Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


113. löggjafarþing 1990.
Þskj. 174  —  161. mál.




Frumvarp til lánsfjárlaga



fyrir árið 1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



I. KAFLI
1. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán innan lands að fjárhæð allt að 11.875.000 þús. kr.

2. gr.

    Lánsfé skv. 1. gr. skal ráðstafað í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1991 og þessara laga.

3. gr.

    Landsvirkjun er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 3.000.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri eða innlendri mynt til fjármögnunar á raforkuframkvæmdum fyrirtækisins. Gætt skal ákvæða 14. gr. laga nr. 42/1983 við þessar lántökur og teljast lán, sem Landsvirkjun er heimilt að taka samkvæmt þeirri grein án samþykkis eignaraðila, hluti af ofangreindri fjárhæð.

4. gr.

    Heimilt er að taka lán vegna skuldbreytinga sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra sem hér segir:
     1.      Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 50.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
     2.      Hitaveita Egilsstaða og Fella, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 10.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
     3.      Hitaveita Eyra, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 17.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
     4.      Bæjarveitur Vestmannaeyja, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 28.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
     5.      Aðrar skuldbreytingar, lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 50.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

5. gr.

    Hríseyjarhreppi er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 23.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til að búa ferjuna Sæfara farþegarými.

6. gr.

    Herjólfi hf., Vestmannaeyjum, er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 500.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til smíði á nýrri ferju.

7. gr.

    Byggðastofnun er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 900.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

8. gr.

    Iðnþróunarsjóði er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 400.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Milliganga Iðnþróunarsjóðs um erlend lán fyrir aðila út á auglýsingu viðskiptaráðuneytis, nú nr. 314/1990, eða aðrar heimildir veittar einstökum fyrirtækjum, skal rúmast innan þessarar heimildar.

9. gr.

    Iðnlánasjóði er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 950.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Milliganga Iðnlánasjóðs um erlend lán fyrir aðila út á auglýsingu viðskiptaráðuneytis, nú nr. 314/Í990, eða aðrar heimildir veittar einstökum fyrirtækjum, skal rúmast innan þessarar heimildar.

10. gr.

    Útflutningslánasjóði er heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 50.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

11. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð eða taka lán að hluta eða öllu leyti í stað ríkisábyrgðar og endurlána þeim aðilum sem nefndir eru í 3.–10. gr. með þeim kjörum og skilmálum sem fjármálaráðherra ákveður.
    Þeir aðilar, sem nefndir eru í 3.–10. gr., svo og allir aðrir sem njóta ábyrgðar ríkissjóðs á erlendum skuldbindingum sínum og taka erlend lán út á heimildir laga þessara eða annarra laga, skulu gæta ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990.

12. gr.

    Lánasjóðum, sem njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum, öðrum en þeim sem tilgreindir eru í 8. og 9. gr., er óheimilt að hafa milligöngu um töku erlendra lána fyrir innlenda aðila á grundvelli auglýsingar viðskiptaráðuneytisins, nú nr. 314/1990, um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar, eða annarra heimilda veittum einstaka fyrirtækjum, nema að fengnu samþykki fjármálaráðuneytis. Ákvæði 2. mgr. 11. gr. gilda jafnframt um tilvik samkvæmt þessari grein.

II. KAFLI
13. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1982, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, skal framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins eigi nema hærri fjárhæð en 53.680 þús. kr. á árinu 1991 og er framlagið vegna Lífeyrissjóðs bænda.

14. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og 21. gr. laga nr. 16/1965, um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, skal endurgreiðsla ríkissjóðs til sjóðanna vegna hækkunar á áður úrskurðuðum lífeyri eigi nema hærri fjárhæð en 700.000 þús. kr. á árinu 1991 og skiptast á milli sjóðanna í hlutfalli við óskertar endurgreiðslukröfur.

15. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 5. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, sbr. lög nr. 57/1980, skal framlag ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs falla niður á árinu 1991.

16. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 69/1984, hafnalaga, skal framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs eigi fara fram úr 50.000 þús. kr. á árinu 1991.

17. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 3. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs falla niður á árinu 1991.

18. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. 9. gr. laga nr. 76/1987, sbr. og 31. gr. sömu laga, um Iðnlánasjóð, skal framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs falla niður á árinu 1991.

19. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum eigi nema hærri fjárhæð en 68.000 þús. kr. á árinu 1991.

20. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1984, um kvikmyndamál, skal framlag ríkissjóðs til Kvikmyndasjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 81.000 þús. kr. á árinu 1991.

21. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 50/1957, um Menningarsjóð, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi fara fram úr 10.500 þús. kr. á árinu 1991.

22. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 32/1979, um framlög ríkissjóðs til greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, falla þær greiðslur niður á árinu 1991.

23. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1991 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.

24. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, skal framlag ríkissjóðs vegna bóta fyrir eyðingu refa og minka eigi vera hærra en 19.640 þús. kr. á árinu 1991.

25. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, og 7. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, er landbúnaðarráðherra heimilt að innheimta gjald af sláturleyfum til greiðslu kostnaðar sem af yfirmati samkvæmt lögunum leiðir.

26. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. gr. laga nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi vera hærra en 12.000 þús. kr.

27. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1964, skipulagslaga, sbr. lög nr. 42/1974, skal mótframlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1991.

28. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, skal framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs aldraðra eigi vera hærra en 240.000 þús. kr. á árinu 1991.

29. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði IX. kafla laga nr. 41/1983, um Framkvæmdasjóð fatlaðra, skal framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs fatlaðra eigi vera hærra en 225.000 þús. kr. á árinu 1991.

30. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 46. gr. laga nr. 88/1989, þjóðminjalaga, skal framlag ríkissjóðs í Húsafriðunarsjóð eigi nema hærri fjárhæð en 10.500 þús. kr. á árinu 1991.

31. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., skal hlutdeild sókna, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs í óskiptum tekjuskatti lækka um 5% á árinu 1991.

32. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. laga nr. 21/1963, um kirkjugarða, skal hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti lækka um 15% á árinu 1991.

33. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 49/1978, lyfjalaga, með síðari breytingum, skal framlag ríkissjóðs til lyfsölusjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 880 þús. kr. á árinu 1991.

34. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 83/1989, um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, skal á árinu 1991 heimilt að ráðstafa 335.000 þús. kr. af sérstökum eignarskatti samkvæmt lögunum til framkvæmda við eftirtalin mannvirki: Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn Íslands og Bessastaði.

III. KAFLI
35. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að samþykkja skulda- eða vaxtaskipti lána sem tryggð eru með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs, enda séu að mati fjármálaráðherra nægar tryggingar fyrir ábyrgð ríkissjóðs þegar til slíkra samninga er stofnað.

36. gr.

    Aðilum, sem njóta ríkisábyrgðar á erlendum skuldbindingum sínum, er heimilt:
     a.      Að taka lán erlendis í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar erlendra lána þegar hagstæðari kjör bjóðast.
     b.      Að stofna til skulda- eða vaxtaskipta þar sem mótaðili í slíkum viðskiptum tekur á sig gjaldeyriskvaðir eða vaxtaskilmála í lánum sem aðili, sem nýtur ríkisábyrgðar, tekur eða hefur tekið með heimild í þessum eða öðrum lögum. Slíkur aðili tekur á sig samsvarandi gjaldeyriskvaðir eða vaxtaskilmála mótaðilans í hverjum slíkum skulda- eða vaxtaskiptum.
     c.      Séu lántökuheimildir laga þessara að hluta til nýttar til töku skammtímalána eða veltilána er aðila, sem nýtur ríkisábyrgðar, heimilt að nýta sömu heimildir til töku á nýju láni til endurgreiðslu veltiláns eða skammtímaláns að hluta eða öllu leyti án þess að lánssamningur um þau falli úr gildi, enda sé ekki dregið á slíka lánssamninga að nýju nema lagaheimild liggi fyrir.
     d.      Að nýta möguleika sem bjóðast á markaði til þess að tryggja sig gegn verulegum vaxtabreytingum.
    Hyggist aðilar, sem njóta ríkisábyrgðar á erlendum skuldbindingum sínum, nýta sér heimildir þessarar greinar skulu þeir gæta ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990.

37. gr.

    Lántökuheimildir skv. I. kafla gilda á árinu 1991. Heimildir samkvæmt lögum þessum verða þó nýttar til 1. júlí 1992 standi sérstaklega á og samþykki fjármálaráðherra komi til.

38. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Árið 1991 eru heildarlántökur opinberra aðila og sjóða áætlaðar 39,2 milljarðar króna. Þessar lántökur skiptast þannig að 32,6 milljarðar króna yrðu fjármagnaðir á innlendum lánamarkaði en 6,6 milljarðar króna erlendis. Hrein lánsfjárþörf, þ.e. þegar frá eru dregnar afborganir eldri lána, er talin verða um 21,1 milljarður króna. Þar af er stefnt að 20,4 milljarða króna hreinni lántöku á innlendum markaði, en aðeins 0,7 milljörðum króna erlendis. Hreinar lántökur þessara aðila yrðu þar með ívið lægri en stefnt er að á þessu ári.
    Miðað við áætlun um innlendan sparnað, sem fjallað verður um hér á eftir, má telja líklegt að þessi áform geti gengið eftir án röskunar á innlendum lánamarkaði. Óvissa ríkir þó um eftirspurn eftir lánsfé frá fyrirtækjum, en hún hefur verið með minnsta móti á yfirstandandi ári. Fyrirliggjandi áætlanir um fjárfestingu á næsta ári benda heldur ekki til mikillar lánsfjáreftirspurnar frá fyrirtækjum. Á hinn bóginn má reikna með að gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins rýrni nokkuð á næsta ári. Lakari gjaldeyrisstaða mun að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á lausafjárstöðu innlánsstofnana á næsta ári.

