Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 222 . mál.


Nd.

274. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðist svo:
    Bifreiðagjald skal vera sem hér segir:
a.    Af bifreiðum, sem eru að eigin þyngd allt að 2.500 kg, skal greiða 5,20 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiða, þó aldrei lægra gjald en 2.400 kr. vegna hverrar bifreiðar á hverju gjaldtímabili, sbr. 1. mgr. 3. gr.
b.    Af bifreiðum, sem eru að eigin þyngd 2.500 kg eða þyngri, skal greiða 13.000 kr. á hverju gjaldtímabili vegna hverrar bifreiðar, sbr. 1. mgr. 3. gr.

2. gr.


    Lokamálsliður 5. gr. laganna orðist svo:
    Grunngjöld bifreiðagjalds og lágmarksgjalds eru miðuð við vísitölu 1. nóv. 1989, þ.e. 155,5 stig.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í þessu frumvarpi felst sú breyting að gert er ráð fyrir sérstakri hækkun á bifreiðagjaldi, umfram almenna verðuppfærslu samkvæmt heimild í gildandi lögum. Bifreiðagjaldið er lagt á og innheimt samkvæmt lögum nr. 39/1988.
    Samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 39/1988 er heimilt að hækka bifreiðagjald í réttu hlutfalli við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Full nýting á þessari heimild mundi hækka núgildandi bifreiðagjald úr 2,83 kr. í um 3,13 kr. frá og með næstu áramótum.
    Áætlað er að heildartekjur af bifreiðagjaldi verði um 1.290 m.kr. á árinu 1990. Þar af er áætlað að sérstök hækkun á bifreiðagjaldi þýði um 550 m.kr. viðbótartekjur fyrir ríkissjóð.
    Á næsta ári er gert ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs af bifreiðasköttum, þ.e. bensíngjaldi, þungaskatti og bifreiðagjaldi, verði um 5,5 milljarðar króna. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir sérstakri hækkun almenna bifreiðagjaldsins, en á móti þeirri hækkun vegur að þungaskattur og bensíngjald hækka minna en heimilt er lögum samkvæmt. Tekjur af þungaskatti fyrir árið 1990 eru áætlaðar um 1.200 m.kr., eða tæplega 100 m.kr. meiri en á þessu ári. Bensíngjald er talið munu skila rúmum 3 milljörðum króna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt þessari grein er bifreiðagjald hækkað sérstaklega umfram verðbreytingu, sbr. það sem kemur fram í almennum athugasemdum við þetta frumvarp.

Um 2. og 3. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.