasteigna. Misræmið getur meðal annars falist í því að heiti fasteignar sé ekki það sama í þinglýsingabók og Landskrá, afmörkun og skipting fasteignar kann að vera með mismunandi hætti og fasteign kann að vera skráð í þinglýsingabók en ekki Landskrá fasteigna og öfugt. Þessi tilvik verða ekki tæmandi talin, sökum þess að ekki hefur fengist nægileg reynsla af yfirfærslu þinglýsingabóka um land allt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvörpum til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, með síðari breytingum, og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994. Með frumvörpunum er stefnt að myndun samhæfðs gagna- og upplýsingakerfis um fasteignir og réttindi er tengjast þeim sem beri heitið Landskrá fasteigna. Hér er fjallað um áætluð áhrif allra frumvarpanna á útgjöld ríkissjóðs og eru umsagnir fjárlagaskrifstofu með þeim samhljóða.
    Samkvæmt frumvörpunum mun Landskrá fasteigna skiptast í stofnhluta fyrir skilgreiningar og upplýsingar um afmörkun fasteigna, mannvirkjahluta fyrir byggingafræðilegar upplýsingar, fasteignamatshluta fyrir upplýsingar um matsforsendur og niðurstöður og þinglýsingahluta fyrir upplýsingar um þinglýsta eigendur og eignarhlut þeirra ásamt upplýsingum um veðbönd, kvaðir og önnur atriði sem þinglýsingabók inniheldur.
    Samkvæmt áætlun sem unnin er af vinnuhópi, sem hefur unnið að stofnun Landskrár fasteigna, er áætlaður kostnaður við stofnun Landskrár 615 m.kr. sem skiptist á árin 2000–2004, u.þ.b. 150 m.kr. á hverju ári.

Samtals áætlaður rekstrar- og stofnkostnaður 2000–2004 M.kr.
Rekstrarkostnaður Fasteignamats ríkisins
232,0
Stofnkostnaður Fasteignamats ríkisins
176,7
Stofnkostnaður hjá sýslumannsembættum
155,6
Annað og ófyrirséð
51,0
Samtals
615,3

    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, er áformað að hækka umsýslugjald sem rennur til Fasteignamats ríkisins úr 0,025‰ (prómillum) í 0,1‰ (prómill). Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við stofnun Landskrár fasteigna. Miðað við framangreindar áætlanir og fjármögnun Landskrár fasteigna með hækkun umsýslugjalds hækka tekjur og gjöld ríkissjóðs um 150 m.kr. á ári.