Innlendur lánamarkaður.
    Af reikningum bankakerfisins má ráða að betra jafnvægi hafi verið á peningamarkaðnum að undanförnu en mörg undangengin ár. Árið 1989 dró verulega úr aukningu útlána og var hún því í betra samræmi við aukningu innlána og annars ráðstöfunarfjár bankakerfisins en áður. Hins vegar var meiri þensla í starfsemi annarra lánastofnana, svo sem fjárfestingarlánasjóða og lífeyrissjóða.
     Útlán. Á árinu 1990 hefur innlendur lánamarkaður haldið áfram að þróast í átt til aukins jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar eftir lánsfé. Þannig jukust útlán lánastofnana í heild um 43 milljarða króna frá síðustu áramótum til júníloka, eða um 9%. Meira en 90% af þessari útlánaaukningu var fjármögnuð með innlendum sparnaði, en hann hefur aukist um 39 milljarða króna, eða um 13%. Hreint erlent lánsfé, þ.e. nýjar lántökur að frádregnum afborgunum af eldri lánum, jókst á sama tíma um 3,5 milljarða króna. Útlán hafa því vaxið hægar en peningalegur sparnaður það sem af er þessu ári. Til samanburðar má nefna að lánskjaravísitalan hefur hækkað um 4,8% á þessu sama tímabili.
    Upp undir helmingur aukinna útlána á fyrri hluta ársins 1990 fór til heimila, en lán til þeirra hafa vaxið um 18,7 milljarða króna frá síðustu áramótum, eða um 13,5%. Raunar hafa skuldir heimilanna verið vaxandi allan þennan áratug. Tæplega þriðjungur, eða 13,3 milljarðar króna, fór síðan til atvinnufyrirtækja, en það sem eftir stendur, um það bil fjórðungur, fór til ríkisins.
    Mjög hefur dregið úr eftirspurn atvinnufyrirtækja eftir lánsfé á þessu ári. Ástæður þess eru margvíslegar. Útflutningsvörubirgðir eru með minnsta móti og fjárfesting er lítil á þessu ári og hugsanlega fjármögnuð í meira mæli en áður af eigin aflafé. Lítil eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfé á þessu ári hefur vafalítið dregið úr spennu á lánamarkaði. Í meðfylgjandi töflu er gefið yfirlit um þróun helstu stærða í lánakerfinu og sýndar bráðabirgðatölur um stöðuna á miðju ári 1990.

Innlendur lánamarkaður 1988–1990.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Innlendur sparnaður. Í árslok 1989 var stofn peningalegs sparnaðar á lánamarkaðnum kominn yfir 300 milljarða króna. Þar af var svokallaður kerfisbundinn sparnaður um 165 milljarðar króna, en það eru fyrst og fremst eignir lífeyrissjóðanna. Frjáls sparnaður, sem er einkum bankainnlán, ríkisskuldabréf og markaðsverðbréf, nam um 138 milljörðum króna.
    Samkvæmt áætlun Seðlabanka er talið að innlendur sparnaður aukist um 35 milljarða króna á þessu ári og 38 milljarða króna á því næsta. Þessi spá byggist á forsendum þjóðhagsáætlunar um raunstærðir og verðlag en sjálfstæðum áætlunum um ýmsa þætti sparnaðar, svo sem lífeyrissparnað. Nýr sparnaður héldist samkvæmt þessu sem svipað hlutfall af landsframleiðslu og á þessu ári, eða um 10 1/ 2%, samanborið við 7% árið 1989.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





















    Undanfarin ár hefur innlendur sparnaður stöðugt farið vaxandi eins og fram kemur á meðfylgjandi línuriti. Í árslok 1989 var heildarsparnaður kominn í 94% af landsframleiðslu. Í lok þessa árs er áætlað að sparnaður verði orðinn meiri en nemur landsframleiðslu ársins, eða 104%, og í lok næsta árs verður sparnaðarhlutfallið 113% samkvæmt spánni. Til samanburðar má nefna að í árslok 1980 var hlutfallið 47%. Helstu skýringar á auknum sparnaði eru mikil umskipti á lánamarkaði í kjölfar aukins frjálsræðis á honum og uppbygging lífeyrissjóðanna.
    Árið 1990 er gert ráð fyrir talsverðri aukningu á kerfisbundnum sparnaði þrátt fyrir að landsframleiðsla verði óbreytt. Skýringin er tvíþætt. Annars vegar kemur til framkvæmda á þessu ári síðasti áfanginn í breikkun á iðgjaldastofni lífeyrissjóðanna. Hins vegar mun eignamyndun síðustu ára skila sér í auknum vaxtatekjum hjá lífeyrissjóðum. Flestir þættir frjáls sparnaðar hafa einnig vaxið hratt á þessu ári og er áætlað að hann vaxi um 17 milljarða króna í heild. Mestur er vöxturinn í útgáfu hlutdeildarbréfa verðbréfasjóðanna og bankabréfa. Einnig hafa hefðbundin innlán aukist töluvert og er spáð um 16% aukningu innlána frá upphafi til loka árs 1990.
    Árið 1991 er aftur á móti reiknað með að kerfisbundinn sparnaður dragist saman og verði um 15 milljarðar króna, eða 3 milljörðum króna lægri en 1990. Hins vegar er reiknað með að frjáls sparnaður haldi áfram að vaxa. Meðal annars er gert ráð fyrir um 15% aukningu innlána á næsta ári. Er þá miðað við að vextir heildarinnlána verði um 2% að raungildi.

