Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 548 . mál.


859. Frumvarp til

laga

um Lífeyrissjóð sjómanna.

(Lagt fram á Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.


    Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður sjómanna og starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í lögum þessum og reglugerð um sjóðinn.

2. gr.


    Sjóðfélagar eru allir sjómenn sem ráðnir eru á íslensk skip, þar með taldir þeir skipverjar sem ekki eru lögskráðir en starfa að viðhaldi og viðgerð skips eða öðrum störfum í þágu útgerðar.
     Yfirmönnum á skipum ríkissjóðs sem við gildistöku laga þessara greiða iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er heimilt að vera sjóðfélagar í þeim sjóði. Um heimild þessa að öðru leyti fer skv. 4. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.
    Sjómönnum sem lögskráðir eru í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum og ráðherra hefur veitt undanþágu frá aðild að þessum sjóði, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 78/1970, er heimilt að vera utan við sjóðinn fullnægi þeir tryggingarskyldu sinni með greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs viðkomandi byggðarlags.
     Sjóðfélögum, sem hætta störfum á sjó, skal heimil áframhaldandi þátttaka ef þeir hefja störf í landi við útgerð eða hliðstæð störf, svo sem fiskvinnslustöðvar eða frystihús, enda hafi þeir greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. fimm ár og áunnið sér a.m.k. þrjú stig.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa félögum og samböndum sem standa að samningum um kaup og kjör sjómanna, er aðild eiga að sjóðnum, að tryggja starfsmenn sína í honum.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa sjómönnum, sem stunda nám í sjómannafræðum, slasast eða veikjast, að kaupa sér réttindi í sjóðnum þann tíma sem úr hefur fallið af þessum sökum. Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa íslenskum sjómönnum, sem starfa á erlendum skipum, að greiða iðgjöld til sjóðsins.

3. gr.


    Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum launþega eftir af launum hans og standa sjóðnum skil á þeim ásamt eigin iðgjaldahluta. Sé um vanskil að ræða af hálfu útgerðar skal lögskráningarstjóri ekki skrá á hlutaðeigandi skip ef krafa kemur fram um það frá sjóðnum.
     Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipi og ganga fyrir öllum öðrum veðum. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu á viðkomandi skipi án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.

4. gr.


    Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur og lífeyrisgreiðslur eru undanþegnar fjárnámi.

5. gr.


    Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi hans skal setja í reglugerð sem stjórn sjóðsins semur og staðfest er af Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og fjármálaráðherra.

6. gr.


    Lög þessi taka gildi 1. september 1994 og frá sama tíma falla úr gildi lög um Lífeyrissjóð sjómanna, nr. 49/1974, með síðari breytingum, enda hafi reglugerð um sjóðinn, sbr. 5. gr. laga þessara, verið staðfest með gildistöku frá sama tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

