Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 193 . mál.


Nd.

226. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 8/1988, um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    1. gr. laga nr. 8/1988 orðast svo:
    Í Reykjavíkurlæknishéraði skal frestur þessi standa til ársloka 1989.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í Reykjavíkurlæknishéraði og í heilsugæsluumdæmi Garðabæjar er enn starfað eftir eldri lögum um heilsuvernd. Á síðasta vori tókust samningar við bæjaryfirvöld í Garðabæ um rekstur heilsugæslu í umdæmi Garðabæjar frá og með næstu áramótum og hefur þegar verið gengið frá formsatriðum og læknar skipaðir. Eftir stendur því aðeins að ganga frá skipulagi þessara mála í Reykjavíkurlæknishéraði.
    Í apríl sl. komu ráðuneytið og borgarstjórn Reykjavíkur sér saman um að hefja viðræður um lausn málsins. Í lok síðasta mánaðar var lagt fyrir ráðuneytið uppkast að samkomulagi sem fulltrúar ráðuneytisins og meiri hluti fulltrúa Reykjavíkurborgar, sem þátt tóku í viðræðunum, stóðu að. Ekki hefur enn unnist tími til þess að ganga frá málinu og er ljóst að svo verður ekki fyrir áramótin næstu, en þá rennur fresturinn út.
    Með vísun til ofanritaðs og ekki síður þess að fyrirhugaðar eru verulegar breytingar á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, vegna fyrirhugaðra breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sér ráðuneytið ekki ástæðu til annars en að leggja enn til að frestur til að koma á kerfi heilsugæslu í Reykjavík verði framlengdur í eitt ár frá og með næstu áramótum. Fljótlega eftir þinghlé verður lagt fram á vegum ráðuneytisins frumvarp til breyttra laga um heilbrigðisþjónustu í samræmi við það sem áður segir og verður þá jafnhliða tekið á heilsugæslumálum í Reykjavíkurlæknishéraði, en lausn málsins ákvarðast af því hvernig fer um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.



Prentað upp.