Áætlun um peningalegan sparnað 1990 og 1991.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     Þróun vaxta. Grunnvextir verðtryggðra lána hafa haldist nánast óbreyttir frá fyrra ári. Grunnvextir ríkisskuldabréfa hafa almennt verið á bilinu 6–7% en vextir á verðtryggðum bankalánum verið á bilinu 7 1/ 4–9 1/ 2%, allt eftir mati á lánstrausti lánþega. Í tengslum við söluátak á spariskírteinum á miðju ári bauð ríkissjóður ávöxtun á spariskírteinum sem var á bilinu 6,85–7,05% til stærri kaupenda. Slíkum sértilboðum hefur nú verið hætt og spariskírteini eru í boði með 6–6,2% vöxtum. Raunvextir verðtryggðra skuldbindinga, miðað við framfærsluvísitölu, hafa á þessu ári verið nokkru lægri en á því síðasta enda minni munur á hækkunum lánskjaravísitölu og framfærsluvísitölu á þessu ári en á árinu 1989. Raunvextir óverðtryggðra útlána hafa á þessu ári verið hærri en í fyrra en þá voru þeir með lægsta móti.
     Lántökur opinberra aðila. Í lánsfjáráætlun fyrir árið 1990 voru heildarlántökur ríkissjóðs, fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs, sveitarfélaga og opinberra lánastofnana áætlaðar 31,3 milljarðar króna. Af þeirri fjárhæð var ráðgert að taka 10,4 milljarða króna að láni erlendis og 20,9 milljarða króna á innlendum lánamarkaði. Að teknu tilliti til afborgana var hrein innlend lánsfjáröflun áætluð 12 milljarðar króna, eða 3,8% af landsframleiðslu.
    Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er talið að heildarlántökur verði allnokkru hærri, eða 36,7 milljarðar króna. Þar af eru innlendar lántökur taldar geta orðið allt að 28,4 milljörðum króna, eða 7,5 milljörðum króna umfram upphaflega áætlun. Þar skiptir mestu að útgáfa húsbréfa er talin verða um 5 milljarðar króna á þessu ári, en ekki hafði verið áætlað sérstaklega hversu mikil sú útgáfa yrði. Einnig virðast lántökur atvinnuvegasjóða verða meiri en áætlað hafði verið. Hrein lánsfjáröflun þessara aðila á innlendum markaði gæti því numið 17,3 milljörðum króna.
    Innlend fjáröflun ríkissjóðs hefur gengið vel á þessu ári. Áformað var að selja spariskírteini fyrir 6,6 milljarða króna og er útlit fyrir að það gangi fram. Þegar hafa verið seld spariskírteini fyrir röska 5 milljarða króna og gengið frá samningum um það sem á vantar. Mikil sala hefur verið í ríkisvíxlum og hefur ríkissjóður að stærstum hluta fjármagnað þörf sína fyrir árstíðabundið lánsfé með sölu þeirra. Þá var ákveðið að fjármagna 2 milljarða króna skuld ríkissjóðs við Seðlabanka vegna greiðsluhalla ársins 1989 með innlendu lánsfé í stað erlendrar lántöku eins og áformað hafði verið.
    Hér er því um verulega breytingu að ræða frá fyrri árum þegar árstíðabundin þörf ríkissjóðs var að mestu fjármögnuð með fyrirgreiðslu Seðlabankans. Í ársbyrjun 1990 námu útistandandi ríkisvíxlar 5,9 milljörðum króna en hafa lengst af á þessu ári numið um 11–13 milljörðum króna. Reiknað er með að fjárþörf ríkissjóðs dragist nokkuð saman þegar líður að áramótum og að útistandandi ríkisvíxlar í árslok verði um 9,6 milljarðar króna.
    Í eftirfarandi töflu eru sýndar áætlaðar lántökur og afborganir opinberra aðila og sjóða. Rétt er að taka fram að innlendum lánum sveitarfélaga er sleppt og að því leyti er yfirlitið ekki tæmandi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Lánsfjárþörf opinberra aðila og sjóða 1990–1991.