     Lagafrumvarp þetta er samið að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna í þeim tilgangi að fella úr gildi núgildandi lög um sjóðinn og lögfesta ný lög og síðan á grundvelli þeirra laga að setja reglugerð um starfsemi sjóðsins. Í reglugerð um sjóðinn verði síðan gerðar breytingar á ýmsum reglum er um sjóðinn gilda, m.a. til þess að bæta fjárhagsstöðu hans.
    Um nokkurn tíma hefur stjórn sjóðsins verið þeirrar skoðunar að óeðlilegt væri að sérstök lög giltu um sjóðinn, eðlilegra væri að hann starfaði á grundvelli reglugerðar eins og flestir lífeyrissjóðir gera. Undir það sjónarmið hefur verið tekið, bæði á Alþingi og í fjármálaráðuneyti. Lögum sjóðsins var síðast breytt með lögum nr. 44/1992 og í framhaldi af þeirri lagasetningu óskaði stjórn sjóðsins eftir áliti lagadeildar Alþingis á því hvort rétt væri að fella niður lög um sjóðinn og taka upp reglugerð í staðinn. Byggðist sú ósk m.a. á athugasemdum sem fram komu á Alþingi við meðferð lagafrumvarpsins um sjóðinn. Í áliti lagadeildar þingsins kom m.a. fram að þrátt fyrir að Lífeyrissjóður sjómanna hafi um margt sérstöðu, t.d. varðandi tíð sjó- og vinnuslys og ellilífeyrisréttindi frá 60 ára aldri í sérstökum tilvikum, verði ekki séð að almenn rök standi til þess að halda í lögbindingu reglna um skipulag og starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna fremur en annarra starfsstétta né að ástæða sé til þess að Alþingi fjalli um breytingar á reglum þess sjóðs fremur en flestra annarra lífeyrissjóða. Þó var bent á að í lögum um Lífeyrissjóð sjómanna væru ákvæði sem aðeins geta staðið í lögum en ekki reglugerð og er þar sérsteklega átt við ákvæði um lögveð í skipum til tryggingar innheimtu iðgjalda. Í því sambandi var bent á að heppilegast væri að flytja frumvarp til nýrra laga um Lífeyrissjóð sjómanna þar sem kveðið væri á um tilvist sjóðsins og höfð inni ákvæði sem nauðsynlegt væri að hafa lögbundin. Á grundvelli laganna yrði síðan sett reglugerð þar sem kveðið væri á um aðrar reglur sem gilda ættu um starfsemi sjóðsins.
    Í framhaldi af áliti lagadeildar Alþingis samþykkti stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna að stefna að því að felld yrðu úr gildi núgildandi lög sjóðsins en sett yrðu í staðinn stutt lög og síðan reglugerð í þeim tilgangi að auðvelda nauðsynlegar breytingar á reglum sjóðsins án atbeina Alþingis. Samhliða þessum breytingum yrðu reglur sjóðsins endurskoðaðar í heild, sérstaklega í ljósi fjárhagsstöðu hans.
    Í frumvarpi þessu til nýrra laga um Lífeyrissjóð sjómanna eru þau ákvæði sem rétt þykir að bundin séu í lögum en aðrar reglur um starfsemi sjóðsins verða síðan settar í reglugerð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Ákvæðið um hverjir skuli vera sjóðfélagar þykir rétt að hafa lögbundið, sérstaklega í ljósi þess að á þessu ákvæði byggist einnig heimild sjómanna í ákveðnum stöðum og ákveðnum landshlutum til þess að greiða í aðra lífeyrissjóði. Ákvæðið er að mestu leyti efnislega samsvarandi núgildandi 2. gr. laga sjóðsins nr. 49/1974, með síðari breytingum.
    Meginreglan samkvæmt ákvæðinu er sú að allir sjómenn, sem ráðnir eru á íslensk skip, skulu vera sjóðfélagar. Undanþága frá þessu ákvæði er tvenns konar. Annars vegar geta tilteknir yfirmenn á ríkisreknum skipum verið félagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hér er þó ekki um sjálfstæðan rétt til aðildar að þeim sjóði að ræða heldur ræðst hún af því hvort stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins veiti þeim aðild að sjóðnum, sbr. 4. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hins vegar er sjómönnum, sem lögskráðir eru í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum, heimilt að vera utan við sjóðinn enda fullnægi þeir tryggingarskyldu sinni með greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs viðkomandi byggðarlags. Þeir sjóðir sem um ræðir og flestir sjómenn í viðkomandi landshlutum greiða til eru þessir: Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður Bolungarvíkur, Lífeyrissjóður Norðurlands (áður Lífeyrissjóður stéttarfélaga í Skagafirði), Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Lífeyrissjóður Vestmannaeyinga og Lífeyrissjóður verkalýðsfélaga á Norðurlandi vestra.
    Í greininni er það nýmæli að lagt er til að stjórn sjóðsins sé heimilt að leyfa íslenskum sjómönnum, sem starfa á erlendum skipum, að greiða iðgjöld til sjóðsins. Á undanförnum árum hefur fjölgað mjög íslenskum sjómönnum sem starfa á erlendum skipum og þykir eðlilegt að þessum sjómönnum sé heimilað, ef þeir óska þess, að greiða iðgjöld til sjóðsins. Sjóðfélaginn er þá sjálfur ábyrgur fyrir iðgjaldagreiðslunni og öðlast engin réttindi berist ekki greiðslur frá viðkomandi.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. 3. gr. er fjallað um skyldur launagreiðenda til þess að standa skil á iðgjöldum launþega til sjóðsins og heimild sjóðstjórnar til þess að koma í veg fyirr lögskráningu á skip ef um vanskil af hálfu útgerðar er að ræða. Samsvarandi ákvæði hefur lengi verið í lögum sjóðsins.
    Í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. kemur fram að iðgjaldakröfur sjóðsins hvíli sem lögveð á viðkomandi skipi og gangi fyrir öllum öðrum veðum. Sams konar ákvæði er í núgildandi lögum sjóðsins. Hins vegar er nýmæli í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. þar sem sjóðnum er veitt bein uppboðsheimild. Ástæða þess að þessi breyting er lögð til er sú að með setningu laga nr. 90/1991, um nauðungasölu, voru felld úr gildi lög 49/1951, um sölu lögveða án undangengins lögtaks, en á þeim lögum byggðist réttur Lífeyrissjóðs sjómanna til þess að krefjast nauðungarsölu á skipum vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda án undangengins lögtaks. Í 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 er ákvæði sem samkvæmt greinargerð með frumvarpi til þeirra laga svarar efnislega til fyrirmæla í 1. gr. laga nr. 49/1951. Þó hefur sú breyting orðið að samkvæmt nefndum 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 má krefjast nauðungarsölu samkvæmt ákvæðum laga sem veita lögveðrétt í viðkomandi eign fyrir kröfu ríkisins, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja þeirra ef fjárhæð kröfunnar er ákveðin í lögum, reglugerð eða gjaldskrá samþykktri af ráðherra. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 er hins vegar heimild til þess að krefjast nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms ef lögin sem veita lögveðrétt í eigninni heimila slíkt. Tryggingastofnun ríkisins sá um rekstur Lífeyrissjóðs sjómanna samkvæmt lögum sjóðsins til 31. des. 1993 og gat stofnunin f.h. sjóðsins krafist nauðungarsölu á skipum á grundvelli 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna nr. 90/1991. Í ársbyrjun 1994 flutti sjóðurinn starfsemi sína frá Tryggingastofnun og því er nauðsynlegt að í lög sjóðsins verði sett bein heimild til þess að krefjast nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Engin breyting verður við þetta á réttarstöðu sjóðsins frá því sem verið hefur sl. þrjá áratugi en breytingin er nauðsynleg vegna breytinga á nauðungarsölulögum og flutningi sjóðsins frá Tryggingastofnun. Því til viðbótar má nefna að ef sjóðurinn fær ekki þessa heimild verður innheimta iðgjalda mun kostnaðarsamari, sérstaklega fyrir launagreiðendur sem greiða innheimtukostnað vegna vangreiddra iðgjalda.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Hér er ákvæði sem kveður á um að setja skuli í reglugerð nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi. Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins semji þá reglugerð en hún verði að hljóta staðfestingu fjármálaráðherra, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og að auki þeirra samtaka atvinnurekenda og launþega sem tilnefna fulltrúa í stjórn sjóðsins samkvæmt núgildandi lögum.

Um 6. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.