Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 161 . mál.


Ed.

366. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Þegar þetta er skrifað hefur hvorki verið gengið frá tekju - né gjaldaáætlun fjárlagafrumvarps. Það er á hinn bóginn ljóst að lánsfjárþörf ríkisins á næsta ári hefur verið að vaxa dag frá degi. Þegar síðast fréttist var heildarlántökuþörf ríkisins á næsta ári um 35 milljarðar kr., en nettólánsfjárþörfin verður sem næst 22 milljörðum kr. Það nálgast 6% af landsframleiðslu, borið saman við 5,2% á þessu ári. Lánsfjárþörf A - hluta ríkissjóðs er komin yfir 14 milljarða kr. Ætlunin er að afla þessa fjár á innlendum lánsfjármarkaði. Það er byggt á þeirri forsendu að eftirspurn atvinnulífsins eftir lánsfé verði áfram lítil, en á þessu ári hafa stofnlánasjóðir í vaxandi mæli lánað til skuldbreytinga eða fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja. Gengið er út frá því að ný fjárfesting í fyrirtækjum, sem beinist að vöruþróun og framleiðslu, vaxi ekki, en hún er talin undir þeim mörkum sem hún þarf að vera til þess að okkur takist að auka hagvöxt og bæta lífskjör til samræmis við það sem gerist í löndum OECD. Hér á landi hefur fjárfesting í atvinnulífi dottið niður í 18 19% af landsframleiðslu en er u.þ.b. 20 22% í löndum OECD. Fyrir því hafa verið færð rök að til þess að halda uppi hagvexti þurfi fjárfesting í atvinnulífinu að vera meiri eða a.m.k. jafnmikil hér á landi og í nálægum löndum vegna strjálbýlis og samsetningar atvinnulífsins. Raunvextir hafa hækkað verulega á þessu ári og eru nú mun hærri en í löndum OECD og fyrirsjáanlegt að þeir muni enn halda áfram að hækka. Þessi þróun er í ósamræmi við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf þegar aðilar vinnumarkaðarins náðu því samkomulagi 1. febrúar sl. sem kennt hefur verið við þjóðarsátt. Eins og nú er komið er ljóst að lausatök á ríkisbúskapnum stefna þjóðarsáttinni í verulega hættu þegar kemur fram á næsta ár. Til viðbótar við fyrirsjáanlegar vaxtahækkanir liggur nú þegar fyrir að ýmis þjónustugjöld munu hækka verulega umfram það sem þjóðarsáttin gerir ráð fyrir.
    Frumvarp til lánsfjárlaga ber með sér að engin heildarstjórn er á fjármálum ríkisins. Frumvarpið er í raun á vinnslustigi. Upplýsingar og breytingartillögur hafa verið að berast fram á síðustu stund, en í öðrum tilvikum er bókstafurinn látinn standa þótt fyrir því séu ekki efnisleg rök.
    Lánsfjárlög eru veigamikill þáttur í efnahagsstefnu ríkisstjórna. Eins og frá frumvarpinu er gengið hljóta stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar að bera einir ábyrgð á afgreiðslu þess á Alþingi.

Alþingi, 19. des. 1990.



Halldór Blöndal,


frsm.

Ey. Kon. Jónsson.