     Erlend lán. Horfur eru á að erlendar lántökur þjóðarbúsins til lengri tíma en eins árs verði um 20,4 milljarðar króna á árinu 1990. Það er um 2,5 milljörðum króna minna en gert var ráð fyrir í áætlun lánsfjárlaga, sem skýrist fyrst og fremst af minni lántöku ríkissjóðs en áformað var. Með lánsfjárlögum og fjárlögum var ríkissjóði heimiluð 2,4 milljarða króna erlend lántaka. Líkur eru á að ríkissjóður taki engin erlend lán í ár ef frá eru taldar 900 m.kr. lántökur sveitarfélaga og fyrirtækja og sjóða í B-hluta sem fara um Endurlán ríkissjóðs. Samdráttur í fjárfestingu atvinnuvega og bætt staða viðskiptabanka hefur auðveldað ríkissjóði að mæta lánsfjárþörf sinni innan lands og dregið úr erlendum endurlánum lánastofnana.
    Afborganir af erlendum lánum eru taldar verða um 11 milljarðar króna og hreint innstreymi langra lána nemur því um 9,4 milljörðum króna, en það er um 2,8% af landsframleiðslu árið 1990.
    Árið 1991 eru erlendar lántökur þjóðarbúsins áætlaðar 17,1 milljarður króna og lækka um 16% frá fyrra ári. Aftur á móti aukast afborganir um 37% og nema 15,1 milljarði króna. Hreint innstreymi langra lána verður því um 2 milljarðar króna, eða 0,5% af landsframleiðslu á árinu 1991. Eftirfarandi yfirlit sýnir áætlaðar lántökur á árinu 1991 með samanburði við lánsfjárlög 1990 og nýja spá um innkomin lán á árinu 1990:

Erlendar lántökur 1990 og 1991.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Greiðslujöfnuður. Á árinu 1989 var viðskiptajöfnuður við útlönd óhagstæður um 4,6 milljarða króna, eða 1,6% af landsframleiðslu. Samkvæmt þjóðhagsáætlun eru horfur á að hallinn á árinu 1990 verði 6,7 milljarðar króna, eða 2% af landsframleiðslu, en minnki í 5,7 milljarða króna eða 1,6% af landsframleiðslu á árinu 1991. Minni viðskiptahalli stafar að nokkru leyti af samdrætti í innflutningi sérstakra fjárfestingarvara, einkum flugvéla.
    Sem fyrr segir eru horfur á að hreint innstreymi langra erlendra lána verði um 9,4 milljarðar króna á árinu 1990. Á móti kemur 0,7 milljarða króna útstreymi á öðrum fjármagnsliðum þannig að fjármagnsjöfnuður verður jákvæður um 8,7 milljarða króna árið Í990. Heildargreiðslujöfnuður, þ.e. fjármagnsjöfnuður að frádregnum viðskiptahalla, gæti því orðið jákvæður um 2 milljarða króna á árinu 1990. Gjaldeyrisstaða Seðlabankans batnar um sömu fjárhæð og verður samkvæmt þessari áætlun um 21 milljarður króna í árslok 1990, reiknað á áætluðu meðalgengi 1990.
    Á árinu 1991 er gert ráð fyrir að hreint innstreymi langra erlendra lána verði aðeins um 3,2 milljarðar króna og vantar þá um 3,9 milljarða króna til að fjármagna viðskiptahalla ársins. Hér er gert ráð fyrir að erlendar skammtímaskuldir aukist um 2,9 milljarða króna og fjármagnsjöfnuður verði jákvæður um 4,9 milljarða króna. Samkvæmt því mun gjaldeyrisstaðan rýrna um 1 milljarð króna árið 1991.
    Raunaukning erlendra lána er talin verða um 1% á árinu 1990. Á sama tíma er landsframleiðslan áætluð óbreytt frá fyrra ári. Hlutfall langra erlendra lána hækkar því líklega úr 51,3% af landsframleiðslu árið 1989 í 51,6% á árinu 1990. Miðað við spá um 2,6% raunlækkun erlendra skulda og 1,5% hagvöxt lækkar skuldahlutfallið hins vegar í 48% af landsframleiðslu árið 1991.

Skuldastaða þjóðarbúsins og greiðslubyrði erlendra lána 1980–1991.

% af landsframleiðslu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hrein skuldastaða gagnvart útlöndum, þ.e. löng erlend lán og skammtímaskuldir að frádreginni gjaldeyriseign þjóðarinnar, gefur að mörgu leyti raunhæfari mynd af skuldbindingum þjóðarbúsins erlendis en löngu lánin. Eins og fram kemur í meðfylgjandi línuriti var skuldastaðan innan við 30% af landsframleiðslu í upphafi áratugarins. Hlutfallið hækkaði verulega á erfiðleikaárunum 1982–1984 og náði hámarki árið 1985, í tæplega 53%, Í uppsveiflunni fram til 1987 fór hlutfallið lækkandi. Frá árinu 1988 hefur hlutfallið aftur farið upp á við, meðal annars vegna samdráttar í landsframleiðslu og lækkunar á raungengi auk þess sem erlend lán jukust að raungildi. Þannig var hrein skuldastaða árið 1989 48,4% af landsframleiðslu. Hlutfallið lækkar lítillega á þessu ári í 48% og á næsta ári er áætlað að það fari niður í 46%.
    Greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum hefur breyst í hátt við skuldastöðuna á undanförnum árum. Hæst fór greiðslubyrðin árið 1985, í 10% af landsframleiðslu en fór síðan lækkandi vegna aukins útflutnings og vaxtalækkunar á erlendum lánamörkuðum. Þannig voru meðalvextir erlendra lána um 10% á árunum 1983 og 1984 en lækkuðu í 7,8% 1987 og 1988. Greiðslubyrðin hækkaði aftur árið 1989 upp í 7 1/ 2% af landsframleiðslu og hlutfallið er áætlað svipað á þessu ári. Á næsta ári er gert ráð fyrir frekari hækkun greiðslubyrðinnar vegna mikilla afborgana eins og áður kom fram. Jafnframt hafa meðalvextir erlendra lána hækkað upp á síðkastið. Á árinu 1989 voru þeir komnir í 8,9% og eru áætlaðir 8,6% 1990 og 8,7% á árinu 1991.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Heildarfjárþörf ríkissjóðs á árinu 1991 er áætluð 11,9 milljarðar króna. Er það svipuð fjárhæð og innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs er talin verða á árinu 1990. Peningalegur sparnaður innan lands hefur á undanförnum árum aukist jafnt og þétt. Á árinu 1990 hefur innlendur sparnaður aukist umfram ný útlán lánastofnana og horfur eru á að hann vaxi enn á næsta ári, Það er því fyllsta ástæða til að ætla að lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu 1991 megi brúa með innlendu fé. Þar kemur einnig til að nálægt þriðjungur lánsfjárþarfar ríkissjóðs er ætlaður til að mæta innlausn spariskírteina, en slík innlausn örvar jafnan sölu nýrra spariskírteina.
    Af lánsfé ríkissjóðs er ráðgert að veitt verði lán til B-hluta fyrirtækja og sjóða að fjárhæð 3.680 m.kr. Lánþegar eru þessir: Lánasjóður íslenskra námsmanna, 3.000 m.kr., til að mæta fjárþörf sjóðsins á árinu 1991; Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina, 550 m.kr., til að brúa áætlaðan greiðsluhalla sjóðsins á árinu 1991; Hafnabótasjóður, 240 m.kr., til að fjármagna hluta ríkisins vegna framkvæmda við hafnarmannvirki í Sandgerði og Alþjóðaflugþjónustan, 115 m.kr., til að fjármagna framkvæmdir við fyrsta áfanga nýs fluggagnakerfis hér á landi.

Um 2. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar á árinu 1991 nemi um 3,4 milljörðum króna, þar af eru um 2,5 milljarðar vegna Blönduvirkjunar og 0,9 milljarðar til annarra framkvæmda, svo sem til háspennulína. Af áætluðum virkjanakostnaði við Blöndu nema vextir á framkvæmdatíma um 0,4 milljörðum króna. Miðað er við að fyrsta vél Blönduvirkjunar verði gangsett haustið 1991.
    Ráðgert er að fjármagna framkvæmdir Landsvirkjunar með 3 milljarða króna lántöku, erlendri og innlendri, í ljósi aðstæðna á innlendum lánamarkaði. Það sem eftir stendur, 0,4 milljarðar króna, verður fjármagnað með fé úr rekstri fyrirtækisins.
    Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir greiðslu afborgana að fjárhæð 1,9 milljarðar króna, þar af eru 1,3 milljarðar af erlendum lánum. Vaxtagreiðslur eru áætlaðar 2,9 milljarðar króna á árinu 1991, þar af fara 2,4 milljarðar til útlanda.
    Í þessu frumvarpi er ekki áætlað fyrir fjármögnun vegna virkjanaframkvæmda í tengslum við stóriðju þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun í því máli.

Um 4. gr.


    Á undanförnum árum hafa lántökur sveitarfélaga nær eingöngu verið tengdar fjármögnun framkvæmda og skuldbreytingum hjá hitaveitum. Endurgreiðslutími fjárfestingarlána hitaveitna hefur verið mun skemmri en nemur afskriftartíma mannvirkjanna. Margar hitaveitur hafa af þeirri ástæðu lent í miklum erfiðleikum bæði vegna þungrar greiðslubyrði af áhvílandi skuldum og byrjunarörðugleika í rekstri. Ríkissjóður hefur á síðustu árum létt byrði margra þessara veitna með því að yfirtaka hluta af skuldum þeirra og skuldbreyta öðrum lánum til lengri tíma með það að markmiði að tryggja rekstrargrundvöll þeirra til frambúðar.
     Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar. Veitunni er heimiluð 50 m.kr. lántaka á árinu 1991 til að skuldbreyta yfirdráttarláni og standa straum af kostnaði við breytingar á sölukerfi veitunnar. Afborganir af eldri lánum eru áætlaðar 45 m.kr. á árinu 1991.
     Hitaveita Egilsstaða og Fella. Veitunni er heimiluð 10 m.kr. lántaka á árinu 1991 til að standa straum af greiðslu afborgana af eldri lánum sem eru áætlaðar 24 m.kr. á árinu 1991.
     Hitaveita Eyra. Veitunni er heimiluð 17 m.kr. lántaka á árinu 1991 til að standa straum af greiðslum af áhvílandi skuldum. Afborganir af eldri lánum eru áætlaðar 20 m.kr. á árinu 1991.
    Bæjarveitur Vestmannaeyja. Veitunni er heimiluð 28 m.kr. lántaka á árinu 1991 til að standa skil á afborgunum af eldri lánum, en þær eru áætlaðar 48 m.kr. á næsta ári.
     Annað. Áætlaðar eru á safnlið alls 50 m.kr. vegna lántöku ýmissa sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra. Ætla má að einhverjar lántökubeiðnir berist frá þeim á síðari stigum fyrir afgreiðslu lánsfjárlaga.

Um 5. gr.


    Til að auka notagildi Hríseyjarferjunnar Sæfara var hún búin 80 manna farþegasal. Samið var við Slippstöðina hf. á Akureyri að annast verkið og Byggðastofnun fjármagnaði framkvæmdina til bráðabirgða. Ákvæði þessarar greinar heimilar Hríseyjarhreppi 23 m.kr. lántöku á árinu 1991 til að endurgreiða Byggðastofnun umrætt lán.

Um 6. gr.


    Hinn 20. júlí sl. voru opnuð tilboð í smíði nýrrar ferju fyrir Herjólf hf. í Vestmannaeyjum. Frestur til töku tilboðs var 20. október 1990 en hefur verið framlengdur til 1. nóvember.
    Verði smíði skipsins ákveðin er stefnt að afhendingu þess á árinu 1992. Áætlaður kostnaður vegna smíðinnar er um 1.200 m.kr. á núverandi verðlagi auk kostnaðar vegna eftirlits með smíði þess.
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1990 er heimild til lántöku allt að 500 m.kr. Ef af smíði skipsins verður mun sú fjárhæð ganga að mestu til kaupa á stáli og vinnu við upphaf smíðanna. Á árinu 1991 þyrfti að koma til lántökuheimild að fjárhæð 500 m.kr. og 200 m.kr. á árinu 1992. Greiðsluáætlun vegna smíðinnar verður ljósari þegar samningsdrög liggja fyrir.

Um 7. gr.


    Í frumvarpi til lánsfjárlaga 1991 er gert ráð fyrir að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar á árinu 1991 samtals 1,5 milljarða króna að óbreyttri sjóðstöðu. Eigið ráðstöfunarfé stofnunar er áætlað 250 m.kr. Framlag ríkissjóðs samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 1991 er 250 m.kr. Auk þess er gert ráð fyrir að stofnunin afli lánsfjár innan lands að fjárhæð 100 m.kr. og erlendis að fjárhæð 900 m.kr.
    Til samanburðar má geta þess að í lánsfjárlögum 1990 er heimild til Byggðastofnunar fyrir erlendri lántöku að fjárhæð 900 m.kr. Að auki hafði stofnunin heimild til 100 m.kr. innlendrar lántöku.

Um 8., 9. og 12. gr.


    Í lögum um opinbera fjárfestingarlánasjóði, að Fiskveiðasjóði undanskildum, eru ákvæði um að ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar þeirra. Heimilda til lántöku þessara sjóða hefur verið aflað í lánsfjárlögum hverju sinni. Á grundvelli auglýsingar viðskiptaráðuneytis um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar, hafa sjóðir eins og Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður og Framkvæmdasjóður haft milligöngu í umtalsverðum mæli um útvegun erlends lánsfjár fyrir atvinnufyrirtæki. Vegna ákvæða laga um þessa sjóði og um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum þeirra hafa fyrirtæki í raun fengið lán með ríkisábyrgð án þess að ráð hafi verið fyrir því gert í lánsfjárlögum eða í auglýsingu viðskiptaráðuneytisins. Eins og í lánsfjárlögum fyrir árið 1990 er nú kveðið á um að lánasjóðum, sem njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum, sé óheimilt að hafa milligöngu um töku erlendra lána fyrir innlenda aðila á grundvelli áðurnefndrar auglýsingar viðskiptaráðuneytisins, nema að fengnu samþykki fjármálaráðuneytis.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Iðnþróunarsjóði verði heimiluð 400 m.kr. erlend lántaka á árinu 1991 og Iðnlánasjóði 950 m.kr. erlend lántaka. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um það að milliganga sjóðanna um erlend lán fyrir atvinnufyrirtæki á grundvelli auglýsingar viðskiptaráðuneytis, nr. 314/1990, eða aðrar heimildir veittar einstaka fyrirtækjum, rúmist innan þessara heimilda. Sjóðirnir hafa því ekki heimild til að skuldbinda ríkissjóð frekar með erlendri lántöku á árinu 1991. Þá er í lánsfjáráætlun 1991 heimild fyrir 100 m.kr. innlenda lántöku Iðnþróunarsjóðs og 400 m.kr. innlenda lántöku Iðnlánasjóðs. Í lánsfjárlögum 1990 hefur Iðnþróunarsjóður heimild til 750 m.kr. erlendrar lántöku og Íðnlánasjóður hefur þar 950 m.kr. heimild. Sjóðirnir munu að öllum líkindum ekki nota þessar heimildir að fullu.

Um 10. gr.


    Gert er ráð fyrir að Útflutningslánasjóður fái heimild til erlendrar lántöku að fjárhæð 50 m.kr. sem er sama fjárhæð og veitt var í lánsfjárlögum 1990.

Um 11. gr.


    Á allra síðustu árum hafa innlendar stofnanir með ríkisábyrgð í vaxandi mæli leitað á erlenda lánamarkaði í stað þess að taka erlend lán fyrir milligöngu Framkvæmdasjóðs Íslands, ríkissjóðs eða annarra. Allar þessar stofnanir taka lán í skjóli ríkisábyrgðar og eru kynntar þannig á alþjóðlegum markaði. Þar til í ár hefur hins vegar í mjög takmörkuðum mæli verið fylgst með lántökustarfsemi þeirra enda þótt miklir hagsmunir séu í húfi fyrir ríkissjóð og mikilvægt sé að samræmi sé milli lánskjara sem þær njóta og skilmála þeirra sem stofnanir með ríkisábyrgðir og ríkissjóður sjálfur njóta á alþjóðlegum lánamörkuðum. Í lánsfjárlögum fyrir árið 1990 var þeim aðilum, sem m.a. eru nú tilgreindir í 3.–10. gr., sem og öllum öðrum sem njóta ríkisábyrgðar á erlendum skuldbindingum sínum, gert skylt að kynna áform sín fyrir og leita eftir samþykki Seðlabanka Íslands í umboði fjármálaráðuneytisins á þeim kjörum og skilmálum sem í boði væru hverju sinni. Þessu ákvæði hefur verið framfylgt. Með lögum nr. 43 frá 16. maí 1990 var Lánasýslu ríkisins komið á fót og í 2. mgr. 7. gr. laganna um hana er stofnunum með ríkisábyrgð á erlendum skuldbindingum sínum, sem hyggjast taka lán erlendis, gert skylt að kynna áform sín fyrir henni og leita eftir fyrir fram samþykki á þeim kjörum og skilmálum sem þeir hyggjast semja um.

Um 13.–34. gr.


    Í samræmi við markaða stefnu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1991 um skerðingu lögboðinna framlaga er með þessu frumvarpi mælt fyrir breytingum ákvæða viðkomandi laga. Hér er um að ræða skerðingu á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila sem bundin eru í sérlögum.
    Lög um málefni fatlaðra eru nú í endurskoðun, þar með ákvæði um Framkvæmdasjóð fatlaðra, hlutverk og verkefni í uppbyggingu aðstöðu fyrir fatlaða. Þá mun heilbrigðisráðherra væntanlega leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breyting á lögum um málefni aldraðra, m.a. þess efnis að fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra megi ráðstafa til reksturs og almenns viðhalds auk stofnframkvæmda. Verði breyting gerð á hlutverki þessara sjóða gætu ákvæði 28. gr. og 29. gr. þessa frumvarps fallið niður í meðförum Alþingis.
    Í undirbúningi er frumvarp um breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, þar sem ríkissjóði er heimilað að halda eftir tilteknum hluta af sóknargjöldum fyrir eðlilegum kostnaði við innheimtu gjaldsins. Verði umrætt frumvarp að lögum er rétt að ákvæði 3l. gr. endurskoðist eða falli niður í meðförum Alþingis.
    Dóms- og kirkjumálaráðherra mun á næstunni leggja fram frumvarp til laga um kirkjugarða. Í lögum um kirkjugarða, nr. 21/1963, eru ákvæði um tekjur kirkjugarða, bæði hlut. deild í óskiptum tekjuskatti, sbr. lög nr. 89/1987, og tekjur er reiknast af aðstöðugjöldum. Verði frumvarpið að lögum gæti ákvæði 32. gr. þessa frumvarps fallið niður í meðförum Alþingis.

Um 35. gr.


    Í þessari grein felst heimild fyrir ríkissjóð til að samþykkja skulda- og vaxtaskipti lána með sjálfskuldarábyrgð ríkisins, en ríkissjóður hefur sjálfur heimild til slíkra viðskipta skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 43/1990.

Um 36. gr.


    Þessi grein heimilar þeim sem njóta ríkisábyrgðar á erlendum skuldbindingum sínum að endurfjármagna erlend lán sín þegar hagstæðari kjör bjóðast, að stofna til vaxta- eða skuldaskipta, að nýta sér möguleika sem skammtímalánsform bjóða upp á og að nýta sér möguleika sem markaðir bjóða upp á til þess að tryggja sig gegn verulegum vaxtabreytingum. Í síðasta liðnum felst m.a. heimild til þess að semja um hámark eða lágmark á breytilegum vöxtum. Hyggist stofnanir með ríkisábyrgð nýta sér heimildir þessarar greinar skulu þær gæta ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990.

Um 37. og 38. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


Heildaryfirlit yfir innlendar og erlendar lántökur 1991.
(M.kr.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




















Fylgiskjal II.

Greiðslujöfnuður við útlönd 1989–1991.
(Meðalgengi hvers árs, m.kr.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal III.

    Staða þjóðarbúsins út á við 1981–1991.
    (Meðalgengi hvers árs, m.kr.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal IV.

Greíðslubyrði erlendra lána 1981–1991.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(Meðalgengi hvers árs, m.kr.)























Fylgiskjal V.

Greiðsluáætlun fjárfestingarlánasjóða 1991.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal VI.

Löng erlend lán 1982–1991, flokkuð eftir lánnotendum1).
(Meðalgengi hvers árs, m.kr.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.